Morgunblaðið - 16.11.2003, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 16.11.2003, Blaðsíða 12
12 | 16.11.2003 I nni í gamla Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu, þar sem áður hjörðu útlifaðar skrif- stofukompur, súlubúllur og öldurhús, hefur verið byggt nýtt hús. Það heitir 101 Hótel, áreiðanlega það flottasta í landinu, enda sérhannað af eiganda sín- um. Á haustmorgni er þar kyrrð og friður eftir góða sumarumferð af túristum. Fátt truflar listfengið og alúðina í umhverfinu, þar sem tekst hið sjaldgæfa: Að blanda saman nútímalegu og sígildu án þess þau fari í slag. Ég er að virða fyrir mér snjalla og fallega veggmynd, sem er hálf inni í matsalnum og hálf utanhúss þegar höfundur henn- ar Lilja Pálmadóttir mætir. Við það hækkar orkustigið á svæðinu umtalsvert. „Hún heitir Klak,“ segir Lilja um snjóhvíta veggmyndina, „og það sem gaf mér innblástur var ástand mitt: Ég var bæði ólétt og lúsug. Smitaðist af dóttur minni.“ Lilja er ekki að grínast þótt hún brosi breitt. „Mitt í hryllingnum,“ heldur hún áfram, „þegar ég var grálúsug að kemba hár dóttur minnar fór ég að rannsaka fyrirbærið. Og þegar maður horfir fordómalaust sést að nitin er óskaplega fallegt sporöskjulaga form og límir sig á eitt einasta hár. Það var því margt að klekjast út, bæði inni í mér og utan á mér. Þetta varð mér að yrkisefni, en svo öðlast verkið sjálfstætt líf þegar það er komið upp og núna finnst mér það hafa margvíslegar skírskot- anir, t.d. í landslag eða þúfur undir snjó. Sumir karlmenn vilja gjarnan sjá brjóst út úr þessu og áfram mætti telja.“ Og þegar ég gái betur að er innblásturinn á hótelveggnum augljós: Hann er eins og ófrískur, – að springa út af nýju lífi hér og þar. Enn hækkar orkustigið á 101 Hótel. Eig- andi þess, hönnuður og hótelstjóri, systir listamannsins, Ingibjörg Pálmadóttir, er komin. Þær eru gangandi orkubú, þessar systur. Krafturinn frá þeim er nánast áþreifanlegur og leitar einatt út í hlátri og kátínu. Það eru sex ár á milli þeirra, en ekkert annað; þær eru nánar og samstilltar eins og bestu vinkonur og oftar en ekki sammála. Samtals eiga þær fullt af börnum. Myndlistarmaðurinn, Lilja, tæplega 36 ára, á tvo syni, Pálma Kormák 3 ára og Storm Jón Kormák eins árs, með eig- inmanni sínum Baltasar Kormáki, eina tíu ára dóttur þar fyrir utan, Stellu Rín, og tvö stjúpbörn, Baltasar Breka 14 ára og Ingi- björgu Sóllilju 7 ára. Innanhúsarkítektinn, Ingibjörg, 42 ára, á þrjú, Sigurð Pálma 22 ára, Júlíönnu Sól 14 ára og Melkorku Katr- ínu 8 ára. En í rauninni líkjast þær Lilja og Ingibjörg fremur tvítugum stúlkum við upp- haf ferðar en lífsreyndum konum á miðri leið. Hvíld frá hversdagsleikanum Þegar við erum sest í svítu hótelsins, sem er svo frjálslega hönnuð að unnt er að stíga uppúr rúminu beint ofaní baðkarið og öfugt, spyr ég Ingibjörgu hvers vegna hana hafi langað til að eiga, hanna og byggja nýtt lúx- ushótel inni í gömlu niðurníddu húsi. „Ætli þetta sé ekki búið að blunda í mér síðan um miðjan 9. áratuginn,“ svarar hún. „Þá sá ég í fyrsta skipti svona öðruvísi hótel, sem uppá ensku er kallað „design hotel“. Þetta var á námsárunum í New York. Þá upplifði ég þessa sérstöku stemningu á hóteli sem er sambland af bar, veitingastað og stað til að gista á, hóteli sem „inspírerar“ þig með hönnun og sköpunargleði og fyllir þig löngun. Síðan var það fyrir sex árum að ég ákvað að þetta væri það sem ég vildi gera í Reykjavík, sérstaklega í ljósi þess að ekkert hótel er hérna í þessum dúr. Ég hef andað að mér, þefað og þreifað hótel allar götur frá því ég sá Royalton í New York. Farið út um allt að skoða hótel og upplifa. Það þarf að hugsa um hvert einasta smáatriði, frá dýnum og rúmfötum ofaní niðurföll og fugur. Guð er í smáat- riðunum. Ég hef hannað hótelið út frá því að vera neytandi vegna þess að hann er það mikilvægasta á hótelinu. Ef manni tekst að skapa umhverfi þar sem fólki líður vel og dreymir getur það gefið þér hvíld frá hversdagsleikanum og þú hverfur inní annan heim sem gefur þér andartak til að skapa á þinn hátt. Ég var alltaf ákveðin í að hafa á hótelinu íslensk nútímalistaverk. Það gefur umhverfinu miklu meiri dýpt og vekur áhuga erlendu gestanna, því þeir eru jú komnir til að heimsækja okkur og kynnast. Og ekki síst vekur þetta áhuga Íslendinganna sem koma á hótelið. Mér finnst ofboðslega gaman að blanda þessu saman, ekki síst ef það vekur athygli á íslenskri samtímalist.“ Hún heldur áfram: „Þegar ég hafði svo ákveðið hvers konar hótel ég vildi byggja fór ég að líta í kringum mig eftir byggingu í miðbænum því hér átti hótelið að vera og hvergi annars staðar. Miðbærinn er hjartað í Reykjavík og mun blómstra á ný þótt það taki nokk- ur ár.“ Þær systur eru báðar miðbæjarkonur; Lilja býr og hefur vinnustofu sína í Miðstræti og Ingibjörg hefur sína vinnustofu steinsnar frá hótelinu við Hverfisgötuna og býr á Sól- eyjargötu. Sem börn bjuggu þær í Smáíbúðahverfinu. „Miðbærinn var því þessi framandi og spennandi heimur sem við fluttum í um leið og við höfðum getu til. Og hér vildi ég hafa hótelið,“ segir Ingibjörg. Lilja: „Mamma sagði stundum við mig þegar við vorum að spá í Miðstrætið: Ætlarðu að kaupa þennan timburhjall og húsgarm? Í sjálfu sér skiljanleg afstaða með hliðsjón af fortíðinni, þeim harðindum sem fólk ólst upp við í kreppunni og tengdi gjarnan gömlum timburhúsum.“ Þær svara því neitandi hvort borgaryfirvöld í Reykjavík geri nóg til að snúa vörn mið- bæjarins í sókn. Að vísu verði þróuninni ekki snúið við með einni ákvörðun á stofn- analegum grunni. „En það er hlutverk borgarinnar að gera það aðlaðandi fyrir ein- staklingsframtakið að koma hingað með starfsemi eins og t.d. hótelrekstur,“ segir Lilja. „Þá kemur fólk með hugmyndir því enginn skortur er á slíku fólki.“ Ingibjörg: „Að endurbyggja 70 ára gamalt hús og breyta í hótel er mikil framkvæmd og tók tvö ár í staðinn fyrir eitt, sem ég hafði gert ráð fyrir í óraunsæju bjartsýniskasti. Það er mjög mikilvægt að borgin styðji við bakið á framkvæmdaaðilum sem vilja efla miðbæinn og sýni í verki áhuga á að þeir geri það. Stundum þurfa t.d. aðrar reglur að gilda en víðast annars staðar þegar verið er að athafna sig með stórar framkvæmdir í þessum þröngu, litlu götum.“ Lilja: „Borgin á að skapa frjóan jarðveg sem einkaaðilar geta síðan gróðursett í og ræktað falleg blóm.“ Ingibjörg segist ánægð með gengi nýja hótelsins og viðtökur. Hún telur ekki gest- ina endilega af ríkari kantinum enda sé gistingin ódýr miðað við sambærileg hótel erlendis; margir þeirra séu skapandi fólk og listafólk af ýmsu tagi, ekki síður en kaupsýslumenn. „Þetta er náttúrulega í anda kjörorðs föður okkar þegar hann aug- lýsti Hagkaup: Kaupið góða vöru ódýrt.“ En sjálf byggingin reyndist dýr. Fékk hún ekki örugglega fjölskylduafslátt hjá systur sinni þegar hún keypti af henni Klak á vegginn? „Jú, ég gaf henni mjög góðan fjölskyldu- afslátt,“ hlær Lilja. Ingibjörg: „Húsið var bara fokhelt og eins og götóttur ostur þannig að möguleik- arnir voru margir og opnir. Ég fann hrein- lega til með Lilju að þurfa að glíma við þennan erfiða vegg. Og mér finnst útkom- an eins góð og hugsast getur.“ Lilja: „Klak varð til eins og ég lýsti áðan og svo aðlagar maður hugmyndina um- hverfinu. Auk þess hafði ég tilfinningu fyr- ir því sem Ingibjörg vill; við höfum ekki mjög ólíkan smekk þótt hvor hafi algjör- lega sín einkenni.“ „Þegar ég var að hanna hótelið lenti maður oft í krísum og þá fannst mér gott að hitta Lilju á Gráa kettinum og fá hana til að krítísera mig og kasta boltanum á milli,“ segir Ingibjörg. „Hún hefur alltaf gefið mér góð og skýr viðbrögð við því sem ég er að hugsa og gera. Það er lífsnauðsynlegt að geta talað við einhvern sem skilur mann en hefur samt sjálfstæðar skoðanir.“ „Sama gildir um það sem ég er að fást við í myndlistinni,“ tekur Lilja við. „Ég hef alltaf getað átt frjóar samræður við Ingibjörgu um það, en þó á annan hátt. Mín vinna er í eðli sínu svo einræn að það er hreinlega erfitt að tala um hana.“ Myndir fyrir veggi og tjöld Lilja hefur sérhæft sig í gerð veggmynda og lærði þá listgrein sérstaklega í Barcelona eftir almennt myndlistarnám í New York. En þar að auki rekur hún ásamt Baltasar fyr- irtækið Sögn ehf. sem framleiðir kvikmyndir, nú síðast Stormy Weather og Dís, og setur upp leiksýningar, nú síðast Erling. Hún segir að þau móti starfsemina saman, lesi hand- ritin, ákveði verkefnin og pæli mikið saman í hlutverkaskipan, en Baltasar sjái um fram- leiðsluna dag frá degi, geri samningana og nái í fjármagn, auk þess að leikstýra eigin myndum. „Það er útbreiddur misskilningur að ég sé að fjármagna verkefnin,“ bætir hún við. Eru þau alltaf sammála. „Neinei,“ svarar Lilja. „Alls ekki,“ skýtur Ingibjörg inní og skellir uppúr við tilhugsunina. „Það er svakalegt að vera nálægt þegar þau Balti verða ósammála!“ Lilja: „Við verðum stundum ósammála en þegar það gerist erum við mjög ósammála! Oft hefur Baltasar þá síðasta orðið.“ LILJA „Í LISTGREINUNUM ER EKKI SPURT UM KYN EÐA UPPRUNA. EN KARLMENN ERU BÚNIR AÐ MERKJA SÉR ÞETTA HORN VIÐSKIPTA OG VALDA. ÞEIM FINNST FREKAR HJÁKÁTLEGT ÞEGAR KOMA ÞANGAÐ EIN- HVERJAR STELPUR OG VILJA VERA MEÐ.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.