Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2001, Qupperneq 14

Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2001, Qupperneq 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. JÚLÍ 2001 T ÆPIR tveir áratugir eru nú liðnir frá því að Francois Mitterand var kjörinn í embætti Frakklandsfor- seta. Vinstri menn tóku þá við stjórn eftir langa setu hægriafla og notuðu þeir sér framkvæmdir í menningamálum til að skera sig frá hægrisinnuðum forverum sín- um af miklum drifkrafti. Við kjör Mitterands voru fagnaðarlætin gífurleg og flest benti til að Frakkland yrði nú helsta aðsetur nútímalista. Sigurvímann hefur nú fyrir löngu runnið af stuðningsmönnum forsetans fyrrverandi og gagnrýnisraddir vegna þess menningarlega stórmennskubrjálæðis er á stundum einkenndi stjórn hans orðið háværar. Pýramídi I.M. Pei við Louvre-safnið, nýja óperuhúsið við Bastillutorg, þjóðarbókasafnið, tónlistarhúsið Cité de la Musique og Grande Arche sigurboginn risu öll í stjórnartíð Mitter- ands. Byggingaframkvæmdir forsetans, sem kallaðar hafa verið Les Grands Travaux, hafa nú kostað franska ríkið fleiri milljarða franka og þykir ljóst að því fé hafi ekki öllu verið vit- urlega eytt. Hraði og nýjungagirni leiddu af sér kostnaðarsöm mistök, líkt og bygging nýja óperuhússins þykir vera til vitnis um og ekki er fjarri lagi að líkja byggingaframkvæmdum rík- isins við framkvæmdir Haussmanns baróns. En baróninn lét rífa niður miðaldagötubygg- ingu Parísar í nafni borgarlegs glæsileika og öryggis er breiðstræti borgarinnar voru reist á 19. öld. „Það hefur myndast sú hefð að hver forseti fái sína hringlu, en þessi fékk óhemju mikið,“ segir fornleifafræðingurinn Michel Fleury, sem barist hefur fyrir verndun franskra minn- ismerkja, um framkvæmdagleði Mitterands. Það er þó ekki eingöngu byggingakostnað- urinn sem ríkið hefur þurft að bera, því fleiri milljarðar til viðbótar fara í rekstur stofnan- anna ár hvert. Er þá ónefndur kostnaðurinn við endurbyggingu á framhlið nýja óperuhúss- ins, sem er við það að falla af, og aukakostn- aður sá er fylgdi því að koma nýju þjóðarbóka- safni Frakka í nothæft ástand. Valddreifing í menningarmálum Markmiðið með menningarframkvæmdum sósíalistastjórnarinnar var valddreifing í menningarmálum. Það felst því viss kaldhæðni í þeirri staðreynd að Grands Travaux verk- efnið hefur í raun rænt sveitir landsins. Sögu- fræg og minna þekkt minnismerki þurfa mörg hver á endurbótum að halda, en eru nú víða vanrækt vegna gífurlegs kostnaðar við Grands Travaux. Fjárframlög til menningarmálaráðu- neytisins hafa hækkað umtalsvert á undan- förnum árum, en ná þó ekki að fjármagna allan viðhaldskostnað og því hafa framkvæmdir við kirkjur, óðalssetur, kastala og jafnvel sjálfa Versali orðið að láta í minni pokann fyrir bygg- ingum Grands Travaux. Þó sjaldan heyrist orðið gagnrýni á pýra- mída I.M. Pei, sem prýðir forgarð Louvre, eru fáir sem treysta sér til að verja byggingarstíl óperunnar, jafnvel meðal þeirra er annast rekstur hússins. Hugues Gall, stjórnandi óp- erunnar hefur gengið svo langt að kalla bygg- inguna hörmung og Jean-Pierre Angremy, sem sér um rekstur þjóðarbókasafnins, segir safnið eiga við formgerðarvandamál að stríða. Kostnaðurinn við byggingarframkvæmdir Grands Travaux er varlega áætlað talinn hafa numið einum 35 milljörðum franka, eða um 455 milljörðum íslenskra króna. Áframhaldandi rekstur þessara stofnana er þá ekki tekinn með í reikninginn, en hann er oft á tíðum mikill og má nefna sem dæmi að bókasafnið kostar rúma 13 milljarða króna á ári hverju. Ekki er þó hægt að líta á Grands Travaux verkefnið sem helber mistök. Ýmsar þessara bygginga njóta aðdáunar erlendis, sem og sú stefna franskra stjórnvalda að hæfileikaríka listamenn bæri að verðlauna, hverrar þjóðar sem þeir væru. Sumar framkvæmdanna þykja þannig hafa tekist framúrskarandi vel, þó þeirri spurningu sé engu að síður ósvarað hvort allar framkvæmdirnar hafi verið nauð- synlegar? Er stjórn Mitterands komst til valda virtist enginn áhugasamari en Jack Lang menninga- málaráðherra og tókst honum að auka fjár- framlög til ráðuneytisins verulega. Sá mikli stuðningur sem forsetinn veitti ráðuneytinu gat í fyrstu virst viss eldmóður, en er horft er til baka kann hann einnig að bera vott um áhyggjur forsetans af hrörnandi heilsufari sínu og hræðslu við að tapa næstu kosningum. Sá mikli hraði er síðan einkenndi allar fram- kvæmdir og það dramb sem stjórnin sýndi í ákafa sínum í að breyta ásýnd Parísar teljast síðan að öllum líkindum meginástæður þeirra mistaka er gerð voru. Versalir bíða lægri hlut fyrir framkvæmdum Grand Travaux Menningarmálaráðuneytið, sem áður var brautryðjandi er nú á góðri leið með að breyt- ast í steingerving. Stofnuninn, þrátt fyrir um- fang sitt, hefur lítið rými til að lagfæra það sem farið hefur úrskeiðis, hvað þá að hefja nýjar framkvæmdir vegna fjárskorts. Maryvonna de Saint Pulgent, sem nýlega sendi frá sér bókina Menningarríkisstjórnin, segir þörf á nokkrum milljörðum franka vegna viðhalds á Versölum, rafmagnskerfi bygging- anna sé hættulega úr sér gengið. „Menningar- málaráðuneytið getur ekki séð af þeim fjár- munum. Getið þið ímyndað ykkur ef Versalir brynnu?“ segir de Saint Pulgent. „Við eyðum milljörðum í minnismerki sem við höfum ekki efni á að halda við. Ráðuneytið er fátækt. Fjár- framlögin kunna að virðast mikil en ráðuneytið hefur hlægilega lítið ráðstöfunarrými í þeim efnum. Hver ráðherra hefur stjórn á um 1-2% af fjárveitingum sínum. Fjármálaráðuneytið bendir hins vegar á að það er búið að tvöfalda fjárframlögin og enn er beðið um meira. Þetta eru endalok þessa tímabils.“ Sósíalistar hafa þó ekki verið einir um að vilja auka veg franskrar menningar og erfði stjórnin einnig fjárfrek verkefni frá Valery Giscard d’Estaing, forvera Mitterands, er Morgunblaðið/Ómar Grande Arche, hinn nýi sigurbogi Mitterands átti að vera sameiningartákn manna í stað þess að vísa til styrjaldarsigra líkt og Sigurboginn. Kostnaður við bygginguna fór töluvert fram úr áætlun. MENNINGARLEGT STÓR- MENNSKUBRJÁLÆÐI? Frakkar eru gjarnan taldir til menningarþjóða og koma menning og listir upp í huga margra er París er nefnd á nafn. Borgin skartar jú fjölda sögufrægra bygginga á borð við Louvre safnið, Sigurbogann og Eiffelturninn. Síðastliðna áratugi hefur franska stjórn- in haldið áfram að reisa menningarstofnanir og minnismerki af miklum móð og er ekki laust við að vissrar biturðar gæti nú vegna þessa.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.