Morgunblaðið - 16.11.2003, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 16.11.2003, Blaðsíða 25
Þ að er sennilega horft miklu meira á Davíð Mar Guð-mundsson í líkamsræktarstöðinni World Class, enalla sjónvarpsskjána í salnum. Hann flýgur um átveimur hækjum, í síðum svörtum buxum, ljósbláum Nike-bol, löðursveittur og lyftir rösklegar en margt vöðvabúntið. „Ertu fótbrotinn?“ er hann gjarna spurður, þegar menn spyrja hann um daginn og veginn og hækjurnar. „Nei, ég er bara lamaður vinstra megin,“ svarar Davíð Mar. Davíð man reyndar ekkert hvað gerðist annan í páskum fyrir um þremur árum. Hann datt á skíðum í Bláfjöllum og tveir dagar fyrir og eftir slysið eru þurrkaðir úr minni hans. Þegar hann rankaði við sér á Borgarspítalanum kom í ljós að hann var lamaður vinstra meg- in. Nú æfir hann tvisvar á dag, sex sinnum í viku, tvo tíma í senn. Á einu ári hefur Davíð breyst úr 90 kílóa feitlögnum og fremur óham- ingjusömum einstaklingi í hjólastól, í 75 kílóa vel skorinn og stæltan karlmann. „Mér er sagt að ég hafi lent í grjóti og kastast upp í loft- ið,“ segir Davíð Mar. „Ég kom víst öfugur niður, lenti á öxlinni og hálsinum. Það kom í ljós höfuðáverki vinstra megin með skertri heilastarfsemi og sköddun á hálsmænu vinstra megin, á móts við annan hálshryggjarlið, svo ég vitni nákvæmlega í skýrslu læknisins.“ Davíð Mar útskrifaðist af Grensásdeildinni eftir árs endurhæf- ingu. Hann var í hjólastól og gat helst ekki notað hækjurnar. „Ég var sekkur, það er óhætt að segja það. Ég var svo slappur allur og gat ekkert.“ Í stuttu máli þá kunni Davíð því afar illa að sitja í stólnum og gera ekki neitt. Hann ákvað þess vegna að fara í ræktina, eins og það heitir. Hann æfði einn í World Class í tvær vikur og gekk hörmulega. Þar kom að Hermann Páll einkaþjálfari kom til hans og spurði hreinskilnislega hvort hann þyrfti ekki á hjálp að halda. Jú takk, svaraði Davíð Mar, sem búið var að úrskurða 75% öryrkja. „Hann var hreint ekki vel á sig kominn,“ segir Hermann. „Sjáðu hann núna,“ bætir hann við og bendir á Davíð, sem hefur aldrei ver- ið í betra formi á ævinni. „Ég er vanur að vinna með öryrkja og fólk sem hefur lent í slysum. Ég sagði honum að við gætum unnið út frá því sem hann gæti gert og það er heilmikið. Ég fékk svo Pétur Örn sjúkraþjálfara í lið með okkur ásamt mörgum fleirum og án þeirra hjálpar væri þessi mikla þjálfun útilokuð.“ Davíð er með spelku á vinstra úlnlið til að halda honum tein- réttum. Stundum notar hann líka spelku á vinstri fótinn, til að halda honum beinum. Þá getur hann gengið næstum hækjulaus. Þegar Davíð byrjaði að æfa gat hann rétt lyft 3 kílóum með vinstri hendi. Nú lyftir hann 34 kílóum í hvorri hendi við brjóstæfingar og 125 kílóum í hnébeygju, á einum fæti. Hann var í vetur leið í viðskipta- fræðinámi við Háskóla Íslands. Hann hætti því og ákvað að fjárfesta alfarið í eigin heilsu um stundarsakir. Svo langar hann frekar að ljúka námi í húsamálun við Iðnskólann. „Mér finnst ég vera hálfnaður að því markmiði sem ég setti mér,“ segir Davíð. „Þegar ég fór að æfa tvisvar á dag fór ég fyrst að sjá árangur. Ég fór að vera nokkuð stöðugur á hækjunum og mark- miðið er að sleppa þeim algerlega, æfa golf og fara aftur á skíði. Ég er farinn að ganga heima hjá mér með spelku um vinstri fótinn, styð mig við stóla og borð, og úthaldið er mjög gott.“ „Hann er stundum of duglegur,“ segir Hermann. „Ég hef þurft að reka hann heim af æfingu, hundveikan. En þetta gengur ótrúlega og verkirnir sem hann þarf að þola í vinstri hendinni, við hverja ein- ustu lyftu, eru eitthvað sem fengi fullhraustan mann til að hætta æf- ingum alveg.“ „Ég er með stöðugan verk á stóru svæði yfir herða- blað og öxl og niður í litla fingur og baugfingur,“ bætir Davíð við. „Hann lýsir sér þannig að það er eins og ég liggi með hendina á eldavélarhellu allan daginn. Læknarnir segja reyndar að það sé betra að hafa verki, það bendi til þess að taugarnar séu ef til að vaxa.“ Það sem er ef til vill verra en verkirnir er sjálfsvorkunnin. Það hlýtur að hafa sett að þér nettan hroll og vonleysi, þegar þú varst úr- skurðaður 75% öryrki? „Vissulega. En þegar mér var sagt þetta var ég einfaldlega ákveð- inn í að ná mér. Ég lít á mig sem ósköp venjulegan mann með ögr- andi verkefni að kljást við. Ég er svo skelfilega þrjóskur.“ „Já, það ertu,“ bætir Hermann við hlæjandi. „Sem betur fer kannski.“ Davíð er 25 ára og býr við Sléttuveg í Reykjavík ásamt Thelmu systur sinni og páfagauknum Dolla. „Ég er oft svo þreyttur þegar ég kem heim eftir seinni æfingu dagsins að ég sofna í sófanum. En þeg- ar ég vakna upp næsta dag, þá kemur ekki annað til greina en að fara á fætur og á æfingu,“ segir Davíð Mar, sem er upprisinn, í orðs- ins fyllstu merkingu. Nike-ljóðlínan: „Just do it“ er eins og samin handa honum. ÉG VAR SEKKUR Í HJÓLASTÓL Davíð Mar man ekki hvað gerðist tvo daga fyrir og eftir slysið ‚Mér finnst ég vera hálfnaður að því markmiði sem ég setti mér‘ L jó sm yn di r: G ol li Eftir Þorstein J. 16.11.2003 | 25

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.