Morgunblaðið - 09.12.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 09.12.2003, Blaðsíða 8
8 B ÞRIÐJUDAGUR 9. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR RITHÖFUNDAR landsins keppast nú við að kynna bækur sínar með upplestrum við góðan róm. Þetta setur skemmtilegan svip á vikurnar fyrir jól þar sem bókmenntir eru í aðalhlutverki og helsta umræðuefni manna á milli eru nýútkomnar bæk- ur. Í fyrri viku lásu þeir Hallgrímur Helgason, Reynir Traustason og Úlfar Þórmóðsson úr bókum sínum Herra Alheimur, Linda og Hrapandi jörð í Iðnó og Guðrún Sigfúsdóttir las úr bókinni Dætur Kína eftir Sinr- an. Á sunnudagskvöldið efndi Hrók- urinn til skemmtikvölds í Hlaðvarp- anum þar sem átta skáldkonur og kvenrithöfundar komu fram og lásu úr verkum sínum.Vigdís Grímsdóttir las úr skáldsögunni Þegar stjarna hrapar, Linda Vilhjálmsdóttir úr skáldævisögunni Lygasaga, Unnur Þóra Jökulsdóttir úr barnabókinni Eyjadís, Hlín Agnarsdóttir úr minn- ingabókinni Að láta lífið rætast, Rúna Tetzschner úr ljóðabókinni Ljóð til engils, Elín Pálmadóttir úr minningabókinni Eins og ég man það, Kristín Helga Gunnarsdóttir úr barnabókinni Strandanornir og El- ísabet Jökulsdóttir úr ljóðabókinni Vængjahurðin. Morgunblaðið/Jim SmartGuðrún Sigfúsdóttir, Hallgrímur Helgason, Reynir Traustason og Úlfar Þormóðsson. Morgunblaðið/ÓmarElísabet Jökulsdóttir les úr Vængjahurðinni í Hlaðvarpanum. Höfund- ar á ferð og flugi AÐ baki daganna inniheldur tvær ljóðabækur eftir Pétur Gunn- arsson. Sú fyrri nefnist Splunku- nýr dagur og kom út árið 1973 og er löngu uppseld og hin síðari hef- ur sama titil, Að baki daganna, en undirtitillinn er: Ljóð og textar (1974–2001). Það var orðið löngu tímabært að gefa Splunkunýjan dag út aftur, það leikur um þá bók ferskur andblær og hún ber með sér þá gerjun sem átti sér stað á Vesturlöndum á tímum stúdenta- uppreisna og almenns andófs gegn heimsvaldastefnu og stríðsrekstri stórveldanna. Pétur gerir skemmtilega grein fyrir útgáfusögu Splunknýs dags í formála bókarinnar. Ljóðin eru ort á tímabilinu 1968–1971 en skáldið unga kom heim sumarið1969, eftir ársdvöl í Provence, með handrit að ljóðabók sem það nefndi undan miðjum himni og sendi Almenna bókafélaginu það til útgáfu. Sá sem las yfir handritið var enginn annar en borgarskáldið góðkunna, Tómas Guðmundsson, og eitt af því sem hann hnaut um var ljóðið „landsýn“. Skáldið kemur með skipi og virðir fyrir sér landið rísa úr hafi en þá koma þessar línur: „þetta er einsog stór kúkur/segir háseti sem kemur upp á dekk“. Það var ekki nema von að Tóm- asi brygði í brún yfir jafn strákslegri líkingu sem dregur ættjörðina niður í svaðið, þó svo hún sé ættuð úr munni sjómanns. Kynslóð Péturs, hin svokallaða ’68-kynslóð, vílaði ekki fyrir sér að afhelga ýmis gildi sem alda- mótakynslóðinni þótti óhugsandi að gera. Sem dæmi má nefna hið kunna ljóð Steins Steinars (sem reyndar var ekki þekktur að neinum tepruskap) sem einnig ber nafnið „Landsýn“. En þar er komist mjög skáldlega að orði um Ísland: „Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá“. Þetta dæmi sýnir svo ekki verður um villst hversu mikil þáttaskil urðu í ljóðagerðinni og menningunni um og eftir 1970. Svo aftur sé vikið að útgáfusög- unni þá varð niðurstaðan sú að ekkert varð af útgáfu hjá AB en Pétur hélt áfram að yrkja og sendi Sigfúsi Daðasyni handrit að nýrri bók í ársbyrjun 1972 og Splunku- nýr dagur leit dagsins ljós ári síð- ar. Það var ekki lítil upphefð að fá bók útgefna hjá virtu forlagi og ekki spillti fyrir að eitt helsta skáld landsins gaf hana út refja- laust. Splunkunýr dagur er efnismikil bók og mjög fjölbreytt. Yrkisefnin eru margvísleg og efnistökin líka, Pétur yrkir um veruleik nútíma- mannsins, um gildiskreppu hans og oft nöturlegt líf hins firrta borgarbúa. En þrátt fyrir vissa svartsýni, og gagn- rýna afstöðu til margra mála sem þá voru í deiglunni eins og kvenréttinda og umhverfisverndar, má líka finna bjartari tóna sem lúta að skáldskap hversdags- ins og því að finna ævintýrið í lífinu eða eins og skáldið kemst svo vel að orði á ein- um stað „lífið er stór- kostlegasta furðan!“. Það er samt varla hægt að segja að heildarsvipur Splunkunýs dags sé sterkur og stafar það líklega af því að ljóða- bókin er svo margradda þannig að mörg sjónarmið fá að njóta sín og það er auðvitað jafnframt styrkur hennar og veikleiki í senn. Skáldið er eins og svampur sem sýgur í sig áhrif héðan og þaðan. Hugsunin er vífeðm, opin, alþjóðleg og heim- spekileg. Í seinni bókinni Að baki dag- anna er rödd skáldsins miklu sterkari og persónulegri eins og vonlegt er. Skáldið lýsir þeirri óviðjafnanlegu reynslu þegar það verður faðir og alvara lífsins tekur við. Ljóðmálið verður knappara en miklu markvissara fyrir bragðið, sem dæmi má taka ljóð II, V: Ákaft leita ég að ævintýrum en öllu snjóar niður reglubundið. Í meðförum tímans verða feiknin hversdagsleg. Hversdagurinn feikn. Fallegt er sömuleiðis ljóðið „Í rjóðri skógar um nótt“, þar hittir knappt en skáldlegt myndmál í mark. Eins og áður hefur komið fram er einnig að finna texta í Að baki daganna, eins konar prósaljóð sem einnig eru sögð vera vasabókar- skrif. Eftirminnilegur er V hluti sem ber nafnið „Mamma“ þar sem dregin er upp nærgætin mynd af móður skáldsins sem lést af slys- förum árið 1989. Pétur sannar hér enn einu sinni hæfni sína í að segja mikið í fáum orðum, það er drjúgt sem rúmast milli línanna í þessum smátextum hans. Það er ljúf og manneskjuleg mynd sem Pétur dregur upp í Að baki daganna. Hann er athugull og hugmyndaríkur, stundum gaman- samur og stundum alvarlegur. Það er merkilegt hversu vel ljóðin fara með vasabókarskrifum hans sem ekki eru alltaf sérlega ljóðræn, en Pétur kann þá list að draga upp í fáum en skörpum dráttum áhuga- verðar myndir úr hversdagsleik- anum. Auðvitað flýtur ýmislegt með sem ekki virðist vera nema í meðallagi skáldlegt en getur þó verið áhugavert út af fyrir sig. Að öllu samanlögðu er fengur að þess- ari nýju bók. Hún inniheldur bæði ófáanleg æskuljóð Péturs sem mörkuðu á vissan hátt tímamót í ljóðagerðinni og ljóð hins full- þroska yfirvegaða skálds. Því mið- ur fann ritdómari þrjár prentvillur í fyrri ljóðabókinni og er það óneitanlega til lýta í jafn viðkvæm- um texta sem ljóð eru. Skáld hversdagsleikans LJÓÐ Að baki daganna Mál og menning. Reykjavík 2003, 206 bls. PÉTUR GUNNARSSON Guðbjörn Sigurmundsson Pétur Gunnarsson FORMENN dómnefndanna tveggja sem völdu bækurnar tíu á listann fyrir Íslensku bókmennta- verðlaunin báru sig mannalega í Kastljósinu í síðustu viku, þrátt fyrir að hafa þurft að lesa á fjórða tug bóka hvor á jafn- mörgum dögum. Það er svosem hægt að hugsa sér margt verra en lesa eina bók á dag og hvað sem öðru líður er þetta „þægileg innivinna“ eins og einhver sagði. Einhvern veginn læðist þó að manni sá grunur að allur þessi lestur verði hálf grautarlegur ekki síst þegar um vandlega unn- in bókmennta- og fræðiverk er að ræða; verk sem höfundar hafa legið yfir mánuðum og árum saman og verðskulda hugsanlega talsverða yfirlegu og umhugsun af lesandanum. Sumir eru þó fljótari en aðrir að greina hismið frá kjarnanum og þurfa ekki meira en dagpart til að sjá hvort bók er einhverra fiska virði. Slík- ir snillingar veljast oft í dóm- nefndir. Þó þykir manni sem áherslan sem útgefendur leggja á hraða afgreiðslu tilnefninga til bók- menntaverðlaunanna bera keim af sölumennsku; engu er líkara en tilnefningarnar verði að vera tilbúnar tímanlega fyrir jólin svo hægt sé að auglýsa hinar til- nefndu bækur í tvær eða þrjár vikur áður en botninn dettur úr bóksölunni að kvöldi Þorláks- messu. Bók sem ekki selst fyrir jól á ekki mikla framtíðarmögu- leika í sölu. Vandaðar bók- menntir seljast þó jafnt og þétt og finna sér stöðugt nýja les- endur enda eru þær ekki í flokki hinna dæmigerðu „jólabóka.“ Það er hinsvegar þekkt staðreynd að „játningabókin“ í ár lifir yfirleitt ekki fram að næstu jólum. Kannski er það bara eins gott því hvernig færi fyrir þeim sem þurfa að „gráta í ár“ ef þeir þyrftu að óttast samkeppni grát- bóka frá síðustu jólum. Bækur af þessu taginu eru þó oftast fjarri tilnefningum til bókmenntaverð- launa. Bókmenntaverðlaun að vori Það er reyndar í hæsta máta ósanngjarnt að væna útgefendur um lágkúru og að þeir hugsi ekki um annað en sölutölur. Útgef- endur hljóta að mega fá eitthvað fyrir sinn snúð. Margar bókanna sem út koma bera góðum bók- menntaskilningi, menningarlegri framsýni og smekkvísi gott vitni. Þær eru einmitt lagðar fram til Bókmenntaverðlaunanna. En hvers vegna þær eru ofurseldar „jólamaníunni“ og settar í hrað- lestrarkeppni dómnefndanna er ofar mínum skilningi. Það liggur ekkert á þegar góðar bækur eru annars vegar. Hvers vegna þessa áherslu á að keyra tilnefning- arnar í gegn þegar bækurnar eru varla komnar í gegnum prentvél- arnar og sumar alls ekki; hvers eiga þær bækur að gjalda sem komust ekki að í prentröðinni fyrr en viku af desember. Útgef- endur passa kannski bara upp á þetta því þeir tilnefna bækur af eigin útgáfulista sem til greina koma. Það er hægt að skilja þetta á ýmsa vegu. Hvernig væri að veita íslensku bókmenntaverðlaunin að vori til í tengslum við Viku bókarinnar. Þá hefðu dómnefndirnar nægan tíma til að lesa bækurnar og tryggt væri að allar bækur ársins væru með. Það myndi líka ýta undir bóksölu á öðrum árstímum en rétt fyrir jólin. Þrjátíu bækur á þrjátíu dögum Hávar Sigurjónsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.