Morgunblaðið - 04.11.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 04.11.2003, Blaðsíða 6
6 B ÞRIÐJUDAGUR 4. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR Ljóðtímavagn nefnist lokabindi í þriggja ljóða- bókasyrpu Sig- urðar Pálssonar. Ljóðabyggingin hófst fyrir tuttugu og átta árum þeg- ar höfundur lagði af stað með verki sínu Ljóð vega salt. „Ljóðagerð Sig- urðar hefur ávallt verið í stöðugri þróun og endurnýjun, og einkennist af skýrri hugsun og nærfærinni skynjun skáldsins,“ segir í frétt frá forlaginu. Þetta er þriðja atrenna skáldsins að ljóðtímanum en áður komu Ljóð- tímaskyn (1999) og Ljóðtímaleit (2001). Sú síðarnefnda var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og fékk Bóksalaverðlaunin í flokki ljóðabóka. Útgefandi er JPV útgáfa. Bókin er 79 bls., prentuð í Odda. Hunang hannaði kápu. Verð 3.480 kr. Ljóð Jón Sigurðsson – ævisaga II er eftir Guðjón Frið- riksson. Í þessu síðara bindi rek- ur Guðjón til enda sögu Jóns forseta, þess manns sem Ís- lendingar hafa haft í meiri há- vegum en aðra. Í fréttatilkynningu frá útgefanda segir m.a.: „Í ljós kemur að Jón hefur lifað viðburðaríkara og stormasamara lífi en margir hafa gert sér grein fyrir. Meðal þess sem kemur á óvart eru hinar mörgu upp- reisnir gegn Jóni og atlögur að hon- um í ýmsum veigamiklum málum. Ekki er síður fengur að þeirri mynd sem dregin er upp af persónu Jóns, einkalífinu þar sem hann hafði mörg járn í eldi, greiðasemi hans og þeim fjárhagslegu ógöngum sem hann rataði í á seinni hluta ævinn- ar. En jafnframt er hér sögð ítarleg stjórnmálasaga þess átakaskeiðs sem lagði grunninn að Íslandssögu okkar tíma – saga sjálfstæðisbar- áttunnar.“ Guðjón hefur ritað bækur um Ein- ar Benediktsson og Jónas frá Hriflu. Guðjón hefur í tvígang hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir verk sín. Útgefandi er Mál og menning. Bókin er 635 bls., prentuð í Odda. Kápa var hönnuð hjá Næst hf. Verð: 5.990 kr. Ævisaga Svö fögur bein er skáldsaga eftir Alice Sebold í þýð- ingu Helgu Þór- arinsdóttur. Bókin fjallar um lífið og dauðann, fyr- irgefningu og hefnd, minn- ingar og gleymsku. Sagan sýnir að finna má ljós þar sem myrkrið eitt ræður ríkjum … Og jafnvel þegar það virðist slokkna er það þó eins og lítill vonarneisti sem bíður þess að tendrast á ný. Á leið heim úr skóla mætir Susie Salmon, fjórtán ára gömul stúlka, morðingja sínum. Hún fer til himna og þar fær hún allar óskir sínar uppfylltar – nema það sem hún þrá- ir heitast, að hverfa aftur til ástvina sinna á jörðu niðri. Úr fjarska fylg- ist Susie með foreldrum sínum, systkinum og vinum takast á við reiði, sorg og söknuð. Öll reyna þau á sinn hátt að afbera hina skelfi- legu martröð og smám saman legg- ur tíminn græðandi hönd á harm- inn. Alice Sebold fæddist árið 1963 og býr í Kaliforníu. Bókin hlaut ABBY verðlaunin 2003 sem eru verðlaun breskra bóksala. Útgefandi er JPV-útgáfa. Bókin er 328 bls., prentuð í Odda. Verð: 3.980 kr. Skáldsaga KONRÁÐ Gíslason var merkileg- ur maður um margt en æviferill hans var býsna undarlegur og hið sama má segja um sess hans í þjóð- arsögunni, og ekki síður í þjóðarvit- undinni. Hann var nánasti vinur og samstarfsmaður Jónasar Hallgríms- sonar og einn Fjölnismanna en nöfn þeirra lærði hvert einasta skólabarn á Íslandi utanað langt fram eftir 20. öld (og vonandi enn). Meðal Fjöln- ismanna hefur Konráð nokkra sér- stöðu í sögunni. Hann var hinn eini þeirra er náði háum aldri en mun engu að síður sá þeirra sem einna minnst er þekktur með þjóðinni og sá eini sem ekki hefur verið skrifuð um ævisaga fyrr en nú. Þarf það kannski ekki að koma mjög á óvart þegar þess er gætt, að meðal margra landa var hann næsta lítt þekktur á efri árum sínum, nema þá helst sem vinur og samstarfsmaður Jónasar Hallgrímssonar. Fræg eru ummæli íslensks stórkaupmanns sem sagði er honum barst í hendur listi yfir þá landa er hugðust fylgja Konráði til grafar í Kaupmanna- höfn: „Konráð Gíslason! – Hvaða maður er það?“ Kannski spyrja margir þannig enn í dag og trúlega eru þeir margir sem kannast við nafn Fjölnismanns- ins Konráðs Gíslasonar en vita ann- ars lítil deili á manninum, lítið meira en stórkaupmaðurinn, sem áður var vitnað til. Þannig var og um marga landa hér heima á lokaskeiði 19. ald- ar, og reyndar nokkra í Kaup- mannahöfn. Það stafaði ekki síst af lunderni Konráðs. Hann var fráleitt aldæla og vægast sagt undarlega samansettur maður, allt í senn stór- brotinn húmoristi og gleðimaður þegar hann vildi það viðhafa, bráð- skarpur lærdómsmaður, en afar við- kvæmur og gat eins og margir slíkir átt það til að vera óttalegt meinhorn, fyrtinn og steigurlátur. Besta skeið ævi hans var að líkindum tímabilið frá því hann hóf nám við Hafnarhá- skóla haustið 1831 og fram um 1850. Þá var hann samvistum við félaga sína í Fjölnishópnum, ávann sér virðingu sem vísindamaður og hlaut fasta stöðu sem kennari í norrænum fræðum við háskólann. Áfallalaus voru þessi ár þó ekki. Augnveiki hrjáði Konráð og árið 1846 lést unn- usta hans. Hana tregaði hann mjög og kvæntist síðar systur hennar. Varð það hjónaband hið farsælasta. Konráð gegndi störfum við Hafn- arháskóla fram undir áttrætt og naut virðingar fyrir störf sín. Eftir að kom fram yfir 1850 einangraðist hann hins vegar æ meir frá löndum sínum, hætti að mestu að sækja samkomur Íslendinga og sein- ustu árin umgekkst hann fáa. Flestir vissu þó af honum, um hann lék frægðarljómi sem fornan Fjölnismann og margir virtu hann, ekki síst nemendur hans. Í þeim hópi voru menn sem mikið létu að sér kveða í ís- lenskum fræðum fram eftir 20. öld og má þar nefna Björn M. Ólsen, Jón Þor- kelsson yngri, Finn Jónsson, Valtý Guðmundsson og Boga Th. Melsteð. Ekki leikur á tvennu, að höfundur þessarar bókar, dr. Aðalgeir Krist- jánsson, er öðrum núlifandi mönnum kunnugri ævi og starfi Íslendinga í Kaupmannahöfn á 19. öld, og þó einkum á „rómantíska skeiðinu“, sem svo er stundum nefnt, frá því um 1830 og fram um 1850. Um það hefur hann skrifað nokkrar ágætar bækur og fjölmargar ritgerðir. Í þessari bók segir hann sögu Kon- ráðs Gíslasonar og tekst að draga upp svo skýra mynd af honum að lesandanum finnst að góður kunn- ingi sé kvaddur þegar þráðurinn fellur. Aðalgeir leggur mikla áherslu á að lýsa menningar- og fræðastörf- um Konráðs og þess vegna verður bókin ekki einvörðungu ævisaga, heldur einnig að hluta til saga nor- rænna fræða á Hafnarslóð á 19. öld. Hér segir frá fjölmörgum rannsókn- arverkefnum og útgáfum, margir góðir menn koma við sögu, íslenskir og erlendir, og glögg grein er gerð fyrir störfum Konráðs að málvönd- un, orðabókarsmíði og rannsóknum á dróttkvæðum skáldskap. Öll er sú saga sögð á lifandi og skemmtilegan hátt og verður þó aldrei yfirborðs- kennd. Höfundur notar víða þá að- ferð að birta orðrétta texta úr heim- ildum, láta heimildirnar tala, eins og stundum er sagt. Fer vel á því, enda færa kaflar úr bréfum söguhetjunn- ar hana tíðum nær lesandanum en texti höfundar getur gert. Í loka- kafla kemst bókarhöfundur svo að orði: „Konráð hefir gjarnan verið álitinn fánaberi íslenskrar mál- hreinsunar og Jónas Hallgrímsson hafði hann að leiðbeinanda. Indriði Einarsson segir, að móðir sín hafi aldrei gleymt því að hún átti bróður sem var prófessor við Hafnarhá- skóla. Hann greinir svo frá að á Hafnarárum sínum hafi dómar gam- alla Hafnar-Íslendinga um Konráð verið „einskær aðdáun“. Vaxandi dá- læti Íslendinga á ljóðmælum Jónas- ar Hallgrímssonar varð til að varpa frægðarljóma á Konráð, þannig að allt lagðist á eitt þegar á ævi hans leið að gera veg hans sem mestan í augum íslensku þjóðarinnar.“ Í bókarlok eru prentaðar ýmsar mikilsverðar heimildir og þar er að finna stuttan útdrátt á dönsku og auk hefðbundinna skráa er þar einn- ig skrá yfir háskólafyrirlestra Kon- ráðs á 38 ára tímabili, 1848–1886. Allur frágangur þessarar bókar er til sóma. Hún er prentuð á fallegan pappír, prýdd nokkrum myndum og sums staðar eru heimildir prentaðar sem rammagreinar með texta. Að öllu samanlögðu er að ritinu góður fengur og allir áhugamenn um nor- ræn fræði og íslenska sögu 19. aldar hljóta að fagna því að minningu Konráðs Gíslasonar hafi loks verið verðugur sómi sýndur. „Þá var stórhuga tíð“ ÆVISÖGUR Síðasti Fjölnismaðurinn. Ævi Konráðs Gíslasonar AÐALGEIR KRISTJÁNSSON Útgefandi: Skrudda, Reykjavík 2003. 310 bls., myndir. Jón Þ. Þór Konráð Gíslason Aðalgeir Kristjánsson Á UNDANFÖRNUM árum hafa skáldsögur um hlutskipti kvenna í Kína notið mikilla vinsælda á Vest- urlöndum, en flestar þeirra eru skrifaðar af konum sem aldar eru upp utan Kína, þótt þær eigi þangað ættir að rekja og sem byggja sögur sínar á frásögnum mæðra og for- mæðra. Dætur Kína er hins vegar ekki skáldsaga heldur sannar frá- sagnir úr samtímanum, skráðar af konu sem ólst upp í Kína, hlaut sína menntun þar og starfaði þar sem dagskrárgerðarkona í úvarpi til 1997 og safnaði þá lífsreynslusögum kvenna víðsvegar af landinu, sem hún síðan skrásetur í þessari bók sem gefin var út í Bretlandi í fyrra. Þetta er vel skrifuð og áhrifamikil lesning, ekkert verið að velta sér upp úr hörmungunum heldur sagt frá á hófstilltan og nánast hlutlausan hátt sem gerir frásagnirnar enn átakan- legri en ella. Vonleysið og vanmátt- urinn birtast ekki í textanum sjálfum heldur liggur á milli línanna, stað- reynd sem óþarfi er að hamra á. Ekki það að konurnar búi allar við bág kjör efnislega, hér eru fulltrúar allra stétta, háskólanemar, athafna- konur, skransölukonur, fjölmiðla- konur, konur í afskekktu fjallaþorpi sem byltingin gleymdi og fleiri, en hið rótgróna viðhorf til kvenna sem annars flokks þjóðfélagsþegna gerir þeim öllum erfitt fyrir að njóta sín í samtímanum þrátt fyrir opinbera stefnu leiðtoganna sem gerir öllum þegnum ríkisins jafnhátt undir höfði á pappírunum. Nauðganir og kyn- ferðisleg misnotkun eru daglegt brauð, konum er ráðstafað sem eig- inkonum og ástkonum af yfirmönn- um flokksdeilda án samráðs við þær, synir afneita mæðrum sínum sem orðnar eru of gamlar og slitnar, hlut- verk ungra stúlkna í leshringjum flokksins er að vera leikföng karl- mannanna, og á tímum aukins frjáls- ræðis og opnara þjóðfélags verða ungar menntakonur „einkaritarar“ auðugra manna sem líta svo á að kynferðisleg afnot af þeim séu sjálf- sögð og svo mætti lengi telja. Mennt- un, þjóðfélagsstaða eða auðæfi breyta engu um það að hlutverk kvenna er fyrst og fremst bundið kynferði þeirra og þær metnar eftir því hversu „nytsamlegar“ þær eru sem kynverur. Byltingin hefur ekki breytt því, þótt þær hafi nú sömu skyldur sem vinnuafl og karlmenn- irnir. Sterkasta frásögnin er að mínu mati sú fyrsta þar sem ung stúlka, sem eitrað hefur fyrir sjálfri sér til að komast á sjúkrahús og losna þannig við kynferðislega misnotkun föður síns, skráir í stuttum dagbók- arbrotum líðan sína og viðhorf til lífsins. Einnig er frásögn mæðranna sem missa börnin sín beint eða óbeint af völdum mikils jarðskjálfta grípandi en allar eru frásagnirnar sterkar og sláandi og höfundi tekst vel að gera mismunandi röddum kvennanna skil auk þess sem hún segir sína eigin sögu og leggur út af sögum hinna og setur þær í þjóð- félagslegt samhengi. Þýðing Helgu Þórarinsdóttur er vönduð og vel unnin, það eina sem orkar tvímælis er þýðingin á bókar- heitinu sem á ensku er The Good Women of China – Hidden Voices. Dætur Kína nær ekki tvíræðninni í frumtextanum þar sem vísað er í þá vel þekktu skilgreiningu á góðri konu að það sé sú sem heldur kjafti og er sæt – og er að sjálfsögðu „nyt- samleg“ í rúminu! Kannski hjörtum og viðhorfum (karl)mannanna svipi saman víðar en í Súdan og Grímsnes- inu. „Það kvað vera fallegt í Kína“ SANNAR FRÁSAGNIR Dætur Kína – Bældar raddir XINRAN Þýðandi Helga Þórarinsdóttir. JPV-útgáfa 2003, 231 bls. Friðrika Benónýs BUMBUKLÚBBURINN heitir nýútkomin kilja, en bókin kom fyrst út í Bretlandi 1999 undir nafninu The Fat Ladies Club. Hún vakti strax þó nokkra athygli, enda mikil eftirspurn eftir bókum sem segja frá einkalífinu á hreinskilinn, jafnvel bersöglan hátt. Fimm ungar konur, Hilary, Andr- ea, Sarah, Annette og Lyndsey, þekktust ekkert þegar þær lentu saman á námskeiði fyrir ófrískar konur. Þær koma hver úr sinni átt- inni þótt allar búi þær í Bretlandi. Andrea er í lögreglunni, mikill stuðn- ingsmaður Arsenal-knattspyrnuliðs- ins og gift Bruce sem rekur fyrirtæki í tölvubransanum, Hilary er hjúkr- unarfræðingur sem starfar með geð- fötluðum og er gift David, sem er bóndi. Sarah er viðskiptafræðingur, gift endurskoðandanum Tim, Lynds- ey doktor í efnafræði og vísindamað- ur, gift Tim frá Wales, en hann kall- ast viðskiptagreinir. Lestina rekur Annette, endurskoðandi, sem vinnur í byggingariðnaði, gift Gavin, sem er í tölvugeiranum. Þær eru á aldrinum 28 til 33 ára og vinna þannig að bók- inni að valin eru ein tíu umræðuefni sem þær skrifa allar um en hver fyrir sig undir eigin nafni. Kaflarnir bera nöfn á borð við Brjóst og aftur brjóst, Kynlíf, Fyrir neðan mitti, Stóra augnablikið sem við höfum allar beð- ið eftir og þannig getur lesandinn fræðzt um reynslu hverrar um sig í meðgöngu og fæðingu. Ég skrifaði í fyrra ritdóm um bók sem inniheldur fæðingarsögur sjötíu íslenzkra kvenna, Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð, svo hér á landi hefur umræðuefninu verið sinnt vel. Markhópur fyrir Bumbu- klúbbinn hlýtur að vera ungar konur sem standa í svipuðum sporum og konurnar fimm, ungir foreldrar sem vilja fræðast um reynslu annarra og svo fólk sem hefur gaman af að heyra um einkalíf annarra, ekki sízt ef fjallað er um það á léttu nótunum. Það er vissulega reynt í þessari bók, höfundarnir taka sig alls ekki hátíð- lega og hver um sig virðist espa hinar til að vera sem hreinskilnastar. Þýð- ing er að hluta til staðfærð sem sjá má af því að Gaui litli og Bibba á Brá- vallagötunni skjóta upp kollinum, kunnugleg andlit fyrir íslenzka les- endur. Bókin er fremur skemmtileg aflestrar. Gripið er til krassandi orðalags hér og þar og svo er pemp- íuskapur víðs fjarri, sums staðar óþarflega fjarlægur en slíkt er að sjálfsögðu smekksatriði. Það er ótrú- leg handvömm að ekki skuli nokkurs staðar koma fram hver þýtt hafi bók- ina, eiginlega hrein móðgun við höf- undana og hlýtur að teljast vera eins og klaufavilla á prófi. Villur eru óþarflega margar og prófarkalestri og yfirferð verulega áfátt. Hindberjalaufate í lítratali REYNSLUSÖGUR Bumbuklúbbur, hjálp ég er ólétt! HILARY GARDENER, ANDREA BERRIDGE, SARAH GROVES, ANNETTE JONES OG LYNDSEY LAWRENCE. Þýðandi: NN, óþekktur. Hönnun og kápa: Anne Maria Barthold. Prentun: Nörhaven Book A/S, Viborg, Danmörku. Kilja, 232 bls. Útgefandi: PP Forlag 2003. Katrín Fjeldsted

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.