Morgunblaðið - 08.10.2003, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 08.10.2003, Blaðsíða 10
FRÉTTIR 10 MIÐVIKUDAGUR 8. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ HALLDÓR Ásgrímsson utanríkis- ráðherra sagði á Alþingi í gær að það lægi fyrir að framlög Íslendinga til þróunarmála yrðu aukin á næstu árum. Það væri þó ekki búið að taka ákvörðun um hversu mikið þau yrðu aukin. „Hversu mikið og hvernig skiptingin verður milli framlaga til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, til marghliða þróunarsamvinnu og til friðargæslu get ég ekki fullyrt á þessu stigi,“ sagði hann, en tilefni þessara orða var utandagskrárum- ræða um Ísland og þróunarlöndin. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þing- maður Samfylkingarinnar, var málshefjandi umræðunnar. Ráð- herra tók fram að hann myndi í næstu viku fara til Úganda og Mós- ambík, en þar mun hann m.a. kynna sér starfsemi Þróunarsamvinnu- stofnunar í þessum ríkjum. Í umræðunni í gær var m.a. fjallað um nýja skýrslu um Ísland og þróunarlöndin, en í skýrslunni, sem er eftir þá Jónas H. Haralz og Hermann Örn Ingólfsson, eru m.a. settar fram tillögur um aukningu á aðstoð Íslendinga við þróunarlönd- in. Ráðherra sagði að skýrslan hefði verið gerð að sínu frumkvæði. „Ég hef ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvaða tillögur við munum setja fram á grundvelli skýrslunnar,“ út- skýrði hann og bætti því við að það yrði þó gert á næstunni. Hann tók og fram að skv. nýjustu útreikn- ingum benti allt til þess að framlög Íslendinga til þróunarmála yrðu 0,17% af landsframleiðslu á þessu ári. Hreyfst með hraða snigilsins Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði m.a. í framsöguræðu sinni að þrír áratugir væru liðnir frá því aðild- arríki Sameinuðu þjóðanna (SÞ) samþykktu að iðnríkin skyldu veita sem næmi 0,7% af landsframleiðslu til opinnberrar þróunaraðstoðar. „Á þessu ári munu framlög Íslands til þróunarsamvinnu nema 0,16% af landsframleiðslu og hafa þau því þokast í rétta átt, frá árinu 1999, þegar þau námu einungis 0,09% af þjóðarframleiðslu,“ sagði Þórunn. Hún sagði að hækkun framlaga Ís- lendinga til þessa málaflokks hefðu „hreyfst með hraða snigilsins á liðn- um árum og áratugum,“ eins og hún orðaði það. „Og enn eigum við langt í land með að ná markmiðum þeim sem við undirgengumst sem aðild- arríki Sameinuðu þjóðanna.“ Hún bætti því við að hin pólitíska ábyrgð á slakri frammistöðu Íslands í þess- um efnum bæru í raun allir stjórn- málaflokkar, sem setið hefðu í rík- isstjórn sl. 30 ár. „En nú er meira um vert að horfa fram á veginn og ræða hvernig löggjafinn vill að þess- um málum verði skipað til fram- tíðar. Samfylkingin vill að aukning framlaga til þróunarsamvinnu við fátæk ríki haldist í hendur við póli- tísk markmið Íslands á alþjóðlegum vettvangi og utanríkisstefnu okkar í heild sinni. Með hækkandi framlög- um aukast umsvif stofnana á borð við Þróunarsamvinnustofnun Ís- lands og mun fleiri tækifæri gefast til þess að taka þátt í marghliða að- stoð eins og hún er kölluð, t.d. í samvinnu við frjáls félagasamtök bæði innlend og erlend.“ Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra í umræðum á Alþingi um þróunarmál Framlög til þróunarmála verða aukin á næstu árum Morgunblaðið/Ásdís Þórunn Sveinbjarnardóttir gagnrýndi framlög Íslands til þróunaraðstoðar og sagði þau í engu samræmi við stefnu Sameinuðu þjóðanna. ÞINGMENN stjórnarandstöðu- flokkanna gagnrýndu harðlega á Alþingi í gær lagafrumvarp ríkis- stjórnarinnar um að fast árgjald og kílómetragjald þungaskatts og vörugjöld af eldsneyti hækki um 8% í samræmi við forsendur fyrir tekjuáætlun fjárlagafrumvarps næsta árs. Geir H. Haarde fjár- málaráðherra mælti fyrir frumvarp- inu í gær. Áætlað er að hækkun á gjaldskrá þungaskattsins auki tekjur ríkissjóðs um 400 milljónir á ársgrundvelli og að hækkun á vöru- gjöldum á bensíni auki tekjurnar um 600 milljónir. Þingmenn í stjórnarandstöðu sögðu m.a. að frumvarpið fæli í sér auknar álögur á landsmenn. Frum- varpið gengi þvert gegn loforðum ríkisstjórnarflokkanna, frá því í vor, um skattalækkanir. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að samþykkti meiri- hluti þingsins frumvarpið yrði það hrein svik við kjósendur. Geir benti á hinn bóginn á í umræðunum að ekki hefði verið hreyft við umrædd- um gjöldum, nema til lækkunar, frá árinu 1999. Á sama tíma hefði al- mennt verðlag hækkað um 18%. Gagnrýna hækkun gjalda ÞINGFLOKKUR Frjálslynda flokksins hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um sér- stakan skattaafslátt vegna barna. Er með tillögunni lagt til að Alþingi álykti að tekinn verði upp sérstakur ótekjutengdur skattaafsláttur handa foreldrum eða forráðamönnum barna. „Afslátturinn nemi tiltekinni upphæð fyrir hvert barn til 16 ára aldurs,“ segir í tillögunni. Er þar ennfremur lagt til að fjármálaráð- herra verði falið að skoða nánari út- færslu afsláttarins og hvort rétt sé að hann fari stighækkandi eftir fjölda barna. Viðbót við barnabætur Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að augljós þjóðfélagsleg rök séu fyrir því að auka stuðning við barna- fjölskyldur. Er þar einnig tekið fram að skattaafslátturinn sé hugsaður sem viðbót við reglur um greiðslur barnabóta. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Sigurlín Margrét Sig- urðardóttir, varaþingmaður Frjáls- lynda flokksins. Frjálslyndi flokkurinn Barnafjöl- skyldur fái sérstakan skattaafslátt GEIR H. Haarde fjármálaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til fjár- aukalaga fyrir árið 2003. Er í frum- varpinu farið fram á að fjárheimildir ársins verði auknar um 8 milljarða kr. Á móti er í frumvarpinu áætlað að tekjur aukist um 3 milljarða. „Áætlað er að tekjuafgangur á rík- issjóði verði um 6,2 milljarðar á þessu ári og hreinn lánsfjárjöfnuður verði 17,6 milljarðar. Er það nokkru minna en áætlað var í fjárlögum en samt vel viðunandi niðurstaða í ljósi þróunar efnahagsmála það sem af er ári og að ríkisstjórnin greip til ráð- stafana í atvinnu- og byggðamálum fyrr á árinu.“ Ráðherra sagði að breytingarnar fælu m.a. í sér að rík- issjóður greiddi niður skuldir sem næmu 9 milljörðum í stað þess að greiða niður skuldir um 11 milljarða. Hallarekstur sjúkrahúsa Fjármálaráðherra sagði að af þeim samtals 8 milljarða kr. út- gjaldaheimildum, sem óskað væri eftir í frumvarpinu, væru m.a. 2,3 milljarðar ætlaðir til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, 1,5 milljarðar til félagsmálaráðu- neytisins, 1,3 milljarðar til fjár- málaráðuneytisins, einn milljarður til menntamálaráðuneytisins og einn milljarður til umhverfisráðuneyt- isins. „Frávik frá fjárheimildum heilbrigðis- og tryggingamálaráðu- neytis skýrast að stærstum hluta af hallarekstri sjúkrahúsa og heilsu- gæslustöðva, en áformað er að verja um 1,3 milljörðum til að minnka þann halla.“ Þá sagði ráðherra m.a. að 430 milljónum yrði varið til að mæta útgjöldum sjúkratrygginga. Um frávik félagsmálaráðu- neytisins frá fjárheimildum sagði ráðherra: „Útgjöld félagsmálaráðu- neytisins umfram áætlun fjárlaga skýrast af 1,1 milljarðs kr. út- gjöldum til avinnuleysisbóta og 300 milljónum kr. til Ábyrgðarsjóðs launa.“ Ennfremur sagði ráðherra m.a. að útgjöld menntamálaráðu- neytisins umfram fjárlög ættu að stærstum hluta rætur sínar að rekja til aukinna útgjalda háskóla og framhaldsskóla m.a. vegna fjölgunar nemenda. Auknar arðgreiðslur Ráðherra gerði einnig grein fyrir ástæðum þess að í tekjuhlið frum- varpsins væri gert ráð fyrir 3 millj- arða kr. auknum tekjum frá því sem áður var áætlað. Sagði hann m.a. að áætlað væri að ákveðnar rekstr- artekjur ríkissjóðs myndu aukast um rúmlega 2,2 milljarða „að stærst- um hluta vegna aukinna arð- greiðslna ríkisfyrirtækja og endur- skoðunar á vaxtatekjum ríkissjóðs í ljósi niðurstöðu ríkisreiknings.“ Geir H. Haarde fjármálaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til fjáraukalaga Fjárheimildir verða auknar um 8 milljarða Morgunblaðið/Ásdís Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Tekjur aukist um 3 milljarða LAGT hefur verið fram á Alþingi lagafrumvarp þar sem lagt er til að lögfestar verði sérstakar reglur „til verndar trúnaðarsambandi fjöl- miðlamanna og heimildarmanna þeirra“, eins og það er orðað. Bryn- dís Hlöðversdóttir, þingmaður Sam- fylkingarinnar, er fyrsti flutnings- maður frumvarpsins, en meðflutningsmenn eru fimm aðrir þingmenn flokksins. Frumvarpið gengur m.a. út á að nýjum málsgreinum verði bætt við lög um meðferð opinberra mála. Er lagt til að ein þeirra hljóði svona: „Starfsmönnum fjölmiðla er ekki skylt að bera vitni um hver sé heim- ildarmaður eða höfundur að riti, grein, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höf- undur óskað nafnleyndar. Þetta á þó ekki við ef vitnisburðar er krafist vegna afbrots sem ætla má að muni varða þyngri refsingu en fjögurra ára fangelsi eða vegna brots á þagn- arskyldu í opinberu starfi, enda sé vitnisburður nauðsynlegur fyrir rannsókn máls og hagsmunir af því að upplýsa mál vegi ótvírætt þyngra en hagsmunir almennings af því að fá umræddar upplýsingar í hendur.“ Í greinargerð frumvarpsins segir m.a. að markmið reglna um heimild- arvernd, sé að tryggja möguleika fjölmiðla til upplýsinga- og fréttaöfl- unar um hvert það efni sem varðar hagsmuni almennings. „Frjálsir og óháðir fjölmiðlar mynda eina af meg- instoðum hvers lýðræðisríkis og reglur um heimildarvernd eru eitt veigamesta skilyrðið fyrir fullnægj- andi starfsrækslu þeirra.“ Samhliða umræddu frumvarpi hafa sömu þingmenn Samfylkingar- innar lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um bótarétt höfunda og heimildarmanna. Er þar lagt til að fyrsta og eina grein laganna hljóði svona: „Starfsmaður ríkis eða sveit- arfélags sem rýfur þagnarskyldu með því að greina frá upplýsingum sem varða ríka hagsmuni og telja verður að eigi erindi til almennings á rétt til bóta úr hendi vinnuveitanda fyrir tjón sem hann verður fyrir vegna uppsagnar, missis réttinda eða annarra aðgerða af hálfu vinnu- veitanda enda þyki sýnt að aðgerðir vinnuveitanda séu viðbrögð við rofi á þagnarskyldu. Sama á við um starfs- menn annarra fyrirtækja, félaga eða stofnana, hvernig sem eignarhaldi þeirra er háttað.“ Í greinargerð seg- ir að tilgangur frumvarpsins sé að tryggja bótagrundvöll jafnvel þótt sýnt hafi verið fram á að upplýsinga- gjöfin feli í sér brot á þagnarskyldu. Frumvarp lagt fram um vernd heimildarmanna ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.