Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 3

Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 3
Morgunblaðið í 90 ár 1913 ∼ 2003 ∼ 3 Þau eru sjálfstæð gagnvart auglýsendum, en háð pólitískum flokkum. Þau verða sjálfs sín vegna að heyja eilífa baráttu fyrir póli- tískri velgengni nokkurra manna. Þau eru með öðrum orðum háð þeim og flokknum sem þeim tekst að halda utanum sig. En hin eru háð auglýsendum – segja menn þá – og það er kaups kaups. Blaðamennska undanfarinna ára getur e.t.v. gefið mönnum átyllu til þess að halda þessu fram. En það er af því að menn eru orðnir svo vanir vesaldómi blað- anna. Aðalhlutverk dagblaða er, að greina frá því sem er að gerast hér og erlendis. Að skýra lesendum sínum sem fljótast og gleggst frá öllum þeim atburðum, er nokkru varða, og þeim straumum í viðskiptum og menningu þjóðanna er nokkru máli skipta. Og eftir því sem þjóðin er minni og í lífi sínu öllu og viðskiptum háðari umheiminum, eftir því er það nauðsynlegra að þetta starf sé rækt vel. Þeir sem hafa haft tækifæri til þess að fylgjast með blaða- mennsku landanna síðustu 20 árin, og einkum árin fyrir 1914, þeir hafa best getað séð hvernig hægt er að rekja saman blaða- mennsku og afdrif þjóðanna. Og Norðurlandaþjóðirnar lærðu á ófriðarárunum betur en áð- ur hve mikla þýðingu það hefur fyrir þær litlu og máttvana, sam- anborið við stærri nágrannana, að fylgjast vel með og skýra hlut- drægnislaust frá því sem er að gerast. En þau blöðin sem mest bolmagnið hafa, sem hafa útsenda sveina sína um allan heim, sem færa lesendum sínum í hendur heilar bækur daglega til að grúska í gegnum – skyldu það vera sjálfstæð blöð? Þau lifa á auglýsingum. Og þeir sem auglýsa í þeim lifa á því eða styðjast mjög við það. Það er frjáls samvinna milli tveggja meira og minna aðskildra aðila, sem vel fer á. Blöðin eru þannig úr garði gerð að þau eru meira og minna nauðsynleg lesendunum. Fyrir það fá þau auglýsingar sem þau lifa á. – Rórill pólitískra flokka er sjálfstæði þeirra óviðkomandi. Vegna fólksfæðar og féleysis hefur þetta verið erfitt hér hing- að til. En þetta er vegurinn til þess að koma upp sjálfstæðum blöð- um, hér sem annarsstaðar.“ Blaðamennskan er lífið sjálft Í kaflanum Blaðamennskan er lífið sjálft segir meðal annars svo: „Valtýr var sannfærður um að ómögulegt væri að ná traustu sam- bandi við stóran lesendahóp með útgáfu dagblaðs án þess að bjóða upp á ferskan og trúverðugan fréttaflutning. „Ég einbeitti mér því að al- mennri blaðamennsku,“ sagði hann, „en lét stjórnmálin lítið til mín taka fyrstu árin, enda kom það í hlut Jóns Kjartanssonar að sjá um þau.“ Því hefur sums staðar verið haldið fram að Valtý hafi „skort þekk- ingu á blaðamennsku“ þegar hann tók við ritstjórn Morgunblaðsins. Öðrum þræði stafar þessi missögn af hógværð Valtýs sjálfs sem, eins og Árni Óla segir frá í endurminningum sínum, var frá fyrstu tíð óðfús að læra allt sem hægt var að læra um blaðamennsku og fylgdist grannt með því sem gerðist í blaðaútgáfu í öðrum löndum. Valtýr hafði ekki starfað við dagblað áður en hann hóf ritstjórnina, en hann hafði gefið út tímarit og bók og þekkti því vel til prentsmiðjuvinnu, hann hafði skrifað reglulega fréttapistla um alllangt skeið, hann hafði lesið nútímaleg dag- blöð í stórborg á hverjum degi um margra ára skeið og hann bjó að því að hafa átt náin kynni við fjölda fólks út um allt land í starfi sínu hjá Búnaðarfélaginu. Hann var því vel í stakk búinn til að takast á við rit- stjórn fréttablaðs. Hins vegar hafði hann enga reynslu af því pólitíska argaþrasi sem þá einkenndi íslenska blaðamennsku. Þegar Morgunblaðið átti 20 ára afmæli 2. nóvember 1933 og Valtýr hafði starfað við ritstjórn blaðsins nærfellt í áratug, skrifaði hann nokk- ur orð um blaðamennsku í blað sitt. Hann vakti athygli á því að ensku- mælandi þjóðir nefndu blöð sín „newspapers“, fréttablöð, og Þjóðverjar „Zeitungen“, tíðindi. Nöfnin fælu í sér meginhlutverk blaðanna, frétta- flutninginn. „Hér á landi hafa menn ekki enn viðurkennt þetta fyllilega, hvorki í orði né verki,“ sagði Valtýr: Þegar talað er um blaðamennsku hér á landi, þá er oft átt við blaðadeilur einar, skammir og rifrildi um stjórnmál, um flokka og menn. Íslensk blöð hafa flest fyrst og fremst verið gefin út sem pólitísk flugurit, sem bardagavopn pólitískra flokka. Önnur við- fangsefni blaðanna hafa jafnan sætt minni alúð frá hendi blaða- manna. Þegar rætt hefur verið um íslenska blaðamenn, hafa þeir oft- ast verið og eru enn í dag, metnir eftir hæfileikum þeirra og elju til þess að skrifa ádeilugreinar og skammir um pólitíska and- stæðinga sína. Valtýr nefndi sem dæmi um viðhorfið til fréttamennsku á Íslandi gam- ansögu af stuðningsblaði þáverandi ríkisstjórnarflokka sem hefði láðst að segja frá stjórnarskiptum vegna þess að þau væru á allra vitorði! Hlutverk dagblaða væri þó ekki einungis að greina frá því sem gerð- ist heldur ekki síður að skýra með hvaða hætti það gerðist. Ef maður drukknaði í Jökulsá spyrði blaðamaðurinn: Hvað varð til þess að mað- urinn drukknaði? Í hverju skeikaði honum? Fór hann út í ána á skökk- um stað? Hefur vaðið breyst? Eða var maðurinn á ótraustum hesti? Var eitthvað að reiðtygjunum? Ótal spurningar af þessu tagi vöknuðu strax upp hjá áhugasömum blaðamanni. Þær væru nauðsynlegar til að geta skýrt lesendum sem gleggst frá atburðarás og öllum málavöxtum. Val- týr sagði að aðalvandi blaðamannsins væri að segja rétt og skipulega frá einstökum atburðum. Blaðamaðurinn yrði að hafa snarar hendur þar sem hann skrifaði samdægurs um það sem gerðist og væri að ger- ast og þótt ekki skorti sjónarvotta gæti verið mjög erfitt að fá rétt sam- hengi í frásögnina. Það væri því hjákátlegt þegar menn sem kölluðu sig „blaðamenn“ en kæmu aldrei nálægt daglegum fréttaflutningi væru með „gleiðgosalegar ásakanir“ um ónákvæmni í garð þeirra manna sem legðu það á sig að skýra almenningi sem fyrst frá því sem væri að ger- ast. Valtýr minnti á að dagblöð hefðu jafnframt mikilvægu hlutverki að gegna við að miðla fróðleik og nýrri vitneskju: Hver einasta göfug og nýtileg hugmynd eða hugsjón, sem lifnar í huga mannsins, og fær síðan form og líf í dálkum dagblaðanna, hún nær til almennings og nær að útbreiðast og ávaxtast til al- þjóðarheilla. – Blöðin sem hafa almenna útbreiðslu, verða boð- berar á öllum sviðum – þau miðla fróðleik frá einum til allra. Og því fljótar og því betur sem blaðamennirnir vinna verk sitt, því örar berast boðin, því örari verður sá æðasláttur þess menning- arsamstarfs sem í einu orði er nefnt þjóðlíf. Valtýr lýsti svo þeim áherslum sem fréttablað eins og Morgunblaðið hefði við þau skilyrði sem við var að búa á Íslandi. Hafa ber í huga að þegar þessi orð voru skrifuð voru einungis þrír starfsmenn í fullu starfi við ritstjórn Morgunblaðsins: Hér úti á Íslandi, í fólksfæðinni, fátækt blaða, og fjarlægð heims- viðburða er auðsætt að hið algilda fullkomna blaðamennskustarf verður aldrei rækt sem skyldi, að íslensk blöð eru svo óendanlega langt frá því að hafa mátt til að leysa hið víðfeðma hlutverk blaða. Mest alúð er að sjálfsögðu, einkum fyrst í stað, við það lögð að láta blöðin flytja fregnir um allt sem innlent er og máli skiptir fyrir einstaklinga og alþjóð. Samstarfsmenn í áratugi: Sigfús Jónsson framkvæmdastjóri, Valtýr og Jón Kjartansson ritstjóri. Valtýr með eiginkonu sinni, Kristínu Jónsdóttur listmálara, á Þingvöllum árið 1952.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.