Morgunblaðið - 19.03.2004, Qupperneq 51
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. MARS 2004 51
Þau tíndu saman ærnar sem seldar
höfðu verið fyrir tveimur árum eins
margar og hægt var að ná í og svo
var farið að byggja upp, fyrst fjós og
síðan fjárhús og hlöður. Túnið var
stækkað allt að fjórum til fimm sinn-
um og keyptar vélar og heyvinnu-
tæki.
Mikið voru foreldrar okkar glöð að
flytja aftur að Sölvabakka og þar
bjuggu þau í skjóli Adda og Boggu
það sem þau áttu eftir ólifað. Addi
var fljótlega kosinn í stjórn veiði-
félagsins Hængs og sat þar til dauða-
dags, hans verk voru þau að áin fór
loks að skila arði til eigendanna.
Hann tók síðar við fjallskilastjórn
og annaðist það með mikilli prýði.
Ekki má gleyma því að á þessum
tíma gáfu þau sér tíma til að eignast
fimm dætur. Þegar sú elsta hafði svo
eignast þrjár dætur orti Jón Giss-
urarson í Víðimýrarseli:
Ýmislegt til ásta vann
eftir leiðum færum
níu konur hefur hann
haft á sínum snærum.
Hann sat einnig í hreppsnefnd
Engihlíðarhrepps, var í stjórn Sölu-
félags Austur-Húnavatnssýslu og
síðast en ekki síst var hann með-
hjálpari í Höskuldsstaðakirkju.
Hann Addi var ekki bara bróðir
minn, hann var líka vinur minn, fyrir
það og allt annað færi ég honum mín-
ar bestu þakkir.
Bogga, Lena, Fríða, Bjarney,
Jóna Finndís og Anna Magga,
barnabörn og tengdasynir, við
Gunna og fjölskylda okkar vottum
ykkur einlægustu samúð og biðjum
Drottin að standa við hlið ykkar. Ég
enda svo þessi skrif með vísubroti
frænda míns Kristófers Árnasonar:
–
grátum ekki góðan dreng
Guð hefur þurft að fá’ann.
Guð veri með ykkur.
Sigurður Kr.
Þegar hugurinn reikar til fyrstu
kynna af Adda get ég ekki varist
þeirri hugsun að hann hafi veitt mér,
litla bróður konuefnisins, mun meiri
athygli en ég átti skilið. Hvað um
það, koma hans í fjölskylduna víkk-
aði sjóndeildarhringinn. Erfið orð á
borð við mág og tengdason urðu ekki
umflúin og það laukst upp fyrir mér
að sá sem yngstur var í stórum
systkinahópi gat orðið fullorðinn eins
og hinir.
Gáski og glettni, dugnaður og
kjarkur voru eiginleikar sem fylgdu
Adda alla tíð og gerðu heimsóknir að
Sölvabakka einstaklega uppörvandi
hvort sem í hlut átti forvitið barn eða
brottfluttur Húnvetningur með eigin
fjölskyldu hin síðari árin. Þessari til-
finningu þykist ég vita að ég deili
með fjölmörgum, nær og fjær, sem
vanið hafa komur sínar að Sölva-
bakka.
Addi var næmur á umhverfi sitt,
bæði mannlíf og náttúru, og kunni
frá mörgu að segja. Minnisstæð er
gönguferðin sem við systkinin ásamt
mökum fórum síðastliðið sumar.
Gengið var frá Gautsdal norður Lax-
árdalinn og undir leiðsögn Adda var
sem tóftir eyðibýlanna lifnuðu við
eitt augnablik.
Kærum mági þakka ég samfylgd
og velgjörðir fyrr og síðar.
Lárus H. Bjarnason.
Ég var ekki mjög gamall þegar
mig langaði heil ósköp til að fara í
sveit til Árna Jónssonar bónda á
Sölvabakka, eins og ég kallaði Adda
frænda oft í gamni. Ekki var sú dvöl
löng, ég entist þrjá daga. Var búinn
að fá meira en nóg af verunni í sveit-
inni og var sóttur af pabba mínum
sem ekkert skildi í því hvað dreng-
urinn var linur við sveitastörfin. Þeg-
ar ég var svo orðinn pabbi sjálfur fór
ég með börnin mín í sveitina til Adda
frænda og átti von á því sama frá
mínum börnum. Svo reyndist ekki
vera. Þau tóku Adda strax í dýrlinga-
tölu og sonur minn sagði stoltur frá
því í leikskólanum að Addi frændi
gæti allt, hann var eins konar Súp-
erman í sveitinni. Mikið eiga þau eft-
ir að sakna hans þegar kemur að
sauðburði og átta sig á því að enginn
Addi verður til að lóðsa þau um fjár-
húsin og veita þeim alla þá athygli
sem þau vilja. Líklega er ást þeirra á
sveitinni og dýrunum þar ættuð frá
Sölvabakka. Það verður skrítið að
fara í réttir í haust og enginn Addi
frændi þar. Addi var góður maður og
góður frændi, hans verður sárt sakn-
að.
Bogga, dætur, barnabörn og
tengdasynir, við sendum ykkur okk-
ar dýpstu samúðarkveðjur.
Auðunn Steinn og fjölskylda.
Ég treysti þér máttuga mold.
Ég er maður sem gekk út að sá.
Ég valdi mér nótt, ég valdi mér logn
þegar vor yfir dalnum lá.
Haginn er ennþá hvítur,
en heimatúnin græn.
Grundirnar anga, gróðurinn angar
til guðs í hljóðri bæn.
Ég fyllist fögnuði vorsins
og friðarins milda blæ.
(Guðmundur Ingi Kristjánsson.)
Sorg og söknuður hefur knúið
dyra hjá fólkinu á Sölvabakka sem
sér á eftir heimilisföðurnum á vit for-
feðranna. Þegar kallið mikla kemur
erum við, sem eftir erum, ávallt jafn
óviðbúin.
Svo var einnig nú þegar Sævar
hringdi og lét okkur vita af láti Adda
tengdaföður síns. Sorg og eftirsjá að
þessum mæta manni, sem hann hef-
ur búið hjá í svo mörg ár, var mikil.
Þeir áttu sínar góðu stundir saman
þótt þeir væru ekki alltaf sammála.
Addi var glæsimenni, brosmildur
og hlýr maður sem strit bóndans
hafði sett sitt mark á. Addi og Bogga
höfðu unnið hörðum höndum saman
við að koma jörðinni í það horf sem
hún er í dag og nutu aðstoðar dætr-
anna fimm sem hjálpuðu til. Nú átti
að fara að hægja á og njóta efri ár-
anna, búið komið í hendur Önnu
Möggu og Sævars en þá taka örlögin
í taumana. Það læðist að manni sá
grunur að vantað hafi, þar efra,
reynslumikinn bónda á gresjurnar
miklu þar sem við öll endum.
Það var aldrei neinn vafi á að Laxá
í Refasveit var honum ofarlega í
huga, það fann ég í gönguferð sem
við fórum um bakka árinnar þar sem
hann fór yfir sögu hennar, uppbygg-
ingu laxastigans og hins nýja göngu-
stiga niður í gilið. Ekki grunaði okk-
ur að síðasta verk okkar saman væri
að grilla kjöt í þrítugsafmælisveislu
Sævars síðastliðið sumar þar sem
Addi stóð stoltur við grillið og naut
þess sem fram fór.
Við foreldrar Sævars viljum minn-
ast Adda og þakka þær samveru-
stundir sem við áttum með honum.
Við sendum Boggu, dætrum og
fjölskyldum þeirra okkar dýpstu
samúðarkveðjur.
Guð blessi ykkur.
Anna og Sigurður Ingi.
Fráfall Árna á Sölvabakka var svo
snöggt, svo öllum að óvörum, svo
ótímabært að mig setti hljóðan.
Hann var á góðum aldri og, að því er
ég vissi best, heilsugóður þannig að
hann kenndi sér varla meins. Allt í
einu var hann fallinn, bráðkvaddur.
Þegar slíkir atburðir gerast sýnist
erfitt að skilja rök lífs og dauða, en
þeir sanna þó að við sem þykjumst
vel á okkur komin getum aldrei vitað
hvað kann að bíða við næsta fótmál.
Skammt er stórra högga á milli í
systkinahópnum, því Finnbogi bróð-
ir hans var kvaddur fyrir fáum vik-
um.
Addi á Sölvabakka, en svo kölluð-
um við hann oftast sem höfðum
þekkt hann frá unglingsaldri, var
yngstur sinna systkina. Hann tók við
jörð og búi af foreldrum sínum á
Sölvabakka og reyndist góður bú-
höldur. Hann var dugmikill fram-
kvæmdamaður, svo sem bygging-
arnar bera vitni um, og
ræktunarmaður bæði á jörð og búfé.
Hann breytti bæði jörð og búháttum
í takt við tækni og þekkingu nýrra
tíma. En Addi stóð ekki einn. Hann
kvæntist harðduglegri konu og trú-
lega munu þau oft hafa unnið langan
vinnudag. Þau eignuðust fimm
gjörvulegar dætur, sem án efa hafa
tekið vasklega til hendinni þegar að-
stæður hafa leyft. Þær luku allar
stúdentsprófi frá MA og hafa a.m.k.
flestar lokið háskólagráðu, sem segir
sína sögu um þær og fjölskylduna
alla. Um síðustu áramót tók sú
yngsta þeirra ásamt manni sínum við
jörð og búi á Sölvabakka og var það
giftusamleg ráðstöfun, ekki síst úr
því svona fór.
Addi hafði góða kímnigáfu, var
glaður jafnan, oft með spaugsyrði á
vörum og traustur vinur vina sinna.
Hann var félagslyndur, átti létt með
að koma fyrir sig orði og gegndi ýms-
um félagsstörfum í sveit sinni og hér-
aði. M.a. var hann virkur félagi í
Lionsklúbbi Blönduóss og þó að ég
rækti þann félagsskap stopult áttum
við þar sem annars staðar skemmti-
legar stundir saman, einkanlega eru
mér minnisstæðar ferðir okkar á
Skaga til að selja perur. Ég á honum
margt að þakka. Við vorum pólitískir
samherjar og þegar ég stóð í barátt-
unni á þeim vettvangi var hann öfl-
ugur liðsmaður og drengskapur hans
óbrigðull. En fyrst og síðast viljum
við Helga þakka vináttu hans sem
aldrei bar skugga á í áratugi.
Úr fjarlægð leitar hugur okkar
Helgu heim að Sölvabakka, til Bjarg-
ar, til dætra þeirra, tengdasona og
barnabarna og biðjum þess að þeim
veitist styrkur í sorg sinni. Öllum
þeim sendum við einlægar samúðar-
kveðjur, einnig systkinum hins látna
og öðru venslafólki um leið og við
blessum minninguna um góðan
dreng.
Pálmi Jónsson.
Á björtum, fögrum degi var Árni
bóndi á Sölvabakka kvaddur til farar
yfir landamæri lífs og dauða. Að
morgni hafði hann gengið til starfa
sinna, sem aðra daga, en þessi entist
honum aðeins til hádegis.
Árni var maður mikilla anna og at-
hafna, sem margir er tóku þátt í upp-
byggingu landsins á síðari hluta tutt-
ugustu aldarinnar og einn af
mörgum bændum, sem þróuðu land-
búnaðinn frá frumtækni til vélvæð-
ingar og orkunotkunar. Það var tími
mikilla væntinga, starfs, sigra og
gleði. Allt þetta átti við um Árna á
Sölvabakka. Auk þess að byggja upp
föðurleifð sína, ásamt eiginkonu
sinni, var hann virkur þátttakandi í
málefnum samtíðar sinnar og sveit-
ar, þó fyrst og fremst þeim er snertu
lífsstarf hans sjálfs, landbúnaðinn.
Hann var um árabil í sveitarstjórn
Engihlíðarhrepps og það kom í hlut
hans að vera í forsvari fyrir málefn-
um búnaðarfélagsins og fjallskila-
stjóri var hann um árabil eða allt til
þess að Engihlíðarhreppur samein-
aðist Blönduóssbæ, að hann kaus að
hverfa frá þeim störfum. Eru fram-
kvæmdirnar á Kirkjuskarði á Lax-
árdal vitnisburður um framsýni
Árna um að byggja upp varanlega og
viðunandi aðstöðu fyrir fólk og fénað
á þessum fjölsótta stað, vor og sumar
og þó einkum haust hvert er göngur
standa yfir og ótrúlegur fjöldi forvit-
inna ferðalanga, bæði innlendra og
útlendra, leggur leið sína um Lax-
árdalinn. Vert er einnig að geta þess
að Árni var um langt skeið í forustu-
sveit um veiðimál Laxár á Refasveit
og fylgdi fast eftir um ræktun árinn-
ar og bættar aðstæður veiðimanna.
Árni var góður og hreinskiptinn
félagi, tilbúinn til þess að bregðast
við er til hans var leitað. Lífsmáti
hans var í samræmi við reglur skát-
anna, „að vera viðbúinn“, og hann
naut þess að gera öðrum greiða og
verða að liði. Hann miðlaði hvarvetna
hlýrri gleði svo að gott var að vera í
návist hans og gestrisni þeirra Sölva-
bakkahjóna átti sér vart takmörk. Í
minningunni eru flokkar fólks er
nutu gestrisni á Sölvabakka; komu
þangað akandi eða á hestum í ýmsum
erindum og ástandi. Þar var oft þétt
setið og notið veitinga, söngs og gleði
á þann óþvingaða hátt, sem ein-
kenndi heimilið. Trúlega mun Árni
verða mörgum minnisstæður er sam-
fylgd áttu með honum í göngum og
skemmtiferðum um Laxárdalinn og
þá ekki síður í réttastússi hans fyrir
sveitunga sína norður um Skefils-
staðahrepp haust hvert og ekki má
gleyma réttagleðinni og glaumnum í
Skrapatungurétt.
Okkur félögum Árna í Lionsklúbbi
Blönduóss mun líka verða hann
minnisstæður og við hljótum að
sakna hans. Við gerðum það líka á
fundi í klúbbnum, sem boðaður hafði
verið að kvöldi dagsins er hann
kvaddi. Hann var einn af föstu þátt-
takendunum í „bjórhorninu“ okkar
að fundunum loknum og við brugð-
um ekki vana okkar og sátum þar
nokkra stund. Við töldum okkur
jafnvel trú um nærveru Árna og lyft-
um glösum minningu hans til heið-
urs. Árni var sannur Lionsmaður og
brást ekki að veita þeim störfum
brautargengi, sem hann var kvaddur
til. Sama var og um að í félagsskap
hestamanna var hann jafnan upp-
spretta fyrirgreiðslu og glaðværðar,
sem allir fengu notið á jafnréttis-
grundvelli vegna látleysis hans og
heiðarleika.
Árni var hamingjumaður í einkalífi
sínu. Í vel fjörutíu ár var hann búinn
að eiga samleið með eiginkonu sinni,
Björgu Bjarnadóttur frá Haga í
Þingi. Eiga með henni fimm vel gefn-
ar og vel menntaðar dætur. Þær eru
allar stúdentar frá Menntaskólanum
á Akureyri, auk framhaldsnáms og
hafa tekið við ábyrgðarstörfum í
þjóðfélaginu.
Sé nú við leiðarlok jarðneskrar
ævi Árna á Sölvabakka litið yfir lífs-
hlaup hans í heild sýnist það harla
gott. Um síðustu áramót færðu þau
Sölvabakkahjón bú sitt og jörð yfir á
hendur yngstu dóttur þeirra og
tengdasyni. Kvöldið fyrir burtfarar-
dag Árna komu þau hjónin úr lang-
ferð austan undan Eyjafjöllum þar
sem ein dóttir þeirra er búsett ásamt
fjölskyldu. Efalaust hefir Árni verið
þreyttur og ánægður heimkominn
eftir ferðina, alls óvitandi um hvað
næsti dagur bar í skauti sínu.
Minning Árna á Sölvabakka er
meitluð græðandi starfi, góðleik og
gleði. Honum þakka ég afdráttar-
lausa vináttu frá fyrstu kynnum okk-
ar. Megi blessun fylgja eiginkonu
hans, dætrum þeirra, tengdasonum,
barnabörnum og öllu því, sem hann
lifði fyrir og honum var kærast.
Grímur Gíslason.
Kveðja frá „fyrirmálslambinu“.
Ekki hefði mér dottið það í hug
eftir lát föður míns fyrir tveimur
mánuðum að ég ætti eftir að kveðja
Adda, litla bróður föður míns, svo
stuttu seinna, en faðir minn lést 9.
janúar og Addi eins og við kölluðum
hann lést 9. mars, svo það var stutt á
milli bræðranna.
Þegar ég hugsa um Adda streyma
fram minningar um frænda með
stórt hjarta fullt af hlýju og vænt-
umþykju og stóran faðm sem tók
hlýlega á móti manni þegar komið
var á Sölvabakka, þar var ávallt kom-
ið fram við mig eins og eina af dætr-
unum, enda sagði Addi ekki ósjaldan
„mamma þín“ við mig og átti þá við
Boggu.
Þau Bogga voru ákaflega samhent
hjón enda sjaldan sagt Addi nema
segja Bogga líka og öfugt. Á Sölva-
bakka voru allir velkomnir, ættingj-
ar sem vinir, oft var þröng á þingi og
margt í mat og gistingu en aldrei var
kvartað heldur tekið á móti öllum
með bros á vör og glaðlegu spjalli
enda höfðu þau hjón gaman af góðri
stundu með góðum vinum.
Fyrstu minningarnar eru um
heimsóknir með pabba og mömmu á
Sölvabakka að heimsækja ömmu og
afa og þar var líka Addi frændi sem
gaf sér alltaf tíma fyrir litla frænku
sem átti erfitt með að sitja mjög
lengi kyrr og þegja, seinna þegar ég
var orðin læs rétti hann mér bók og
spurði hvort ég væri búin að lesa
þessa bók og þar með var friðurinn
tryggður.
Seinna kom ég til þeirra í sveit og
fékk titilinn Vélakapteinn og þýddi
það að mér var treyst til að keyra
dráttarvélarnar. Kennslan fór fram
þannig að við fórum út á s.k. mela
þar sem engar hættur leyndust, Addi
sýndi mér hvernig ætti að kveikja á
vélinni, kúplingu, bremsur og gíra og
sagði mér svo að keyra af stað. Þarna
var ég svo í 3 sumur og eftir það eins
og grár köttur í öllum fríum.
Þegar ég sat og var að skrifa nokk-
ur orð um pabba fyrir prestinn
hringdi Addi í mig, eins og hann orð-
aði það „bara stutt spjall“, en það
gerði hann oft. Ég spurði hann hvað
honum dytti fyrst í hug þegar hann
hugsaði um pabba, Addi þagði smá
stund en sagði svo: Ja, hann hafði nú
alltaf gaman af góðum hestum þegar
hann var yngri, en þarna var Addi
einmitt að lýsa sjálfum sér. Alltaf átti
hann uppáhaldshesta og að sjálf-
sögðu urðu það mínir uppáhaldshest-
ar líka sem ég fékk ansi frjáls afnot
af ef hann þurfti ekki að nota þá sjálf-
ur og að sjálfsögðu fylgdi hnakkur-
inn hans með.
Á ég margar góðar minningar um
skemmtilegar hestaferðir norður í
Skagafjörð með Adda og Boggu
ásamt fleirum, einmitt í einni þeirri
ferð fékk ég viðurnefnið „fyrirmáls-
lambið“ þar sem einhver hélt að ég
væri dóttir Adda sem ekki var vitað
um en sá hinn sami þóttist þekkja all-
ar dæturnar á Sölvabakka. Addi
hafði mikinn húmor fyrir þessu og
minnti mig oft á þetta.
Góðar minningarnar flæða enda-
laust áfram um góðan og blíðan
mann sem sjaldan skipti skapi (nema
í smalamennsku en það er önnur
saga). En það eru ekki bara minn-
ingar um frænda heldur líka vin og
félaga.
Bogga og dætur, hugurinn er hjá
ykkur.
Jóhanna Finnbogadóttir
(fyrirmálslambið).
Í dag kveð ég föðurbróður minn og
frænda Jón Árna Jónsson bónda á
Sölvabakka, sem alla jafna var kall-
aður Addi. Fráfall hans bar snöggt
að, enginn átti von á slíkum fréttum.
Addi og Bogga tóku við búinu á
Sölvabakka árið 1966 af föðurafa
mínum, en jörðin hafði þá ekki verið í
ábúð í tvö ár.
Á Sölvabakka byggði hann ásamt
Boggu upp öll útihús, ræktaði tún,
lagði vatnsleiðslu, græddi upp mel-
ana og endurbætti íbúðarhúsið. Mest
fannst mér koma til nýræktarinnar
neðan við Svangrund þar sem hann
ræktaði stærðarinnar tún. Túnið var
alltaf kallað nýrækt, jafnvel áratug-
um eftir að móarnir urðu að túni.
Addi var harðduglegur til verka og
útsjónarsamur. Hann dró aldrei af
sér við vinnu og stundum, reyndar
oft, fannst manni hann fara langt
fram úr sér. En hann var bóndi og
gerði sér grein fyrir því að hlutirnir
gerast ekki af sjálfu sér. Hann unni
sveitinni, landinu, skepnunum og
fólkinu sínu. Samheldnin hefur
reyndar alltaf einkennt Sölvabakka-
fólkið. Addi var þar engin undan-
tekning.
Sem strákur var ég í sveit hjá
Adda og Boggu. Fór ég yfirleitt að
Sölvabakka á vorin strax eftir skóla
og var framyfir sauðburð og rekstur
á fjall. Ég var mikið með Adda við
alls konar snúninga við sauðburðinn.
Mér fannst gaman að snúast í kring-
um kindur og lömb. Frænda mínum
fannst hinsvegar undarlegt að litli
frændi hans vildi helst vera í fjósinu
og kemba kúnum. Það varð að sam-
komulagi milli mín og hans að nytin í
kúnum yrði meiri, ef kýrnar glöns-
uðu. Addi gat verið stríðinn á köflum,
en undir stríðninni var þó ekkert
annað en hans eðli, gleðin og glettn-
in.
Addi var hrókur alls fagnaðar hvar
sem hann kom. Gilti þá einu hvort
hann var allsgáður eða eilítið kennd-
ur, í réttum, á böllum eða í veislum.
Fjörið var í kringum bóndann á
Sölvabakka.
Frá Sölvabakka á ég ekkert nema
góðar minningar, frá afa og ömmu og
frá Adda og Boggu.
Elsku Bogga og allar frænkur
mínar, megi algóður Guð styrkja
ykkur í minningunni um Adda.
Ingimar Sigurðsson.
Fleiri minningargreinar um Jón
Árna Jónsson bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.
Kæri vinur, þakka þér fyr-
ir nær hálfrar aldar innilega
vináttu.
Ég mun sakna þín en
minningarnar lifa. Guð
geymi þig, Addi minn.
Þín vinkona,
Vigdís (Dósý).
HINSTA KVEÐJA