Morgunblaðið - 31.12.2003, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 31.12.2003, Blaðsíða 2
2 B MIÐVIKUDAGUR 31. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ Á rið, sem nú er að syngja sitt síðasta, var kosningaár og þess vegna auðvitað átakaár í pólitíkinni. Ekki er þó hægt að segja, þegar upp er staðið, að valdahlutföll hafi raskazt stórlega frá upphafi ársins til loka þess. Ríkisstjórnin hélt velli í alþingiskosningunum, sem fram fóru í maí, og stuðningur við hana er ósköp svipaður í lok ársins og var í upphafi þess. Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup studdu þannig 56% landsmanna stjórnina í janúar, en 57% gera það í síðustu könnun fyrirtækisins á árinu, sem gerð var í nóvember. Minnstur var stuðningur við stjórnina rétt fyrir kosningarnar, um 52%, en mestur að þeim loknum, um og yfir 60% sl. sumar. Svipuð valdahlutföll Þegar litið er á stöðu einstakra flokka, er mesta breytingin á árinu hjá Samfylkingunni; í janúar naut hún stuðnings um 38% svarenda í Þjóðarpúlsinum, en í síðasta mánuði var sá stuðningur 28%. Samfylkingin fékk um 31% stuðning í kosningun- um, en mistókst að umbylta flokka- kerfinu, verða „stóri“ jafnaðarmanna- flokkurinn á norræna vísu og hinn náttúrulegi ríkisstjórnarflokkur eins og að var stefnt. Sjálfstæðisflokkurinn naut í upp- hafi ársins stuðnings 36% kjósenda. Í kosningunum hlaut hann tæplega 34% fylgi, sem er þriðja versta út- koma hans í þingkosningum, en í síð- asta mánuði sögðust 36% landsmanna styðja flokkinn. Framsóknarflokkurinn hóf árið með um 14% stuðning í skoðanakönn- unum og fór enn neðar, jafnvel niður fyrir 10%, fyrir kosningar, en náði tæplega 18% fylgi á kjördag og hlaut stuðning um 16% í síðustu skoðana- könnun ársins. Þannig eru stjórnar- flokkarnir samanlagt með fylgi um 52% þjóðarinnar í lok ársins, álíka og það fylgi sem þeir fengu í kosningun- um. Vinstrihreyfingin – grænt framboð byrjaði árið með 9% stuðning, svipað fylgi og hún fékk svo í kosningunum, en sótti í sig veðrið í skoðanakönnun- um í haust og var með 14% fylgi í síð- ustu könnun Gallups. Hún er eini stjórnarandstöðuflokkurinn, sem hef- ur bætt við sig fylgi í skoðanakönnun- um frá kosningum. Frjálslyndi flokk- urinn, sem mældist með 3% fylgi í byrjun árs, fékk 7,6% í kosningunum en mælist nú með um 5% fylgi og virðist hafa fest sig í sessi – a.m.k. um sinn. Stjórnarandstaðan spilar illa úr sínu Pólitískir viðburðir haustsins hafa þannig ekki dregið neitt að ráði úr stuðningi við ríkisstjórnina eða orðið stjórnarandstöðunni veruleg lyfti- stöng. Þó hefur stjórnarandstaðan haft ýmis tækifæri til að koma höggi á stjórnina, en eins og stundum áður undanfarin ár hafa leiðtogar hennar spilað illa úr því sem þeim var gefið. Ríkisstjórnin hefur farið fram með ýmis mál, sem lítt eru fallin til vin- sælda, t.d. frumvarpið um breytingar á kjörum og eftirlaunum stjórnmála- leiðtoga, hækkun á benzínskatti, breytingar á kjörum öryrkja sem samtök þeirra töldu minni en um hafði verið samið o.s.frv. Aukinheldur hefur enn ekki orðið úr efndum á ýmsum kosningaloforðum stjórnar- flokkanna, t.d. um lækkun skatta á al- menning. Það er þó of snemmt að slá því föstu, eins og sums staðar heyrist, að ríkisstjórnin hafi með frammistöðu sinni í haust svikið kosningaloforðin; sennilegra er að hér sé á ferðinni gamalreynd herkænska, stundum kennd við Machiavelli, að gera óvin- sælar breytingar í upphafi kjörtíma- bils og nýta svo afganginn af tímanum til að taka vinsælli ákvarðanir. Þannig verður t.d. að gera ráð fyrir ákvörð- unum um skattabreytingar í tengslum við kjaraviðræður á nýju ári. Horfur á óbreyttu stjórnarsamstarfi Ýmis mál hafa hreinlega snúizt í höndunum á stjórnarandstöðunni og þar er eftirlaunafrumvarpið svokall- aða líklega skýrasta dæmið; það hafði sennilega meiri neikvæð áhrif fyrir formenn stjórnarandstöðuflokkanna en leiðtoga stjórnarflokkanna, þar sem þeir studdu frumvarpið í upphafi en voru svo komnir á harðahlaup frá því eftir að gagnrýnisraddir heyrðust. Í tilviki Samfylkingarinnar virtust forystumenn verkalýðshreyfingar- innar stjórna því hvernig flokksfor- ystan greiddi atkvæði. Það er í at- hyglisverðri mótsögn við tal flokks- formannsins um að búa þurfi til nútímalegan jafnaðarmannaflokk að hætti Tony Blairs, sem einmitt hefur lagt sig í framkróka að sýna sjálfstæði sitt gagnvart verkalýðshreyfingunni. Þá er það Össuri Skarphéðinssyni ekki auðvelt að hafa svilkonu sína, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, vara- formann flokksins, næstu tvö ár í framboði til formanns í Samfylking- unni – framboði, sem ómögulegt er að líta öðruvísi á en að beinist gegn hon- um sjálfum. Framganga forystu Samfylking- arinnar í eftirlaunamálinu varð til þess að Davíð Oddsson forsætisráð- herra lýsti því yfir að annað stjórnar- samstarf en það sem nú er í gildi, kæmi ekki til greina. Margir samfylk- ingarmenn hafa hins vegar ekki farið leynt með áhuga sinn á að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn og jafnvel gefið í skyn að sjálfstæðis- menn væru frekar til í slíkt en að láta forsætisráðherraembættið í hendur Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, í september á næsta ári eins og um var samið eftir kosningar. Eftir yfirlýsingu Davíðs bendir þó ekkert til annars en að það samkomulag gangi eftir. Því tengist að sjálfsögðu margvísleg óvissa og væntingar; allt er á huldu um það hvað Davíð tekur sér fyrir hendur, hverjir skipa helztu ráðherraembætti sjálfstæðismanna að skiptunum lokn- um, hvaða ráðherra Framsóknar- flokksins verður að víkja úr stjórn- inni, hvort einhverjar áherzlubreyt- ingar verði í stefnu hennar o.s.frv. Um allt það er bezt að spá sem minnstu, enda fráleitt að búið sé að ákveða neitt um þau efni. Átök stjórnmálamanna og viðskiptajöfra Ef horft er á einstök málefni, má segja að á árinu, sem senn er liðið, hafi átök stjórnmálamanna og valda- mikilla viðskiptajöfra verið í brenni- depli. Undanfarin ár hefur orðið mikil breyting í þá veru að stjórnmálamenn hafa tekið ákvarðanir, sem hafa fært völdin frá þeim sjálfum í hendur aðila í viðskiptalífinu, með einkavæðingu ríkisfyrirtækja og auknu frjálsræði í viðskiptum. Flestir telja að þessar breytingar hafi orðið til góðs; að stjórnmálamennirnir hafi áður ráðið of miklu og fremur notað peningana, sem þeir réðu yfir, til að skara eld að eigin pólitísku köku, græða atkvæði og halda völdum, en til þess að há- marka hag neytenda og skattgreið- enda. Menn hafa talið víst að í við- skiptalífinu yrðu teknar ákvarðanir, sem væru hagfelldari öllum almenn- ingi. Í öllum ríkjum, þar sem þessi þróun hefur átt sér stað, hafa þó farið fram umræður um það hvernig bæri að tryggja að þeir, sem fara með hin nýju völd viðskiptalífsins, misnotuðu þau ekki – og hvert sé hlutverk stjórnmálamanna við að búa þannig um hnútana að slíkt gerist ekki. Snemma á síðasta ári setti Ingi- björg Sólrún Gísladóttir, þá nýorðin forsætisráðherraefni Samfylkingar- innar, þessi mál á dagskrá með eft- irminnilegum hætti – reyndar eigin- lega með öfugum formerkjum – þegar hún lét að því liggja í ræðu í Borgarnesi að rannsóknir eftirlits- stofnana ríkisins á Jóni Ólafssyni og Norðurljósum, Baugi og Kaupþingi væru af pólitískum rótum runnar fremur en málefnalegum. Það kemur væntanlega í ljós á nýju ári, þegar bú- ast má við endanlegri niðurstöðu í þessum málum, hvort einhver fótur hefur verið fyrir þeim ummælum. Davíð áberandi í umræðunum Eftir þetta hefur árið fremur ein- kennzt af umræðum um það hvort valdamiklir aðilar í viðskiptalífinu séu farnir að misnota völd sín til að skara eld að eigin köku, fremur en að há- marka hag almennings sem hluthafa og viðskiptavina fyrirtækjanna, sem um ræðir. Davíð Oddsson forsætis- ráðherra hefur verið áberandi í þess- um umræðum. Hann sakaði Jón Ás- geir Jóhannesson, forstjóra Baugs, um að hafa reynt að múta sér með milligöngu Hreins Loftssonar, stjórn- arformanns fyrirtækisins. Hann for- dæmdi það þegar stjórnendur Kaup- þings-Búnaðarbanka fengu ríkulega launauppbót í formi kaupréttarsamn- inga. Hann gagnrýndi harðlega við- skipti KB-bankans og Jóns Ásgeirs við Jón Ólafsson er hann seldi eignir sínar hér á landi. Davíð átaldi jafnframt bankana harðlega fyrir afskipti sín og inngrip í íslenzkt atvinnulíf og taldi þá almennt komna út á hála braut. Í umræðum á Alþingi um bankana sagði Davíð: „Og ég sem hef trúað og stutt og verið stoltur af því að standa fyrir einkavæðingu á slíkum bönkum tel jafnframt að það eigi að reyna að halda þessum bönkum að sínum verk- efnum og að þeir séu komnir langt út fyrir þau mörk sem þeir eiga að sinna og skyldum gagnvart almenningi í þeim efnum.“ Við sama tækifæri lét forsætisráðherra hörð orð falla um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og sagðist reiðubúinn að skoða hvort setja þyrfti lög um eignarhald á fjöl- miðlum. „Og meira að segja harðir einkavæðingarmenn eins og ég geta ekki hugsað sér að einkavæða Ríkis- útvarpið. Það segir allt sem segja þarf um þennan markað. Þannig að samkeppnin leysir ekki þetta mál, því miður,“ sagði Davíð. Síðasta uppákoman, sem varpar ljósi á togstreituna milli stjórnmála- mannanna og viðskiptalífsins, er svo samkomulagið um kaup KB-banka á SPRON, þar sem vilji stjórnmála- mannanna virðist ótvírætt hafa verið sá að verja núverandi sparisjóðakerfi, en valdamenn í bankaheiminum vilja ólmir brjóta það niður og leggja undir sig sparisjóðina. Umræður standa m.a. um það, hvort Alþingi geti yfir- höfuð staðið í vegi fyrir því að slíkt gerist – og það verður þá prófsteinn á möguleika stjórnmálamannanna til að setja viðskiptalífinu skorður, í al- manna þágu. Enginn vafi er á því að þetta er að- eins byrjunin á umfangsmiklum deil- um og togstreitu um völd og hlutverk stjórnmálamannanna annars vegar og valdamanna í viðskiptalífinu hins vegar, sem mun setja mikinn svip á nýja árið. Ein spurningin, sem hlýtur að vakna þegar breytingar á ráð- herraembættum blasa við, er hvort Halldór Ásgrímsson muni á seinni hluta nýs árs taka jafnfast á móti við- skiptajöfrunum og Davíð Oddsson hefur gert á árinu. Varnarmál í deiglunni Annað stórmál, sem setti svip sinn á gamla árið og verður eflaust einnig áberandi á því nýja, er endurskoðun á vörnum Íslands. Bandaríkjamenn komu íslenzkum stjórnvöldum í opna skjöldu er þeir tilkynntu einhliða rétt fyrir kosningar að orrustuþoturnar færu burt frá Keflavíkurflugvelli. Eftir talsverð átök breyttist sú af- staða og varnarviðbúnaður á Íslandi verður nú endurskoðaður í samhengi við endurskipulagningu herafla Bandaríkjanna um allan heim. Ís- lendingar hafa þó enga tryggingu fyrir því að óbreyttum varnarviðbún- aði verði viðhaldið í Keflavík og verða að vera reiðubúnir að hugsa varnar- mál sín upp á nýtt og sýna stórlega aukið frumkvæði í vörnum landsins. Það á raunar við hvort sem viðvera Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli verður óbreytt eða ekki. Varnarmálin verða eitt mikilvægasta viðfangsefni íslenzkra stjórnmála á nýju ári. Togstreita stjórnmála og viðskipta Stjórnmál Ólafur Þ. Stephensen aðstoðarritstjóri Morgunblaðið/Sverrir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu eftir kosningar að halda áfram sameiginlegri vegferð í ríkisstjórn, en í september sezt Halldór í bílstjórasætið. olafur@mbl.is ’ Enginn vafi er á því að þetta er aðeins byrjun-in á umfangsmiklum deilum og togstreitu um völd og hlutverk stjórnmálamannanna annars vegar og valdamanna í viðskiptalífinu hins vegar, sem mun setja mikinn svip á nýja árið. ‘ Straumar og stefnur Við áramót rýna fimm blaðamenn Morgunblaðsins í atburði liðins árs, hver á sínu sviði, og leitast við að skoða hvert stefni á nýja árinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.