Morgunblaðið - 24.11.2003, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 24.11.2003, Blaðsíða 23
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 24. NÓVEMBER 2003 23 gaddfreðinn orðinn og átti ég erfitt um gang í hrímbrynjunni. Öðru sinni fórum við frá Hafragili í Laxárdal upp á Bjarnarfell í níu stunda göngu að hausti og fórum um yndisfagurt landslag í sólskini og með gott skyggni yfir í Húnaþing og Strandir. Yfir rjúkandi kaffi á fjöllum uppi var gjarnan talað um lífið og tilveruna og hve margt væri til að hafa yndi af, „ganga væri holl hugsun“. Nokkrum dögum síðar fékk hann hjartaáfall. Það þótti mér sárt. Eftir það hittumst við oft og stundum dag- lega er hann rak lögmannsskrifstofu á Sauðárkróki áður en hann flutti suður. Nú fyrir nokkrum dögum bankaði Þorbjörn á skrifstofudyrnar hjá mér, var glaðvær að venju og ræddi hann um að við skyldum setja okkur að hittast oftar þrátt fyrir að hvor byggi í sínum landshluta. Ekki hvarflaði að mér að það væri hinsta sinni við hittumst. Þorbjörn hafði oft meðbyr, en mótbyr á stundum meir en meðalmaður. Hann reyndist mér sannur vinur og þegar mér er hugs- að til hans, eftir nær aldarfjórðungs kynni, sé ég bláan himin og rjúkandi kaffi af brúsa á fjöllum. Nú blaktir fáni við hálfa stöng við Fjölbrauta- skóla Norðurlands vestra. Blessuð sé minning Þorbjörns og líkn þeim sem lifa. Jón Friðberg Hjartarson. Elsku Þorbjörn, okkur langar að minnast þín með örfáum orðum á kveðjustundu. Þú varst búinn að stríða við alvarleg veikindi og hefði andlátsfregn þín ekki átt að koma okkur á óvart. Engu að síður er dauðinn ávallt köld staðreynd sem erfitt er að sætta sig við og sorgin mikil. Upp í hugann streyma ótal minningar en við vorum svo lánsöm að fá að kynnast þér og verða vinir þínir og hversu duglegur þú varst, traustur og raungóður. Við huggum okkur með því og trúum því að góður guð hafi nú tekið á móti þér og linað þjáningar þínar og vitum að við mun- um hittast einhverstaðar aftur, en á meðan varðveitum við minningu þína í hjarta okkar. Við þökkum allar samverustund- irnar sem við áttum og viljum votta elskulegri vinkonu okkar Birnu, börnum hans og öllum ástvinum samúð á þessari stundu. Megi góður guð gefa ykkur huggun og styrk í sorg ykkar. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta, þá sælt er að vita af því. Þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti, þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfin úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sig.) Ósk og Guðmundur, Ása og Örn. Okkur langar að minnast góðs vin- ar sem kvaddi þennan heim langt fyrir aldur fram og við áttum með allt of stuttan en góðan og lærdóms- ríkan tíma. Við sendum þessar ljóð- línur eftir Jón Trausta og biðjum honum góðrar ferðar til þess staðar sem hann er nú kvaddur til. Þig faðmi liðinn friður guðs, og fái verðug laun þitt góða hjarta, glaða lund og göfugmennska í raun. Vér kveðjum þig með þungri sorg, og þessi liðnu ár með ótal stundum ljóss og lífs oss lýsa gegnum tár. Guð blessi þig! Þú blóm fékkst grætt, og bjart um nafn þitt er. Og vertu um eilífð ætíð sæll! Vér aldrei gleymum þér. Elsku Birnu, börnum, tengda- börnum, afabörnum og ástvinum öll- um sendum við okkar dýpstu samúð og biðjum Guð og alla himinsins engla að vaka yfir ykkur og vernda í ykkar mikla missi. Hlín Eyrún Sveinsdóttir, Sigþór Hólm Þórarinsson. Þetta hafa verið þungir dagar. Hún Helga vinkona mín er búin að missa pabba sinn. Mann sem ég hef þekkt frá því ég var barn. Bjössi hef- ur fengist við margt um dagana. Hann var mikill íþróttamaður, gam- all sundkappi, spilaði bridge, veiddi lax, og hafði gaman af allri útiveru. Hann var héraðsdómslögmaður, varaformaður LHS og hefur starfað í ótal nefndum og ráðum. En fyrst og fremst var Bjössi fjölskyldumaður. Hann var alltaf brosandi, alltaf glað- ur og kátur, og ég get ekki munað eftir honum öðruvísi. Hann var líka svo hlýr og um- hyggjusamur. Hann hafði ótrúlegan sjarma. Árið 2001 vann ég í fyrirtæki Birnu, seinni konu hans. Auk mín og Birnu voru þarna þrjár konur, og sátum við allar tengdar við síma eða tölvur. Skrifstofa Bjössa var í sama húsnæði og þegar hann kom til vinnu á morgnana byrjaði hann alltaf á því að koma inn til okkar og bjóða góð- ann daginn. Mér er það svo minn- isstætt þegar hann gengur inn og segir „hæ, stelpur“ (að sjálfsögðu með töfrandi brosi). Og það hafði alltaf tilætluð áhrif. Þessar virðulegu frúr (þ.á m. ég) ljómuðu allar við að sjá hann og skríktu eins og unglings- stelpur. Hann hafði svo einstakt lag á því að töfra fólk. Ég á líka margar minningar af honum standandi við grillið í Háuhlíðinni að grilla ... jú, auðvitað, svínarif. Það var mikið grillað af svínarifjum á þessum tíma (a.m.k. í minningunni). Við stelpurn- ar hittumst iðulega í Háuhlíðinni áð- ur en við fórum út að skemmta okk- ur. Þá sátum við oftast inn í stofu, hlustuðum á plötur og fengum okkur í glas. Þá kom Bjössi iðulega inn til okkar til að spjalla og sagði svo „hvaða sull eru þið að drekka, stelp- ur mínar, ég skal gefa ykkur eitthvað almennilegt“ svo skenkti hann okkur góðu rauðvíni í glas. Hann sýndi því alltaf áhuga hvað við vinkonur Helgu vorum að fást við, hvernig væri í skólanum, vinnunni og síðar hvernig börnin okkar hefðu það. Hann hafði yndi af því að bjóða með sér hvort sem það voru svínarif, rauðvín eða eitthvað annað. Ég byrj- aði þessa grein á því að telja upp eitt- hvað af því sem hann Bjössi hefur fengist við og ég ætla að enda á ann- ars konar upptalningu. Þorbjörn Árnason var stór og myndarlegur maður. Alltaf bros- andi, alltaf hress og kátur. Hann hafði ótrúlegan sjarma, var hlýr og notalegur og með stórt, stórt fallegt hjarta. Elsku Helga mín, Árni, Atli og Birna, megi góður guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg. Ingibjörg Rósa. Menntaskólinn og síðan einhver ár, tíminn líður hratt og, Bjössi, fyrir viku ertu farinn. Þegar ég hugsa til- baka þá sakna ég þess að tíminn var ekki meiri sem við gátum glaðst. 12 –12 var vettvangur sem við báðir sóttum ásamt okkar bekkjarfélög- um. Það verður ekki frá þér tekið að þú sýndir ekki annað en gleði í þeim hóp þrátt fyrir að hafa verið reynsl- unni ríkari eftir að hafa fengið heift- arlegt hjartaáfall fyrir nokkrum ár- um. Þú hélst áfram eins og ekkert hefði gerst vitandi af þessum veik- leika í líkama þínum. Alltaf brosandi og hress í lund. Eftir menntaskóla lágu leiðir okkar ekki saman í fjölda ára, en samt var það þannig að þegar við hittumst af tilviljun þá varð til skemmtilegur tími. Rekur mig minni til þess er ég var að sinna viðskipta- hagsmunum mínum, að við hittumst á Skagaströnd. Þá höfðum við bekkj- arfélagarnir ekki sést í fleiri ár en þá fann maður til vinskapar og heilinda þinna. Síðan verð ég þeirrar ánægju njótandi að kynnast syni þínum, Árna, á öðrum vettvangi sem end- urspeglar svo marga kosti þína, Bjössi, gangi þér vel hvar sem þú ert. Þakka þér fyrir þær ánægju- stundir sem við bekkjarfélagarnir áttum síðastliðin ár. Það er jú þannig að fátt er ánægjulegra en að eiga góða vini. Lifðu heill í þínu nýja lífi. Þinn bekkjarfélagi, Ingvar. Kveðja frá skagfirsku sjálfstæðisfólki Þorbjörn Árnason var glæsilegur ungur maður, sem þegar á námsár- um sínum skipaði sér undir merki Sjálfstæðisflokksins. Að loknu háskólaprófi í lögfræði, árið 1974, sneri hann heim á Sauð- árkrók til starfa, og þá þegar lét hann til sín taka í sveitarstjórnar- málum. Þorbjörn varð oddviti sjálf- stæðismanna, og átti sæti í bæjar- stjórn þrjú kjörtímabil, alls tólf ár, þar af átta ár sem forseti bæjar- stjórnar. Þorbjörn var vinsæll maður og virtur bæði af samherjum sem and- stæðingum, enda átti hann flestum öðrum auðveldara með að finna þann flöt á viðkvæmum ágreiningsmálum, sem allir máttu við una, og undir hans forystu var mörgum stórum framfaramálum stýrt farsællega í höfn. Á þessum árum var einnig veruleg fólksfjölgun á Sauðárkróki, flest árin langt umfram landsmeðaltal, og því í mörg horn að líta varðandi stjórnun sveitarfélagsins, og starf þeirra sem til forystu völdust oftar en ekki unn- ið utan venjulegs vinnutíma og lítt launað. Auk þessa hlóðust á Þorbjörn ým- is önnur trúnaðarstörf, og átti hann sæti í flestum nefndum og ráðum á vegum flokksins í kjördæminu. Með- al annars var hann lengi formaður þeirrar nefndar sem fór með fram- boðsmál Sjálfstæðisflokksins í hinu gamla kjördæmi Norðurlandi vestra, en þar sem annars staðar nýttust vel hæfileikar hans til að leiða til far- sælla lykta erfið og flókin vandamál. Eftir að Þorbjörn fluttist til Reykjavíkur varð hann varaformað- ur Landssambands hjartasjúklinga og einnig sat hann í stjórn SÍBS. Hvar sem Þorbjörn Árnason lagði hönd á plóg munaði um það. Við leiðarlok eru öllum aðstand- endum Þorbjörns Árnasonar sendar innilegar samúðarkveðjur. Drottinn blessi minningu hans. F.h. sjálfstæðismanna á Sauðár- króki og í Skagafirði, Björn Björnsson. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem.) Við kveðjum okkar kæra vin, Þorbjörn Árnason, með söknuði og virðingu og þökkum ævilanga vináttu og tryggð. Minningarnar um góðan dreng, geymum við. Við vottum elskulegri fjöl- skyldu hans okkar dýpstu samúð og biðjum góðan Guð að styrkja þau í sorginni. Gunnar, Sólrún, Guðbjörg, Kristín, Gunnar Andri, Guðjón Baldur. Allt of snemma er fallinn frá frændi minn og vinur; Þorbjörn Árnason. Sannarlega sakna ég hans og alls þess sem við áttum eftir að gera saman. Ótal minn- ingar um skemmtilegan og lífs- glaðan félaga lifa og halda merki hans á loft. Hann var jafnan hrókur alls fagnaðar í frænda- og vinahópi, enda hafði hann forystuhæfileika á mörgum sviðum. Hann var glæsimenni og góðum gáfum gæddur, en hæst ber þó í minn- ingunni að hann var góður maður. Við, fjölskyldan á Geitaskarði, sendum öllum ástvinum þessa trygga vinar míns og frænda, ein- lægar saknaðar- og samúðar- kveðjur. Blessuð sé minning Þorbjörns frænda míns. Ágúst Sigurðsson. HINSTA KVEÐJA ✝ Louise ErnaThorarensen fæddist í Reykjavík 9. febrúar 1929. Hún lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 16. nóvem- ber síðastliðinn. For- eldrar hennar voru Henrik Thorarensen, f. 13.október l902, d. 15. maí 1978, skrif- stofustjóri í Útvegs- banka Íslands, og Ey- þóra Ásgrímsdóttir, f. 18. mars 1905, d. 28. ágúst l982, hús- móðir. Systkini Louise voru: 1) Hulda, f. 8. september l933, d. 10. apríl l977, maki Gunnlaugur Þór- arinsson, látinn. Þeirra synir eru Henrik og Þór. 2) Hannes, f. 11. nóvember l941, d. 30. október l967, maki Inga Bryde, þeirra son- ur er Henrik Eyþór. Louise útskrifaðist frá Verslun- arskóla Íslands l947 og hóf þá störf í Út- vegsbanka Íslands og vann þar til 1953 er hún fluttist til Chicago í Bandaríkj- unum. Í Chicago starfaði hún fyrst hjá heild- sölufyrirtæki sem seldi skartgripi eða þangað til hún hóf störf hjá Loftleiðum í desember 1961, þegar þeir opnuðu söluskrifstofu í Chic- ago. Hjá Loftleiðum og síðan Flugleiðum í Chicago vann Louise til ársins 1980 er söluskrifstofan þar var lögð nið- ur. Þá flutti hún til Íslands og vann hjá Flugleiðum til starfsloka 1999. Hún var ógift og barnlaus. Útför Louise Ernu verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Þegar við kveðjum kæra vinkonu okkar, Louise Ernu Thorarensen, eftir rúmlega 40 ára vináttu er margt sem leitar á hugann. Í lok sjötta áratugar síðustu aldar fórum við til starfa sem ungir hjúkrunar- fræðingar á spítala í Chicago. Í borginni bjó þá góður hópur Íslend- inga og Erna var einn af þeim. Á þessum tíma voru það miklu meiri viðbrigði en nú er að flytjast á milli landa og aðlagast breyttum að- stæðum. Þá kom sér vel að geta leit- að til þessara landa okkar sem vildu allt fyrir okkur gera. Fljótlega tók- ust með okkur og Ernu náin kynni, enda hafði hún þá manngerð að geyma sem flestir sækjast eftir að fá að kynnast og vera í návist við. Hún var heillandi persónuleiki með góð- an húmor og létta lund. Hún var hláturmild og hafði einstaklega góða nærveru. Óhætt er að segja að hún hafi verið vinsæl meðal samferða- manna sinna og um hana væri sagt á enskri tungu: „Everybody loved her.“ Á Chicago-árunum var hún leiðtogi okkar og við litum á hana sem stóru systur. Hún gaf mikið af sér, var umhyggjusöm, kenndi okk- ur að njóta lífsins og hvatti okkur til dáða. Erna var sannkallaður heims- borgari og Bandaríkin skipuðu stór- an sess í lífi hennar. Þar leið henni alltaf vel, enda bjó hún þar í 27 ár. Vinskapur okkar hefur varað alla tíð síðan og nú sjáum við á eftir kærri vinkonu sem skilur eftir sig minn- ingar um ókomna tíð. Við viljum kveðja hana með með ljóði Huldu, „Til vinstúlkna“: Þau fljúga, dagur og friðsæl nótt, í framtíðar þrotlausa geima, hið liðna blikar sem blástjarnaher, að baki komandi heima. Þær hrapa margar í húm og nótt, en hinar sem kvöldstjörnur skína, þín endurminning er ein af þeim, sem aldrei mun ljómanum týna. Því allt, sem er bundið við yndi vor, og æskunnar svifléttu drauma, það leiðir fram stjörnublik ljós við hvert spor, sem leiftra um framtíðarstrauma. Guð blessi minningu Ernu. Vigdís Magnúsdóttir og Bjarney Tryggvadóttir. Í dag kveðjum við hinstu kveðju góða vinkonu okkar og samstarfs- mann Ernu Thor, oft kölluð E.T. Þegar litið er til baka er margs að minnast bæði í vinnu og á skemmti- legum stundum. Erna var þeim hæfileika gædd að hafa einstaklega góða kímnigáfu og var hrókur alls fagnaðar og einlægur vinur vina sinna. Erna var heimsborgari af guðs náð, hún hafði verið verið búsett í Bandaríkjunum til margra ára sem starfsmaður Loftleiða og benti okk- ur á ýmsa ameríska siði eins og til dæmis þann að ganga aldrei í ljósum skóm fyrir páska enda alltaf vel til- höfð sjálf, í rósóttum kjól og vellykt- andi. Erna þekkti vinnu sína vel og var dugleg að miðla þeirri þekkingu áfram til okkar sem unnum með henni, enda hafsjór af fróðleik, hvort sem um var að ræða landa- fræði eða flugmílur. Þegar Erna hætti störfum eftir tæplega 37 ára starf hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum var hún ákveð- in í því að leggjast í ferðalög eins og hún nefndi það en skjótt skipast veður í lofti og þessi ósk hennar varð ekki að veruleika vegna veik- inda. Fyrrum samstarfsfólk hennar hjá Fjarsölu Icelandair kveður hana og sendir aðstandendum samúðar- kveðjur. Guð blessi minningu Ernu. Samstarfskonur allra tíma hjá Fjarsölu Icelandair. LOUISE ERNA THORARENSEN MORGUNBLAÐIÐ birtir afmælis- og minningargreinar endur- gjaldslaust alla daga vikunnar. Greinunum má skila í tölvupósti (net- fangið er minning@mbl.is - svar er sent sjálfvirkt um leið og grein hefur borist) eða á disklingi og þarf útprentun þá að fylgja. Nauð- synlegt er að tilgreina símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnu- síma og heimasíma). Tekið er á móti afmælis- og minningargreinum á 1. hæð í húsi Morgunblaðsins, Kringlunni 1 í Reykjavík, og á skrif- stofu Morgunblaðsins Kaupvangsstræti 1 á Akureyri. Ekki er tekið við handskrifuðum greinum. Minningargreinum þarf að fylgja formáli með upplýsingum um hvar og hvenær sá sem fjallað er um er fæddur, hvar og hvenær dá- inn, um foreldra hans, systkini, maka og börn og loks hvaðan útförin verður gerð og klukkan hvað. Ef birta á minningargrein á útfarardegi verður hún að berast fyrir hádegi tveimur virkum dögum fyrr. Ef útför er á sunnudegi, mánu- degi eða þriðjudegi þurfa greinarnar að berast fyrir hádegi á föstu- degi. Berist greinar hins vegar ekki innan hins tiltekna skilafrests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar sem pláss er tak- markað getur þurft að fresta birtingu greina, enda þótt þær berist á réttum tíma. Birting afmælis- og minningargreina

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.