Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2001, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2001, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. JÚLÍ 2001 S ITUATIONIST International“, eða SI eins og það er skamm- stafað fæddist á Ítalíu árið 1957, hápunktur ferilsins var í stúdentaóeirðunum í París 1968 og félagsskapurinn lagði upp laupana árið 1972. SI var ný stefna í listum og stjórnmálum. Þeir (látið ykkur ekki detta í hug að einhver kvenmaður hafi verið með!), sem saman komu á Ítalíu 1957 voru meðlimir úr „Imaginist Bauhaus“-hópnum, afsprengi COBRA-hópsins og meðlimir úr „Lettrist Int- ernational“ þar sem Guy Debord fór fyrir. SI var alþjóðlegur hópur og það var einmitt tak- mark SI að vera algerlega laust við alla þjóð- ernisstefnu. SI-hópnum var sérlega umhugað um tvennt: nútímalist og róttæk stjórnmál, en um hvort tveggja má segja að í þeim felist ákveðin út- ópía, draumsýn um hið fullkomna samfélag. Árin eftir seinni heimsstyrjöldina einkenndust að sjálfsögðu af afleiðingum hennar og síðar af auknum kapítalisma; neyslusamfélagið sem við erum orðin vön í dag var að verða til. SI, meistarar kringumstæðna, vildu byrja upp á nýtt, bæði í listum og í stjórnmálum. Hvernig átti nú að fara að því? Ákveðið var að leitast við að sameina þetta tvennt í eitt verk- efni, og haga málum þannig að listin væri stjórnmálabaráttunni styrkur og öfugt, í stað þess að barist væri um yfirráðin, eða augum annars lokað fyrir tilvist hins. Það var leitað í smiðju Marxistans og súrrealistans Henri Le- febre við mótun þessarar nýju stefnu. Situa- tionistarnir ákváðu að einbeita sér að daglegu lífi einstaklingsins, umbylta hversdagnum. Draumur þeirra var að stjórnmál og nútíma- listir væru spennandi, fullnægjandi og virk á svipstundu, ekki í framtíðinni, á himnum eða einhverntíma eftir einhverja óraunsæja bylt- ingu. SI barðist hatrammlega á móti því sem þeir eða forsprakki þeirra öllu heldur, Guy Debord, kallaði „samfélag sjónarspils“, í samnefndri bók sinni sem einnig hefur verið nefnd „sam- félag sýndarinnar“. Þeir byggðu á hugmynd- um Marx um firringu verkamannsins, um að verkafólkið skorti tengsl við vöruna sem það framleiðir og við vinnufélaga sína og lifi í fram- andi veröld. Við þetta bættu þeir eigin hug- myndum um að kapítalisminn hafi skapað gerviþarfir til þess að viðhalda efnahagnum, að tilvistin byggi á eign. Þeir börðust gegn því samfélagi sem byggist á sjónarspili, þar sem allir atburðir, stórir sem litlir eru samstundis orðnir að sjónarspili af sjálfum sér og birtast þannig í fjölmiðlum jafnóðum, þar sem allar hugmyndir eru samstundis teknar upp, unnar og spýtt út aftur sem framleiðsluvöru kapítal- ismanum í hag. Þessar hugmyndir Debord hafa fengið mikinn hljómgrunn síðar og verið þróaðar áfram til dæmis af Jean Baudrillard, sem í svipuðum dúr hélt því fram að raunveru- leikinn væri ekki lengur til, aðeins endurunnin mynd hans. SI setti fram hugmyndir um samfélag án peninga, án verslunarvara, án launabaráttu, stéttlaust, án einkaeignar og án ríkis. Greini- lega afar anarkískir í skoðunum. Raunveru- legar ástríður áttu koma í stað gerviþarfa. Skilin milli vinnu og leiks myndu leggjast af. Samfélagið myndi einkennast af ástinni á frjálsum leik, (hér er ekki átt við leik eins og við þekkjum hann, heldur í grófum dráttum að hægt sé að lifa lífinu á leikrænan hátt) og fólk myndi neita því að vera teymt áfram eins og skepnur, neita að færa fórnir og neita að leika hlutverk. Hver um sig átti að skapa eigin kringumstæður. Þeir lögðu til að stofnuð yrðu eins konar ráð í hverju hverfi sem myndu taka ákvarðanir um allt sem upp á kæmi. Þrátt fyrir hvað hug- myndir SI voru anarkískar var SI sjálft langt frá því að vera anarkískur félagsskapur, þvert á móti var hópurinn alltaf lítill og fljótur að úti- loka þá sem ekki féllu í kramið. Á fimmtán ára ferli sínum puðruðu þeir út gífurlegu magni af skrifum ýmiss konar, um borgarskipulag, listsköpun, leiki og lífssýn og verður því nánar lýst hér á eftir. Upphaf, hámark og endalok Sögu SI má skipta í stórum dráttum í þrennt á þessu fimmtán ára tímabili. Fyrstu árin, 1957–61 voru frjó ár mikillar framleiðslu, uppljómuð af þeirri hugmynd að skapa list sem væri róttæk og samtvinnuð róttækum stjórnmálaskoðunum. Blað SI var gefið út í París; „International Situationniste“, sem og mikill fjöldi bóka og bókverka. Haldnar voru ráðstefnur og sýningar víða um lönd. Málverk, teikningar, líkön sem tengdust byggingarlist og borgarskipulagi, kvikmyndir og önnur verk voru framleidd í stórum stíl. Einnig aðgerðir af hreinum stjórnmálalegum toga eins og verslunarbönn, en slíkt var í hávegum haft. Framleiðsla meðlima SI var að sönnu ótrúlega mikil, og magnið kemur á óvart, sérstaklega miðað við það hversu lítt þekktir þeir eru eig- inlega í dag. Í Amsterdam fyrirfinnst til dæm- is verslun sem selur eingöngu verk þeirra og allt sem þeim tengist. En ástæðan fyrir því hversu gleymdir þeir virðast vera gæti líka verið sú að þeir voru ekki „hreinir“ listamenn, þeir framleiddu ekki söluvöru sem ætluð var til varðveislu á söfnum. Ennfremur er listrænt gildi mikils af því sem frá þeim kom vafasamt og oftast voru verk þeirra nær áróðri en list. Helst hafa hugmyndir þeirra varðveist í bók- um forsprakkanna Guy Debord. „Samfélag sjónarspilsins“, og Raoul Vaneigem sem skrif- aði bókina „Bylting hversdagslífsins“. Þessi fyrstu ár má líkja miklu af verkum SI við það sem síðar var kallað „gjörningur“ í listaheiminum, með þeim greinarmun þó að SI vildi alls ekki einskorða sig við listheiminn. Stjórnmálin náðu yfirhöndinni Árið 1962 átti sér svo stað klofningur innan hreyfingarinnar og hann byggðist einmitt á þessum tengslum við listaheiminn. Það má segja að róttækum listamönnum hafi verið hafnað og róttækum stjórnmálafræðingum fagnað. Þess má geta að í gegnum alla sögu SI voru mjög margir reknir úr hreyfingunni og yfir öll árin var meira en helmingi meðlima vísað brott, eða 45 af 70. Það var greinilega erfitt að gera Debord og félögum til hæfis. Þeir sem voru útilokaðir frá hreyfingunni 1962 stofnuðu nýjan hóp og einbeittu sér að listsköpun í anda SI, þeir kölluðu hópinn „Sec- ond Situationist International“ og gáfu m.a. út tímarit í Amsterdam í nokkur ár. Í kjölfarið, eftir þessar hreinsanir, einbeitti hin upprunalega hreyfing sér að þróun fræði- legrar stefnu sinnar og skilgreiningu sinni á því sjónarspili sem þeir héldu fram að stjórn- völd byggðu samfélagið á. Í framhaldi af þessu færðist SI út úr sýningarsölum listaheimsins og varð virkara m.a. í háskólum. Í lok þessa „annars“ tímabils komu út fyrrnefndar bækur Guy Debord og Raoul Vaneigem. Í þessum bókum og í þeim skrifum sem meistarar kring- umstæðna létu frá sér fara á þessum tíma voru nokkrar „kringumstæður“ eða viðburðir til- tekin sem mjög svo kostum búnar. Það voru til dæmis Parísarkommúnan 1871, uppreisnin í Kronstadt 1921 og ráð verkamanna í Búdapest 1956. Vopnað þessum hugmyndum hóf SI árið 1968. Augljóslega tóku þeir sterkan þátt í stúdentauppreisnum þeim sem þá áttu sér stað og verkföllunum sem fylgdu í kjölfarið, þó að barátta þeirra hafi auðvitað verið barátta menntamanna en ekki barátta verkamanna fyrir betri kjörum. Með umfjöllun sinni og baráttu gegn samfélagi sjónarspilsins og kynningu á þessum hugmyndum innan háskól- anna tóku þeir virkan þátt í byltingunni og þeir hlutu mikla athygli á meðan á henni stóð. Meistarar kringumstæðnanna skrifuðu, bjuggu til mótmælaspjöld sem voru samruni ljóða og slagorða, tóku þátt í og hvöttu aðgerð- ir stúdentanna. Þau mótmælaspjöld sem hvað mesta athygli vöktu á þessum tíma voru verk þeirra. Það má segja að þessi uppreisn hafi verið hápunktur SI því árin á eftir sem kalla má þriðja tímabil SI, fóru að miklu leyti í að lýsa, skrifa um og greina atburði þessarar uppreisnar og þau áhrif sem hún hafði sem voru sannarlega víðtæk. Var líf eftir byltinguna? Eftir atburðina, eftir að „byltingin“ hafði í raun átt sér stað, var SI í vandræðum með sig. Hvað svo? Samhliða því að greina byltinguna niður í frumeindir varð að halda áfram starf- inu en hvert framhaldið yrði var alls ekki ljóst. Ágreiningur kom upp og Raoul Vaneigem sagði sig úr hreyfingunni, öðrum var vikið frá fyrir að velta sér einum of upp úr frægðar- ljóma byltingarinnar. SI hafði nefnilega fengið mikla athygli og það breytti aðstæðum þeirra. Hvernig átti að bregðast við því þar sem það hafði aldrei verið á stefnuskránni? Átti að halda áfram og aðlaga hreyfinguna þessari ný- fengnu athygli eða var kannski betra að taka á sig form neðanjarðarhreyfingar og taka upp baráttuhætti skæruliða? Það var augljóst að héldi SI áfram starfsemi sinni yrði stefna þess meðtekin í samfélagi sjónarspilsins, nokkuð sem var verra en allt annað. Örlög þeirra yrðu hin sömu og annarra róttækra hugmynda og persóna, eða eins og Debord lýsti meðferð samfélags sjónarspilsins á slíkum fyrirbærum í stefnuskrá sinni 1957: „Ríkjandi hugmyndafræði sér um að sótt- hreinsa róttækar hugmyndir, finna þær létt- vægar og innleiða þær síðan í sjónarspilið á öruggan hátt.“ Það má spyrja sig að því hvort að nokkur hugmynd, stefna, eða róttæklingur sleppi við þau örlög í samfélaginu eins og við þekkjum það í dag. Hvaða listamaður getur hneykslað í dag án þess að setja jafnframt verðmiða á verkið? Jafnvel þeir sem haldið hafa á lofti hinni harðvítugustu samfélags- gagnrýni áratugum saman eins og hann Meg- as, eru nú óskabörn þjóðarinnar og ráðamenn flykkjast hundruð kílómetra til að ljá honum eyra. Hvað er verra fyrir róttæka byltingarstefnu en að vera „samþykkt“? Innan gæsalappa vegna þess að slíkri samþykkt fylgir ekkert nema útúrsnúningur á kjarna stefnunnar. Þetta var auðvitað útilokað og ekki í anda hreyfingarinnar. Það endaði með því að SI var lagt niður, hætti, þegjandi og hljóðalaust. En hvað vildu þeir eiginlega? Kjarni baráttu SI var að fólk ætti að skapa sér sínar eigin kringumstæður og kölluðu þeir það „tilbúnar kringumstæður“. Þessu lýstu þeir á mjög óræðan hátt eins og Frökkum ein- um er lagið (en hér er þýtt úr ensku), sem svo: „stundarkorn í lífinu, með vilja byggt upp frá MEISTARAR KRINGUM- STÆÐNA ÚR ÁHORFENDUM Í ÞÁTTTAKENDUR E F T I R R Ö G N U S I G U R Ð A R D Ó T T U R Allt frá Baudelaire til súrrealistanna má greina óslitinn þráð, fléttaðan úr hinu óvænta, því skrýtna, einkennilega og jafnvel fáránlega. Eftir að súrrealisminn hvarf að mestu af sjónarsviðinu á eftirstríðsárunum var hugmyndum hans að hluta til haldið á lofti af nýjum hópi: Situationistunum svokölluðu sem hér verða kallaðir meistarar kringum- stæðna. Þeir ætluðu að breyta samfélaginu, hvunndeg- inum, lífinu og listinni frá grunni ... Greinin er myndskreytt af Róberti Þór Haraldssyni en myndirnar voru hluti af út- skriftarverkefni hans í Listaháskóla Íslands sl. vor. „Afbökunin verður að vera einföld, því að skilningur á henni takmarkist af meðvitaðri eða ómeð-vitaðri minningu um hið upprunalega samhengi.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.