Lesbók Morgunblaðsins - 30.06.2001, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 30.06.2001, Blaðsíða 2
2 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. JÚNÍ 2001 FRÆÐIMAÐURINN Stanley Fish hefur gefið út ritið How Milton Works (Hvernig Milton virkar) en þar fjallar hann um höfundarverk sautjándu aldar ljóðskáldsins enska, John Milton. Í ritinu, sem er tæplega 550 síður, leitast Fish við að varpa ljósi á þá grunnhugmyndafræði sem Milton tjáir í ljóðum sínum og hinum frægu söguljóðum Paradísarmissir og Paradís- arheimt. Les Fish skáldskapinn ítarlega og í ljósi pólitískra og heimspekilegra skrifa Miltons. Stanley Fish er þekktastur sem forvígismaður viðtökufræði- stefnunnar í bókmenntafræði, þar sem sjónum var beint í aukn- um mæli að þætti lesandans í merkingarsköpun bókmennta- textans. Fish hefur stundað Milton-rannsóknir um árabil, en árið 1967 gaf hann út umdeilt fræðirit um Milton, Surprised by Sin. Gagnrýnendur telja hina ný- útkomnu bók Fish vera mik- ilvægt innlegg í fræðilegt mat á verkum Miltons, þótt margir, m.a. Frank Kermode í The New York Times, hafi látið í ljós efa- semdir í garð margra hinna djarfari röksemda Fish í bók- inni. Taívanskar bókmenntir í enskri þýðingu TVÆR nýjar enskar þýðingar á taívönskum bókmenntaverkum komu nýlega út í útgáfuröðinni Modern Chinese Literature from Taiwan hjá Columbia University Press. Hlutverk raðarinnar er að kynna stórvirki og áhugaverða unga höfunda frá Taívan á enskumælandi vettvangi. Smá- sagnasafnið The Taste of Apples (Hin sætu epli) eftir einn þekkt- asta nævista Taívan, Huang Chun-ming kemur út í þýðingu Howard Goldblatt. Í smásög- unum lýsir höfundurinn á næm- an hátt daglegu lífi fólks sem lif- ir við fátækt og fordóma í landinu. Þá hafa Taotao Liu og John Balcom þýtt bókmenntaverkið Wintry Night (Vetrarnótt) eftir Li Qiao. Þýðingin tekur til tveggja binda, þess fyrsta og síð- asta, úr þriggja binda verki Li Chiao um sögu Peng-fjölskyld- unnar. Í sögunni tvinnar höf- undur frásögn af stormasömum tímum í sögu landsins inn í frá- sögn af örlögum fjölskyldu- meðlima. Li Qiao er einn virtasti og afkastamesti rithöfundur Taívana. Vetrarnótt skrifaði hann á árunum 1975 til 1980. David Lodge og menntasamfélagið Á DÖGUNUM gaf breski rithöf- undurinn og bókmenntafræðing- urinn David Lodge út nýja skáld- sögu sem ber heitið Thinks.... Þar dregur hann upp satíríska mynd af samfélagi mennta- manna í Bretlandi. Aðalpersóna bókarinnar er rithöfundurinn Helen Reed sem ræðst til starfa við háskóla í Glouchester og hitt- ir þar fyrir undarlegt mennta- samfélag. David Lodge hefur áður beint sjónum að hinu akademíska lífi í skáldverkum sínum, og má þar nefna hinar bráðskemmtilegu Changing Places og Small World. Lodge er bókmenntafræðingur að mennt og gegndi hann pró- fessorsstöðu í nútímabók- menntum við Birmingham- háskóla á árunum 1976 til 1987. Þá dró hann sig í hlé til að sinna alfarið ritstörfum. Auk fjölda skáldsagna hefur Lodge ritað bækur um bókmenntafræðileg efni, sem mörg hver þykja lyk- ilverk innan fræðigreinarinnar. ERLENDAR BÆKUR Djörf túlkun á verkum Miltons B RESKAR náttúru- og dýralífs- myndir hafa löngum verið vinsælt sjónvarpsefni enda jafnan metn- aðarfull hágæðaframleiðsla. Hug- djarfir þáttagerðarmenn og há- menntaðir líffræðingar hafa lagt á sig erfið ferðalög til heitra landa, hlaðnir filmum og myndavélum, til að geta grafið sig í einskonar neðanjarðarbyrgi vikum og mánuðum saman eða komið sér fyrir hátt uppi í tré til að taka myndir af framandi dýr- um sem annaðhvort vita ekki af návist þeirra eða hafa vanist henni. David Attenborough er senni- lega einn frægasti frumkvöðullinn á þessu sviði. Hann boðar að hver einasta lífvera sé undursam- leg þar sem hann brýst fram úr skógarþykkninu móður og másandi, sólbrenndur á enninu og ný- straujuð khakískyrtan límist við hann. Ríkissjónvarpið hefur oft tekið til sýninga vand- aða BBC-fræðsluþætti í þessum dúr. Nú er þátta- röð um risaeðlurnar sem sýnd hefur verið á þriðjudagskvöldum nýlokið. Þetta eru einstaklega vandaðir þættir sem unnir eru með nýjustu tölvu- tækni – þeir eru svo tæknilegir að gerðir voru sér- stakir þættir um gerð þáttanna. Stórvaxnar og grimmdarlegar risaeðlur spranga um sanda og skóga eins og ekkert sé, þyrla upp ryki, gusast í vatni og slíta í sig blóðug kjötstykki alveg eins og í alvöru dýralífsmynd. Forsögulegar skepnur hinna vönduðu tölvuteiknuðu sjónvarpsþátta eru einhvern veginn átakanlegri og sorglegri en raun- verulegu dýrin sem fylgst er með í lífi og dauða í myndum Attenboroughs. Þær eru frummyndir, uppkast eða drög en sitthvað í hönnun þeirra frá hendi skaparans olli því að þær eru ekki meðal okkar í dag sem kunnugt er. Líf þeirra einkennd- ist af að berjast fyrir tilvist við aðstæður sem þær réðu ekki við og voru dæmdar til að tapa. Upp kemur sú spurning af hverju ráðist sé í svona þáttagerð sem er örugglega tímafrekari og kostn- aðarsamari en ferðalög á heimaslóðir alvörudýra. Höfum við kannski séð öll núlifandi dýr? Eða er- um við orðin leið á þeim? Eða vantar meiri tilþrif og tækni í venjulegar náttúrulífsmyndir? Bygging náttúrulífsmynda og -þáttaraða er af- ar hefðbundin og risaeðluþættirnir eru engin und- antekning. Oftast er fylgst með einu dýri eða einni fjölskyldu um nokkurra mánaða skeið. Sagan hefst í bernsku dýrsins, með eggi eða hvolpi sem foreldrar annast og vonast til að koma á legg. En frumskógalögmálið ræður og örlög systkina og jafnvel foreldranna eru þau að verða málsverður stærri og grimmari dýra. Áhorfendur fylgjast síð- an með hegðun og atferli dýrsins útvalda, veiðum og mökun á grösugum sléttum, glímu við óblíð náttúruöfl og gjarnan er fjallað um þá hættu sem dýrategundinni stafar af manninum, grimmasta rándýri jarðarinnar. Rödd þularins er þægilega ópersónuleg, lífsreynd og lætur vel í eyrum en umfram allt sannfærandi og traust. Myndinni lýk- ur síðan annaðhvort á því að dýrið verður að lúta í gras fyrir óvinum sínum og hefur þar með gegnt hlutverki sínu sem hlekkur í fæðukeðjunni eða lif- ir af og stofnar eigin fjölskyldu. Hringrás lífsins heldur því stöðugt áfram og jafnvægi ríkir í nátt- úrunni. Hnarreist dýrin ber við sólarlagið á skján- um sem firrtur nútímamaðurinn situr við. Hann hefur fyrir löngu sagt sig úr lögum við náttúruna og horfir aðallega á hana í sjónvarpinu - orðinn sjálfur að einskonar átakanlegri og illa hannaðri risaeðlu sem er úr öllu samhengi við umhverfi sitt en ber aðeins dauðann og útrýminguna í sér. FJÖLMIÐLAR Ríkissjónvarpið hefur oft tekið til sýninga vandaða BBC- fræðsluþætti í þessum dúr. Nú er þáttaröð um risaeðlurnar sem sýnd hefur verið á þriðjudags- kvöldum nýlokið. Þetta eru ein- staklega vandaðir þættir sem unnir eru með nýjustu tölvu- tækni – þeir eru svo tæknilegir að gerðir voru sérstakir þættir um gerð þáttanna. S T E I N U N N I . Ó T TA R S D Ó T T I R DAGAR RISAEÐLNANNA I Umfjöllun um íslenska menningu á Netinu er sí-fellt að aukast. Vefsíður á borð við mbl.is, visir.is, ruv.is og strik.is hafa um allnokkurt skeið boðið upp á fréttir og ýmsar upplýsingar um menningar- viðburði í landinu en einnig hafa hin fjölmörgu vefrit um þjóðmál, sem er að stórum hluta haldið úti af ungu fólki með pólitískar skoðanir, birt tals- vert af menningarfréttum, -greinum og stundum gagnrýni. Á meðal þessara rita leggja ritstjórar Múrsins (murinn.is) mesta áherslu á menningar- umfjöllun en þar eru reglulega birtar greinar und- ir yfirskriftinni „Menning og þó“ en menning- arþyrstum má einnig benda á Vefþjóðviljann (vefþjoðviljinn.is), Deigluna (deiglan.is) og Maddömuna (maddaman.is). Fréttavefir frá hin- um ýmsu landsvæðum halda einnig úti fréttaþjón- ustu um menningarviðburði á landsbyggðinni og sömuleiðis mætti benda á upplýsingavefi á borð við kvikmyndir.is og heimasíður listasafna og menn- ingarstofnana þótt þar sé sárasjaldan og raunar of sjaldan að finna bitastæðar greinar um listaverk, einstaka höfunda eða stefnur og strauma. IIHins vegar eru einnig gefin út sérrit um menn-ingu á vefnum og þau eru vafalaust fleiri en margan grunar. Hér má nefna Undirtóna (und- irtonar.is) og breakbeat.is, sem fjalla einkum um tónlist, nulleinn.is, Hrekkjusvín (hrekkjusvin.is) og hugi.is sem fjalla um menningu og mannlíf. Vefnir (vefnir.is) er tímarit um átjándu aldar fræði sem reyndar hefur ekki náð að halda fullum dampi frá því það var stofnað í apríl 1998 en það var fyrsta fræðilega „rafritið“ á Íslandi, eins og það var kallað. Sleipnir (sleipnir.is) nefnist svo menn- ingartímarit um íslenska hestinn en þar er að finna margvíslegan fróðleik um íslenska menn- ingu, ekki aðeins hestinn. Edda.is er svo nýopn- aður vefur útgáfufélagsins Eddu en þar eru bæði birtar fréttir um væntanlegar og útkomnar bækur fyrirtækisins og greinar um bókmenntir og menn- ingu. Kistan (kistan.is) er svo væntanleg á vefinn aftur í dag eftir nokkra byrjunarörðugleika en hún mun bæði vera fræði- og fréttarit um menningu og listir sem tekur við af samnefndu vefriti um húgvís- indi. Af þessu að dæma hefur sennilega aldrei verið jafnmikið framboð á menningarumfjöllun í íslensk- um fjölmiðlum. III Á edda.is er að finna viðtal við franska heim-spekinginn Michel Serres um sýndarveruleika. Þar er sagt að margir heimspekingar fordæmi þró- un í nýmiðlun og líti á þann sýndarveruleika sem miðlað er gegnum Netið sem hættu. Þeir haldi því fram að fólk sé að missa veruleikatengslin og að samband milli fólks sé að rofna. Serres er spurður hvað honum finnist um þessa gagnrýni og hann svarar: „Tökum dæmi af Emmu Bovary sem lætur sér leiðast í Normandí meðan maður hennar er að sinna sjúklingum úti í sveit. Hún hefur mun oftar samfarir í huganum en í raun og veru. Hún lifir í algerum sýndarveruleika. Frú Bovary er skáldsaga um sýndarveruleika. Og þegar ég les Frú Bovary eins og hverja aðra bók er ég líka í sýndarveruleika. Menn halda að þetta orð hafi orðið til með nútíma- tækninni, en það var Aristóteles sem bjó það til. Það er aðeins nútímalegt á yfirborðinu.“ NEÐANMÁLS ÉG tel að samtímalistin sé oft stór- kostleg og hún sé oftar en ekki mjög djúp og merkingarrík. Marg- ir eru gagnrýnni en ég, en ég tel að við lifum á stórmerkilegum tímum. Frumleiki listamanna kemur mér sífellt á óvart. [...] Listin er mjög alþjóðleg. Listamenn allra landa leita á sömu staðina, Feneyjar, Basel og fleiri staði. Þessi miklu al- þjóðlegu samskipti í listaheiminum gera það að verkum að mér finnst óskiljanlegt að Erró sé ekki þekkt- ur í Bandaríkjunum. Stór sýning á verkum hans hefur verið haldin víða í Evrópu en hvers vegna hún hefur ekki komið til Bandaríkj- anna þykir mér einkennilegt. Arthur Danto DV Meyjar píndar Heilagar meyjar eru ungar, fagrar og umfram allt hreinar meyjar og þær deyja fyrir skírlífi sitt ekki síður en guðdóminn, brúð- ir Krists og píslarvottar í senn. [...] Til pyndinganna eru höfð „písl- arfæri“ og sérstakir „kvalarar“ og eru þær settar upp sem sýning með fjölda áhorfenda. Í Agnesar sögu lætur „dómarinn kynda eld mikinn í augliti lýðsins og kasta meyjunni í logann miðjan.“ [...] Í píslunum eru meyjarnar naktar. Sviðsetningin er mjög sjónræn með meyna og kvalarana í mið- punkti og píslarfærin sem leikmuni. Meyjarnar eru píndar á hinn fjöl- breytilegasta hátt. Þær eru brennd- ar á báli eða glóðum, barðar með hnefum eða svipum, stegldar og hengdar upp á hárinu, settar í ker eða katla og kaffærðar í vellandi ol- íu eða biki, velt um á glóandi grjóti, hold þeirra slitið með krókum. Helga Kress 19. júní Jafnrétti í Hollywood? Bandarískir kvikmyndagerð- armenn sem hafa eitthvað nýtt fram að færa eru yfirleitt gleyptir af stórum samsteypum og óskars- verðlaunaafhendingin er hátíð með- aljóna. Framleiðsla í Hollywood gengur út á að búa til afþreying- arefni sem selst vel. Það þýðir kvik- mynd með vinsælum leikstjóra og leikurum, nýjum tæknibrellum og klisjukenndum söguþræði. Enginn vill taka óþarfa áhættu, allir vilja veðja á öruggan hest. Útkoman get- ur því aldrei orðið annað en einsleit. Ólíklegt er að breyting verði þar á og því skulum við vona að glæsileg innkoma frumlegra mynda eins og Girlfight og Billy Elliot í Hollywood geti af sér margar endurgerðir og óteljandi framhaldsmyndir sem eiga eftir að stuðla að jafnfrétti kynjanna í nánustu framtíð. Roald Eyvindsson 19. júní Morgunblaðið/Golli Táknmynd á floti. ERRÓ OG BANDARÍKIN

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.