Morgunblaðið - 31.12.2003, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 31.12.2003, Blaðsíða 10
10 B MIÐVIKUDAGUR 31. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ E inn af stóru dögunum í íslenskri íþróttasögu ársins 2003 er tví- mælalaust 17. ágúst. Þá bárust þær gleði- fréttir frá Kosice í Sló- vakíu að 18 ára lands- lið Íslands í handknattleik unglinga hefði tryggt sér Evrópumeistaratit- ilinn með frækilegum sigri á Þjóð- verjum, 27:23. Sigur strákanna er enn frækilegri fyrir það að Þýska- land hefur alltaf verið talið vagga handknattleiksins. Sextán strákar léku fyrir hönd Íslendinga á mótinu og héldu svo sannarlega uppi merki Íslands undir stjórn Heimis Ríkarðs- sonar þjálfara, sem á ekki minnstan þátt í afrekinu – hefur lagt mikla alúð við þjálfun á unglingalandsliðum Ís- lands undanfarin ár. „Þetta var algjör snilld og ég held að það sé í fínu lagi að óska öllum Ís- lendingum til hamingju með árangur liðsins,“ sagði Heimir við Morg- unblaðið eftir að Evrópumeistaratit- illinn var í höfn. „Ég segi að það hafi verið liðs- heildin sem skóp þennan sigur og þá á ég ekki bara við sigurinn í dag held- ur í mótinu. Hópurinn er alveg frá- bær, samstilltur og ef einn var tekinn úr umferð þá kom næsti og svo næsti og þannig gekk þetta – allir voru til- búnir í slaginn,“ sagði Heimir sem spurði sína menn fyrir leikinn gegn Þýskalandi hversu mikið þá langaði til að vinna gullið, eða hvort þeir sættu sig við silfur. „Maður vinnur ekki silfur – heldur tapar gulli! Það vildi enginn.“ Gullið var ekki eina viðurkenn- ingin sem Ísland fékk í Kosice. Ás- geir Örn Hallgrímsson, leikmaður úr Haukum, varð markahæsti leikmað- urinn – skoraði 55 mörk í sjö leikjum. Hann var valinn besta örvhenta skyttan í mótinu og besta rétthenta skyttan var Arnór Atlason, leik- maður með KA. Þá voru þeir einnig valdir í sjö manna úrvalslið mótsins. Þessir tveir ungu leikmenn hafa verið undir smásjánni hjá frægum liðum í Evrópu – Arnór hefur gert samning við Magdeburg og Barce- lona hefur áhuga á að fá Ásgeir Örn til sín. Bæði þessi lið hafa orðið Evr- ópumeistarar á síðustu árum. Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari varð vitni að því þegar strákarnir urðu Evrópumeist- arar og hann sagði í samtali við Morgunblaðið: „Þetta er auðvitað ekkert nema stórkostlegur árangur hjá jafnfámennri þjóð og við Íslend- ingar erum. Hér er mikið starf síð- ustu ára að skila sér,“ sagði Guð- mundur sem sá einnig strákana leggja Svía að velli í undanúrslitum. Fengið styrki frá vinum og vandamönnum Þegar strákarnir komu heim til Ís- lands – fyrstir til að verða Evr- ópumeistarar í flokkaíþróttagrein – kom í ljós að það var ekki allt sem sýndist. Fyrir mótið urðu nokkrir leikmenn að hætta við að æfa með lið- inu þar sem þeir höfðu ekki peninga á milli handanna til þess. Morg- unblaðið greindi frá því að strákarnir sem fögnuðu Evrópumeistaratitl- inum í Slóvakíu þurftu að leggja á sig gríðarlega vinnu sl. sumar og það kostaði þá mikil fjárútlát að geta keppt fyrir Íslands hönd. Hver leik- maður þurfti að leggja fram um 80.000 kr. vegna sigurferðarinnar til Slóvakíu. Þá eru undirbúningsferðir og forkeppni ekki meðtaldar. Undankeppnin var haldin í Lithá- en í júní þar sem íslenska liðið tryggði sér keppnisréttinn í úr- slitakeppninni í Slóvakíu. Þar með er ekki allt talið. Til undirbúnings fyrir Evrópumótið fór liðið á Hela Cup í Þýskalandi um síðustu áramót og á undan tók það þátt í æfingamóti í Danmörku. Það má gera ráð fyrir því að hver einasti strákur hafi þurft að leggja til úr eigin vasa tugþúsundir króna. Til að ná kostnaðinum niður voru þeir duglegir við fjáröflun og fengu auk þess styrki frá vinum og vandamönn- um, fyrirtækjum og í einhverjum til- fellum hlupu bæjarfélög undir bagga – sum bæjarfélög höfnuðu ósk strák- anna sinna um styrk. Þá er ótalið vinnutap drengjanna en mikill tími fór í lokaundirbúning- inn og ferðin til Slóvakíu stóð í tólf daga. Kostnaður á hvern leikmann í úr- slitakeppninni í Slóvakíu var 130.000. Leikmenn þurftu að greiða 80.000 af þessari upphæð en HSÍ greiddi mis- muninn. Undankeppnin í Litháen reiknast mönnum til að hafi kostað 60.000 á mann en þess ber að geta að HSÍ fékk styrk úr afreksmannasjóði upp á 400 þúsund krónur sem not- aður var til að greiða ferðina niður. „Þetta hefur fylgt þessu í gegnum tíðina. Leikmenn hafa þurft að leggja mikið á sig til að taka þátt í þessu verkefni og þessi hópur lagði gríð- arlega mikið á sig. Ég fann ekki neina kergju hjá strákunum út af þessu enda eru þeir vanir þessu,“ sagði Heimir við Morgunblaðið. Atli Hilmarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik, er faðir Arnórs sem tók þátt í ævintýr- inu í Slóvakíu. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið að hann óskaði eftir því að Afrekssjóður ÍSÍ kæmi til móts við drengina nú þegar. „Þeir voru að taka þátt í úrslitakeppni Evr- ópumótsins og afrekið sem þeir unnu þar var alveg einstakt. Mér finnst allt í lagi að þessir strákar hafi fyrir hlut- unum. Þeir eiga ekki að fá allt upp í hendurnar en mér finnst að það beri að umbuna þeim fyrir svona frábær- an árangur. Ég veit að handknatt- leikssambandið, HSÍ, er ekki í stakk búið til þess en ég held að þetta sé eitthvað sem ríkisvaldið ætti að koma inn í gegnum afreksmannasjóðinn. Árangur liðsins í Slóvakíu var geysi- leg auglýsing fyrir Ísland og hefur vakið verðskuldaða athygli úti í heimi,“ sagði Atli. Einar Þorvarðarson, fram- kvæmdastjóri HSÍ, sagði við Morg- unblaðið eftir heimkomuna að strák- arnir hefðu safnað 960 þúsund krónum krónum upp í ferðina til Sló- vakíu, en reiknað væri með að heild- arkostnaður ferðarinnar yrði líklega um tvær til þrjár milljónir króna. Nokkru eftir að strákarnir komu heim fékk HSÍ 1,5 millj. kr. úr Af- rekssjóði ÍSÍ. Í hlutverki ölmusumanna Það er vægast sagt óþolandi og á ekki að eiga sér stað að þeir ein- staklingar sem keppa fyrir hönd Ís- lendinga á alþjóðlegum vettvangi – keppa í landsliðsbúningi undir merki Íslands og þjóðsöng – þurfi að ganga um eins og ölmusumenn – betlandi – fá styrki hjá vinum og vandamönnum til að geta keppt fyrir íslensku þjóð- ina í úrslitakeppnum. Já, og það í íþróttagrein sem hefur oftar en ekki glatt þjóðarsálina í svartasta skamm- deginu. Það styttist í að íslenska karlalandsliðið taki þátt í Evr- ópukeppni landsliða í Slóveníu sem hefst 22. janúar. Vinna mikið forvarnastarf Íþróttafélögin í landinu vinna eitt- hvert besta forvarnastarfið gegn vímuefnum. Það kom best í ljós á dögunum þegar niðurstöður rann- sóknar meðal nemenda í níunda og tí- unda bekk grunnskóla voru kynntar. Niðurstöðurnar sýndu það sem forráðamenn íþróttafélaga í landinu hafa lengi vitað. Öflugt og gott íþróttastarf er besta vörnin gegn því að æska landsins neyti vímuefna. Íþróttafélögin eru best til þess fall- in að vinna þetta forvarnastarf og því rétt að sveitar- og bæjarfélög nýti sér íþróttafélögin í ríkara mæli í sam- bandi við æskulýðsstörf. Til dæmis yrði það sterkur leikur að félögin í Reykjavík tækju yfir starfsemi Íþrótta- og tómstundaráðs Reykja- víkur; starfsemin fer fram við hús- gafla eða í höfuðstöðvum íþrótta- félaganna. Þannig gætu íþróttafélögin nýtt sér launagreiðslur sem starfsmenn í æskulýðsstörfum í hverfunum fá til að greiða laun þjálf- ara og uppalenda. Íþróttafélögin myndu í ríkara mæli skipuleggja íþróttastarfsemi skólanna. Sjá um fjölbreytta keppni skóla innan hverfa og á milli skóla í öðrum hverfum og bæjarfélögum. Spurningakeppni skólanna hefur verið afar vinsæl í útvarpi og sjón- varpi. Íþróttakeppni skólanna, sem færi fram á kvöldum um helgar, myndi án efa njóta mikilla vinsælda og verða góð forvörn gegn því að börn og unglingar leituðu á óæski- lega staði um helgar. Foreldrar fengju tilvalið tækifæri til að fylgjast með börnum sínum í leik og starfi. Bankar, tryggingafélög og önnur fjársterk fyrirtæki, sem hafa sýnt geysilegan gróða milli ára, gætu bætt ímynd sína með því að veita peninga í ríkara mæli í íþrótta- og forvarna- starf íþróttafélaganna. Að reka öflug íþróttafélög kostar mikla vinnu og peninga. Á síðustu ár- um hefur það reynst erfiðara að fá menn til að starfa af fullum krafti í íþróttafélögunum um langan tíma. Ástæðan fyrir því er að það er mjög lýjandi fyrir starfsmenn félaganna, sem vinna sitt starf í sjálfboðavinnu, að vera stöðugt að „betla“ hjá ein- staklingum og fyrirtækjum. Það er orðið svo að íslensk félög ráða ekki við að taka þátt í Evr- ópumótum í handknattleik og körfu- knattleik þar sem kostnaðurinn er svo mikill við þátttöku. Það græða allir aðilar nema félögin sjálf. Flugfélögin sem flytja íþrótta- hópa til og frá landinu fá sitt. Hótelin, sem íþróttahóparnir gista á, fá sitt, einnig veitingastaðir, samgöngu- fyrirtæki – leigubílar og lang- ferðabílar. Þá fá keppnisstaðir sína leigu fyrir aðstöðu. Já, allir græða nema íþróttafélögin – þau borga og tapa á þátttöku sinni. Þau eiga erfitt með að sækja í styrki. Bæjar- og sveitarfélög á Íslandi hafa óneitanlega veitt félögum mik- inn stuðning í sambandi við rekstur mannvirkja og ýmissa annarra þátta. Er ekki kominn tími til að horfa á íþróttafélögin í víðara samhengi – þýðingu þeirra í öflugu forvarna- starfi, sem verður til þess að við ölum upp heilbrigða æsku sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af vegna neyslu vímuefna. Forvarnastarf er fjárfrekt, en það kostar einnig mikla peninga að reka stofnanir til að koma ógæfusömum unglingum, sem hafa farið út af sporinu, á rétta leið. Ríkið þarf að auka sitt framlag Það má segja að sérsamböndin innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands séu hálfgert „eyland“ í íþróttaflórunni hér á landi – sambönd sem eiga sér hvergi aðsetur. Geta ekki leitað til sveitar- og bæjarfélaga, geta hvergi höfði sínu hallað og verða að treysta að mestu leyti á ÍSÍ. ÍSÍ leitar eftir stuðningi frá ríkinu og fær ákveðnar upphæðir á fjár- lögum ár hvert til að halda starfsemi sinni gangandi. Ríkið hefur aukið stuðning sinn við ÍSÍ mikið á tíu ár- um – úr 17 millj. ísl. kr. á fjárlögum 1994 í 118 millj. kr. á fjárlögum nú. Þar eru 74 millj. kr. í rekstr- arframlag, 25 millj. kr. í afreks- mannasjóð, 15 millj. kr. vegna Ól- ympíuleikanna í Aþenu næsta sumar og fjórar millj. kr. vegna lyfjaeftirlits. Á dögunum skrifuðu Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, og Lárus Blöndal, formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, undir samning menntamálaráðu- neytisins og ÍSÍ um fjármögnun Af- rekssjóðs ÍSÍ á árunum 2004 til 2008. Í honum er gert ráð fyrir styrkveit- ingum á fjárlögum til Afrekssjóðs ÍSÍ að upphæð 140 millj. króna á fimm árum sem er talsverð hækkun frá fyrri samningi, þar sem mennta- málaráðuneytið lagði fram 50 millj. króna á fimm ára tímabili, frá 1998 til og með þessu ári. Markmið samningsins er að styrkja sjóðinn til að efla árangur ís- lensks afreksfólks á alþjóðavett- vangi. ÍSÍ fær á árunum 2004 og 2005 25 milljónir króna hvort ár og á árunum 2006–2008 30 milljónir króna á hverju ári til Afrekssjóðs ÍSÍ. Samningurinn er háður því að ÍSÍ veiti í sjóðinn á sama tímabili ákveðna hlutdeild í hagnaði Íslenskr- ar getspár, eða sem nemur 8% af ágóðahlut ÍSÍ, en þó aldrei lægri upphæð en 12 millj. króna á ári á ár- unum 2004 til 2008. Ellert B. Schram segir samninginn vera afar mikilvægan fyrir íþrótta- hreyfinguna svo hægt sé að styðja við bakið á íslensku afreks- íþróttafólki á næstu árum. Vegna samningsins verði mögulegt að hækka greiðslur úr Afrekssjóði ÍSÍ á næsta ári verulega, úr 44 millj. á þessu ári í 60 millj. á því næsta. „Þessi hækkun á stuðningi mennta- málaráðuneytisins er mikið fagn- aðarefni sem gerir okkur mögulegt að hækka styrki úr Afrekssjóði á ól- ympíuári sem er mikið gleðiefni,“ segir Ellert. Hann bendir jafnframt á að þrátt fyrir fyrirsjáanlega hækkun úr Afrekssjóði þá sé hvergi nærri hægt að koma til móts við óskir sér- sambanda ÍSÍ sem hafi lagt fram beiðnir um styrki upp á um 250 millj. króna á næsta ári. Tómas Ingi sagði að það væri eðli- legt að ríkið styrkti afreksmenn Ís- lands, sem væru mikil og góð kynn- ing fyrir land og þjóð. „Afreksmennirnir væru fyrirmyndir unga fólksins í landinu – menn sem hefðu yfir miklum sjálfsaga og metn- aði að ráða,“ sagði Tómas Ingi. Það er afar gleðilegt að ríkið hafi aukið fjárframlög til íþrótta á Íslandi. Ég tel að það þurfi að auka þau fjár- framlög meira og eins og ég sagði áð- an þá er tilvalið tækifæri fyrir banka, tryggingafélög og önnur fyrirtæki, sem sýna góða afkomu og gróða milli ára, að bæta ímynd sína og taka þátt í öflugu forvarnastarfi sem íþróttir eru. Sá stuðningur yrði vel þeginn á öllum heimilum landsins sem hafa það hlutverk að hlúa að börnum og unglingum. Íþróttastarf er öflug forvörn Íþróttir Sigmundur Ó. Steinarsson fréttastjóri Ljósmynd/Viktor Zamborský Strákarnir tryggðu sér Evrópumeistaratitil í handknattleik í Slóvakíu. Aftari röð frá vinstri: Jónas Fjeldsted, Andrés Kristjánsson, Heimir Ríkarðsson þjálfari, Ingv- ar Árnason, Andri Stefan, Árni Þór Sigtryggsson, Arnór Atlason, Hrafn Ingvarsson, Kári Kristján Kristjánsson, Einar Ingi Hrafnsson, Jóhann Gunnar Einarsson, Jón Eggert Karlsson og Karl Erlingsson. Fremri röð frá vinstri: Árni Björn Þórarinsson, Ragnar Hjaltested, Pálmar Pétursson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Björgvin Gústavsson, Þórður Þórðarson, Sigfús Páll Sigfússon og Ívar Grétarsson. ’ Það er vægast sagt óþolandi og á ekki aðeiga sér stað að þeir einstaklingar sem keppa í landsliðsbúningi undir merki Ís- lands og þjóðsöng – þurfi að ganga um eins og ölmusumenn – betlandi – fá styrki hjá vinum og vandamönnum til að geta keppt fyrir íslensku þjóðina. ‘ sos@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.