Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2001, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2001, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. JÚLÍ 2001 myndast á milli okkar. Enda veit ég ekki hvar hún er niðurkomin í dag... Núna finnst mér ekki tiltökumál að skreppa í bæinn utan af Álftanesi, þó smá bömmer að bílaútvarpið er bilað. Á göngu um borgina er ég á ýmsum aldri, barn, unglingur, ung kona, móðir, dóttir, syst- ir, vinkona. Oft á tíðum flæða minningar fram, hús breytast í huga mér, byggingar hverfa, raunveruleikinn er varla nema brot af þessu öllu. Vegir hvers og eins eru sannarlega einka- vegir, en um leið tengdir af sameiginlegum raunveruleika okkar allra, veðri, borgarskipu- laginu, ýmsum byggingum, sögunni og ekki síst fjölmiðlum, sem SI hötuðu hvað mest. Ég er samt ekki viss um hvaða möguleika Guy Debord hefði séð á góðu „dérive“ í Reykjavík. Détournement – afbökun og afvegaleiðing Þeir voru sannarlega sérfræðingar í að finna viðeigandi hugmyndafræðileg heiti, blessaðir, því þetta orð sem þeir notuðu yfir mikið af listsköpun sinni, hefur ýmsar merk- ingar og fleiri en ein eru vel við hæfi. Enskir þýðendur hafa farið auðveldu leiðina, nota ein- faldlega orðið „detournement“ og sleppa þannig fyrir horn. En við sleppum ekki svo vel. Sögnin sem tengist þessu hugtaki merkir einfaldlega að breyta stefnu einhvers, breyta til dæmis stefnu fljóts eða flugvélar. Einnig að breyta um umræðuefni, sýna á sér aðra hlið, og jafnvel að falsa, til dæmis peninga. Allt þetta má heimfæra upp á þau verk SI sem falla undir hugtakið. Í raun er þetta þó ekki ólíkt því sem kallað var „objet trouvé“, „fund- inn hlutur“, en þá voru hversdaglegustu hlutir settir í nýtt og listrænt samhengi og bæði dadaistarnir og súrrealistarnir gerðu það mörgum árum áður. En SI hefur án efa viljað finna nafn sem var nákvæmara og lýsti verk- um þeirra betur. Hvað var þetta þá eiginlega? Ósköp einfaldlega tóku þeir til dæmis myndir í dagblöðum eða myndasögur og skrifuðu nýja texta, svo þeirra eigin boðskapur kom fram. Þeir gerðu þetta mikið við myndasögur af ýmsu tagi, en töluvert var orðið til af þeim á sjötta áratugnum og að nálgast þann sjöunda. Auk þess eru Frakkar miklir myndasögufíkl- ar, fullorðnir jafnt sem börn og myndasögur því vel til þess fallnar að ná til fjöldans. SI var líka mjög hlynnt kvikmyndagerð og gerð sjón- varpsefnis. Guy Debord gerði tvær myndir, „Gólað til hyllis de Sade“, en þar kom hann óhorfendum á óvart með því að vera með myrkt bíó, enga mynd, ekkert sjónarspil. Einnig gerði hann mynd í anda bókarinnar „Samfélag sjónarspilsins“. Eins og fram hefur komið var hefðbundin listsköpun ekki á dag- skrá SI. Engin leið að réttlæta hefðbundna listsköpun Debord skrifaði notkunarreglur fyrir „af- bökun og afvegaleiðingu“ árið 1956, ári áður en SI var stofnað. Eins og venjulega er hann ekkert að skafa utan af hlutunum og segir meðal annars: „Hver sá sem er nokkurn veg- inn með á nótunum í dag er sér meðvitaður um þá augljósu staðreynd að ekki er lengur hægt að réttlæta listsköpun sem æðra starf, jafnvel ekki sem uppbótarstarf og engin leið að hægt sé að vinna að henni á heiðvirðan hátt. (...) Bókmenntaarfinn og listrænan arf mannkyns ætti að nota til stuðnings málstaðn- um. Auðvitað er nauðsynlegt að hugmyndirn- ar nái lengra en einfaldlega að hneyksla. Þar sem að andstaða við hina borgaralegu afstöðu til lista er orðin nokkuð útþvæld er t.d. teikn- ing Duchamps af yfirvaraskeggi á Mónu Lísu nú ekki áhugaverðari en málverkið sjálft. Við verðum að ganga svo langt að afneita afneit- uninni.(...) Nýjar nauðsynjar líta dagsins ljós og ýta úr vegi verkum sem eru „innblásin“: Þau verða ljón í veginum, hættulegur ávani. Þetta er ekki spurning um það hvort við erum hrifin af þeim eða ekki. Við þurfum að ganga lengra. Það er hægt að nota hvað sem er, sama hvaðan það kemur, til þess að skapa nýj- ar samsetningar. ...þegar tveir hlutir eru sett- ir saman myndast alltaf nýtt samband, sama hversu ólíkir þeir eru að uppruna. (...)“ Debord segir síðan að bestu dæmin um vel heppnaða „afbökun og afvegaleiðingu“ sé að finna í auglýsingageiranum. Hann setur líka fram lög um notkun „afbakana og afvegaleið- inga“ og segir að best sé þegar hin nýja merk- ing er ekki augljós heldur gefin í skyn og fjar- læg. Afbökunin verður að vera einföld, því að skilningur á henni takmarkist af meðvitaðri eða ómeðvitaðri minningu um hið upprunalega samhengi. Afbökun hefur því minni áhrif því nær því sem hún kemst því að hægt sé að svara henni á skynsamlegan hátt. Afbökun sem verður til með einföldum útúrsnúningi liggur beint við en hefur minnst áhrif. Debord bendir á ýmsa miðla sem henta til afbökunar, veggspjöld, hljómplötur og út- varpssendingar og stingur einnig upp á afbök- un á skáldsögum. Hann nefnir fleiri dæmi og það er eins og að þegar hann fjallar um þetta efni sé mun auðveldara að stinga upp á hag- nýtum lausnum en þegar fjallað er um önnur málefni SI. Hann lýsir til dæmis nákvæmlega einu mögulegu verki: „Kúluspilakassa er breytt á þann hátt að ljósin og nokkurn veginn fyrirsjáanleg braut kúlnanna mynda saman rýmisverk sem heitir Varmaskynjun og lang- anir hjá fólki sem gengur framhjá hliðinu að Cluny-safninu, um það bil klukkutíma eftir miðnætti í nóvember.“ Debord heldur síðan áfram og segir: „Við höfum nú komist að því að SI-rökgreinandi framkvæmd getur ekki þróast vísindalega með gerð slíkra verka“... Stundum fær maður óneitanlega ekki varist brosi! Hann heldur síðan áfram og fer að lofa möguleika kvikmyndanna og segir „afbökun og afvegaleiðingu“ eiga þar mesta möguleika á allan hátt, jafnvel á fagurfræðilegan máta, fyr- ir þá sem hafa áhuga á því. Hann nefnir ýmsa möguleika á að klippa sundur og saman, setja nýtt hljóð, setja inn nýjar setningar og breyta titlum. Ofurafbökun Debord nefnir svo það sem hann kallar „ultra-détournement“ en hana má nota í dag- legum samskiptum. Nota má orð og handa- hreyfingar á nýjan hátt. Frá mínum Frakk- landsárum sem voru fá og fyrir löngu man ég eftir að hafa heyrt um Parísarbúa sem töluðu „verlin“ dregið af „a l’invers“ – öfugt, eða aft- urábak. Ekki veit ég hvar það á uppruna sinn en hver veit? Hann nefnir líka að hægt væri að nota afbökun í klæðaburði, en nefnir engin dæmi um það, en auðvitað var enn á þessum árum auðvelt að hneyksla með klæðaburði sem er heldur erfiðara í dag. Debord lýkur þessum notkunarreglum á að segja að afbök- unin sé ekki uppfinning SI sem er alveg rétt því margir hafa notað hana bæði á undan og eftir. Hann segir hins vegar að hún geti nýst þeim í baráttunni. En hvar var Guy Debord? Hann er fæddur 1932 og var alla tíð um- deildur í heimalandinu. Það hefur þótt erfitt að staðsetja hann stjórnmálalega og eins og gefur að skilja hefur hann án efa átt mikið af óvildarmönnum, bæði vegna þess hvað mikils hroka gætti í skrifum hans og eins vegna þess hversu valdamikill hann var í SI og duglegur við að útskúfa fólki. Hann var giftur og kona hans tók þátt í starfsemi SI en ekki rakst ég á nein skrif eftir hana. SI var karlahópur eins og fleiri bæði fyrr og síðar. Debord átti sér velvildarmann sem var óneitanlega sérstakt, kannski var hann sá síðasti af Evrópskum mennta- eða listamönnum sem haldið var uppi af auðmanni. Þetta var útgefandinn Gérard Lebovici sem var myrtur undir 1990. Sá orð- rómur komst á kreik að Debord hefði verið viðriðinn morðið og var það honum mikið áfall. Í framhaldi af því bannaði hann allar sýningar á kvikmyndum sínum í Frakklandi. Guy De- bord framdi sjálfsmorð, skaut sig, árið 1994, en hann hafði þá verið veikur í nokkur ár af taugasjúkdómi sem oft er tengdur við áfeng- issýki sem hann einnig þjáðist af síðustu árin. Það má því segja að hann hafi verið meistari kringumstæðna allt til enda, jafnvel dauða sinn tók hann í eigin hendur. Eftir lát hans hlutu verk hans mikla upp- reisn æru í Frakklandi og áhrif hans eru nú al- mennt viðurkennd. SI á seinni tímum SI heldur áfram að koma upp, og vera upp- götvað af nýjum kynslóðum. Ýmsir hafa verið til þess að benda á tengsl pönkhljómsveita eins og Sex Pistols við kenningar þeirra, en einhvern tíma sagði Malcolm McLaren, höf- uðpaurinn á bak við pönkbyltinguna í Eng- landi, að það væri „frábært að nota kring- umstæðnahyggju í rokki og róli“. Anarkísk hlið SI hefur höfðað til róttækra hópa víða um lönd og aðferðir þeirra við afbökun og afvega- leiðingu eru öllum færar. Þó að skrif þeirra séu oft á tíðum torræð og yfir öllu hvíli einhver andblær snobbaðs fransks gáfumannaklúbbs frá síðustu öld, klúbbs sem þykist berjast fyrir réttindum lág- stéttanna en hefur aldrei unnið handtak, – er ekki hægt að neita því að hugmyndir þeirra eru afar róttækar, oft skemmtilegar og gaman að velta fyrir sér hvernig hver og einn getur skapað sér sínar eigin kringumstæður í dag- lega lífinu. Debord var framsýnn og naskur í kenningum sínum sem nú eru almennt þekkt- ar og viðurkenndar. Uppreisnarandi þeirra er sterkur og finnur án efa hljómgrunn enn og aftur hjá nýjum kynslóðum, sem hver og ein endurskoðar hlutverk listarinnar og sjálfrar sín. Dæmi þessa mátti meðal annars sjá á út- skriftarsýningu Listaháskóla Íslands 2001 (og hér á þessum síðum), þar sem eitt lokaverk- efnið, verk Róberts Þórs Haraldssonar kvikn- aði út frá verkum og hugmyndum SI, en þar sýnir hann slagorðin sem notuð voru í maí byltingunni 1968 í nýju ljósi, nú 33 árum síðar. Lengi lifi byltingin.... Höfundur er myndlistarmaður og rithöfundur. Þ EGAR ég heyrði um þetta fyrst get ég ekki sagt að ég hafi tekið það alvarlega. Að drengnum væri strítt í skólanum? Hverjum er ekki strítt einhverntíma í skól- anum? Mér var strítt á sínum tíma, en þá var ekki annað að gera en taka á móti, stríða á móti, slást ef því var að skipta. Svo ég reyndi að eyða talinu, banda frá mér hendinni, hvaaaað, var að horfa á sjónvarpið, og var reyndar með aðrar áhyggjur sem lágu mér á hjarta því að einmitt sama dag komu til mín niður í vinnu tveir náungar sem ég kannast við, ekki beint heið- arlegustu þjóðfélagsþegnarnir, vildu fá mig með í innbrot, vantaði góðan lásamann. Ég bað þá vel að lifa, ég væri steinhættur öllu slíku, hefði fyrir fjölskyldu að sjá, dreng til að ala upp og ætti annað barn í vændum, ég gæti enga áhættu tekið. Þeir vildu reyndar meina að áhættan væri engin, þannig er það alltaf, og garanteruðu á einu bretti „tvöföld þau árslaun sem þú hefur upp úr þessu lyklafokki hérna“. Ég vildi losna við mennina sem fyrst, hinir þrír starfsmennirnir voru farnir af verkstæðinu því að ég hafði tekið að mér að loka, og annar þess- ara náunga var farinn að snuðra um allt, ég kannaðist við kauða, Doddi Deivis er hann kall- aður, svo stelsjúkur að hann var einu sinni tek- inn eftir innbrot með notaðan tannbursta, – „hvað ertu að vilja þarna?“ sagði ég við hann þegar hann var kominn með fulla lúku af lykla- kippum með skjaldarmerkjum íþróttafélag- anna, og þeir urðu á endanum aðeins fúlir og til að halda virðingunni gekk annar þeirra alveg upp að mér og sagði: „Eitt orð um þetta kall minn og þú verður vallaður.“ Svo fóru þeir út í myrkrið. Ég beið um stund, hamaðist á lóð- unum í skonsunni inn af kaffistofunni í svona hálftíma, kom heim löðursveittur og skellti mér í bað, ekki alveg laus við kvíða. Ég færi að vísu ekki að kjafta frá, en nú til dags eru menn stundum vallaðir fyrir það eitt að vita of mikið, eins og hann Valli sem þetta er kennt við, hann hvarf sporlaust með öllu. En konan mín fór að tala um þetta aftur þeg- ar við vorum á leið í rúmið, að þetta væri alvar- legt mál með strákinn, honum liði hræðilega, – hvort ég hefði ekki tekið eftir því hvað hann væri kvalinn? Ég hafði reyndar eitthvað mis- skilið hana fyrst, gáði einmitt hvort það væri ekki allt í lagi með drenginn þegar hann kom að kyssa mig góða nótt, og þóttist þá taka eftir því að hann væri aðeins hokinn og skakklappandi, svo ég hélt hún væri að tala um einhverja helti, einhelti. „Jú,“ sagði ég, „eitthvað sýndist mér hann beyglaður“. Og þá sagði hún mér þetta allt, að skólinn væri að verða honum eilíft kvalræði, hann væri stöðugt hæddur og niðurníddur, honum væri hrint, það væri migið á bækurnar hans og skóla- töskuna, nestið atað upp úr drullu, hann væri eltur heim alveg upp að dyrum með spörkum og grjótkasti, þetta var alveg hræðilegt að heyra. Ég gat ómögulega komið þessu heim og sam- an, það kom alveg flatt upp á mig, ég man að hérna í gamla daga var strákum strítt ef þeir voru eitthvað of litlir eða feitir eða smámæltir og stamandi, en minn drengur var ekkert af þessu, hann var bara svona venjulegur, hvorki of né van. En konan mín sagði að það væri af engu sérstöku sem honum væri strítt, það væri bara einn strákur í skólanum sem væri svona foringi, hann fengi alltaf alla hina krakkana í lið með sér til að níðast á einhverjum einum, og nú væri það drengurinn okkar, í fyrra hefði það víst verið einhver annar sem var svo grátt leik- inn að foreldrar hans neyddust til að flytja svo hann færi í annan hverfisskóla. „Og er ekkert hægt að gera?“ spurði ég. „Er ekki hægt að tala við kennarann eða eitthvað?“ „Ég er búin að því,“ sagði konan mín, „ég hringdi í kennarann og fór svo upp á skrifstofu og talaði bæði við umsjónarkennarann og yf- irkennarann, en síðan er meira en vika og ég held að þetta versni stöðugt.“ Ég svaf ekki nema svona rúman klukkutíma þessa nótt en hrökk svo upp með vondar hugs- anir, mér leið bölvanlega. Þessi yndislegi dreng- ur minn, líf mitt og ljós – ég hafði svosem ekk- ert reynst honum sérlega vel, við skildum þegar hann var á fjórða árinu og hann hafði lítið af mér að segja á meðan ég var hálfgerðu reiði- leysi, í innbrotunum og þetta, stálheppinn að vera aldrei gómaður fyrir alvöru, og eftir að ég kom úr meðferðinni fyrir tveimur árum og við endurreistum heimilið hafði ég ímyndað mér að ég væri stráknum bakhjarl og skjól í lífinu. En nú þegar á það reyndi fannst mér ég einskis megnugur. Ég neita því ekki að mér vöknaði um augu þarna sem ég bylti mér í rúminu, ég fór fram og horfði á drenginn minn sofandi, þennan stórkostlega náunga, hann er miklu betri en ég hef nokkurntíma verið, nú var hann svona grátt leikinn og það var ekkert sem ég gat gert… Ég reyndi að hugsa ekki um þetta næstu daga, var að vona með sjálfum mér að það væri svo sem ekkert, eitthvað bara slest upp á vin- skapinn en svo væri það gleymt og grafið, þið vitið hvernig strákar eru… En einn morguninn vaknaði ég við það að drengurinn var hágrát- andi, konan mín var inni hjá honum og ég heyrði bara snöktið og fann vanlíðanina leggja út í gegnum hurðina og svo kom konan mín fram og sagði að hann yrði að fá frí í dag, honum liði svo illa, hann væri farinn að pissa aftur und- ir, það hafði hann ekki gert í sjö ár – í gær hefðu helvítis skepnurnar hringt í hann hvað eftir annað og hótað honum öllu illu, ástandið væri hryllilegt. Hvað getum við gert? Mér var það með öllu hulið, en eitthvað varð ég að segja, svo ég reyndi að hljóma traustur og skynsamur og sagði að það yrði bara að tala betur við kennarana, skólayfirvöldin, það væri ekki annað hægt, ég tryði því ekki að það væri fullreynt, það gæti ekki verið meiningin að krakkarnir liðu kvalir í þessum skólum þeirra, ég varð mælskur um þetta mál. „Ókei,“ sagði þá konan mín, „farðu og talaðu við þá“. Það hafði reyndar ekki hvarflað að mér, mér fannst að hún ætti að fara, að annað kæmi ekki til greina, en var auðvitað búinn að mála mig út í horn. Reyndi að malda í móinn, en það var kviknuð dauf von í augunum á konunni minni, hún sagði að það væri örugglega reynandi að ég færi, kannski er meira mark tekið á feðrum, á karlmönnum, hver veit, allavega virtist enginn hafa tekið mark á henni. Og ég var allt í einu kominn með glænýja og óvænta víglínu, ég varð að hringja upp í skóla og melda drenginn veikan og að panta viðtal við skólastjórann. Hann var taugaveiklaður en afar geðslegur maður fannst mér, laus við hroka og yfirdreps- skap, þannig skólastjóra hafði ég aldrei áður fyrirhitt, reyndar hafði ég ekki verið í sam- vistum við slíka menn síðan ég sjálfur sat og var skammaður sem vandræðanemandi í skóla fyrir tuttugu og eitthvað árum. Hann blikkaði stöð- ugt augunum og brosti, því meir sem hann ræddi alvarlegri mál, og strauk svitann af and- litinu. Hann hafði líka boðað skólasálfræðing á fundinn, það var ungur, kurteis og vel klæddur maður, sem sagðist strax vilja ræða einelti „á breiðum grundvelli“. Já, þeim var vel kunnugt um þetta tilvik og þökkuðu mér fyrir að koma, þeir vildu sannfæra mig um að af hálfu skólans væri fullur og staðfastur vilji til að taka á svona vandamálum. Það var bara ekkert sem þeir gátu gert. Vissulega er þessi drengur mikil plága, Hallgeir heitir hann, ósköp venjulegur svona drengur að sjá, en hann er alltaf að æsa alla hina krakkana upp í að níðast á einhverjum einum, gera aðsúg, sonur minn væri ekki sá fyrsti, foreldrar annars drengs hafi verið að kvarta undan honum í fyrra, þá var drengnum veitt áminning en ekkert dugði, foreldrar þess pilts hefðu verið að bíða eftir tækifæri til að kæra Hallgeir, ef þeir hefðu gert það hefði skólayfirvöldum gefist tækifæri til að grípa inn í málin á róttækan hátt, en pilturinn væri séður og út undir sig, hann færi með löndum, æsti hina krakkana upp, sjálfur væri hann eins og músin sem læðist, og nú væri það sem sé minn drengur. Skólasálfræðingurinn tók við þegar skóla- stjórinn loksins þagnaði, endurtók að hann vildi ræða málið á breiðum grundvelli, sagði að þeir sem hefðu forystu um svona lagað kæmu oft frá brotnum heimilum… „Er það eitthvað þannig hjá þessum Hall- geiri?“ spurði ég. Nei, því var ekki til að dreifa í þessu tilfelli að sögn sálfræðingsins. En þar sem ég hafði bara áhuga á þessu eina tilfelli spurði ég hvers vegna væri ekki bara hægt að reka þennan strák úr skólanum, lífið væri að verða ein martröð fyrir son minn, þeir migu meira að segja á skóla- töskuna hans! „Því miður er málið ekki svo einfalt,“ sagði skólastjórinn. „Það eru lög um skólaskyldu í landinu, og það er jafnframt skylda skóla- yfirvalda að taka við nemendum viðkomandi umdæmis.“ „Hvernig foreldra á hann?“ spurði ég, „er ekki hægt að tala við þá?“ „Ja, hvort það hefur ekki verið reynt!“ sagði EINHELTI E F T I R E I N A R K Á R A S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.