Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2001, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2001, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. JÚLÍ 2001 F ENEYJATVÍÆRINGURINN opnaði hlið sín fyrir almenningi fyrir skömmu og mun listaveisl- an standa yfir allt þar til í byrj- un nóvember. Í umfjöllun er- lendra blaða í kjölfar daganna 6. til 9. júní, en þá stóðu forsýn- ingar yfir, hefur víða verið vísað til tvíæringsins að þessu sinni sem „tvíærings biðraðanna“. Og víst er að raðirnar voru langar. Í biðröðunum mátti víða heyra skegg- rætt um ástæður þessa óvenju mikla áhuga á listunum og voru flestir á einu máli um að hann mætti rekja til þróunar sem hófst fyrir alvöru á tíunda áratugnum er listviðburðir tóku að rata á forsíður dagblaða sem „al- vöru“ fréttaefni. Listumhverfið hefur breyst mikið í kjölfarið, enda er nú svo komið að það eru ekki einungis stórir og voldugir bankar sem vilja mýkja ásýnd sína með því að vera stuðningsaðilar í samtímalistum, heldur er eins og veigamikil fyrirtæki af öllu tagi hafi áhuga, rétt eins og fjármálaheimurinn í heild sjái ímynd sinni hag í að ganga í eina sæng með listunum. Ekki er óalgengt að fjölmargir kostunaraðilar standi að baki hverri þjóð og sem dæmi má nefna að þeir samstarfs- og styrktaraðilar kanadíska verkefnisins sem taldir eru upp á heimasíðu þeirra eru átján, en tekið er fram að þá sé margra enn ógetið. Biðraðirnar og aðdráttarafl En ástandið sem myndaðist við skálana þessa fyrstu daga var sem sagt þannig að gagnrýnendur og blaðamenn biðu þolinmóðir í löngum röðum í allt að tvo til þrjá klukku- tíma til þess að komast inn í vinsælustu skál- ana, sem tilheyrðu Kanada, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Að sjálfsögðu eru ekki allir á eitt sáttir um það hvort verk- in í þessum skálum hafi öll verið biðarinnar virði, en víst er að þau vöktu mikla athygli. Mörgum hefur orðið hált á því að reyna að búa til skilgreiningar til að halda utan um samtímalistir, þar sem þær hafa – þegar best tekst til – einna helst tilhneigingu til að þróast í ófyrirsjáanlegar áttir. Það er því að sjálfsögðu ófyrirgefanlegt að nota biðraðir sem mælikvarða á gæði listsköpunar, þótt það hafi margir þurft að gera í Feneyjum þá rúmu tvo daga sem fjölmiðlafólki voru ætl- aðir til að skoða dýrðina. Að öðrum kosti átti fólk á hættu að missa af því sem flestir virt- ust telja áhugaverðast. Ef til vill má líta á biðraðirnar og það aðdráttarafl sem þær höfðu sem kaldhæðnislega sönnun á því hversu afstæð frægðin er – og jafnframt hversu nauðsynlegt það er að hafa markaðs- og kynningarmál í lagi. Að öðrum kosti er erfitt að ná langt, rétt eins og í öðrum at- vinnugreinum í markaðssamfélagi nútímans. Í þessum tvíæringspistli verður sem sagt öllum hugmyndafræðilegum skilgreiningum varpað fyrir róða, látið undan þrýstingi markaðarins í hálfkæringi og sagt frá sýning- arskálum þeirra þjóða sem hvað lengstu bið- raðirnar áttu. Enginn vafi lék á því að mesta biðin var við skála Þýskalands, enda einungis fimmtán hleypt inn í einu, sem gátu þar að auki dvalið þar inni eins lengi og þeim sýndist. Rétt eins og við var að búast á þessum „tvíæringi bið- raðanna“, þá var það einmitt skáli Þýska- lands, með verki Gregors Schneiders, sem var valinn besti skálinn í ár og það kom í raun fáum á óvart er tilkynnt var að hann hefði fengið gullljónið. Meginverðlaunin fóru þó til tveggja eldri meistara; þeirra Richard Serra, sem sýndi gríðarstóra ryðgaða stál- skúlptúra, og Cy Twombly, sem átti röð stórra málverka í meginsýningarskálanum. Afstæð fylgsni í híbýlum hugans Þýski listamaðurinn Gregor Schneider, sem er rétt um þrítugt, hefur allt frá því árið 1985 verið að vinna verkefni tengd húsum í heimabæ sínum Rheydt í Þýskalandi. Húsin eða húshlutarnir sem Schneider notar í verk sín hafa yfir sér hversdagslegt yfirbragð „venjulegra“ húsa, sem þó er búið að um- turna að því marki að þau bera með sér und- arlegt og fremur þrúgandi samspil fram- andleika og kunnugleika. Schneider vakti fyrst verulega athygli á alþjóðavettvangi fyr- ir verk af þessu tagi þegar hann tók þátt í „Apocalypse“-sýningunni í London á síðasta ári. Verkið sem fyllir þýska skálann í Fen- eyjum heitir „Dead House-Ur“, en það sam- anstendur af brotum úr raunverulegum hús- um sem búið er að raða saman í eina heild inni í skálanum. Fyrir áhorfandann, sem gengur inn í verkið eins og hver annar gest- ur, er hugsanlegt að heimsækja húsið án þess að verða var við þá listrænu úrvinnslu sem í verkinu felst. En eftir því sem sem hann leggur meira á sig við að rannsaka rýmin verður stílfæringin augljósari. Þeir gestir sem treysta sér til að fikra sig áfram neðst í húsinu geta tæpast horft framhjá samlíkingunni við fylgsni hugans; við undir- meðvitundina og óræðar hugsanir sem búa djúpt í hugskotinu, í lauslegum tengslum við það sem birtist á hversdagslegu yfirborðinu. Þarna niðri eru miklir ranghalar mjórra ganga, lítilla hurða og útskota þar sem meðal annars er að finna rykfallin leikföng sem vísa til bernskunnar, brunn eða holu sem vekur upp einkar ónotalegar tilfinningar, plastpoka sem hugsanlega gæti falið eitthvað óþægi- legt, lítið hóruhús með diskókúlu, og klefa á bak við rimla, sem einna helst minnir á dýflissu eða sýningar fjölleikahúsa á van- skapningum og furðufyrirbærum. Í verkinu leikur Schneider sér með óljós mörk falsks rýmis og „raunverulegs“ rýmis, andstæður hversdagsleika og fantasíu, þess viðurkennda og þess sem ekki þolir dagsins ljós. Sá gestur sem hættir sér inn í öll rýmin, sérstaklega þau sem eru óaðgengileg, þarf ekki að vera víðlesinn í Freud til að skilja táknmál verksins og verða fyrir áhrifum af því. Að sögn listamannsins sjálfs hafa hug- tökin „sjáanlegt og ósjáanlegt ekki mikla þýðingu“ í verkum hans, en „meðvituð og ómeðvituð skynjun, kunnugleiki og ókunn- ugleiki“ eru hins vegar þungamiðja í sköp- uninni, eins og ljóst má vera af líkingunni við undirmeðvitundina og sálarkirnuna. Í „Dead House-Ur“ leikur Schneider sér þó ekki einungis með samspil innri og ytri veruleika innan ramma sjálfs verksins, held- ur er einnig athyglisvert að skoða samspil verksins við bygginguna sem hýsir það. Sög- ur þessara tveggja bygginga eru mjög ólíkar sem og þær „innri“ sögur sem þær geyma, því saga skálans tilheyrir einvörðungu op- inberum vettvangi en húsið sem Gregor TAFSAMAR BIÐ- RAÐIR Á TVÍÆRINGI Opnunardagar Feneyjatvíæringsins í ár voru svo fjöl- sóttir að til vandræða horfði. Enda var þar margt að sjá því stjórnandi hans, Harald Szeemann, bauð yfir 100 listamönnum að sýna í aðalsýningarsalnum, en þar fyrir utan eru sýningar í yfir 60 þjóðarskálum auk fjölmargra annarra sýningarrýma. FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR beið í löngum biðröðum ásamt fjölmiðlafólki, sýningarstjórum og listunnendum alls staðar að úr heiminum til að fá að berja það ferskasta á sviði samtímalista augum. Kristsmynd Wallingers, fyrirmyndin að ófullkomnum teikningum af mannsmyndum, í miðjusal innsetningar hans. Listamaðurinn, sem hinn blindi „skapari“ í verki Marks Wallingers. Horft ofan í hyldýpið í neðri hluta húss Schneiders.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.