Morgunblaðið - 13.10.2003, Qupperneq 4
FRÉTTIR
4 MÁNUDAGUR 13. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Skógarhlíð 18, sími 595 1000
www.heimsferdir.is
Fegursta borg Evrópu og eftirlæti Íslendinga sem fara nú þangað í
þúsundatali á hverju ári með Heimsferðum. Í október er yndislegt veður
í Prag enda vinsælasti tími ferða-
manna til að heimsækja borgina.
Fararstjórar Heimsferða gjörþekkja
borgina og kynna þér sögu hennar og
heillandi menningu. Góð hótel í
hjarta Prag, frábærir veitinga- og
skemmtistaðir.
Munið Mastercard
ferðaávísunina
Verð kr. 39.950
Flug og hótel í 4 nætur, helgarferð
23. okt. M.v. 2 í herbergi á Corinthia
Towers 5 stjörnu hótel. Flugvallaskattar
innifaldir.
Sértilboð á glæsilegu
5 stjörnu hóteli,
Hotel Corinthia Towers *****
Verð kr. 29.950
Flugsæti til Prag, 23. okt.
Helgarferð til
Prag
23. okt.
frá kr. 29.950
ÞORSKSTOFNAR við strendur
Kanada hafa hrunið síðasta ára-
tuginn í kjölfar breyttra aðstæðna í
umhverfinu og ofveiða og er ekkert
veitt úr þessum stofnum í dag.
Veiðibannið hefur leitt til þess að
40.000 manns hafa misst atvinnuna
og þrátt fyrir friðun þorsksins und-
anfarin ár virðast stofnarnir í erf-
iðleikum með að rétta úr kútnum.
Þetta kom m.a. fram í erindi Jean
Boulva, forstjóra hafrannsókna-
stofnunarinnar í Mont-Joli í Queb-
ec í Kanada, í hringborðsumræð-
um sem haldnar voru í tengslum
við heimsókn landstjóra Kanada og
forseta Íslands á Hafrannsókna-
stofnun.
Vísindamenn, stjórnmálamenn
og fiskimenn leita nú leiða til að
bregðast við þeim vanda sem fylgir
hruni þorskstofna í Kanada og
sagði Jean Boulva í samtali við
Morgunblaðið að til þess að gera
fiskistofnana arðbæra væri ekki
eingöngu hægt að horfa til fisk-
veiðanna sjálfra heldur yrði að líta
á vistkerfið í heild sinni.
„Við þurfum t.d. að huga að því
að valda minni skemmdum á hafs-
botninum þegar við stundum veið-
arnar. Það þýðir að breyta þarf
veiðitækninni smám saman og fisk-
veiðarnar verða að ná að aðlagast
breyttum áherslum, m.a. með því
að hanna nýjan búnað til veiðanna.
Við getum ekki haldið áfram að
skemma hafsbotninn sem er und-
irstaða í fæðumyndun fiskistofna.“
Hætta þarf ef stofnar fara
niður að ákveðnu marki
Að sögn Boulva er á sama tíma
verið að vinna að því að setja upp
varúðarráðstafanir til að vernda þá
fiskistofna sem nú eru í hafinu og
segir hann mikilvægt að unnið sé
að því að ákvarða smám saman fyr-
ir hvern fiskistofn hvenær hann
kemst niður að því marki að hætta
þurfi veiðum sjálfkrafa.
„Pólitísk ákvarðanataka ætti
ekki að koma þar að, þetta ætti
nánast að gerast sjálfkrafa. Í for-
tíðinni hafa stjórnmálamenn jafn-
an gefið leyfi til að veiða meira en
æskilegt var talið til þess að fólk
héldi áfram störfum við veiðar og
vinnslu á fiski en við viljum að
hægt og rólega verði sett upp kerfi
sem miðar að sjálfvirkri stöðvun
fiskveiða ef stofninn fer niður í
ákveðið mark. Þetta er sú hug-
myndafræði sem við erum að
reyna að innleiða en við verðum að
uppfræða sjómenn og fá þá til að
vinna með okkur. Slíkar ráðstafan-
ir kalla á erfiðari tíð eins og nú þeg-
ar við verðum að hætta veiðum á
mikilvægum þorskstofnum en sjó-
menn vita að þetta snertir þeirra
framtíð og ef stofnarnir hverfa
verður fiskveiðum sjálfhætt,“ segir
Boulva.
Vöðuselir éta ríflega 7 millj-
ónir tonna af fiski árlega
Þá segir Boulva að ofan á þessar
breytingar í umhverfi sjávarins
bætis við afar stór stofn vöðusela,
sem éta meira en 7 milljónir tonna
af fiskmeti við Kanada á ári hverju.
„En kanadískir fiskimenn veiða ár-
lega um 1,3 milljónir tonna þegar
vel árar. Það þýðir að selirnir éta
fimmfalt meira en fiskimennirnir
veiða og þetta er bara ein tegund
sela. Síðan eru þarna hvalir eins og
hrefnur, steypireyðar og langreyð-
ar sem setja mikinn aukaþrýsting
á afrakstursgetu fiskstofna.“
Boulva segir að rekja megi hrun
fiskistofnanna til ýmissa þátta,
m.a. umhverfisþátta, en það sé al-
menn skoðun meðal sérfræðinga
að ofveiðar hafi þar haft afgerandi
áhrif. Hann segir að ofveiði hafi
verið mikil á árunum frá 1950 fram
á miðjan sjöunda áratuginn, en eft-
ir að landhelgin var færð út árið
1977 hafi stofnarnir byrjað að rétta
úr sér í kjölfar fiskveiðistjórnunar
og markvissra aðgerða til að draga
úr ofveiði, en óvíst sé hversu mikil
áhrif umhverfisþættir höfðu á upp-
gang stofnanna. Við lok níunda
áratugarins var hins vegar orðið
ljóst að stofnarnir stóðu ýmist í
stað eða minnkuðu á ný og fljótlega
eftir 1990 kom í ljós að stofnarnir
höfðu hrunið niður. Þrátt fyrir ít-
arlegar rannsóknir hefur engin ein
ástæða fundist fyrir þessu hruni,
þó svo að margir sérfræðingar telji
að ofveiðar hafi skipt þar höfuð-
máli, að sögn Boulva.
Árið 1994 voru veiðar bannaðar
á átta kanadískum þorskstofnum
sem orsakaði það að 40.000 manns
misstu vinnuna. Hins vegar voru
margir bjartsýnir á að friðun
myndi draga úr hruni stofnanna og
að þeir myndu vaxa á ný. Þegar
leið að lokum tíunda áratugarins
kom þó í ljós að stofnarnir voru
ekki að vaxa, en engu að síður var
vaxandi þrýstingur frá fiskveiði-
bæjum um að hefja þorskveiðar á
ný. Það leiddi til þess leyfðar voru
takmarkaðar veiðar úr mörgum
þessara stofna.
Veiðar á skelfiski skapa 70%
af verðmæti landaðs afla
Að sögn Boulva eru fiskveiðarn-
ar þó enn arðbærar því fiskimenn
hafa talsverðar tekjur af veiðum á
öðrum tegundum. „Þorskurinn át
mikið af snjókrabba og rækju og
þegar minna er af þorski vaxa
þessir stofnar. Nú hefur orðið
sprenging í rækjuveiðum og mun
meira veiðist af snjókrabba, sem er
mjög verðmætur á japanska mark-
aðnum. Í dag kemur 70% af verð-
mæti þess afla sem landað er frá
veiðum á rækju, snjókrabba og
humri, þannig að þetta eru mjög
mikilvægar veiðar.“
En þótt margir fiskimenn geri
það gott á veiðum á þessum teg-
undum hefur ástandið verið mjög
erfitt hjá sjómönnum í norðurhluta
Nýfundnalands og við strendur
Labrador, sem búa á stöðum sem
eru einangraðir og umhverfið
harðbýlt og hafa þeir þúsundum
saman þurft að flytja sig á milli
staða eða snúa sér að öðrum at-
vinnugreinum. „Þannig hefur fiski-
mönnum fækkað en það gefur
möguleika á að gera veiðarnar fag-
legri og fjölbreyttari. Menn geta
þá einbeitt sér að veiðum á þeim
stofnum og tegundum eingöngu
sem gefa góðan arð. Það þýðir auð-
vitað að menn þurfa að fjárfesta í
meiri búnaði til þess að geta t.d.
veitt til skiptis þorsk og krabba, en
til lengri tíma litið gefur það betri
möguleika á arðbærum veiðum.
Þetta eru m.a. hugmyndir sem við
erum að huga að til framtíðar, auk
þess sem rannsóknir á umhverfinu
og samspili umhverfisþátta skipta
þar miklu máli,“ segir Boulva.
Forstjóri hafrannsóknastofnunarinnar í Kanada segir brýnt að leita nýrra leiða við stjórn fiskveiða
Þorskurinn
enn í lægð eft-
ir mikið hrun
Morgunblaðið/Sverrir
Jóhann Sigurjónsson og Jean Boulva ræddu um nýtingu þorskstofna og
vísindalega stjórn fiskveiða við Ísland og Kanada.
JÓHANN Sigurjónsson, forstjóri Hafrann-
sóknastofnunar, segir mikilvægt fyrir ís-
lenska vísindamenn að efla tengslin við
rannsóknaraðila í Kanada, þar hafi menn
mikla sérfræðiþekkingu og hafi stundað
afar umfangsmiklar rannsóknir á þorsk-
stofnum. „Síðan hafa þeir gengið í gegn-
um mjög alvarlega þróun þar sem fisk-
stofnarnir hafa hrunið og eru ennþá í
algerri lægð. Menn tengja þetta miklum
umhverfisbreytingum en auðvitað er öll-
um ljóst að það var líka veitt alltof mikið,
það var of þung sókn, og þetta saman virð-
ist hafa virkað í þá veru að stofnarnir
hrundu og eiga greinilega gríðarlega erf-
itt uppdráttar, sem er ennþá alvarlegra,“
segir Jóhann.
Hann segir að Íslendingar eigi við svip-
aðan vanda að glíma að ýmsu leyti, m.a. sé
umhverfið hér að breytast til og frá og
jafnframt sé ljóst að líklega hafi Íslend-
ingar sótt í fiskistofnana hér við land með
of miklum þunga.
„Við eigum auðvitað að horfa til Kan-
ada og þeirra reynslu, því þetta er auðvit-
að grafalvarlegt mál og við þurfum að
gera allt sem í okkar valdi stendur til að
forðast að lenda í sömu aðstæðum, því það
yrði mikil skelfing. Margt hefur þó verið
til eftirbreytni hér á landi og ánægjulegt
að starfsbræður okkar í vestri líti til
reynslu og þekkingar okkar í þessum efn-
um,“ segir Jóhann.
Varðandi það hvort Íslendingar eigi við
svipaðan vanda að etja og fiskiát sela og
hvala sé í Kanada, segir Jóhann að stofnar
sela hér við land séu ekki í líkingu við
vöðuseli í Kanada en engu að síður þurfi
að taka tillit til þess hve mikið af fiski
sjávarspendýr éti hér við land.
„Við erum auðvitað ekki að glíma við
jafnstóra selastofna en við horfum til
hvalastofnanna, sem jafnvel nokkrir eru í
vexti, og teljum mikilvægt að við gerum
okkur grein fyrir því hversu mikil áhrif
þeir hafa á afrakstursgetu fiskstofnanna.
Það hefur verið áætlað að vöxtur hvala-
stofna úr kannski 80–90% af upprunalegri
stofnstærð í 100%, gæti minnkað afrakst-
ursgetu þorskstofnsins um 10–20%. Þetta
eru auðvitað langt frá því að vera ná-
kvæmar niðurstöður, en byggjast þó á
reiknilíkönum þar sem allir þessir þættir
eru vegnir saman. Það er ljóst að ef þessir
stóru hvalastofnar stækka mikið þá munu
þeir hafa umtalsverð áhrif, það er ekki
hægt að horfa fram hjá því,“ segir Jóhann.
Getum lært
mikið af reynslu
Kanadamanna
ARI Edwald, framkvæmdastjóri
Samtaka atvinnulífsins (SA), segir
vera fulla samstöða um það á ís-
lenskum vinnumarkaði að það eigi
ekki að líða nein undanbrögð frá því
að kjarasamningar séu virtir.
Greint var frá því í Morgun-
blaðinu í gær að meira en helmingur
norskra fyrirtækja í verkstæðis- og
byggingariðnaði hefði fengið tilboð
um ódýrt erlent vinnuafl og sagði
framkvæmdastjóri Starfsgreina-
sambandsins að ýmis verktakafyr-
irtæki fylgdust vel með þróun mála
við Kárahnjúka og þá með það í
huga að nýta sér „ódýrt“ erlent
vinnuafl ef hægt yrði að komast upp
með það.
„Þau réttindi sem kjarasamning-
ar skapa og aðrar reglur svo sem um
lágmarkslaun, vinnutíma og annað
eiga við um alla sem hérna starfa,
hvaða sem þeir koma,“ segir Ari Ed-
wald. „Það er að sjálfsögðu lögbrot
ef undan því er vikist hér eins og að
ég hygg í Noregi líka. Ég geri fast-
lega ráð fyrir að þau dæmi sem
menn nefna frá Noregi séu lögbrot
þar eins og þau myndu vera hér. Það
er hagsmunamál fyrirtækjanna að
það sé gengið eftir því að það fari
allir að sömu reglum.“
Sveinn Hannesson, framkvæmda-
stjóri Samtaka iðnaðarins, segir inn-
lend verktakafyrirtæki mega og
geta flutt inn vinnuafl frá Evrópska
efnahagssvæðinu. „En þau eru
bundin af íslenskum kjarasamning-
um og þeir sem hingað koma erlend-
is frá eru undir sömu reglur settir.
Við erum á því að gerðir samningar
eigi að gilda og viljum ekki gefa
nokkurn afslátt af því,“ segir hann.
Sveinn segir það hluta af verk-
samningi við útboð að fara skuli eftir
íslenskum kjarasamningum. „Hvað
Kárahnjúka varðar er það partur af
verksamningi, að sá sem fær verkið
á annaðhvort að vera aðili að Sam-
tökum atvinnulífsins eða með samn-
ing við SA, sem er annar viðsemj-
andinn. Það er þeirra og
verkalýðsfélaganna að sjá um að
farið sé eftir samningum sem gert
hefur verið með samráðsnefnd. Ég
lít svo á að sú skylda liggi á samn-
ingsaðilum báðum megin að fylgja
því eftir að farið sé eftir samningum
sem þeir hafa gert.“
Sveinn segir aðspurður hvort
starfsmenn þurfi að leita til dóm-
stóla ef kaup og kjör reynist ekki
samkvæmt kjarasamningum sem
hér hafa verið gerðir: „Það er ekki
fyrr en upp kemur ágreiningur milli
[samningsaðila] um hvort sé farið
eftir [samningnum] og hvernig eigi
að túlka hann, þá fyrst gæti málið
farið fyrir dómstóla.“
Kristján Bragason, fráfarandi
framkvæmdastjóri Starfsgreina-
sambandsins (SGS), segir verktaka-
fyrirtæki fylgjast með framvindunni
við Kárahnjúka.
Verktakafyrirtækin
horfa í kringum sig
„Þeir horfa á það sem þarna er að
gerast og spyrja sem svo, ef
Impregilo kemst upp með þetta
framferði, hvers vegna ekki íslensk
fyrirtæki líka? Þeir horfa á þetta út
frá sínum eigin hagsmunum og
þessar aðstæður við Kárahnjúka eru
tvímælalaust fordæmisgefandi. Við
höfum heyrt þetta utan að okkur í
spjalli við forsvarsmenn fyrirtækja.
Ég vil ekki benda á einstök fyrir-
tæki en verktakafyrirtæki á Íslandi
horfa að sjálfsögðu í kringum sig.
Sum þeirra eru með starfsemi er-
lendis og hafa séð það sama gerast
þar. Þetta er bara hluti af alþjóð-
legri þróun sem við búum við. Ef
verkalýðshreyfingin og stjórnvöld
sporna ekki gegn henni, mun hún
brjóta niður það lagaumhverfi sem
við búum við í dag,“ segir Kristján
Bragason.
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Full samstaða um að
samningar séu virtir