Morgunblaðið - 13.11.2003, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 13.11.2003, Blaðsíða 38
MINNINGAR 38 FIMMTUDAGUR 13. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ Árið 1980 keyptum við gamalt hús við Laufásveginn, sem byggt hafði verið um 100 árum áður í kál- garði Stöðlakots, sem var eitt af hjáleigum höfuðbólsins Reykjavík- ur. Annað hús, sem byggt var á gamla bæjarstæði Stöðlakots, fyrir ofan kálgarðinn, er Bókhlöðustígur 6b. Þessi tvö hús eru hluti núver- andi Stöðlakotstorfu, sem hefur þróast og vaxið þarna á löngum tíma. Þetta litla þorpslega hverfi í miðri höfuðborginni heillaði okkur og við ákváðum að flytja frá Sel- tjarnarnesi, með dætur okkar tvær á unglingsaldri og Labrador-hund og kött. Fljótlega varð okkur ljóst að mannlífið í þessu þorpi var ekki síður en umhverfið, fjölbreytilegt og heillandi. Við vorum ekki fyrr komin á staðinn en Stöðlakotshjónin á Bók- hlöðustíg 6b, Vilborg og Þorgeir, buðu í kaffi og vöflur og vinátta skapaðist á milli okkar sem var skilyrðislaus alveg frá upphafi, einnig vinátta sona þeirra og dætra okkar. Það var einhvernveginn ekkert eðlilegra en að eignast þarna allt í einu rótgróna vini í næsta húsi og reyndar alveg í stíl við umhverfið. En það var kötturinn okkar hún Branda, sem ekki sætti sig við flutninginn frá æskuslóðum sínum á Nesinu. Hún fylltist óöryggi í þessu nýja umhverfi og að auki var henni alls ekki vel tekið af fröken Júlíu, kettinum þeirra Þorgeirs og Vilborgar. Það var augljóst að kett- ir þessara húsa lifðu í allt öðrum heimi en við mannfólkið. Oft höfum við, í gegnum tíðina, setið yfir kaffibolla með okkar góðu grönnum, Vilborgu og Þorgeiri, og rætt viðburði líðandi stundar. Iðu- lega komum við af þeim fundum með nýja sýn á hin ýmsu mál. Greining Þorgeirs á mönnum og málefnum kom svo oft á óvart. Hann var óvenju hreinskiptinn og gat verið vægðarlaus. Hvort sem umfjöllunarefnið var siðrænt eða sjónrænt þá dró hann dulu yfir- borðsins frá og lýsti skoðun sinni á því sem undir bjó. Núna, þegar rúmlega 23 ár eru liðin frá því við komum í þetta nota- lega hverfi, hefur ýmislegt breyst í hinum ytra heimi íbúa húsanna tveggja á Stöðlakotstorfunni. Börn- in okkar löngu flutt að heiman, hundurinn og kettirnir okkar horfnir frá þessari tilveru, húsin hafa verið löguð og færð nær upp- haflegu útliti. Fyrir nokkrum árum réðumst við í heilmiklar framkvæmdir á lóðum okkar og milli húsanna og í fram- haldi af því stækkaði Þorgeir Les- húsið. Fyrir hafði verið lítill skúr á baklóðinni, þar sem Þorgeir vann við ritstörf. En það var ákveðið að stækka Leshúsið og í hönd fór skemmtilegur tími uppbyggingar og bjartsýni og ferðum milli húsanna fjölgaði á meðan á hug- myndavinnu og framkvæmdum stóð. Í fáein ár gat Þorgeir notið þess að vinna á þessum nýja vinnustað sínum, eða þar til heilsuleysið tók smátt og smátt að ná yfirhöndinni. Og nú er Þorgeir horfinn sjónum okkar, en minningin er ljóslifandi hér á Stöðlakotstorfunni; sérstakur persónuleikinn, leiftrandi hug- myndirnar, kaldhæðnin, glettnin, blíðan, vináttan og verkin hans í mynd og máli, nærvera hans. Borghildur og Vilhjálmur. ÞORGEIR ÞORGEIRSON ✝ Þorgeir Þorgeir-son fæddist í Hafnarfirði 30. apríl 1933. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtu- daginn 30. október síðastliðinn og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni 11. nóvember. Kynni mín af Þor- geiri Þorgeirsyni hóf- ust í Litlabíói sem hann rak um skeið við Hverfisgötuna á sjö- unda áratugnum. Þar sýndi hann bæði klass- ísk verk og nýjar myndir úr austri og vestri, sem útilokað var að kæmu í almenn kvikmyndahús. Hann stofnaði þá líka kvik- myndasafn í því skyni að slíkar myndir yrðu handbærar og að þar mætti varðveita heim- ildamyndir og aðrar merkar filmur sem ekki var skipulega haldið til haga. En allar voru þessar hug- myndir of góðar til að reynast framkvæmanlegar. Oft á listin erf- itt uppdráttar, og það því fremur sem hún er sannari og einlægari. Og á brýnna erindi. En áfram héldu þau Þorgeir og Vilborg að veita sýn inn í nálæga og fjarlæga afkima listrænnar tjáning- ar í máli og myndum. Á þessu skeiði samdi Þorgeir meðal annars óborganlega leikgerð sína eftir Glötuðum snillingum Heinesens og hið meistaralega framhaldsleikrit, Börn dauðans, fyrir útvarp og leik- stýrði hann báðum verkunum. Þarna sem og víða í ritum Þor- geirs var sannarlega góður efnivið- ur í kvikmyndir en að sjálfsögðu engir möguleikar á fjármögnun til slíks, sem er dapurlegt þegar litið er til hæfileika hans á því sviði. Framlag Þorgeirs sem rithöfundar, þýðanda, ljóðskálds og menningar- gagnrýnanda er mikið að gæðum og vöxtum. Réttlætiskennd hans og hæfni til að sundurgreina og sjá í gegnum blekkingar og bolabrögð var einstök í sinni röð, og ásamt stílsnilldinni hans aðalsmerki. Á heimili Þorgeirs og Vilborgar hefur ætíð ríkt hlýja, gestrisni og andleg auðlegð. Órofa trú þeirra á tilgang listarinnar og fegurðina í lífinu er dýrmætt að hafa kynnst og eignast hlutdeild í. Vilborgu og fjölskyldunni votta ég innilega samúð. Rödd Þorgeirs og verk munu lifa. Magnús Skúlason. Ég kynntist Þorgeiri Þorgeirsyni fyrst í Berlín 1960. Ekki höfðum við spjallað lengi saman þegar mér varð ljóst að fyndnari mann hafði ég ekki áður hitt. Bókstaflega allt varð honum tilefni til skops, stund- um góðlátlegs en oftar kerskni- blandins, jafnvel nokkuð meinlegs. Hann hafði í óvenjuríkum mæli til að bera það sem kallað er Wider- spruchsgeist á þýsku, mótsagnar- anda, þá gáfu að koma auga á þver- stæður, brotalamir, þar sem flestum sýnist allt slétt og fellt, var haldinn þeirri áráttu að draga í efa það sem sjálfsagt þykir og sjá á því óvænta og skoplega fleti. Dæmi um þetta frá þeirri tíð þegar hann átti í málaferlum við íslenska ríkið er stutt orðsending sem getur að líta aftan á kápu „deiluritsins“ Að gefnu tilefni. Ráðuneytismenn tveir kváðust í bréfi „ekki geta komið auga á réttmæti athugasemda“ Þorgeirs, en við þeim orðum þeirra brást hann svo: „Það er sorglegt að lesa. Fari svo ólíklega að ég lifi ein- hverntíma þann dag að þessu skondna máli verði lokið mun ég að sjálfsögðu afhenda skjalasafni Blindravinafélagsins þetta bréf yð- ar til varðveislu.“ Margir áttu erfitt með að þola Þorgeiri kersknina og þekktu hann varla að öðru, vissu ekki að hjálpfúsari maður og til- lögubetri var torfundinn. Þorgeir bjó yfir fjölbreyttum listrænum hæfileikum og hefur að ég hygg verið í nokkrum vafa um það lengi vel að hverju hann ætti að einbeita sér. Hann var góður teikn- ari og hafði glöggt myndskyn og óvenjulegt næmi á mál og stíl. Á sjötta áratugnum dvaldist hann í París um hríð. Fram kemur í bréf- um Sigfúsar Daðasonar sem þar var búsettur þá að hann lítur á Þor- geir fyrst og fremst sem upprenn- andi ljóðskáld sem mikils sé af að vænta. „Mikið er gaman að upp- götva allt í einu talent í öllu me- diocritetinu,“ skrifar hann í bréfi til Jóns Óskars um tvö ljóð Þorgeirs sem þá voru nýkomin í Birtingi (1/ 1956). Í París stundaði Þorgeir kvikmyndasafnið af kappi og sú listgrein tók hug hans allan um skeið. Hann menntaði sig í leik- stjórn heimildarmynda í Prag og fékkst við gerð þeirra í um áratug, við afar erfið skilyrði. En þar kom að hann helgaði sig skriftum, og var það vonum seinna því hæfileik- ar hans á því sviði voru miklir. Hann lagði stund á flestar greinar ritlistar og náði víða frábærum ár- angri, ekki síst í ljóðagerð og þýð- ingum að mínum dómi. Meðal skálda og rithöfunda sem hann tókst á við voru Lorca, Max Frisch, Heinesen, Miroslav Holub, Bohumil Hrabal. Ég er honum ekki síst þakklátur fyrir lítið æskuljóð eftir Bertolt Brecht, „Kvæði um drukknaða stúlku“, sem hann þýddi listavel. En af höfundum sem hann íslenskaði hygg ég að hann hafi haft einna mestar mætur á Kaz- antzakis hinum krítverska sem hann kynntist ungur, því mikla skáldi og einfara sem hafði að kjör- orði: Ég óttast ekkert, ég vona ekk- ert, ég er frjáls. Hann þýddi bók hans Alexis Sorbas tvívegis á ís- lensku, í seinna skiptið áður en hann las söguna í útvarp tæpum þrjátíu árum eftir að fyrri gerðin kom út á bók, og hafði fyrir sér þýðingar á ýmsum málum. Þegar ég var að glugga í nýgrísku á sínum tíma bar ég þýðingu hans ofurlítið saman við frumtexta og undraðist hversu vel honum hafði víða tekist að ná þeim sérstaka hugblæ sem Kazantzakis bjó bók sinni. Síðasta þýðing hans, gerð nú í sumar þegar kraftar hans voru að þrotum komn- ir, var síðan upphafið á sjálfsævi- sögu Kazantzakis, sem svo hljóðar: „Nú fer ég að taka saman amboðin mín: sjónina, þefskynið, snertiskyn- ið, smekkinn, heyrnina, skynsem- ina; nóttin dottin á, dagsverkinu lokið; eins og moldvarpan sný ég til moldarinnar þar sem ég á heima; ekki það að ég sé orðinn þreyttur – ég er óþreyttur – en sólin er bara sest.“ Þorgeir gaf út nokkur ljóðakver, og í bókina 70 ljóð sem kom út 1989 valdi hann ljóð frá þrjátíu ára tíma- bili. Þótt ljóðasafn hans sé ekki ýkja mikið að vöxtum var hann fjöl- hæft og frumlegt ljóðskáld sem hafði vald bæði á lausu ljóðformi og bundnu og kunni að binda fjarska ólíkan hugblæ í ljóð: gleði, trega, ugg, æðruleysi. Einnig átti hann til að vera flímskældinn og jafnvel níð- skældinn nokkuð og minnir þá stundum einna helst á Bólu-Hjálm- ar, en einnig má í eldri ljóðunum greina skyldleika við ljóðstíl franska skáldsins Jacques Prévert. Þorgeir var eitt af fáum skáldum á seinnihluta síðustu aldar sem iðk- uðu hið vandasama sonnettuform. Ein sonnettan heitir „haust“, og upphafslínur hennar rifjast upp nú þegar skáldið hefur kvatt: haustvindur með hæpið feigðartaut hefur nákalt þotið við minn glugg … Hér hefur aðeins verið staldrað við fáar vörður á löngum vegi. Þor- geir ólst upp í fátækt og bjó við lítil efni alla ævi. En hann var gæddur skörpum gáfum eins og verk hans vitna um. Og hann hafði til að bera það borgaralega hugrekki, þá rétt- sýni og þrautseigju sem dugði til að breyta réttarfari á Íslandi. Við sem kynntumst honum og eignuðumst vináttu hans getum með vissu sagt að líf okkar hefði verið til muna snauðara án þeirra kynna. Þorsteinn Þorsteinsson. Stuttu eftir komu mína til Ís- lands kynntist ég Þorgeiri. Við töl- uðum saman á frönsku um tékk- neska kvikmyndagerð, um Forman, Passer, Papaousek og fleiri og upp frá því vorum við góðir vinir. Þorgeir færði sig um 200 metra þegar hann flutti úr Vonarstræti á Bókhlöðustíg og ég innan við 100 metra í Grjótaþorpi þegar mér fannst ég geta orðið húseigandi eft- ir að Þorgeir hafði stigið skrefið. Við vorum báðir bíllausir menn en hittumst reglulega til að borða saman eða við rákumst hvor á ann- an úti á götu í þessari miðborg Reykjavíkur sem við fórum sjaldan út fyrir. Þorgeir var meistari minn, ég dáðist ákaft að þessum manni og hann kenndi mér ótal margt. Hann var ábyggilega líka í hlutverki freudíska föðurins þótt aðeins 15 ár skildu á milli okkar. Þegar ég efaðist um veru mína á Íslandi, var það hann sem kom mér, án þess að það væri mein- ingin, í snertingu við landið og kenndi mér að meta það. Þegar sjálfsánægja íslensks samfélags var að æra uppreisnarmanninn í mér náði Þorgeir með óvæginni gagn- rýni sinni og háskalegum hlátri að skilja fegurðina frá ljótleikanum. En Þorgeir var mér líka siðferði- legur áhrifavaldur. „Hvað finnst Þorgeiri?“ Maður lýgur ekki, hvorki að sjálfum sér né öðrum, maður er sjálfum sér samkvæmur, þorir að reiðast, hlær að öllu og öll- um án þess þó að gefast upp á mannkyninu. Þorgeir var fyndnasti Íslendingur sem ég hef kynnst. Hann átti ekki upp á pallborðið hjá hræsnurum en það var gagnkvæmt og mörgum fannst hann harður í horn að taka. En Þorgeir var mikið ljúfmenni og ég sem sé ekki ann- arra börn var undrandi að sjá hversu góður hann var við mín. Fyrir nokkrum árum áttum við frábæra viku saman í París, Þor- geir, Vilborg, María og ég. Við píndum Þorgeir að ganga umfram getu sína dag eftir dag, „ég var lát- inn ganga eina Keflavíkurgöngu á dag!“, mótmælti hann. Það var allt- af jafn örvandi að koma á Bók- hlöðustíginn og móttökur, hvort sem við gerðum boð á undan okkur eða ekki, rétt eins og í sveitinni ef sveitin væri ennþá sveit. Og alltaf fór ég af þeim fundi með nýjar hug- myndir því að Þorgeir hugsaði aldrei eins og ég hugsaði að Þor- geir hugsaði. Nú skrifa ég þessar línur í blað sem Þorgeiri líkaði ekki og vildi ekki vera áskrifandi að. Og hann er kvaddur frá stofnun sem ég heyrði hann aldrei lof- syngja. Ennþá er þolanlegt að heyra í mönnum eins og – segjum – Hall- dóri Ásgrímssyni í útvarpinu af því að ég hef í minni orð sem vinur minn lét falla með sínum snjalla of- urhúmor um þennan pólitíkus. En hvernig verður þegar rödd Þor- geirs og hlátur hljóma ekki lengur? Þorgeir var einstakur. Enginn mun taka við en samt langar mig til að hrópa: að einn, tveir, þrír Þor- geirar rísi! Í þessu fordekraða landi, sem hann kenndi mér að þykja vænt um, vantar Þorgeir. Gérard Lemarquis. Allir eiga sér stað sem þeir eru frá og kenna sig við. Stað sem fylgir þeim jafnvel ævilangt í vöku og draumi. Hver var staður Þorgeirs Þor- geirsonar? Hann fæddist í Hafn- arfirði, kom kornabarn með móður sinni til Siglufjarðar og ólst þar upp. Fluttist aftur suður á ungum aldri. Hann vann nokkur sumur í síldarbræðslunni á Raufarhöfn, nam kvikmyndalist í Prag og starf- aði í París og varð sem heimamaður í Færeyjum. Og þegar hann lang- förull átti kost á starfi í Hollywood eftir að kvikmynd hans Maður og verksmiðja hlaut verðlaun á kvik- myndahátíð í Edinborg 1968 þá tók hann Reykjavík fram yfir drauma- verksmiðjuna. Reykjavík varð síð- an heimabær hans til æviloka. Þorgeir dvaldi í afa- og ömmu- húsi á Siglufirði í bernsku. Afinn, Kristján Kristjánsson, díxilmaður á síldarplönum og frægur hagyrðing- ur, átti ást dóttursonar síns og var honum fyrirmynd. Hnyttnar vísur hans flugu víða og hann stóð uppi í hárinu á yfirvaldi og höfðingja staðarins. Svo var það hann Chapl- in. Sýndur á snjóskafli í hríðar- muggu eins og segir frá í Kvunn- dagsfólki. Þarna var grunnur lagður. Þorgeir var einn af sonum þessa staðar. Það fundum við stoltir í hjarta okkar – heimamenn – þegar við fórum að fylgjast með Þorgeiri sem kvikmyndagerðarmanni og rit- höfundi. Hann kom og las fyrir okkur úr Kvunndagsfólki og stað- festi þannig tengslin við bernsku- slóðirnar. Maður og verksmiðja varð eins og opinberun fyrir þann sem þreyð hafði langar og hávaða- samar vaktir í síldarbræðslu. Og áfram héldu kynnin; Róður, Yfir- valdið, hinn töfrandi færeyski heimur Heinesens og fréttir af kempu okkar í réttarsölum allt suð- ur til Strassborgar. Áratugum eftir fyrstu kynnin af Þorgeiri leiddi löngu horfin síldin okkur saman. Og minningin um síldarævintýri fólks okkar skapaði vináttu og traust okkar á milli. Þorgeir sýndi þá rausn að gefa mynd sína Mann og verksmiðju til sýningar í síldarbræðslusafninu Gránu. Þar er hún eins og altaris- tafla í musteri vélmenningarinnar. Í sumar var hvíta tjaldið í Gránu vígt með sýningu þessa meistara- verks. Þar komu fjölmargir vinir Þorgeirs saman og heiðruðu lista- manninn aldna með glæsilegri dag- skrá. Það leyndi sér ekki að Þor- geir var glaður með húskveðjuna sem hann kallaði svo. Í erindi sínu sagði Þorgeir meðal annars: ,,Alheimsvæðingin er gott orð til að gjálfra með. En ekki verð ég borgari hins stóra heims nema vera fyrst Evrópumaður og ekki verð ég Evrópumaður nema vera fyrst Íslendingur og ekki verð ég Íslendingur nema að vera fyrst Siglfirðingur.“ Fyrsta og síðasta reisa hans í þessum heimi var til Siglufjarðar, þar steig hann sín fyrstu spor og þar var litið yfir farinn veg að sjö- tíu árum liðnum. Við fráfall Þorgeirs Þorgeirsonar eru þakkir og kveðjur sendar að norðan. Vilborgu og nánustu ætt- ingjum og vinum Þorgeirs votta ég samúð mína. Örlygur Kristfinnsson. Heiðursfélagi Félags kvik- myndagerðarmanna, Þorgeir Þor- geirson, er fallinn frá. Þorgeir lærði kvikmyndagerð í Tékkóslóv- akíu og starfaði sjálfstætt sem kvikmyndagerðarmaður á Íslandi frá 1962 til 1972. Eins og títt er um kvikmyndagerðarmenn þurfti Þor- geir að búa sín verkefni til sjálfur, bæði fjármögnun þeirra og vinnslu. Um þetta starf sagði Þorgeir síðar: „Ekki man ég til þess, að kvik- myndagerð mín færi fram á neinu ímynduðu hugsjónaplani heldur var hún öll í veruleikanum. Fólst í því að rísa á fætur morgun hvern og vinna fram á kvöld við það að rífa upp fjármagn til kvikmyndagerðar og útvega frambærileg nútímatæki til þeirra verka, sem fjármagn afl- aðist til. Þvílík störf útheimtu fyrst og fremst raunsæi, enda hefur mér aldrei verið mikið um slepjulegar hugsjónir gefið, hvorki í þessum efnum né öðrum. Hugsjónir leiða bara til munnræpu.“ Nokkurt hóf var á skilningi samtímans á gildi þeirra verka sem Þorgeir vildi vinna að, sem voru raunsannar en ljóðrænar heimildarmyndir um ís- lenskt alþýðufólk að störfum. Þessi takmarkaði skilningur gerði það að verkum að eftir Þorgeir liggja ekki mörg verk. Það er mikill skaði að við skyldum ekki bera gæfu til að virkja krafta hans og hæfileika í meira mæli, því það sem eftir hann liggur er með því allra besta sem gert hefur verið á þessu sviði á Ís- landi. Við værum ríkari þjóð í dag ef við ættum fleiri verk í ætt við Mann og verksmiðju og Róður. Þorgeir var einn af stofnendum Félags kvikmyndagerðarmanna ár- ið 1966. Síðar sagði hann svo frá stofnfundinum að þar hefðu verið, auk sín, nokkrir starfsmenn Sjón- varpsins sem þá var verið að ýta úr vör. Hefði hann átt litla samleið með öðrum fundarmönnum þar sem hann var eini sjálfstætt starf- andi kvikmyndagerðarmaðurinn og
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.