Morgunblaðið - 24.10.2003, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 24.10.2003, Blaðsíða 16
16 | FÓLKIÐ | FÖSTUDAGUR 24|10|2003 MORGUNBLAÐIÐ Mótmælandi Íslands er áhugaverð og áhrifamikil heimildar- mynd um þennan sérstæða Íslending og hefst með ofangreind- um hætti. Allt frá því snemma á 7. áratugnum hefur Helgi Hó- seasson húsasmiður, maður með ákaflega kristilegt eða biblíulegt nafn, barist með ýmiss konar mótmælaaðgerðum fyrir sannfæringu sinni og réttlætiskennd, umfram allt fyrir því að fá skírn sína og fermingu ógilda í þjóðskrá. Hann hafnar kristninni, trúarjátningunni og Biblíunni, sem hann kallar „ævisögu drauganna“. Hann mótmælir við biskup og kirkjuna, alþingi og ríkisstjórn, hagstofu og hæstarétt, slettir skyri eða smyr með tjöru eða, hugsanlega, kveikir í kirkjunni þar sem hann var skírður. Og hann mótmælir með spjöldum. Hann á mörg mótmælaspjöld: Hver skapaði sýkla? Gvöð krosslafur helgi. Hirosima. Nagasaki. Ríó (ríkisvald íslenskra óþokka). ASÍ. Þennan Mótmælanda Íslands hafa sjálfsagt margir af- skrifað sem gaga. En geðrannsóknin sem hann er látinn gang- ast undir á Kleppi gefur til kynna að hér fari velgefinn maður sem haldinn er þráhyggju vegna þess að honum finnst hann sviptur einstaklingsfrelsi og -réttindum. Mótmælandi Íslands er framleidd af 20 geitum, fyrirtæki Böðvars Bjarka Péturs- sonar, sem m.a. framleiddi aðra umdeilda heimildarmynd, Í skóm drekans, en leikstjórar eru Þóra Fjeldsted, sem er ungur sagnfræðinemi, og hinn reyndi kvikmyndagerðarmaður Jón Karl Helgason. Hann er spurður um hvað hafi ráðið því að lagt var út í gerð heimildarmyndar um Helga Hóseasson. „Það var að nokkru leyti tilviljun. Þóra Fjeldsted var á ferð í bíl um Langholtsveginn ásamt vinkonu sinni og sá Helga standa þar með mótmælaspjaldið sitt. Vinkonan, sem býr í hverfinu, sagði: Þetta er bara hann Helgi. Hann stendur þarna á hverjum degi. Þetta sat í Þóru og hún fór að leita sér upplýsinga um Helga, sem eru töluverðar til í blöðum, bókum og myndum. Hún hringdi svo í hann og spurði hvort hún mætti koma í heim- sókn því hana langaði til að gera um hann kvikmynd. Það gekk eftir og síðan kom Þóra að máli við okkur Böðvar Bjarka og fékk okkur til samstarfs. En frumkvæðið var semsagt Þóru.“ Jón Karl bætir við: „Reyndar veit ég til þess að ýmsir kollegar mínir hafa haft á prjónunum að gera heimildarmynd um Helga, en það náði aldrei lengra.“ MIKIÐ HAFT FYRIR Hann segir að það hafi verið jákvætt að fá til samstarfs unga konu eins og Þóru sem ekki hafði komið nálægt kvik- myndagerð áður nema í samstarfsverkefni sagnfræðideildar Háskóla Íslands og Kvikmyndaskóla Íslands fyrir nokkru. „Hún hafði svo mikinn áhuga og sá aldrei nein vandamál sem við þessir reyndu í bransanum látum stundum flækjast fyrir okkur. Mér fannst mjög gaman að vinna með Þóru því hún hafði svo ferska og óþreytta sýn á svona verkefni.“ Sjálfur segist Jón Karl hafa fylgst með Helga Hóseassyni og baráttu hans gegnum fjölmiðla. „Hann er 85 ára, ég er 48 ára og man því vel eftir því þegar hann sletti skyrinu á þing- heim og ataði stjórnarráðið svart af tjöru, og ég hafði séð hann á förnum vegi af og til gegnum tíðina. En það er bara svo skrýtið að þegar maður hefur unnið lengi í kvikmyndagerð og tekið að sér verkefni hingað og þangað til að afla sér tekna dofnar kannski tilfinningin fyrir því sem er beint fyrir framan mann. Maður fær ekki oft tækifæri eins og þetta – að fylgjast með einstaklingi eða vinna ákveðið verkefni í meira en eitt ár, þótt ég hafi orðið að fórna frítímanum í verkið vegna brauð- strits. Styrkir og greiðslur fyrir heimildarmyndir koma nefni- lega oft ekki í vasann fyrr en löngu eftir að verkinu er lokið.“ Jón Karl og Þóra hófu vinnuna við Mótmælanda Íslands í júlí í fyrra og hún stóð alveg fram á þetta haust. „Það síðasta sem við mynduðum var sviðsetning á því þegar Helgi hrærir skyrið góða.“ Jón Karl segir að Helgi hafi strax snemma á vinnuferlinu farið að treysta kvikmyndagerðarfólkinu sem hann hafði hleypt inná heimili sitt. „Ég ákvað í upphafi að við skyldum bara vera tvö; enginn hljóðmaður eða ljósamaður, heldur tók ég bæði upp hljóð og mynd og klippti síðan. Og vinnan þróað- ist þannig að við fórum í margar stuttar heimsóknir til hans frekar en fáar og lengri. Við vildum ekki trufla daglega rútínu Helga meira en nauðsynlegt var, því hann þurfti að sinna veikri konu sinni og fara út með spjöldin og annast ýmsar út- réttingar fyrir heimilið. Þetta fyrirkomulag gafst mjög vel. Helgi er afar vandvirkur maður og hann fann að við vorum að vanda okkur. Einu sinni sagði hann eitthvað á þessa leið: Ja, mikið hafið þið fyrir mér! Við fórum hægt og rólega af stað og þannig held ég að menn kynnist best þeim sem verða á veg- inum í lífinu.“ SJÓNARHÓLL EINFARANS Hver var útgangspunkturinn? Með hvers konar mynd í huga lögðuð þið af stað? „Við vildum kynnast því sem Helgi hefur verið að berjast fyrir gegnum tíðina. Það er eins og mótmælaaðgerðir hans hafi í vitund okkar gjarnan skyggt á það sem hann var í raun- inni að mótmæla. Menn vita að hann sletti skyri og var með ýmis skilti á lofti, en ekki hver maðurinn er og saga hans. Það var því upplifun fyrir mig persónulega að kynnast Helga, trú- leysi hans og baráttu fyrir því að skírn hans og ferming yrðu afskráð í þjóðskrá, en ekki síður við hvernig aðstæður hann býr. Hann á ekki þvottavél og þvær allt í höndunum, bakar brauð sitt sjálfur, sinnir veikri konu sinni sjálfur og lætur í heildina þetta nútímalega borgarumhverfi ekki trufla sig. Hann byggði „bæ“ sinn, eins og hann kallar húsið, sjálfur. Svona vill hann búa og hefur búið alla sína ævi.“ Myndin er sögð frá sjónarhóli Helga og svo með tilvitn- unum í samtímaheimildir í hljóði og mynd, auk nokkurra svið- settra atriða á stöku stað. Enginn þulur og engin viðtöl við aðra, engin önnur sjónarmið. Hvers vegna? „Við prófuðum hina aðferðina en þá brotnaði myndin. Helgi hefur alltaf staðið einn og aldrei fengið neinn stuðning sem heitið getur. Hann reyndi að skrifa og ná tali af mönnum en var hundsaður. Þessi aðferð er því sprottin upp úr viðfangs- efninu.“ Hagstofustjóri bauð Helga að ógilda skírn og fermingu en það dugði ekki til að hann hætti baráttunni? „Nei, vegna þess að í því fólst aðeins að hagstofustjóri fengi miða frá Helga þessa efnis og límdi hann inn í þjóð- skrána. Þannig að ógildingin kom frá Helga en ekki yfirvöld- um. Það gat hann ekki sætt sig við.“ Það hvarflaði ekki að ykkur að tala við fulltrúa þess valds sem hann hefur barist gegn? „Við reyndum það. Enginn vildi taka þátt nema einn guð- fræðingur.“ BARÁTTUMAÐURINN OG EIGINMAÐURINN Breyttist þín afstaða til viðfangsefnisins, Helga og baráttu hans, eftir því sem leið á gerð myndarinnar? „Já. Mér fór auðvitað að þykja vænt um manninn. Helgi er góður maður. Hann var hinn ljúfasti í samstarfi og bauð okkur ævinlega það sem hann átti til á heimilinu; malt og konfekt fengum við alltaf. Aðeins einu sinni sagði hann nei við því sem við báðum hann um. Það var þegar við fórum fram á að hann kæmi með okkur í kirkjugarðinn til að vitja leiðis konu hans. Útför hennar var gerð frá kirkju og hún var grafin í vígðri mold en að Helga fjarstöddum. Hún átti sína trú og eins og kemur fram í skýrslu um geðrannsóknina sem Helgi gekkst undir reyndi hann aldrei að sannfæra hana um sinn málstað. Hann hefur alltaf virt skoðanir annarra, sem er þroskamerki og meira en hægt er að segja um afstöðu annarra til hans skoðana.“ Eitt áhrifaríkasta og átakanlegasta atriði myndarinnar er þegar þessi gamli baráttujaxl missir Jóhönnu, langveika eig- inkonu sína, sem aldrei sést eða heyrist nema gegnum dyra- gætt. „Hún vildi ekki láta mynda sig. Við sáum hana sjaldan. Hún var rúmföst allan tökutímann. Við buðum henni bara góðan daginn gegnum gættina þegar við mættum og hún bauð okkur velkomin.“ Hann hafði annast hana árum saman og iðrast þess grát- andi að hafa ekki verið henni nógu góður á meðan hann var að berjast gegn óréttlætinu utan veggja heimilisins. Þessi þátt- ur hefur varla verið auðveldur fyrir kvikmyndagerðarfólkið? „Nei, hann var mjög erfiður. Þetta var 11. mars og þá höfð- um við verið oft hjá honum og höfðum kynnst vel. Traust hans á okkur var því orðið mikið.“ BEIÐ EFTIR TÆKIFÆRINU Jón Karl segir að þau Þóra hafi sýnt Helga Hóseassyni Mótmælanda Íslands áður en myndin var frumsýnd. „Það var erfitt fyrir hann að horfa á þetta atriði eftir lát eiginkon- unnar. Hann grét en var samt sáttur við myndina þegar upp var staðið.“ Hvers vegna heldurðu að hann hafi viljað að þessi mynd væri gerð? „Hann er kominn á efri ár og ég held að hann hafi í rauninni verið að bíða eftir því að fá svona tækifæri til að segja sína sögu og koma málstaðnum á framfæri. Hann vissi nákvæm- lega hvað hann var að gera þegar hann féllst á að leyfa okkur að gera þessa mynd. Hann langaði til þess. Helgi hafði aldrei fengið almennilegt tækifæri til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Eins og þegar hann var sakaður um að hafa kveikt í kirkjunni í Eydölum, þar sem hann var skírður, og hann hvorki neitar né játar í myndinni að hafa gert, þá var hann að vonast til þess að sér yrði stefnt fyrir dómstóla svo hann gæti komið málstað sínum á framfæri.“ Heldurðu að hann hafi kveikt í kirkjunni? „Sumir telja að svo hafi verið. Ég veit það ekki, en hitt veit ég að Helgi er í eðli sínu friðarins maður. Hann er mannvinur og barngóður. Réttlætismál eru honum ofar í huga en okkur flestum. Og hann finnur sig knúinn til að fara út á götu til að vekja athygli á slíkum málum, eins og því að við Íslendingar berum vegna aðgerða stjórnvalda siðferðislega ábyrgð á stríðinu í Írak. Mér finnst þetta falleg afstaða. Ef allir hugs- uðu eins og Helgi væri lítið um stríð í heiminum.“ Ertu að segja að Helgi Hóseasson sé heilbrigðari en þeir sem telja hann óheilbrigðan? „Já. Við erum fljót að stimpla þá sem eru öðruvísi en við. Og þótt ég sé ekki sammála öllu því sem Helgi heldur fram, og þótt ég trúi á Guð og leiti til hans þegar á bjátar í mínu lífi, þá eru sannleikskorn í svo mörgu öðru sem hann bendir á. Hann hefur fullan rétt til þess að trúa ekki á Guð. Hins vegar veit ég að ýmsir guðfræðingar telja að Helgi sé í rauninni mjög trúaður. Það held ég líka. Hann er umfram allt reiður og beiskur vegna framkomu kirkjunnar manna og annarra yf- irvalda gagnvart sér. Þess vegna fer hann út með spjöldin sín og stendur á horninu.“ |ath@mbl.is Ef allir hugsuðu eins og Helgi… Hann gæti verið jólasveinninn á leið í vinnuna, síðhærður, hvíthærður og -skeggjaður, svipsterkur öldungur. En hann er ekki með gylltan staf í hendi, heldur handskrifað skilti. Á því stendur: Ríkisóstjórn rög og hvinn rétt af mér vill herja bandóðríkska búra sinn blóðhund óð skal verja. Þessi maður er ekki jólasveinninn. Hann er Mótmælandi Íslands. Hann er Helgi Hóseasson á leið í vinnuna sem er að mótmæla landsins og heimsins óréttlæti á Langholtsveginum. SEX MÓTMÆLASPJÖLD JÓNS KARLS  Engin íslensku sjónvarpsstöðvanna tekur þátt í framleiðslu vandaðs innlends leikins sjónvarpsefnis.  65% af efni sjónvarpsstöðvanna eru á ensku.  Engin opinber stefnumótun fyrir það unga fólk sem menntar sig í kvikmyndagerð, myndlist og tónlist um hvað framtíð þess ber í skauti sínu.  Nýir eigendur Eimskips hugsi ekki fyrst og fremst um hagsmuni hluthafanna þegar þeir ráðstafa eignum þess til framtíðar.  Galdrasöfn og draugasöfn hringinn í kringum landið.  Austurbæjarbíó verði ekki rifið og lifi áfram sem sam- komuhús.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.