Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2001, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2001, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. JÚLÍ 2001 3 MELITTA URBANCIC FRÁ LIÐNU SUMRI I. Í dag kom sannur sumardagur fyrst: sólgullinn morgunn fram úr heiði bláu reis yfir engi, er lauguð döggvum lágu, ljómandi fyrr en sólin hafði birzt, hófst yfir ána, er bugðast, blökk og glær, sem bráðið silfur iði á stjörfu grjóti, þar sem við bakkann æfir önd á fljóti ungana sjö, er létu úr hreiðri í gær. ... Og laufgræn blikar brekkan þín og mín! Svo brimar lífið, jafnvel dauðu, í æðum, að gluggi á koti gerist eldleg sýn og gömul amboð sprikla á sólskinsklæðum! Hér skulum við í helgi þagnargeimsins hvíla, við tvö. ... Ó, gleymda, dreymda fró, birtunnar fylling, varma, ríka ró, rödduð og dýpkuð kliði flugnasveimsins! Eitt verður nú og fyrr og fjær og nær! Friðheilög jörðin sæng og rekkjustokkur! Við næmar hlustir niðar mold, sem grær. ... Að nýju hefur sólin bjargað okkur! Melitta Urbancic (1902-1984) kom til Íslands haustið 1938 ásamt eiginmanni sínum, Victor Urbancic. Hún lauk doktorsprófi í málvísindum frá Háskólanum í Vínarborg, en hér á landi lagði hún mesta stund á höggmyndalist og skáldskap, auk þess sem hún kenndi ensku, þýsku og frönsku við Menntaskólann í Reykjavík um árabil. Íslensk þýðing Magnúsar Ásgeirssonar á sumarljóði hennar birtist fyrst í Kvæðasafni hans árið 1960. H VERNIG væri að leyfa öllum að stunda þá at- vinnu sem þeir kjósa? Í 75. grein stjórn- arskrárinnar stendur: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“ Þrátt fyrir þetta ákvæði fer því mjög fjarri að landsmenn njóti atvinnufrelsis. Það úir og grúir af ranglátum og fáránlegum reglum og lagakrókum sem hindra menn í að stunda þá vinnu sem þeir kjósa. Hugsum okkur að ég þurfi að láta gera við bilaða vatnslögn. Það þarf að brjóta vegg, skipta um rör, múra yfir og mála upp á nýtt. Ég hringi í mann sem ég þekki. Hann vill vinna verkið. En þar sem hann hefur aðeins próf í pípulögnum, en hvorki múrverki né málaraiðn er honum bannað að taka að sér nema hluta þess. Getur hugsast að þetta bann sé í al- mannaþágu? Hvernig getur almenningur haft hag af því að banna nokkrum manni að vinna við steypu og málningu? Það er hægt að tína til óteljandi dæmi og sum mun fáránlegri. Rússneskur tann- læknir sem flytur hingað til lands má ekki opna stofu vegna þess að prófið hans er öðru vísi en íslenskt tannlæknispróf. Doktor í stærðfræði þarf að sækja um undanþágu til að mega kenna unglingum því hann hefur ekki próf í uppeldisfræði. Stelpa sem vill verða hárgreiðslukona fær aldrei að stunda þá vinnu vegna þess að hún fellur aftur og aftur á prófi í algebru. (Já, það þarf í alvöru að standast próf í al- gebru til að fá leyfi til að vinna við hár- greiðslu.) Ef einhverjir yrðu til verja reglurnar sem banna mönnum að vinna þau verk sem hér voru talin mundu þeir trúlega bera því við að fullt frelsi á vinnumarkaði yrði til þess að mikilvæg verk lentu í höndum fúskara sem klúðruðu þeim. Í flestum tilvikum eru rök af þessu tagi léttvæg. Almannahag stendur engin ógn af því þótt einn og einn maður leyfi fúsk- ara að klippa hárið á sér eða mála veggina í íbúðinni sinni. Stundum er þó dálítið vit í svona rökum. Íbúar í fjölbýlishúsi geta t.d. ekki liðið að einn úr hópnum ráði fúskara til að gera við rafmagnið hjá sér ef hætta er á að frágangur verði með þeim endemum að það kvikni í húsinu. En þessar undantekningar breyta engu þar um að flestar reglur sem takmarka at- vinnufrelsi manna eru mjög langt frá því að vera í almannaþágu. Þær eru miklu oftar til þess að verja einokun, koma í veg fyrir samkeppni eða hlífa þröngum hópi manna við því að takast á við breytta tíma. Nú kunna sumir að hugsa sem svo að þetta geri lítið til. Það sé nóg svigrúm á vinnumarkaði til að flestir geti fundið sér eitthvað að gera og hvers vegna megi þá ekki létta sumum stéttum lífið ofurlítið með því að tryggja þeim einkarétt á að vinna tiltekin verk. Þetta dragi kannski eitthvað úr samkeppni og sveigjanleika en á móti komi að stórir hópar manna njóti meira atvinnuöryggis og minni hætta sé að á fúskarar klúðri hlutunum. Þetta er hugsunarháttur manna sem óttast þann fagnandi hraða sem gæðir nútímann lífi og lit. Lögverndun á tilteknum starfsgreinum kemur sjaldan í veg fyrir að fúskarar vinni verkin. Þeir eru til í öllum stéttum og fólk hefur lag á að forðast þá vegna þess að það spyrst út að ekki borgi sig að eiga viðskipti við þá. Hins vegar getur skerðing á atvinnufrelsi neytt fólk til að kaupa lélega eða dýra þjónustu því það hlýtur að gerast við og við að einhver geti boðið betri vinnu eða betri kjör en þeir sem hafa einkarétt á starfinu. Þegar einsleitur hópur manna með svipaða menntun fær einkaleyfi til að vinna einhver verk dregur úr líkunum á því að framfarir verði í greininni og fólk með ólíkan bakgrunn prófi nýjar hug- myndir. Ef engir nema „faglærðir“ menn mættu smíða sjóntæki þá hefðu snertilins- urnar aldrei verið fundnar upp og ætli við sæjum afrískar fléttur og þess lags skraut víða hér á norðurslóðum nema vegna þess að sums staðar hefur „ófaglærðum“ kon- um frá Afríku haldist það uppi að keppa við fólk með sveinspróf í háriðnum. Ef að- eins lærðir matreiðslumenn mættu selja tilbúna rétti þá væri líklega ekki hægt að panta flatböku með hálftíma fyrirvara í nær öllum kaupstöðum landsins og hugs- um okkur ósköpin ef engir nema útskrif- aðir kerfisfræðingar mættu taka að sér vefsíðugerð. Skelfing væri veraldarvef- urinn þá fátæklegur. Á síðustu áratugum 20. aldar var tölvu- og upplýsingatæknin mikilvægasta drif- fjöður framfara og bættra lífskjara. Öll saga þessarar tækni er til vitnis um þann sköpunarmátt sem losnar úr læðingi þeg- ar allir mega spreyta sig á að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd hversu vitlaus- ar sem þær kunna að vera samkvæmt ein- hverjum hefðbundnum mælikvörðum. Það eru engin lögvernduð störf í tölvu- og hugbúnaðargeiranum. Samt er mennt- un óvíða jafnmikils metin. Yfirvöld gera ekkert til að koma í veg fyrir að „fúsk- arar“ vinni verkin. Samt eru hvergi meiri framfarir. Það er óheft samkeppni um störf. Samt eru kjör launþega í þessum greinum með besta móti. Berum þetta saman við greinar þar sem einokun er á flestum störfum. Við getum að vísu ekki vitað hvernig væri umhorfs í þeim ef þar ríkti fullkomið atvinnufrelsi. Þessi óhjá- kvæmilega vanþekking okkar er kannski meginástæða þess að við sættum okkur við ófrelsi og reglugerðafargan því þar sem gildi frelsisins felst ekki síst í að gera mönnum mögulegt að nýta tækifæri sem enginn getur séð fyrir þá vitum við sjaldnast hvers við förum á mis þegar það er skert eða takmarkað. En þótt við vitum yfirleitt ekki hvað einstök skerðing á frelsi manna kostar þá vita það allir sem vilja vita að atvinnu- frelsi stuðlar almennt og yfirleitt að fram- förum og hagsæld og „kjör meginþorra fólks, eru best þar sem framfarir eru og samfélagið býr við batnandi hag. Hlut- skipti alþýðunnar er erfitt þar sem efna- hagur stendur í stað og ömurlegt þar sem honum hnignar. Framfarirnar glæða fjör og fögnuð með öllum stéttum, stöðnun fylgir deyfð og drungi, með hnignun kem- ur eymd og ami“. (Adam Smith: Auðlegð þjóðanna I. bindi viii. kafli.) ATVINNU- FRELSI RABB A T L I H A R Ð A R S O N LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 2 6 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R EFNI Victor Urbancic var einn af þremur fjölmenntuðum ungum tónlistarmönnum sem flúðu hingað undan ofurvaldi nasista í Þýskalandi í síðari heimsstyrjöldinni. Heinz Edelstein og Ró- bert Abraham Ottósson voru hinir tveir. Allir áttu þeir drjúgan þátt, hver með sín- um hætti, í að lyfta tónlistarlífi Íslendinga á hærra stig. Árni Heimir Ingólfsson fjallar um feril þessara manna og áhrif hérlendis í þremur greinum í Lesbók en sú fyrsta fjallar um Victor Urbancic. Opnunardagar Feneyjatvíæringsins í ár voru svo fjölsóttir að til vandræða horfði. Enda var þar margt að sjá því stjórnandi hans, Harald Szeemann, bauð yf- ir 100 listamönnum að sýna í aðalsýning- arsalnum, en þar fyrir utan eru sýningar í yfir 60 þjóðarskálum auk fjölmargra ann- arra sýningarrýma. Fríða Björk Ingvars- dóttir beið í löngum biðröðum ásamt fjöl- miðlafólki, sýningarstjórum og listunnendum alls staðar að úr heiminum til að fá að berja það ferskasta á sviði sam- tímalista augum. Vínland er óráðin gáta í sögu Íslendinga. Hermann Pálsson segir að Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga hafi aldrei verið skýrð- ar til hlítar, og oft hafi verið um þær fjallað án þess að taka til greina allar þær hug- myndir um vesturhjarann sem ráðnar verði ekki einungis af þeim sjálfum heldur einnig af Landnámu, Eyrbyggju, Íslendingabók og landfræðiritum. Sumartónleikar í Skálholti hefjast í dag í 27. sinn. Skipuleggjandi tón- leikaraðarinnar er Helga Ingólfsdóttir semballeikari, en Skálholtstónleikaröðin er sú elsta sinnar tegundar í landinu. Jón Nor- dal og Karólína Eiríksdóttir verða stað- artónskáld í sumar, og fyrsta helgin er helguð kórverkum Jóns. FORSÍÐUMYNDIN sýnir Þrengslin á gönguleiðinni inn í Grænsstað fyrir norðan Hveragerði. Myndina tók Árni Sæberg.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.