Morgunblaðið - 09.12.2003, Blaðsíða 7

Morgunblaðið - 09.12.2003, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 9. DESEMBER 2003 B 7 BÆKUR HIÐ íslenska fornritafélag hefur sent frá sér nýtt og margradda bindi með ýmsum sögum og kaflabrotum frá miðöldum sem segja frá kristniboði við lok 10. aldar, kristnitöku árið 1000 og fyrsta Hólabiskupnum, Jóni Ögmund- arsyni – sem er jafnframt með fyrstu Jónum á Norðurlöndum og lést í góðri elli 69 ára gamall á dögum Calixti páfa 2. og Noregskonunganna Eysteins og Sigurðar, það er í biskupstíð Þor- láks Runólfssonar í Skálholti. Í ljósi þeirra miklu hátíðarhalda sem hér voru um nýliðin árþúsundamót vegna þúsund ára afmælis opinberrar kristni í landinu er ástæða til að ætla að þessum textum verði tekið af töluverðum áhuga. Sérstaklega geta lesend- ur lagt sig eftir að fylgjast með hvernig elstu frásagnir í Íslendingabók Ara fróða frá 1122- 1132 voru blásnar út og auknar eftir því sem rithöfundar stungu oftar niður fjöðurstaf um þetta efni í Kristnisögu um miðbik 13. aldar og í ýmsum þáttum Flateyjarbókar undir lok 14. aldar þar sem þættir um kristnitöku á Íslandi eru felldir inn í sögu Ólafs konungs Tryggva- sonar – auk ýmissa millistiga. Við þessi sívax- andi ritstörf hafa skapandi höfundar ausið af munnlegri hefð samtíðarinnar á hverjum tíma og stuðst við ýmsa glataða (í merkingunni „týnda“) texta og jafnvel sameiginlegar glat- aðar heimildir glataðra texta sem útgefendur glíma við af mikilli íþrótt í lærðum formálum sínum. Sú ákvörðun ritstjórnar að safna í þetta bindi öllum textum um sama efni býður sér- staklega upp á slíka samanburðarveislu og gef- ur lesendum óvenju góða innsýn í þá lifandi frá- sagnarhefð sem fóstraði og ræktaði minningar um þessa umbrotatíma í samfélaginu. Útgefendur textanna, Sigurgeir Steingríms- son (Kristni saga), Ólafur Halldórsson (ýmsir þættir um kristniboð og kristnitöku) og Peter Foote (Jóns saga ins helga) hafa allir legið yfir þessum verkum um langt skeið, Ólafur og Pét- ur nánast alla sína starfs- og eftirlaunaævi, og því er lesendum ekki boðið upp á afrakstur neinna skyndikynna af textunum í formálum og skýringargreinum. Segja má að hver fróðleiks- moli neðanmáls sé gulls ígildi og beri ótrúlegri natni og rækilegum rannsóknum vitni þar sem ást á hverjum stafkrók allra varðveittra hand- rita blasir við í hverju orði. Almennur skemmtilestur Sjálfir textarnir eru síðan einstæður gluggi aftur til fortíðar og hægur vandi að hafa mikla ánægju af lestri þeirra um leið og við getum glaðst yfir því að þrátt fyrir allt hefur opinberri umræðu aðeins þokað fram á við. Til dæmis myndum við ekki taka á móti boðberum Evr- ópusambands með sama hætti og landsmenn tóku við kristniboði þeirra Friðreks biskups og Þorvalds með því að láta yrkja níð og segja boð- bera hins nýja siðar eiga börn saman. Eins þætti okkur ótækt að fulltrúar kirkjunnar tækju sér Þangbrand, síðar kristniboða á Ís- landi, til fyrirmyndar en þegar hann hefur þeg- ið silfur fyrir að gefa Ólafi konungi skjöld með krossi og Kristsmynd og Ólafur síðan látið skí- rast á Írlandi fer Þangbrandur og „kaupir mey eina írska ok fagra með silfrinu“. (14-15) Þá er þáttur Flateyjarbókar um Þiðranda og dísirnar einstakur vitnisburður um óræðar og mjög fornar hugmyndir úr heiðni eins og Ólafur Halldórsson leyfir sér að vera með vangaveltur um í formála. Jóns saga ins helga má heita nær samfelld skemmtilesning með hinum einstöku og hvers- dagslegu lýsingum á daglegu amstri fólks í jar- teinasögunum sem eru til vitnis um mátt hans. Uppeldi hans hefur verið dýrlegt því hann fær barn að aldri að fara til útlanda með foreldrum sínum og situr þá til borðs með Ástríði drottn- ingu og Sveini konungi í Danmörku. Hann er svo eitthvað handóður við borðið og móðir hans er stressuð að reyna að siða hann til með því að slá á hendur hans en drottning grípur inn í með þessum orðum: „Eigi svá, eigi svá, Þorgerðr mín. Ljóstu eigi á hendr þessar, því at þetta eru byskups hendr.“ (179) Jón vann sér það síðar til frægðar að breyta nöfnum vikudaganna, að númera þá eins og nú tíðkast í stað þess að kenna þá við hina fornu guði eins og enn er gert í nágrannalöndum okkar. Lýsingin á baráttu Jóns fyrir siðbót fólksins er löngu klassísk. Þegar búið er að lýsa þeim sið að kveðast á klám- og ástarvísum og algjöru banni Jóns við slíkum kveðskap kemur þetta: „Þó fekk hann því eigi með öllu af komit.“ (211) Eins er í sögu hans óborganleg frásögn af áhugasviði hins unga Klængs í Hólaskóla, síðar Skálholtsbisk- ups, sem les latínurit með kvæðum sem eru lík- leg til að ala á „líkamligri munúð ok rangri ást“ (212) og kemur ekki á óvart að Jón skuli banna honum það sérstaklega. Þá ættu margir að kætast yfir því að lesa að „hreinferðug jungfrú“ er Ingunn hét var sérlega vel að sér í latínu- fræðum, kenndi „grammaticam“ og leiðrétti latínubækur munnlega á meðan hún bróderaði myndir úr heilagra manna sögum. Fræðilegar skylduæfingar Í fyrri hluta bindisins eru formálar útgef- enda ásamt inngangsorðum ritstjórans Jónas- ar Kristjánssonar og yfirliti Ásdísar Egilsdótt- ur þar sem hún vekur athygli á bókmenntalegum einkennum miðaldasagna um biskupa og helga menn og dregur þannig réttilega nokkuð úr þeirri áráttu að lesa þær sem heimildir um raunverulega atburði. Guð- rún Ása Grímsdóttir rekur sögu kristni í norð- urálfu og kemur á óvart að hún virðist ekki gera ráð fyrir að um trúarbrögð hafi verið að ræða heldur miklu fremur einhvers konar valdapólitík ráðamanna sem hafi talið hag sín- um best komið með því að þrengja upp á lýðinn sögum af „helgum mönnum með píslarvættis- svip í skipulögðu rými“ í stað þess að láta hann una við sögur af ofurhugum „með syngjandi sverð í frjálsum leik“. (xxxii) Andstæðurnar eru erlent vald sem höfðingjar nýttu sér gegn íslenskri alþýðu sem gerði það til að bjarga náttúrunni og koma í veg fyrir ofbeit á afrétt- um að fela kirkjum „til varðveislu afrétti“ og jafnvel hvers kyns hlunnindi önnur í trausti þess að þannig yrði öllu réttlátlega skipt og „þeir nytu sem þörfnuðust“ (li). Óneitanlega frumleg kenning og verður fróðlegt að fylgjast með viðtökum hennar. Eftir þessi þrískiptu og nokkuð sundurleitu aðfararorð taka formálar útgefenda við. Fróð- leiksfús lesandi má eiga von á því að undrast nokkuð að þar er fremur lítið fjallað um hina útgefnu texta en þeim mun meira um glataða frumtexta, glataðar heimildir þeirra og þegar best lætur glataðar heimildir glataðra heim- ilda. Þessari áherslu á frumgerðir mætti líkja við það að rannsóknir á verkum Halldórs Lax- ness einskorðuðust við bækur í stíl við Rætur Íslandsklukkunnar, sannarlega ágæta rann- sókn en nokkuð takmarkaða við heimildir og aðföng skáldsins. Ánægjuleg frávik frá þessu eru hugvitsamleg túlkun Sigurgeirs á táknmáli Kristni sögu, umfjöllun Ólafs um dísirnar og Þiðranda og ýmsar athugasemdir Péturs um ólíkar áherslur í hinum ólíku gerðum Jóns sögu – sem varpa ljósi á ætlun þeirra sem um text- ana véluðu eins og þegar sagt er um Jón í yngri gerðum sögu hans, til viðbótar við að hann hafi átt tvær konur en börn með hvorugri: „né nökkurri konu annarri ... ok er þat margra manna ætlan at hann hafi með hvárigri lík- amliga flekkazk“ (191). Í framhaldi af því vekur það nokkra furðu að við útgáfu Jóns sögu hafi verið farin sú leið að „ganga frá einum sam- felldum valtexta“ (cccxix) og fela textamun neðan- og aftanmáls í stað þess að búa les- endum greiða leið að hinum ólíku gerðum sem hver um sig býður upp á ólíkar leiðir við túlkun. Slíkur lestur miðaldatexta hefur um nokkurt skeið verið talinn eftirsóknarverður í fræðun- um og æ minni áhersla hefur verið lögð á elt- ingleikinn við hina glötuðu frumtexta – sem hefur verið líkt við leitina að landinu fagra í æv- intýrakenndum sögum og getur þegar verst lætur snúist um texta sem hafa aldrei verið til enda þótt sumir fræðimenn hafi verið fúsir að trúa meira á þá en þær munnlegu sögur sem hafa sannarlega gengið af þeim mönnum og at- burðum sem hér er frá sagt. Þrátt fyrir þessa hugmynda- og aðferða- fræðilegu vankanta, sem eru byggðir inn í út- gáfuhefð Íslenskra fornrita þannig að útgef- endum er nauðugur einn kostur að setja sig í þessar stellingar, líkt og í skylduæfingum á gólfi í fimleikum fræðanna, er gríðarlegur ávinningur að því að fá að njóta afraksturs langrar glímu hinna þriggja útgefenda við sög- urnar. Þeir hafa velt við öllum steinum sem á vegi þeirra hafa orðið og lesendur geta sann- arlega gælt við sjálfa sig um leið og þeir smjatta á þeim fróðleiksmolum sem hér eru matreiddir neðanmáls og á víð og dreif í for- málunum. Sá fróðleikur hefur ekki verið dreg- inn saman áður og löng bið er á að nokkrir aðrir verði svo slyngir í þessum textum að þar verði miklu aukið við. Sögur um frumkristni FORNRIT Biskupa sögur i Íslensk fornrit 15 Ritstjóri: Jónas Kristjánsson Hið íslenska fornritafélag 2003. Morgunblaðið/Þorkell Ritstjórar Biskupa sagna og stjórn Fornritafélagsins ásamt þremur íslenskum biskupum og fjár- málaráðherra í hófi sem efnt var til í Ráðherrabústaðnum í tilefni af útkomu ritsins í haust. Gísli Sigurðsson MARGT má um Sverri Her- mannsson segja og margt hefur verið um hann sagt um dagana, en aldrei að hann væri huglaus og þaðan af síð- ur leiðinlegur. Þessi bók ber þessum eiginleikum hans að mörgu leyti gott vitni. Hún er að hluta til mikil skammaræða um þá sem Sverrir tel- ur hafa gert á hlut sinn, einkum hin síðari ár, að nokkru leyti endurminn- ingar úr pólitíkinni og í bókarlok eru nokkrar tækifærisræður, sem Sverr- ir hefur flutt við ýmis tilefni. Þær þóttu mér satt að segja besti hluti bókarinnar, einkum þó ræðan sem hann flutti í stúdentsafmæli norður á Akureyri 16. júní 1991. Þar fær húm- orinn að njóta sín. Varla þarf að kynna Sverri Her- mannsson fyrir lesendum þessa blaðs, en rétt að minna á, að hann á að baki langan og merkan feril sem alþingismaður, ráðherra og banka- stjóri. Í öllum þeim störfum sópaði að honum og margt gerði hann vel. Á þessum árum var hann einnig stöð- ugt í sviðsljósinu og fáir bankastjórar munu á þeim tíma hafa tjáð sig jafn mikið í fjölmiðlum og Sverrir. Þess- um þætti ævistarfsins lauk er hann og aðrir bankastjórar Landsbankans voru neyddir til að segja af sér vorið 1998 vegna þess sem þá var kallað „Landsbankamálið“. Sverrir undi þeim málalokum illa, sneri aftur í pólitíkina og stofnaði Frjálslynda flokkinn, sem fékk tvo menn kjörna í alþing- iskosningunum árið eftir. Þar var snöfur- mannlega að verki verið og má segja, að þar hafi Sverrir náð aftur vopnum sínum. Sverrir undi mála- lokum í „Landsbankamálinu“ illa og sneri í hvassyrtum greinum í Morg- unblaðinu spjótum sínum gegn þeim, er hann taldi hafa brotið á sér. Mun marga enn reka minni til þeirra greinaskrifa. Í þessari bók tekur Sverrir aftur upp þráðinn og gerir upp sakir við þá sem hann segir hafa ráðið för af hálfu stjórnvalda í „Landsbankamálinu“. Er sú saga öll harla ljótur lestur og margur mað- urinn fær þar harða eyrnafíkjuna. Síðan heldur Sverrir áfram, stiklar á stóru í pólitískri sögu sinni og greinir þar ekki síst frá því er hann telur sig hafa ráðið úrslitum um að Davíð Oddsson var kosinn formaður Sjálf- stæðisflokksins á sínum tíma. Undir niðri virðist hann vera heldur stoltur af framgöngu sinni í því máli og þeim mun sárara er honum, að hann telur Davíð hafa komið í bak sér í „Landsbankamál- inu“. Síðasti hluti bókar- innar, að tækisfærisræð- unum undanskildum, fjallar um stofnun Frjálslynda flokksins og sitthvað af þeim vett- vangi. Þess var getið í upp- hafi þessa máls, að Sverrir Her- mannsson hefur aldrei haft orð á sér fyrir að vera leiðinlegur maður, þvert á móti. Frásögnin í þessari bók, sem Pálmi Jónasson hefur skráð, ber mörg þau merki sem einkennt hafa blaðagreinar Sverris og ræður. Hann sparar hvergi stóru orðin eða orða- leppana, en segir mönnum miskunn- arlaust til syndanna, höggur á báðar hendur, blóðugur upp að öxlum rétt eins og í Olísmálinu á fyrstu dögum sínum í Landsbankanum. Oft er gaman að lesa frásögn Sverris, hann kemst víða vel að orði, en heldur verður nú reiðilesturinn langdreginn og þreytandi og palladómarnir um einstaka menn ekki síður. Rétt er að taka skýrt fram, að sá sem þessar línur ritar hefur engar forsendur til að dæma um hvað er rétt eða rangt í málflutningi Sverris Hermannssonar eða dómum hans um einstaka samferðamenn. Ég þekki þá fæsta nema af afspurn, en get þó staðfest að Haraldur Bessason er ágætis maður. Hvað „Lands- bankamálið“ varðar get ég engan veginn andmælt því að Sverrir hafi þar farið að „reglum“ og venjum varðandi laxveiðar og annað „kruð- erí“ snertir og ekki get ég með nokkrum hætti borið brigður á þær fullyrðingar hans, að hann hafi þar ekki verið verri en aðrir. Á þessum tíma var bankinn hins vegar ríkisfyr- irtæki, verslaði með almannafé og þegar upp er staðið hlýtur að skipta mestu hvort allur þessi fjáraustur í að skemmta fullorðnum mönnum sem höfðu mest gaman af að sulla í pollum hafi verið réttlætanlegur. Við þeirri spurningu gefst ekki svar í þessari bók. Varnarræða Vestfirðings Sverrir Hermannsson ENDURMINNINGAR Sverrir – Skuldaskil PÁLMI JÓNASSON Útgefandi: Almenna bókafélagið, Reykja- vík 2003. 211 bls., myndir. Jón Þ. Þór Átta gata Buick er eftir Stephen King. Þýtt hefur Helgi Már Barða- son. Ríkislög- reglumennirnir í sveit D í dreifbýli Pennsylv- aníufylkis hafa átt sér leynd- armál, falið í skúr B að baki lög- reglustöðinni, alveg frá 1979 þegar Ennis Rafferty og Curtis Wilcox hlýddu útkalli frá bensínstöð á sveitaveginum og sneru aftur með yfirgefinn Buick Roadmaster. Haustið 2001, fáeinum mán- uðum eftir að Curtis lést í hræði- legu bílslysi, tók átján ára sonur hans, Ned, að venja komur sínar á lögreglustöðina. Dag nokkurn varð piltinum litið í skúr B og uppgötvaði leyndardóminn. Ned krafðist svara, líkt og faðir hans og Buickinn fer að bæra á sér, ekki einungis í huga hinna reyndu lögregluþjóna sem sátu með honum – heldur líka í skúr B ... Stephen King er löngu kunnur sem meistari spennusagnanna og mörg verka hans hafa áður verið þýdd á íslensku. King dvelst á víxl í Maine og Flórída og á þjóðvegunum þar á milli. Útgefandi er Iðunn. Bókin er 372 síður og prentuð í Prentsmiðjuni Odda hf. Verð: 4.690 kr. Spenna

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.