Morgunblaðið - 17.10.2003, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 17.10.2003, Blaðsíða 4
4 | FÓLKIÐ | FÖSTUDAGUR 17|10|2003 MORGUNBLAÐIÐ Það sem vekur mestan óhug í Kill Bill, nýrri mynd Tarantinos, er ekki eitt af manndrápunum, sem fylla marga tugi, heldur atriði með eineygða launmorðingjanum Elle Driver, sem leikin er af Daryl Hannah. Þá gengur hún eftir spítalagangi dulbúin sem hjúkrunarkona. Ekkert skelfilegt við það. Raunar gerist ekkert í atriðinu. Ekkert í andlitinu heldur; svipurinn er frosinn. En augnaráðið er dæmalaust djöfullegt, einhvern veginn eins og blandist svipur morðingja og fórnarlambs. Og út- koman er dauðinn holdi klæddur. Daryl Hannah stelur senunni, en kemur annars lítið fyrir í myndinni, sem frumsýnd var í gær- kvöldi, en hún verður í burðarhlutverki í síðari myndinni í febrúar. Launmorðinginn Elle Driver var viðtalsefnið þegar blaðamaður tók hana tali, – og íslenski hesturinn. Geturðu sagt mér frá persónunni sem þú leikur? „Hún heitir Elle Driver og er illmennskan uppmáluð; ekkert sem manni líkar við hana, annað en að hún er dálítið svöl. Þess utan er hún boðberi válegra tíðinda.“ Mér skilst hún komi meira við sögu í síðari myndinni. „Svo sannarlega. Hún er síðasta eiturnaðran [gengi launmorðingja í myndinni].“ Myndinni er skipt í tvo hluta, er hún ekki fulllöng? „Það þarf ekki að bíða lengi eftir síðari myndinni, aðeins í nokkra mánuði. Venjulega er árslöng bið eftir framhaldsmyndum. Jafnvel þótt myndin sé löng eru áhorfendur sáttir, því myndin er þátta- skipt, ekki ósvipað því sem gerist í sjónvarpi.“ Hvað er svona sérstakt við Tarantino? „Það hvernig hann tekur ólíkar kvikmyndastefnur, blandar þeim saman og býr til nýja rödd. Hann fléttar saman þrjátíu myndir, en segir samt aðeins eina sögu.“ Blóðsúthellingarnar eru miklar … „Já, en veistu, það er gerviblóð … Það góða er að kómíkin er aldrei langt undan.“ Er þetta alvarleg mynd? „Ekki vitund og aldrei lagt upp með það.“ En það hlýtur að teljast afrek að lifa fyrstu myndina af. „Já, Elle Driver er kynnt til sögunnar, en ekki öll ógnin og skelfingin sem henni fylgir.“ Yfir í aðra sálma, hafðirðu hugmynd um að til væri land sem héti Ísland fyrir þetta viðtal? „Já, Ísland er einn af þeim stöðum sem mig dauðlangar til að heimsækja. Ég gæti vel hugsað mér að búa þar. Íslenski hesturinn er í uppáhaldi, heitu hverirnir og svo veit ég að Íslendingar eru meðvitaðir um umhverfið.“ Nú, heldurðu upp á íslenska hestinn? „Ég hef einu sinni riðið íslenskum hesti og langar virkilega til að eiga þannig hest. Getur þú ekki útvegað mér einn slíkan?“ spyr hún og hlær. „Þeir eru góðir, þægilegir, sætir og með frábæran persónuleika.“ Við svo búið kveður Daryl Hannah og snýr sér að lífinu vestanhafs, þar sem hún fer í tökur á Silf- urborg Johns Sayles í þessari viku og framundan bíða fleiri verkefni. Hún segir það enga tilviljun að verkefnin séu svona mörg núna; þetta gerist „ef maður er nógu lengi til staðar“. |pebl@mbl.is DARYL HANNAH BO ÐB ER I V ÁL EG RA T ÍÐ IN DA

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.