Lesbók Morgunblaðsins - 05.01.2002, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 05.01.2002, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. JANÚAR 2002 3 H VENÆR féll fyrsta regnið á jörðina og hvernig varð vatnið til? Er vatnið eitt af því sem við vitum að verður í framtíðinni, í allri framtíð mannsins og í framtíð þessarar jarðar okkar? Er þyngdarafl jarðar nógu sterkt til að hindra að vetnið hverfi frá okkur út í geiminn? Í sköpunarsögu Biblíunnar og goðsögum margra þjóða er talað um vatnið, vatn á himnum, sem upphaf veraldarinnar. Í sköp- unarsögum sem ég hef lesið kemur landið hvergi fyrst og vatnið síðar. Þau koma ýmist saman eða vatnið á undan. En hvaðan kem- ur vatnið í raun? Jörðin okkar birtist fyrst í gömlum al- heimi sem var búinn að vera til í meira en sex þúsund ármilljónir. Vetnið er fyrsta frumefnið. Vatn getur ekki komið fram fyrr en súrefnið verður til. Vatn er eins og allir vita samsett af tveimur vetnisatómum og einu súrefnisatómi sem mynda þessa best þekktu sameind jarð- arinnar H2O. Vatn gufar upp við ákveðið hitastig og jörðin var lengi of heit til að vatn gæti verið á jörðinni og myndað höf, vötn, ár og læki eins og við nú þekkjum. Í meira en hundrað árþúsund frá upphafi jarðar voru öll vötn á himnum. Gufuhjúpurinn var í fyrstu ekki heldur nógu kaldur til að drag- ast saman í regndropa og falla á jörðina. Vatn var lengi álitið frumefni en að sjálf- sögðu er það samsett úr tveimur frumefnum sem hægt er að skilja sundur og við það hverfur allt vatn. Það kemur aðeins fram vegna bandalags þessara tveggja frumefna. En áður en þessi atóm gátu orðið til varð að hanna í heimssmiðjunni það efni sem atómin eru gerð úr, róteind og rafeind. Hvorki rót- eind né rafeind voru til við upphaf alheims- ins og ekkert efni í okkar skilningi, aðeins geislun eða ljós. Eftir 700.000 ár frá stóru- sprengju varð fyrsta atómið til og þar með fyrsta frumefnið, vetni. Vetnið er gert úr einni róteind og einni rafeind. Súrefnið er hins vegar með átta róteindir og átta raf- eindir. Frumefni mynda pýramída. Ný við- bótarróteind í atómkjarna táknar nýtt frumefni. Frumefnin koma fram í réttri röð frá þeim léttustu til þeirra þyngstu. Öll þró- un efnisins byggist á þessu og þróun lífsins er beint framhald af þróun efnisins. Súrefn- isatómið er sextán sinnum þyngra en vetn- isatómið. Ástæðan er sú að í súrefnisatóm- inu eru ekki aðeins róteindir heldur líka nifteindir. Öll atóm (nema flest vetnisatóm) hafa bæði róteindir og nifteindir í kjarna sínum. Höfum við ekki ástæðu til að óttast að þetta fislétta vetnisatóm hverfi frá okkur út í geiminn þegar það verður viðskila við súrefnisatómið í háloftunum? Jú, einmitt þetta getur gerst og gerist. Aðdráttarafl jarðar missir visst magn af vetni frá jörðinni og út í geiminn. Þetta fyrirbæri er þekkt undir nafninu photolysis. Útfjólubláir geisl- ar kljúfa yst í lofthjúpnum vatnssameindina sundur í frumefni sín, vetni og súrefni, og vetnið hverfur frá jörðinni. Hér er samt ekkert að óttast fyrir manninn og lífríki jarðarinnar um alla framtíð manns og heims. Frá upphafi hefur þetta ekki skert vatnsbirgðir jarðarinnar um meira en 0,2 prósent að því talið er. Jörðin á afmarkaðan aldur eins og allt annað og án óþekktra stór- slysa skiptir þetta því ekki verulegu máli. Þrír fjórðu af efnismagni þessa alheims okk- ar er vetni. Gæti ekki eitthvað af því efni borist til jarðarinnar? Þetta vetni var einn helsti efniviðurinn í stórsólunum sem voru fyrsta kynslóð sólanna. Það má segja að þessar stórsólir kveiki fyrst ljós alheimsins. En þessar fyrstu stórsólir voru einnig efna- verksmiðjur sem sköpuðu ný og sífellt þyngri frumefni. Þær sköpuðu grundvöll lífsins og allt það efni sem nú er til í heimi okkar. Hvernig myndaðist súrefnið? Það er hvorki einföld né átakalaus sköpun. Vetni 1 verður að breytast í helíum 4 og þróunar- ferill sem gengur undir nafninu CNO (það er að segja kolefni, nytrogen og súrefni 15) hannar að lokum fullskapað súrefnisatóm sem stígur í fyrsta sinn fram á sviðið. Sólin okkar er ekki nógu sterk fyrir þau átök sem þarna fara fram. Þetta getur aðeins gerst í stórsólum sem eru mörgum sinnum stærri en sólin okkar. Með þessu er þó ekki öll sag- an sögð. CNO-ferlið getur aðeins skapað súrefni 15, en súrefnið í náttúrunni er að- allega súrefni 16, 17 og 18. Stórsólin brennir upp kjarna sinn, springur og verður súp- ernóva. Nýja efnið sem hún hannaði berst frá henni, stjörnuryk. Úr slíku stjörnuryki er sólin okkar löngu síðar gerð og úr sama efni varð jörð okkar til og þó að lítið sé til af súrefni í alheimi okkar miðað við vetni og helíum nær það samt þriðja sæti hvað magn snertir. Vatnið sem sameind er furðuverk af mörgum ástæðum. Sköpun þess hefst með stórusprengju og heldur áfram í stórbylt- ingum fyrstu kynslóða sólanna þar sem súr- efnisatómið verður til. Jörðin okkar, Gæja, sólin og aðrar reiki- stjörnur urðu til úr stjörnuryki sem grísku skáldin kölluðu kaos. Stjörnurykið þéttist og snýst eins og diskur. Mest af þessu efni lendir í miðjunni og ný sól fæðist. Það sem verður eftir fyrir utan miðjuna myndar að lokum reikistjörnurnar. Þetta gerðist fyrir 4,6 árbilljónum. Jörðin var lengi í fæðingu og lá í fyrstu undir stöðugri skothríð smá- stirna sem síðar urðu hluti jarðarinnar. Til eru vísindamenn sem telja að fyrir 4,5 ár- billjónum hafi hnöttur á stærð við Mars rek- ist á jörðina með þeim afleiðingum meðal annars að tunglið okkar góða varð til. Það er talið vera efni sem þá spratt frá jörðinni. Þessi árekstur svipti jörðina þeim lofthjúp sem þá var utan um hana. Í ármilljónir log- aði jörðin heimskautanna á milli. Það sem síðar varð að fjöllum var þá aðeins bráðin eimyrja. En þá eins og ævinlega bjó skap- andi máttur í þessari skelfilegu eyðilegg- ingu. Þetta leiddi til þess að jörðin okkar fékk nýjan lofthjúp, vötn á himnum. Þar sem jörð okkar myndaðist í sólkerfinu telja vísindamenn að hafi verið lítið um vatn. Það var að finna utar í sólkerfinu í formi ís- hnatta. Það voru þeir sem færðu jörðinni vatnið, að hluta að minnsta kosti. Það voru og eru milljónir halastjarna sem að mestu eru frosið vatn í svo kölluðu Ort-belti skammt fyrir utan sporbaug jarðar. Eftir að jörðin hafði verið um það bil fimmtíu ár- milljónir að kólna féll mest af járni hennar inn að miðjunni en léttari frumefnin mynd- uðu yfirborðið aðallega. En hvenær féll þá fyrsta regnið á jörðina? Það gerðist ein- hvern tímann á tímabilinu eftir að jörðin varð tvö hundruð ármilljóna gömul og þar til hún var orðin sex hundruð ármilljóna göm- ul. Þetta er fjögur hundruð ármilljóna tíma- bil. Á öllu þessu tímabili er regn smám sam- an að falla til jarðar og mynda heimshöfin. Þegar þetta gerðist hafði hitastigið fallið nægilega mikið til þess að regn gæti mynd- ast. Vötnin sem upphaflega voru á himnum steyptust ekki niður í einu vetfangi. Þetta gerðist mjög hægt eins og öll góð sköpun. Með regninu sem féll á jörðina kom lífið með undarlegum hætti inn í tilveru jarðar. Eitthvað í þessum dúr ræddu menn um tilurð vatnsins árið 2000. Ég lít fremur á þessi fræði sem gott upphaf en endanlega niðurstöðu. Þetta er enn eitt rannsókn- arefnið fyrir þriðja árþúsundið. Ný svör kunna enn að finnast í ítarlegri rannsókn þeirra hluta sem eru enn á reiki í geimnum og náðu því aldrei að vera hluti af veröld okkar. HVENÆR FÉLL FYRSTA REGNIÐ? RABB G U N N A R D A L g u n n a r d a l @ t o r g . i s ÞÓRBERGUR ÞÓRÐARSON ÉG ER AUMINGI Ég er mikið mæðugrey – má því sáran gráta –, af því forðum ungri mey unni ég fram úr máta. Aldrei sé ég aftur þá, sem unni’ eg í bernskuhögum; bak við fjöllin blá og há bíður hún öllum dögum. Ef ég kæmist eitthvert sinn yfir fjallasalinn, svifi ég til þín, svanni minn! með sólskin nið’r í dalinn. En ef ég kemst nú ekki fet, elskulega Stína! eg skal éta eins og ket endurminning þína. Kvæðið er ort árið 1915 og birtist í Hvítum hröfnum sem Þórbergur gaf út árið 1922. FORSÍÐUMYNDIN er af Yoko Ono að kyssa íslenskt tré í Vinalundi, tekin í heimsókn hennar til Íslands árið 1991. Ljósmyndari: Ragnar Axelsson. Helgi Hálfdanarson er ekki jafn kunnur sem fræðaþulur og þýðandi en hefur eigi að síður gefið út merkileg rit um fornan kveðskap. Baldur Hafstað fjallar um bækurnar Slettireku og Maddömuna með kýrhausinn eftir Helga en þær hafa ekki hlotið mikla athygli. Í Suðursveit nefnist grein Péturs Gunnarssonar um Suð- ursveitarbálk Þórbergs Þórðarsonar sem samanstendur af bókunum Steinarnir tala, Um lönd og lýði, Rökkuróperunni og verki sem Þórbergur lauk aldrei við og birtist fyrst árið 1975 í heildarverkinu og þá undir nafninu Fjórða bók. Pétur segir bálkinn vera kennslubók í því hvernig mannlífið getur öðlast ævarandi líf í sögu. Hvað þjóðin hér mundi heitir grein Matthíasar Johannessen en hún er sú síðasta í greinaflokki Lesbókar Ísland – Útland. Í greininni segir Matthías meðal annars: „Ekki alls fyrir löngu var sagt við mig að íslingar mættu taka sig taki. Ég hrökk við. Íslingur, hvað var það? Og ég fór að hugsa málið. Og þá varð það augljóst að íslingar eru Íslendingar þegar framburðarþolinmæðina brestur! Og ég hugsaði með mér: Þetta er bara byrjunin. Svo kemur hitt á eftir.“ LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 1 . T Ö L U B L A Ð - 7 7 . Á R G A N G U R EFNI Yoko Ono er án efa einn merkilegasti listamaður sam- tímans, ásamt því að vera „frægasta ekkja“ í heimi, segir Þóroddur Bjarnason í grein sinni um sýningu Onos, Impressions, í Barcelona.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.