Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2001, Qupperneq 13

Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2001, Qupperneq 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. JÚLÍ 2001 13 ÓPERUHÚSIÐ La Scala í Míl- anó á Ítalíu, sem án efa telst með þekktari óperuhúsum heims, verður í lok árs lokað er ítarlegar endurbætur hefj- ast á byggingunni. Starfsemi óperunnar verður þar með tímabundið flutt til nýs leik- húss í útjaðri Mílanóborgar, en stjórnendur La Scala gera ráð fyrir að endurbótunum verði lokið í lok árs 2004. Ýmsar efasemdaraddir eru hins vegar uppi um að stjórn- endum takist að standa við orð sín þar sem mikilla endurbóta sé þörf á La Scala sem fyrst var opnað árið 1778. Umtals- verðar endurbætur fóru fram á óperuhúsinu árið 1946, en öll aðstaða baksviðs, s.s. bún- ingaklefar, tækni- og ljósabún- aður og geymslurými, hamlar nú vexti óperunnar. Og að sögn Carlo Fontana óperu- stjóra La Scala er þetta ein helsta ástæða þess að einungis er nú hægt að setja upp 90 óperur og 40 ballettsýningar ár hvert. „Vandamálið er að La Scala er Óperan og eft- irspurnin er mikil,“ sagði Fontana og kvað unnt að setja upp 120-160 óperusýningar, sem og aukinn fjölda ball- ettsýninga árlega eftir breyt- ingarnar. Sagnakvöld vinsæl meðal New York-búa SAGNAKVÖLD njóta nú tölu- verðra vinsælda meðal íbúa New York-borgar að því er dagblaðið New York Times greindi frá á dögunum. Það er félagið Moth sem að sagna- kvöldunum stendur, en þau hafa hægt og sígandi verið að vinna hylli borgarbúa frá því þeim var fyrst komið á 1997. Hugmyndina átti rithöfund- urinn George Green, sem vildi endurvekja sagnahefð ríkja á borð við Georgíu meðal borg- arbúa. En Green kveðst hafa óttast að nútíma sam- skiptahættir hefðu rænt íbúa stórborga frásagnagleðinni og áhuganum á góðum sögum. „Mér virtist sem fólk væri að fjarlægjast hvert annað æ meir,“ segir Green, sem sjálfur er heillaður af sagnahefðinni. Sagnakvöldin sem aldrei hafa verið auglýst eru nú jafnan þétt setin, en þau fara jafnan fram á börum, veitingastöðum og öðrum álíka samkomustöð- um og skiptast þar sex ólíkir einstaklingar á að segja áhorf- endum sögur sem byggjast á þema kvöldsins. Óperuhátíð í Kaupmannahöfn ÁTTA þekktar óperur, m.a. Rigoletto eftir Verdi og Tosca eftir Puccini, verða á dag- skránni á nýrri óperuhátíð sem efnt verður til í Kaup- mannahöfn í lok ágústmán- aðar. Hátíðin, sem verður á Forum í Fredriksberg, var kynnt nú í vikunni af barí- tónsöngvaranum Brian Dan. Er markmiðið með hátíðinni að kynna nýja og hæfileikaríka listamenn fyrir óperuheim- inum og veita þeim um leið tækifæri til að kynnast at- vinnumennskunni, segir Dan í viðtali við Berlingske Tidende. En hann hefur fullan hug á að gera óperuhátíðina að árlegum viðburði. La Scala lokað vegna endurbóta ERLENT KARÓLÍNA Eiríksdóttir er staðartón-skáld í Skálholti um þessa helgi. Átvennum tónleikum í dag kl. 15 og kl.17 verða flutt verk eftir hana, verk frá ýmsum tímum á ferli hennar, allt frá nýju verki sem frumflutt verður á fyrri tónleikunum, til verks sem Karólína samdi á námsárum sínum. Kl. 14 verður Karólína með erindi í Skálholts- skóla þar sem hún kynnir verk sín. Að iðka gott til æru Á fyrri tónleikunum í dag verður frumflutt nýtt verk eftir Karólínu, Að iðka gott til æru, fyrir kór, einsöngvara og þrjá hljóðfæraleikara. Flytjendur eru Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, Ásgerður Júníusdóttir mezzósópran og Jónína Hilmars- dóttir víóluleikari, Helga Ingólfsdóttir semb- alleikari og Sigurður Bjarki Gunnarsson selló- leikari. Karólína segir verkið byggt á gömlum íslenskum lögum úr handritum, sem Collegium musicum í Skálholti hefur verið að vinna að því að skrá og koma í dagsljósið á ný. „Ég fór að glugga í þessa tónlist sem verið er að grafa upp úr handritunum, og fann þar þessi þrjú lög sem ég byggi verkið á. Það er í þremur köflum, og hver þeirra byggður á einu lagi sem ég með- höndla svo með ýmsum aðferðum. Verkið á sem sagt rætur í gömlum íslenskum handritun, en það er algjör tilviljun, að þau þrjú söngverk sem flutt verða eftir mig í Skálholti tengjast öll miðöldum. Maður lifandi deyr Á seinni tónleikum dagsins verður flutt atriði úr óperuleiknum Maður lifandi eftir Árna Ibsen, mig og Messíönu Tómasdóttur, sem sýndur var í Borgarleikhúsinu fyrir tveimur ár- um. Þar var Sverrir Guðjónsson í hlutverki dauðans, og ég vann þessa tónlist sem flutt verður í dag út frá hans hlutverki í sýning- unni.“ Að sögn Karólínu er verkið byggt á mið- aldaleiknum Everyman, sem var siðbótarleik- ur. Dauðinn kemur að sækja Mann lifandi sem er með öllu óviðbúinn. Manni lifandi tekst um síðir að semja við Dauðann um frest til að finna förunaut. Hann kallar Vináttu, Vandamenn og Eiginkonu til sín hvert af öðru og sárbænir þau um fylgd yfir móðuna miklu; öll neita og bera ýmsu við. Í örvæntingu leitar hann þá til Jarð- neskra eigna, sem alltaf hafa reynst honum vel. Sú persóna er hinn mesti spaugari en jafnframt hinn versti þorpari. Jarðneskar eigur geta auð- vitað ekki fylgt eiganda sínum í dauðann, en flytja honum þess í stað spásögn um örlög heimsins, og um það hvernig allt sem lífsanda dregur muni fylgja Manni lifandi í dauðann honum til dýrðar. Maður lifandi skelfist þetta tilboð og verður þessi fundur honum sár lexía. Hann býðst til að ganga í lið með Dauðanum og berjast gegn þeim háska sem heiminum stafar af Jarðneskum eignum. Dauðanum þykir ekki mikið um þessa tillögu og sýnir Manni lifandi skrautsýningu um mannlega lesti. Sýningin minnir Mann lifandi á Góðverk, gamla vinkonu hans sem kúrir hrjáð og illa haldin honum til fóta. Góðverk fjörgast ögn við góðan vilja Manns lifandi og finnur honum þann eina föru- naut, sem hann á völ á. Sá tekur að sér að lemja vit í Mann lifandi svo að hann sættist við hlutskipti sitt og fylgja honum í ríki dauðans. Miðaldastúlkan Carenza lifnar við Þriðja söngverkið er einnig tengt miðöldum og heitir Na Carenza, en textinn er á proven- çal, máli frönsku trúbadúranna og titillinn ávarp til stúlkunnar Carenzu. Flytjendur eru Ásgerður Júníusdóttir, Jónína Hilmarsdóttir og Peter Tompkins óbóleikari. „Það var aust- urrísk tónvísindakona, Regina Himmelbauer, sem hafði verið að rannsaka texta kvenkyns trúbadúra frá miðöldum, sem fékk þá hugmynd að fá konur víðs vegar að úr heiminum til að semja tónlist við þessa texta, en upprunalega tónlistin við textana var glötuð. Ég var ein af þeim sem leitað var til. Það varð þó aldrei úr því að verkin yrðu flutt í heild sinni, en mitt verk var frumflutt á alþjóðlegri kventónlist- arhátíð í Vínarborg fyrir um fimm árum, en hefur ekki heyrst hér á landi áður.“ Einleiksverk frá ýmsum tímum og kammerverk frá námsárum Auk söngverkanna þriggja verða flutt nokk- ur einleiksverk eftir Karólínu á báðum tónleik- unum. Sigrún Eðvaldsdóttir leikur Hugleiðingu frá 1996 og In vultu solis frá 1980. Guðrún Sigríður Birgis- dóttir leikur Spor fyrir altflautu, en Karólína samdi verkið fyrir Guðrúnu, sem frumflutti það í nóvember á síðasta ári. Helga Ingólfsdóttir leikur Vorvísu, sem Karólína samdi fyrir hana og Sumartónleika í Skálholti sumarið 1991. Elsta verkið á tónleikunum er tríóið IVP, fyrir flautu, fiðlu og selló, en það var samið sumarið 1977 þegar Kar- ólína var enn í námi, og fyrst flutt í Ann Arbor í Michigan árið 1978. Þeir sem ekki komast í Skálholt í dag, eiga þess kost að heyra úrval verka af tónleikum dagsins á tónleikum á morgun kl. 15 en kl. 16.40 á morgun leik- ur Hilmar Örn Agnarsson á org- el Skálholtskirkju verk eftir Jó- hann Sebastian Bach. Í messu kl. 17 á morgun verða svo fluttir þættir úr nýja verkinu hennar Karólínu, Að iðka gott til æru. „TILVILJUN AÐ SÖNGVERKIN TENGJAST ÖLL MIÐÖLDUM“ Morgunblaðið/Árni Sæberg Tónlistarmennirnir sem flytja verk Karólínu Eiríksdóttur í Skálholti. Karólína Eiríksdóttir. Verk hennar verða flutt í Skálholti um helgina.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.