Morgunblaðið - 31.12.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 31.12.2003, Blaðsíða 6
6 B MIÐVIKUDAGUR 31. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ H ér og nú, korteri fyrir áramót, er tilvalið að setja fram tilgátu sem lýsir árinu 2003 í einni brakandi sjónhendingu. Það er nefnilega misskilningur að hægt sé að merkja tiltekin ár áður en þau hefjast – ár trésins, ár hafs- ins, ár aldraðra – árum er ekki hægt að lýsa fyrr en þau eru liðin. Þá fyrst er hægt að vita hvað gerðist og hvað ekki. Og sé horft út frá sjónar- horni daglegs lífs má leiða að því lík- um að árið 2003 hafi verið árið sem Íslendingar urðu endanlega heims- borgarar. Þá er ekki átt við hámenningu eða pólitík, aðild að stríðsbandalögum eða friðarsamböndum, né heldur mannfjölda, meðalgreind eða lands- framleiðslu – hér er einfaldlega átt við hversdagslegar athafnir, það sem jafnan er nefnt lífsstíll. Nú getum við allt Lífsstíll Íslendinga tekur sem kunnugt er mið af alþjóðlegum straumum í sífellt ríkara mæli, en það er fyrst núna sem við erum hætt að taka eftir því og/eða stæra okkur af því. Við tileinkum okkur nýjungar fyrirhafnarlaust og erum í mörgum tilfellum hætt að greina á milli inn- fluttra og aðfenginna siða. Eða er þetta ekki í fyrsta sinn sem Valent- ínusardagurinn er á lista dagatals frá virtum framleiðanda sem einn af „sérstökum merkisdögum“ hér á landi? Og hefur það áður gerst að bingói í stórum samkomusal úti á landi sé flýtt til þess að múgsefjaðir gestir komist heim til að horfa á am- eríska uppskrift að sjónvarpsþætti, s.s. Idol? Og er útbreiðsla sænskra heilsársljósasería í íslenskum setu- stofum ekki orðin slík að mönnum finnist þær alltaf hafa verið til stað- ar? Þessi þróun er í senn gleðileg og háskaleg. Með þessu móti erum við samkeppnisfærari og nútímalegri, en um leið útsettari fyrir markaðs- gildrum og flatneskju. En skemmtileg hliðarverkun fylgir öllu saman. Hún er sú að minnimáttarkenndin alræmda er á undanhaldi. Heimsborgarahugsunin innrætir okkur að við stöndum jafn- fætis hverjum sem er. Hvar sem er. Þess vegna gerist það á ári sem þessu að Sigur Rósar-liðar vinna sjálf Grammy-verðlaunin án þess að menn stökkvi sérstaklega upp til handa og fóta. Og þegar íslenska knattspyrnulandsliðið gerir jafntefli við Þjóðverja á Laugardalsvelli verða allir hálffúlir. Finnst við hefð- um átt að vinna. Það var líka á þessu ári sem Smáralindin varð hversdagslegur hluti af götumyndinni, við nuddum ekki lengur á okkur augun í vantrú fyrir framan 60.000 fermetra versl- unargám í fárra sálna samfélagi. Við kippum okkur ekki einu sinni upp við það að þúsund manna þorp far- andverkamanna spretti upp úr engu austur á fjörðum, eins og í hverjum öðrum sílíkondal heimsins. Tökum ekki einu sinni eftir því. Brestir í glansmyndinni En það er ekki bara að landsmenn telji nú sjálfsagt að bjóða nýjungum heimsins inn á gafl. Í ár náði líka há- marki tilhneiging næstliðinna ára í átt að fullkomnum lúxus. Dagarnir snúast ekki lengur um að komast af, skrimta í harðbýlu landi, heldur uppskera og njóta lífsins. Helst út í æsar. Íslendingar hafa unnið yfir sig síðustu áratugi en nú er komið að því að slæpast. Fara í leikhús, grilla undir trjánum, setjast í nuddpott eftir líkamsræktina, stofnsetja vín- bari, senda bílinn á þvottastöð, panta indverskan mat, heimta hæg- indastóla í bíó, ráða au-pair stúlkur, láta sérhanna sólpall, fara á rauð- vínsnámskeið, fá sér Anton Berg en ekki lítið Malta … Og þeir gera þetta loksins áreynslulaust og ná- kvæmlega eins og gert er í hinum löndunum. Þeir horfa líka á sömu sjónvarpsþættina eða – til að gera þetta heimilislegt – íslenska sjón- varpsþætti eftir sömu forskriftum. Og þeir ganga í sömu fötunum; grípa á lofti tískustrauma eins og pínupils, lífstykki, támjóa skó og skakka toppa, þrátt fyrir stöku djúpa lægð utan af hafi. Þetta má í það minnsta ráða af efnistökum fjölmiðla í ár. Þar er lítið fjallað um fátækt og kjarabaráttu, því meira um glæfraskap snöfur- menna í viðskiptum, fátt um feimni og frið en því meira um útlit ein- staklinga og innlit hjá vonar- stjörnum í velhönnuðum íbúðum. Og þó, talsvert hefur verið skrifað um líðan og geðheilbrigði, jafnvel kvíða og álag við smíði hins full- komna lífs. Það reynast nefnilega brestir í glansmyndinni hér og þar. Duglegir heimilisfeður eru sagðir stríða við þyngsli þau sem nefnast Atlas-heilkenni og ku jafngilda því að bera allan heiminn á herðum sér. Konurnar þykjast hættar að vera of- urkonur en kvarta samt yfir tíma- leysi, skorti á aga í skólum og gagnslítilli þolgöngu í átt að jafn- rétti. Og saman eru kynin í guðs mynd ekki sjálfum sér nóg og fara því í samanlagt 900 fegrunar- aðgerðir á ári. Og var það ekki líka á þessu ári sem reiknað var út að Íslendingar eyða fleiri milljörðum en nokkru sinni fyrr í svonefnd lífsstílslyf? Ef rétt er munað teljast þar 51 milljón á ári í lyf við offitu, 1227 milljónir í þunglyndislyf, 78 milljónir í lyf við stinningarvandamálum og 537 millj- ónir í lyf gegn nikótínfíkn – að ógleymdum vefjaaukandi sterum, afrétturum, neyðargetnaðarvörnum og megrunarpillum. Þannig er rammíslensk hamingja tryggð. Það er annars svo að þrátt fyrir viðleitni til þess að græða meiri gæðatíma, t.d. með því að hafa heim- ilishaldið sem mest aðkeypt og við- haldsfrítt, lenda margir í þeirri skrýtnu aðstöðu að njóta betur vinn- unnar en fjölskyldunnar. Víða er nefnilega orðið svo fjári gaman í vinnunni; skapandi umhverfi, hvatn- ingardagar, vinavikur, hópeflisferðir með starfsfélögunum og guð má vita hvað annað sem mannauðsstjórn- endunum flýgur í hug að skipu- leggja. Svo það er synd að fara of snemma heim. Og þá situr fjöl- skyldan á hakanum, á sérhannaða sólpallinum, og talast við í gegnum ofursmáa og fullkomna farsíma frá Finnlandi. Kvenfólk í köldum skýlum Fátt sér-íslenskt gerðist árið 2003 á Íslandi. Kannski gerðist fleira sér- íslenskt í útlöndum. Slegið var upp alvöru sveitaballi í Hamborg eftir leikinn við Þjóðverja. Ólafur Elías- son setti upp Austfjarðaþoku í London. Og vinsælasti sjónvarps- kokkur ársins í Færeyjum er Ís- lendingur. Hér heima kepptumst við hins vegar við að afleggja íslenska siði. Við hættum að senda menn til rjúpna í hríðarkófi, aflögðum heim- ilislegt kjördæmakerfi, minnkuðum lambakjötsát um 300 tonn, gleymd- um að rífast um tónlistarhús og lok- uðum Hattabúð Reykjavíkur. Það gaus ekki einu sinni á Íslandi í ár. Glatað. En á næsta ári má þó búast við að þjóðlegheitin grípi menn á ný, þá á jú lýðveldið stórafmæli og hugvekj- andi ræður verða haldnar. Næsta ár verður sko sviðakjammastuð. Og þúfnagöngulagið æft upp á nýtt. En í bili höldum við áfram að fljúga með lággjaldaflugfélögunum út í heim til þess að kynna okkur hvernig best má sinna verkefnum lífsins. Kynnumst nýjum kaffi- drykkjum. Venjumst fjölmenning- unni. Lærum að meta listasöfn. Komum heim með nýjustu tímaritin og berum saman við kraumandi flór- una hér heima. Skellum okkur í box. Eldum fondue. Sækjum börnin í lífs- leiknitíma eða látum þau hinkra eft- ir strætó í dönsku biðskýlunum þar sem fáklæddar og fótósjoppaðar konur sýna sokkabuxur og undirföt í flóðljósum. Þannig nema þau nógu snemma óbreytanlegt hlutverk kvenna. Og þannig læra þau að lesa myndmál. Sem er aldeilis lífs- nauðsynlegur undirbúningur fyrir lífið í þeirri stórborg sem höfuð- borgin er að verða. Í kjölfarið verða þau líkast til fljót að tileinka sér nýjustu strauma í framkomu og förðun, t.a.m. air- brush-tæknina nýju sem gerir kven- fólki nú kleift að úða kvöldmálning- unni á andlitið með loftþrýstingi. Eins og bílasprautun. Þar er loksins komið fram týnda samasemmerkið milli glæsimeyja og glæsibifreiða sem lengi hefur legið í loftinu og notað hefur verið í auglýsingum í áratugi. Allt hefur á endanum sína skýringu. Já, já, þetta hefur verið ágætt ár. Ár framþróunar. En alls ekki svo að skilja að landsmenn hafi látið leiða sig út og suður hugsunarlaust. Þvert á móti hefur þetta ár einkennst af óvenju mikilli þátttöku almennings í skoðanaskiptum og þjóðfélagslegri umræðu. Fólk hefur óhrætt viðrað skoðanir sínar á kvótakerfi, utanrík- isstefnu, byggingaframkvæmdum, landsliðsvali, virkjunum, dómskerfi, Evróvisjón og olíuverði. Og aldrei fyrr hafa jafnmargir safnast jafnoft til skipulagðra mótmæla en einmitt á þessu ári. Almenningur lætur ekki lengur spila með sig. Hann lætur í sér heyra. Hitt er svo annað mál hvort eða hvenær á hann er hlustað. Skimað eftir framtíð Þannig reikum við áfram veginn, stundum skref afturábak en gjarnan tvö, þrjú skref áfram í staðinn – eftir því hver dæmir. Það er helst að okk- ur skorti dálitla yfirsýn, framtíðar- sýn, hvert við erum yfir höfuð að fara. Því stundum er eins og við stefnum bara upp á næsta hól, án þess að hafa hugmynd um áttir eða ásetning, og vonumst svo til þess að hafa þaðan sæmilegt útsýni yfir víð- ernin. Stundum vantar okkur landa- kort sem gæti aðstoðað við að móta stefnuna, velja sniðugustu eða bestu leiðina, jafnvel með ákveðna áfanga- staði í huga. Eitt kortið sem við eigum, ef vel er leitað, segir að framtíðin sé í list- inni og sköpuninni. Það hefur margt ungt fólk uppgötvað og vinnur að auðgandi verkefnum á sviði hönn- unar, sjónlista, tónlistar og hugvits. Annað kort dregur fram mikilvægi umhverfisins, og yfir því korti liggja nú ýmsir og skilgreina dýrmæti náttúru, auðlinda og byggða. Þriðja kortið, sem verið er að teikna, lýtur að uppeldi, aga og manneskjuleg- heitum í samskiptum og fjölskyldu- lífi. Það er merkilegur uppdráttur. Svo eru það kortin sem hafa með að gera heiðarleg viðskipti, sam- göngur, menntun, hugrekki, afþrey- ingu, hreyfingu, heilbrigði og al- menna gleði, þau eru fáanleg á helstu útlánsstöðum hins sam- íslenska hugarfars. Gott ef ekki er verið að setja á markað fáein sér- kort um skák og skilnaði. Það eru alltaf nokkur ný sem komast í móð. En meðan leitað er að hinu full- komna vegakorti sem ein þjóð getur sameinast um að fylgja – og sú leit er auðvitað þrotlaus – er hægt að skyggnast í huganum yfir árið sem nú er liðið og athuga hvað fór úr- skeiðis og hvað lukkaðist. Skreppa kannski í gamlan ljósabekk, eins og tíðkaðist í eina tíð, og anda djúpt. Finna svo, þegar út er komið aft- ur, hvað það er eitthvað fyndið að hanga hér neðan úr heimskautsbaug en finnast maður samt vera með. Hvað það er fullkomlega eðlilegt að vappa um þetta eyland þar sem ástríðuávextir, ostasósur, harð- kornadekk, IKEA-lampar, ADSL- snúrur, magadans, heimabíó, vopn- uð bankarán, vinsældir tjaldvagna og fjöldi fíkniefnahunda hjálpast að við að líkja eftir því sem best gerist í útlöndum nær og fjær. Hvað það er ágætt að vera heima og heiman í senn, búa kannski í tvílyftu húsi í Árbæ eða Árskógsströnd en vera samt heimsborgari. Og njóta loksins lífsins. Eins og í öðrum heimi Daglegt líf Sigurbjörg Þrastardóttir blaðamaður Morgunblaðið/Ómar Árið sem Íslendingar urðu heimsborgarar sviptu þeir síendurtekið af sér spjörunum og fleygðu sér í sandinn – rétt eins og á Costa del Sol. sith@mbl.is ’ Hvað það er ágætt að vera heima og heiman í senn, búa kannski í tvílyftu húsi í Árbæ eða Árskógsströnd en vera samt heimsborgari. Og njóta loksins lífsins. ‘

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.