Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 2
2 ∼ Morgunblaðið í 90 ár 1913 ∼ 2003 Ritstjóri Fyrstu átta kaflar Valtýs sögu segja frá æsku hans og uppvexti á Möðruvöllum í Hörgárdal, skólaárunum hans í Danmörku, á Akureyri, í Reykjavík og á Hólum í Hjaltadal, háskólaárum í Kaupmannahöfn og störfum hans að landbúnaðarmálum í Danmörku og í þjónustu Bún- aðarfélagsins á Íslandi. Í níunda kafla er komið að blaðamennskuárum Valtýs, en áður hafði hann í mörg ár verið fréttaritari íslenskra blaða í Kaupmannahöfn og ritstjóri tímaritsins Freys: „Hinn 1. apríl 1924 tóku Valtýr og Jón Kjartansson við ritstjórn Morgunblaðsins. Nú var á ný settur „haus“ í blaðið efst til vinstri á þriðju síðu og birtust svokallaðar ritstjórnargreinar jafnan þar undir. Í tíð Þorsteins Gíslasonar hafði „hausinn“ horfið, en í staðinn var þess getið undir heiti blaðsins efst á forsíðunni að stofnandi þess hefði verið Vilhjálmur Finsen en ritstjóri væri Þorsteinn Gíslason. Nú var þess getið í „hausnum“ að útgefandi blaðsins væri „Félag í Reykjavík“ og hélst sá háttur næstu árin. Fyrsta ritstjórnargrein Valtýs og Jóns var ávarp til lesenda. Nýju ritstjórarnir sögðu óþarft að hafa mörg orð um ritstjórnarstefnu sína þar eð blað hvers dags myndi sýna „stefnuna best í verkinu“. Aðaláherslan yrði þó lögð á að „skýra sem greinilegast frá því, sem gerist utanlands og innan, eftir því sem rúm blaðsins leyfir“. Í því sambandi nefndu ritstjórarnir þau not sem þeir myndu hafa af ný- stofnaðri Fréttastofu Blaðamannafélags Íslands (FB) sem sett var á fót 1. febrúar 1924 til að miðla fréttum, útlendum sem innlendum, og var við lýði fram undir lok fjórða áratugar 20. aldar. Stofnendur FB voru öll helstu blöð landsins sem vildu með þessum hætti draga úr geysiháum símskeytakostnaði. Skúli Skúlason, sem verið hafði blaðamaður á Morgunblaðinu, veitti Fréttastofunni forstöðu, en síðar Axel Thor- steinsson, blaðamaður á Vísi og á Ríkisútvarpinu. Í ávarpi sínu til lesenda gerðu hinir nýju ritstjórar grein fyrir stjórn- málastefnu blaðs síns og má segja að hún hafi verið í sama anda og þær áherslur sem síðar urðu áberandi í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, sbr. slagorðið stétt með stétt. Jón og Valtýr voru menn hófstillingar í stjórn- málum og vildu leitast við að stuðla að samstöðu allra þjóðfélagshópa með sanngjörnum málflutningi. Stéttapólitík sósíalista og Jónasar frá Hriflu var því eitur í þeirra beinum. Þótt hagsmunir ólíkra þjóðfélags- hópa kynnu að rekast á, og margan órétt þyrfti vissulega að uppræta úr samfélagi manna væri fleira sem sameinaði Íslendinga en sundraði þeim. Í nútímalegu lýðræðisríki væri hófstillt samræða auk þess jafnan vænlegri til árangurs en herhvöt og skotgrafahernaður. Það gæti ekki verið affarasælt fyrir þjóðarheildina að einstakar starfsstéttir, svo sem verkafólk eða bændur, skipuðu sér í ævarandi andstöðu við aðra þjóð- félagshópa. Valtýr og Jón skrifuðu: Við lítum svo á að það sé mest um vert að lesendurnir kynnist sem best högum og ástæðum allra stétta, til þess að úlfúð sú og stéttarígur þverri, er annars getur orðið sérlega viðsjárverður hér í fámenninu. En þess er meiri þörf en oftast áður að það takist að draga úr persónulegum illdeilum, svo leiðir opnist til gagnkvæms skiln- ings á milli stétta og aðila. En með vaxandi sundrung verður erf- iðara um viðreisnarmál þjóðarinnar, sem í raun og veru eru sam- eiginlegri áhugamál en í fljótu bragði virðist. Þess skal þó þegar getið að þá teljum við best fari ef í framtíð- inni tekst að sigla fyrir sker hafta og banna. Saga vor og þjóð- arlund geta fært hverjum sem um það vill hugsa heim sanninn um það að því blómlegra er yfir andlegu og efnalegu lífi þjóð- arinnar sem einstaklingarnir hafa meiri ábyrgð og frelsi í orðum og gerðum. Nokkuð hefur verið gert að því að vekja tortryggni gegn blaði þessu og því ætlað að það ynni aðeins fyrir hag einnar stéttar [þ.e. verslunarstéttarinnar, kaupmanna og kaupsýslumanna]. En slík ámæli verða léttvæg er það er athugað að einmitt sú stétt manna sem að því hefur helst staðið, er þannig stödd í þjóðfélag- inu að gengi hennar fer saman og almenn velgengni þjóðarinnar. Af þessu sést að hinir nýju ritstjórar fóru ekki dult með þann ásetning sinn að Morgunblaðið berðist áfram í stjórnmáladálkum sínum fyrir frelsi einstaklingsins og frjálsu framtaki í atvinnulífinu. Morgunblaðið hafði mikla sérstöðu á þessum árum og löngum síðar þegar íslensk blaðamennska var meira og minna í flokkspólitískum viðj- um. Morgunblaðið var í eigu hlutafélags sem varð að bera sig eins og hvert annað fyrirtæki í atvinnurekstri. Tilverugrundvöllur blaðsins byggðist á því að flytja fréttir sem fólk vildi lesa og veita lesendunum margvíslega þjónustu aðra sem dagblöð í frjálsum löndum telja sér skylt að veita svo að þau standist samkeppni við aðra fjölmiðla á mark- aði. Eigendur Morgunblaðsins gerðu fyrst og fremst þá kröfu til rit- stjóra þess að blaðið stæði undir sér og vel það, þ.e. að rekstur þess skil- aði hagnaði sem gæti fjármagnað vöxt blaðsins og framtíðarfjárfest- ingar í þágu þess. Um önnur dagblöð á Íslandi á ritstjórnartíma Valtýs Stefánssonar (1924–1964), að Vísi frátöldum, giltu allt önnur lögmál. Þau blöð voru ekki aðeins málpípur stjórnmálaflokka heldur ýmist í eigu þeirra eða áttu fjárhagslegan tilverurétt sinn undir stuðningi þeirra. Morgunblaðið á hinn bóginn gat aldrei seilst í fjárhirslur stjórn- málaflokks til að halda sér gangandi og þess vegna varð blaðið ævinlega að gæta þess að sinna þeim frumskyldum sínum sem tilvera blaðsins byggðist á – fyrr og síðar – að stunda áreiðanlega fréttamennsku og veita lesendum sínum margvíslega aðra þjónustu. Þess misskilnings hefur oft gætt hér á landi að samasemmerki er sett á milli „sjálfstæðis“ dagblaðs og „hlutleysis“ þess í stjórnmáladeilum. Með öðrum orðum: í hugum margra Íslendinga, jafnvel enn þann dag í dag, getur dagblað vart verið „sjálfstætt“ ef það styður einn stjórn- málaflokk öðrum fremur! Samt eru nánast engin dæmi úr blaðasögu heimsins um dagblað sem notið hefur velgengni með því að iðka ein- hvers konar hlutleysi í stjórnmálum. Dagblöð í frjálsum löndum eru yf- irleitt mjög afdráttarlaus í stjórnmálaafstöðu sinni, hvar svo sem þau staðsetja sig á hefðbundnum vinstri-hægri kvarða í stjórnmálum. Yf- irleitt er samfella í stjórnmálaafstöðu dagblaða á Vesturlöndum um margra áratuga skeið, þ.e. blöðin hafa ýmist fundið sér stað til vinstri, á miðju eða til hægri í stjórnmálum. Þetta þekkja lesendur blaðanna mann fram af manni og vita því að hverju þeir ganga þegar þeir kaupa blöðin. Kveður svo rammt að þessu að lesendur eins blaðs geta vart fengið sig til að lesa annað tiltekið blað vegna stjórnmálaafstöðu þess, þótt þeir viðurkenni fúslega að það blað sé jafngott og jafnvel betra fréttablað en það sem þeir sjálfir kjósa að lesa daglega. Í Bretlandi geta lesendur Guardian til dæmis ekki hugsað sér að lesa Daily Telegraph og öfugt, svo aðeins eitt dæmi sé nefnt af tveimur vönduðum blöðum. Sum dagblöð á Vesturlöndum hafa lagt áherslu á að standa vörð um ákveðin meginsjónarmið í þjóðmálum, önnur ganga lengra og lýsa yfir stuðningi við ákveðna stjórnmálaflokka. Í sögu þessara blaða er ekki óalgengt að stundum hafi skapast náin persónuleg tengsl milli ritstjóra, eigenda og tiltekinna stjórnmálaforingja sem síðan hefur endurspegl- ast í stjórnmálastefnu blaðanna – rétt eins og gengur og gerist í mann- legum samskiptum á nánast öllum sviðum þjóðlífsins. Sama máli gegnir um Morgunblaðið og almennt þekkist um dagblöð á Vesturlöndum. Blaðið er í eigu hlutafélags sem að öllu leyti er sjálf- stætt fyrirtæki án beinna tengsla við nokkurn stjórnmálaflokk. Hluta- félag þetta var hins vegar stofnað til að stunda blaðaútgáfu með ákveðin þjóðfélagsleg markmið að leiðarljósi sem fóru saman við þá stjórnmála- hugsun sem birtist í stefnuskrám Íhaldsflokksins og Sjálfstæðisflokks- ins. Af þessari ástæðu hlaut oft að vera rík samsvörun í afstöðu Morg- unblaðsins til deilumála samtímans og stjórnmálabaráttu þessara flokka. Við bættist að ritstjórar blaðsins í tíð Valtýs, og síðar, tóku þátt í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins, fóru í framboð fyrir þann flokk og sátu jafnvel um skeið á Alþingi og í bæjarstjórn í umboði hans á meðan þeir gegndu ritstjórastörfum. Á þeim tíma og síðar sköpuðust jafnframt náin persónuleg tengsl milli forystumanna Sjálfstæðisflokksins og rit- stjóra Morgunblaðsins sem höfðu mikil áhrif á afstöðu blaðsins í stjórn- máladeilum. Þessi flokkstengsl endurspegluðust vitaskuld í stjórn- málaafstöðu blaðsins, en voru að öðru leyti óviðkomandi sjálfstæði þess sem fyrirtækis og tilverugrundvelli Morgunblaðsins sem fréttablaðs og þjónustumiðils við lesendur sína. Þremur dögum eftir ávarp sitt til lesenda Morgunblaðsins gerðu Val- týr og Jón betur grein fyrir hugmyndum sínum um blaðamennsku í rit- stjórnargrein sem bar yfirskriftina Sjálfstæð blöð. Rétt er að birta grein þessa í heilu lagi því hún sýnir glöggt sérstöðu Morgunblaðsins í íslenskum blaðaheimi. Valtýr og Jón skrifuðu svo í ritstjórnargrein Morgunblaðsins 4. apríl 1924: Eins og allir vita, hefur kostur blaðanna verið ærið þröngur hér á landi sökum mannfæðar, strjálbýlis, og vegna þess að við erum afskektir og eigum erfitt með að fylgjast daglega með því sem gerist, bæði innanlands og fyrir utan pollinn. Hlutverk og starf blaðanna hefur því oft verið misskilið hér á landi, og er víða enn þann dag í dag. Sökum þess hve erfitt það hefur verið að láta blöðin bera sig efnalega, hefur tilvera þeirra flestra, sem nokkuð hefur kveðið að, verið komin undir fylgi og gengi pólitískra flokka í landinu. Flokkarnir, eða helstu menn innan flokkanna, hafa sífellt þurft að hlaupa undir bagga með rekstri blaðanna og þörfin á blöðum hefur aukist eftir því sem kosninga- og íhlutunarréttur manna um almenn mál hefur rýmkast. Pólitískir flokkar hafa þurft hver og einn að hafa sitt málgagn. Efni blaðanna og öll stjórn þeirra hafa þá líka oftlega borið þess ótvíræð merki að aðalinnihald, að- alhlutverk og stefna blaðanna, hefur verið að hefja fylgismenn sína til skýja, en níða andstæðingana niður. Á þann hátt hefur þeim sem lagt hafa fram féð – „borgað brús- ann“ – þótt þeir fá mest fyrir peningana. En til þess að „brúsinn“ þyrfti sem minnst, hafa blöðin, eins og eðlilegt er, leitað til auglýsenda, kaupmanna og annarra, sem geta borgað fyrir að komast með auglýsinguna í samband við al- menning. Eftir stefnu blaðanna upp á síðkastið, hefur það tekist misjafn- lega. Er það eðlilegt, eftir þeirri flokkaskiptingu sem reynt hefur verið að innprenta mönnum – og þarf það eigi skýringar að þessu sinni. En svo hjákátlegir hafa menn verið, að halda því fram, sumir hverjir, að blöðin sem gerðu minna til þess að fá auglýsingar og fengju minni ágóða af þeim, þau væru „sjálfstæðu“ blöðin. Á tali við Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, í heimsókn hans til Ís- lands 1941.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.