Morgunblaðið - 09.11.2003, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 09.11.2003, Blaðsíða 2
2 B SUNNUDAGUR 9. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ ÞAÐ ER leitun að öðrumeins orkubolta og JóniJósep Snæbjörnssyni,Jónsa, söngvara Í svört-um fötum. Á sviðinu er hann hamhleypa, sífellt á iði, hrífur áhreyrendur með sér með góðu for- dæmi, stekkur, hleypur og hristir sig svo maður verður eiginlega dauðþreyttur bara af að horfa. Að hitta hann augliti til auglitis er eins og hitta annan mann, rólegur og yf- irvegaður, kurteis og prúður piltur sem anar ekki að neinu, vel undir- búinn og gefur sér tíma til að svara, eins og honum liggi ekkert á, sama hversu önnum kafinn hann annars er. Jón Jósep fæddist í Reykjavík og bjó í níu mánuði í Dúfnahólunum, þá fluttust foreldrar hans til Akureyrar og þar ólst Jónsi upp. Hann segir dvöl sína á leikskóla fyrir norðan ekki vera ýkja eftirminnilega en grunnskólanám stundaði hann í Glerárskóla – segist hafa gengið vel í námi almennt, þurfti ekki að hafa mikið fyrir hlutunum, en var afleitur íþróttamaður. Eins og þá grunar ef- laust sem séð hafa Jónsa á sviði var hann mjög fjörugur sem barn, segist hafa verið út um allt á þvælingi og iði. „Ég er feginn því að hafa ekki fengið ofvirknigreiningu,“ segir hann og kímir, en bætir svo við af meiri alvöru að stóran hluta ævinnar hafi hann glímt við að beisla þessa gríðarlegu orku. „En án hennar væri ég ekki það sem ég er í dag.“ Forfallinn tónlistaráhugamaður Jónsi varð snemma forfallinn tón- listaráhugamaður og segir að dvöl sín í sveit hafi ýtt undir tónlistar- áhugann svo um munaði. „Ég fór í sveit á Kambsstöðum í Ljósavatns- skarði og þar voru til nokkrar plöt- ur, News of the World og Night at the Opera með Queen og 10 cc plata og þær voru spilaðar út í eitt. Fjósa- maður á bænum, Ketill Þór hét hann, kom svo með Iron Maiden og þýsku gleðiþungarokksveitina Helloween, sem kom mér á rétt spor; á meðan vinir mínir hlustuðu á rapp og fundu upp á leiðum til að komast hjá því að vinna í vinnuskól- anum á Akureyri vann ég hörðum höndum í sveitinni alla daga og hlustað á þessar plötur í hádeginu og á kvöldin.“ Jónsi segir að hann hafi ekki síst sungið með þegar hann var að hlusta, því allar sveitirnar, nema 10 cc, státuðu þá af fyrirtaks söngv- urum „og bý enn að því í dag“. Þó Jónsi hafi verið mikill tónlist- aráhugamaður datt honum ekki í hug að verða söngvari á þessum tíma þó hann hafi einsett sér að fást við tónlist. Hann ákvað svo eftir miklar vangaveltur að verða tromm- ari, fékk sett og fór í tónlistarskól- ann. Aðspurður um hvers vegna nefnir hann nokkrar ástæður, þess- ar helstar: „mikil og góð líkamleg út- rás og svo vantaði alltaf trommuleik- ara, þannig að ég gat alltaf komist í hljómsveit.“ Hann sat við trommur- nar frá fjórtán ára aldri og segist hafa verið mjög áhugasamur um trommuleik, takta og slagverk al- mennt, en aldrei orðið góður trommuleikari. Langaði að vera vinsælastur Eins og getið er stundaði Jónsi nám við Glerárskóla og hann segir að námsárin þar hafi ekki verið ýkja skemmtileg. Segir að þar hafi ef- laust eitthvað spilað inn í að í skól- anum var engin tónlistarklíka, engir pælarar sem hann gat hangið með. „Mig langaði, eins og allir, að vera vinsælastur í bekknum en var það alls ekki, reyndar talsvert langt frá því. Það er ekki rétt að segja að ég hafi lent í einelti, en ég var á hlut- lausu svæði. Ég var ekki góður í íþróttum en það þurfti maður að vera til að vera gæi, en ég lét samt ekki troða mér um tær. Einu sinni lenti ég í því að það var verið að ganga hart að mér og ég var rétt við það að renna inn í einhvern hringa- vitleysupakka og þá tók ég stelpu sem var að stríða mér og lamdi strák með henni og eftir það var ég látinn í friði.“ Þegar Jónsi kom í Menntaskólann á Akureyri segist hann hafa sprung- ið út, enda komst hann þar í tæri við fólk sem leyfði honum að vera það sem hann vildi. Í skólanum kynntist hann einnig konunni sinni tilvon- andi, Rósu Björgvinsdóttur, sem hann segist hafa þekkt síðan hann var þrettán ára og var hrifinn af henni þá en segist aldrei hafa átt von á að hún myndi líta við sér. Í Menntaskólanum á Akureyri var á sínum tíma, og er kannski enn, fé- lag sem kallaðist Stólpi, félag áhuga- manna um landsbyggðarmál. Sá fé- lagsskapur hélt samkundur þar sem fólk kom með eigin veitingar og sat síðan og ræddi landsins gagn og nauðsynjar við léttan undirleik hljómsveitar - semsagt brjáluð böll. Þegar Jónsi kom í skólann var hon- um boðið að spila með þeirri hljóm- sveit sem trommuleikari og söngv- ari. Þá má segja að hann hafi verið kominn af stað, því fljótlega fór hann að langa til að standa framar á svið- inu, vera fremstur. „Það var ekki það að mig langaði til að baða mig í sviðsljósinu, heldur fannst mér það forvitnilegt verkefni. Mig langaði til að prófa það og ná tökum á því að vera fremstur á sviðinu, að vera mið- punkturinn, sá sem allir horfðu á. Þetta er sérstakt hlutverk, allt öðruvísi til að mynda en að vera leik- ari, því leikari er sögumaður en söngvari hjá ballhljómsveit er guð; hann er sífellt að segja fólki fyrir verkum, stjórna ballgestum, og hann verður að hafa stærra egó og meiri útgeislun en allir aðrir í saln- um.“ Söngurinn nær yfirhöndinni Löngunin til að takast á við þetta hlutverk varð síðan til þess að Jónsi ákvað að hann vildi ekki vera trommuleikari lengur, hann ætlaði að verða söngvari og skipulagður að vanda fór hann að læra söng síðasta árið sem hann var í menntaskóla. 1997 varð hann svo stúdent og flutt- ist suður með konu sinni, fór að vinna á leikskólanum Drafnarborg og fór að læra söng hjá Jóhönnu Linnet í FÍH. „Ég var mjög seinn að sækja um í FÍH og nokkrir á bið- lista, en ég komst inn því ég var svo áhugasamur, alltaf að hringja og spyrja um plássið.“ Jónsi segist hafa lært mikið hjá Jóhönnu og að það hafi verið honum mjög mikilvægt að fara svo snemma að læra söng og í raun áður en hann var farinn að syngja nokkuð að ráði, þó hann hafi verið búinn að spreyta sig aðeins þegar hann fór í söngvakeppni fram- haldsskólanna 1996 og lenti í fjórða sæti. Í febrúar 1998 sá Jónsi auglýsingu þar sem leitað var að söngvurum í söngleik, Carmen Negra, sem setja átti upp í Íslensku óperunni um sumarið. Hann sótti um og komst inn og segir að það hafi verið mikil- vægur námstími. „Aðrir söngvarar í sýningunni voru meðal annars Garð- ar Thor Cortes, Bubbi Morthens, Helgi Björnsson og Egill Ólafsson og bara það að standa við hliðina á þeim og geta fylgst með því hvernig þeir sungu kenndi mér gríðarlega mikið, enda áttaði ég mig á því að málið var ekki bara að hafa rétta tækni heldur að hafa réttar fyrir- myndir. Ég lærði að standa eins og þeir, hugsa nánast eins og þeir og þá fór ég að hljóma eins og þeir.“ Gullfiskarnir í svörtum fötum Carmen Negra lauk haustið 1998 og þá var Jónsa boðið að syngja í ABBA-sýningu á Broadway og söng hann í þeirri sýningu í þrjú ár, en á þeim tíma var hljómsveitin, sem síð- ar varð Í svörtum fötum, að verða til. Jónsi rekur söguna svo, að til var hljómsveit sem kallaðist Gullfisk- arnir 1997, en smám saman urðu al- ger mannaskipti í henni þannig að trommuleikarinn var einn eftir af upprunalegum stofnendum. Einn þeirra sem komu nýir inn í hljóm- sveitina var Einar Örn Jónsson hljómborðsleikari, sem var vinur Jónsa að norðan og félagi í mennta- skólanum. Um þær mundir var söngkona í hljómsveitinni en þegar hún varð ólétt og dró sig í hlé stakk Einar upp á því við Jónsa að hann spreytti sig. „Ég kunni ekkert af þeim lögum sem þeir voru að spila og kom þess vegna með lítinn trommuheila/ míkrófón með mér og söng Psycho Killer við taktundirleik trommuheil- ans/míkrófónsins. Strákarnir sátu stjarfir og horfðu á mig, enda var þetta ekkert nema vitleysa dauðans, þar sem ég hamaðist eins og ég ætti lífið að leysa,“ segir Jónsi og hlær að minningunni. „Þeir voru ekki á því að ráða mig og mér leist ekkert á þá. Einar Örn gekk þó í málið og bað mig um að gefa þeim sjens og þeim að gefa mér sjens og við byrjuðum að æfa 1998.“ Nafn hljómsveitarinnar er óvenju- legt, Í svörtum fötum, en Jónsi segir að það hafi verið valið að vandlega athuguðu máli á nafnafundi, þar sem menn höfnuðu meðal annars fyrir- taks nöfnum á við Sterill, Kairó og Funk í svörtum fötum. „Það var mikið fönkæði í gangi á þessum tíma. Klámmyndafönkið var að tröllríða öllu og við vorum því spenntir fyrir Fönk í svörtum fötum en fannst svo að það myndi binda hendur okkar of mikið að hafa fönk í nafninu. Við ákváðum svo að hljóm- sveitin myndi heita … í svörtum föt- um, enda fannst okkur að það væri hægt að skeyta ýmsum orðum fram- an við.“ Þó snemma hafi mikið verið að gera við spilamennsku segist Jónsi oft hafa unnið með spilamennsk- unni. Hann hætti reyndar á leik- skólanum þegar hann söng í Carmen Negra, en síðan segist hann hafi unnið í gjaldeyrisdeild Landsbankans, í bókhaldinu hjá Landssímanum og hjá Anza, auk þess sem hann stundaði nám í við- skiptafræði við Háskólann 1998 til 2000, en það ár giftu þau Rósa sig. Stuttu seinna fæddist þeim son- urinn Trausti, í lok janúar 2001. Yndislegt áhugamál Jón Jósep Snæbjörnsson, Jónsi í Í svörtum fötum, er ótrúlegur orkubolti og einn vinsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar. Hann sagði Árna Matthíassyni að fjölskylda hans væri þungamiðjan í lífinu og hann gæti vel hugsað sér að vera ekki söngvari. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.