Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 2
Stjórn Árvakurs hf. Efri röð: Halldór Þ. Halldórsson, Leifur Sveinsson, Friðþjófur Ó. Johnson og Björn B. Thors. Neðri röð: Stefán P. Eggertsson varaformaður, Haraldur Sveinsson formað- ur, Hulda Valtýsdóttir og Hallgrímur B. Geirsson framkvæmdastjóri. 2 ∼ Morgunblaðið í 90 ár 1913 ∼ 2003 orgunblaðið byggir á hverjum tíma á þeirri arfleifð sem saga þess er. Saga blaðsins hefur verið bæði útgefendum og starfsfólki drifkraftur og hvatning og sagan geymir reynslu sem kynslóðir þeirra sem að blaðinu hafa staðið hafa byggt á. Útgáfa Morgunblaðsins í 90 ár endurspeglar ekki aðeins þjóðfélagsmynd hvers tíma heldur einnig metnað starfs- fólks í störfum sínum sem og þróun við gerð blaðsins, vinnslu, dreifingu og sölu. Morgunblaðið, útgefendur þess, stjórnendur og starfsfólk byggir m.a. á þeirri arfleifð að tryggja alltaf, nýta og tileinka sér eins og kostur er fullkomn- ustu tækni og aðbúnað. Þannig hefur metnaður útgefenda fyrir hönd blaðsins stuðlað að ráðstöfun afraksturs góðu áranna að meginstefnu til endurnýjunar og nýrrar uppbyggingar í rekstri Morgunblaðsins. Nægir í þessu efni að líta til þess sem hæst hefur borið í starfsemi líðandi áratugar í sögu Morgunblaðsins þótt ekki sé lengra farið. Á árinu 1993 var flutt inn í núverandi húsnæði í Kringlunni 1 og var þá öll starfsemi blaðsins komin undir eitt þak eftir byggingu prentsmiðju þar yfir nýja prentvél og pappírsgeymslu 1984. Í því sambandi er þess jafnframt að geta að á árinu 1998 hófst tæknilegur undirbúningur að ákvörðun um endurnýjun prentvélar, tilheyrandi búnaðar og nýju prentsmiðjuhúsi. Ákvörðun um þessar fjárfestingar og framkvæmdir var tekin á sl. ári og gert er ráð fyrir að ný prentsmiðja geti tekið til starfa síðla hausts á næsta ári. Hinn 2. febrúar 1998 hóf mbl.is netmiðill Morgunblaðsins göngu sína á Net- inu. Skemmst er frá því að segja að mbl.is varð fljótt stærsti vefmiðill landsins, þar sem auk fréttaþjónustu er boðin fjölbreytt upplýsingaþjónusta auk afþrey- ingar. Nefna má stærsta fasteignavef landsins auk aðgangs að greina- og myndasafni Morgunblaðsins svo eitthvað sé nefnt. Í upphafi árs 1998 hófst vinna að uppbyggingu á umhverfisstjórnunarkerfi skv. staðlinum ISO 14001, sem hlaut vottun þar til bærra aðila 30. apríl 2002. Með innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfisins hefur Morgunblaðið staðfest með formlegum hætti þá áherslu sem lögð hefur verið á virðingu við umhverfið í allri starfsemi blaðsins um áratugi. Morgunblaðið er eitt fárra blaða í heim- inum sem þetta hafa undirgengist. Morgunblaðið hefur síðasta áratug sem fyrr þróast og tekið breytingum til að bæta aðgengi lesenda og auglýsenda og auka þjónustuna við þá. Þannig hafa bæði ýmis sérblöð séð dagsins ljós, svo og dreifing eigin blaða og annarra með Morgunblaðinu farið vaxandi. Á síðastliðnu ári var útgáfudögum fjölgað og í upphafi afmælisársins hófst útgáfa Morgunblaðsins á mánudögum. Samhliða tók blaðið nokkrum útlitsbreytingum, ekki síst hvað varðar efn- isskipan innlendra og erlendra frétta á útsíðum. Á afmælisárinu hefur hafið göngu sína „Fólkið“, blað fyrir ungt fólk, sem fylgir Morgunblaðinu og síðast en ekki síst er fyrirhuguð breyting á sunnu- dagsútgáfunni í nóvember með tímariti sem fylgja mun aðalblaði Morg- unblaðsins. Það er svo vel við hæfi nú að með samningum Morgunblaðsins og Lands- bókasafns Íslands-Háskólabókasafns verður veittur landsaðgangur á Netinu án endurgjalds, annars vegar að greinasafni Morgunblaðsins frá upphafi en að undanskildum síðustu þremur árum auk aðgangs að stafrænum myndum af öllum tölublöðum Morgunblaðsins frá upphafi útgáfu þess til október 2000. Hér að framan hefur aðeins verið stiklað á stóru í sögu og þróun Morg- unblaðsins á liðnum áratug í aðdraganda 90 ára afmælis. Ljóst má þó vera af því sem rakið hefur verið að Morgunblaðið er síungt og í stöðugri endurnýjun og útbreiðslu. Morgunblaðið er nú sem fyrr knúið drifkrafti sögu sinnar og arfleifðar sem jafnframt veitir sífellt nýja framtíðarsýn lengra fram á veg. Hallgrímur B. Geirsson, framkvæmdastjóri Árvakurs hf. Morgunblaðið í 90 ár

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.