Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Page 5

Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Page 5
Lesbók Halldór Laxness 2002 Morgunblaðið ∼ 5 meðan hann var að skrifa söguna. Ég studdist auðvitað mikið við Snorra. Sumir kaflar í Gerplu standa djúpum rótum í Heims- kringlu. Auk þess las ég alls konar sagnfræði frá 11. öld, bæði enska og franska: sömuleiðis bækur um Grænland, jafnvel leið- inlega doðranta um grænlenzka fornleifafræði; ég pældi líka gegn- um engilsaxneska annála og því um líkt. En það er nauðsynlegt að þekkja rúm og tíma sögu sinnar til þess maður villist ekki og geti unnið frjálst. Og þó maður noti aðeins eitt eða tvö lýsingarorð úr hverri fræðibók um efnið, er nauðsynlegt að vita um hvað maður er að tala. Ég hef farið á alla þessa staði sem lýst er í Gerplu, nema til Grænlands. Svo þú sérð að maður verður annaðhvort að hafa pen- inga til að geta skrifað svona bók – eða vera alger flakkari. Ég hafði allt leiksviðið fyrir hugskotssjónum; sá það allt. Þekkti landafræð- ina ekki síður en sagnfræðina. Ég get ekki unnið nema hafa jarð- samband. Get ekki unnið í lausu lofti. Þú spyrð, hvaða kafli í Gerplu mér finnist beztur, svona eftir á að hyggja. Hér er málsgrein, sem ég reyndi að vanda mig við. Það er lýsing á því, þegar vorið er að koma til Grænlands. Ég held það séu 10 línur, við skulum sjá: „Nú líður af þessi vetur sem aðrir er eigi vóru skemri, og tekur brestum að slá í nóttina, og þefvísir menn segja tíðendi, að þá and- aði móðir sjóskepnunnar þey að landi úr hinum fyrstum höfum þar sem hún á soðníngarstað. Og nær sól ekur sínum björtum him- inhundum sunnan jökulinn, og túnglbóndinn, vörður lágnættis, er sofa geinginn, þá vekja menn hunda sína jarðneska og busta af meiðum snjó, og fara að vitja þeirra gjafa er kona hin einhenda hef- ur upp látnar á ísskörina.“ Ég held ég hafi skrifað þessa málsgrein 20–30 sinnum. Annars er bókin sem þú heldur á sjöunda Gerplan sem ég skrifaði. Hinar sex liggja í kistu hjá Peter Hallberg í Gauta- borg. Sumar eru töluvert lengri en þessi. Pétur er víst að lesa þetta sér til skemmtunar um nætur, ef hann getur ekki sofið. Sumir fá þetta allt í einu innblásturskasti og skrifa upp allt sem andinn inngefur þeim, en ég verð að kaupa allt dýru verði. Samt ætla ég ekki að skrifa aðra bók eins og Gerplu. Ég er fullsaddur af því.“ III. KAFLI Hressandi bað Halldór Kiljan Laxness kom til Reykjavíkur úr för sinni til Bandaríkjanna og Austurlanda í febrúar 1958. Þá hafði ég tal af skáldinu og spurði um ferðalagið. Halldór kvaðst vera ánægður með förina og sagði m.a., að Austurlandabúar litu yfirleitt á Evrópu sem heild. Þeir væru þeirrar skoðunar, að þar byggju duglegir fjár- aflamenn og gáfaðir sjóræningar sem hefðu mikið af peningum; héldu jafnvel, að þeir hefðu fundið þá upp. „Annars kynnist maður svo mörgum heimspeki- og trúarstefnum á svona ferðalagi, að fátt ætti lengur að koma flatt upp á mann eftir það,“ bætti skáldið við. Í förinni með Halldóri Laxness voru kona hans, frú Auður Sveinsdóttir, og einkaritari, frú Halla Bergs. Þau lögðu af stað til Bandaríkjanna um mánaðamótin sept.–okt. og voru í Bandaríkj- unum fram í miðjan nóvember. „Við fórum til margra staða í Bandaríkjunum,“ sagði Halldór, „komum fyrst til New York og síðan fleiri borga, heimsóttum heið- ursmanninn Thomas Brittingham í Delaware, og vorum gestir hans þar. Hann kemur stundum hingað til Íslands að sækja ung- linga, sem hann hefur boðið til stúderinga í Bandaríkjunum. Síðan fórum við til Chicago og þaðan til Madison, Wisconsin, í boði þess ágæta háskóla sem þeir hafa þar.“ „Þið komuð til Utah?“ „Já. Ég fór þangað í boði mormóna og var nokkra daga, hitti marga slíka trúmenn, fólk sem mér geðjaðist sérstaklega vel að. Í Utah sá ég ýmsa helgidóma þeirra, þar á meðal bókasöfn og ætt- fræðisöfn. Þarna er allt með sérkennilegum blæ og kirkjulega hugsað. Menn geta haft ýmsar skoðanir á trú þeirra, en hagnýtur árangur af starfi þeirra er geðugur og fróðlegur.“ „Hvernig kom fólkið þér fyrir sjónir?“ „Þarna býr grandvart fólk og hreinlíft. Við hér á Íslandi höfum ekki svona fólk. Fjölkvæni var afnumið þar fyrir síðustu aldamót. En ég sá ljósmynd af 16 hinna rúmlega tuttugu eiginkvenna Brig- ham Youngs, sem var einn helztur trúarleiðtogi mormóna.“ „Þú minntist á ættfræðisafnið.“ „Já, það er stærsta ættfræðisafn veraldar, þeir hafa þarna á spjöldum ættfræði margra þjóða. Þarna eru m.a. ættartölur allra Íslendinga. Mormónar hafa haft menn hér við Landsbókasafnið til að rannsaka allar ættfræðiheimildir, sem þar er að finna, þar á meðal ljósmyndað kirkjubækur. Við báðum um að fá að sjá okkar ættir og tók aðeins 2–3 mínútur að draga þær fram. Mormónar telja að hægt sé að skíra menn eftir dauða þeirra til mormónatrúar og af þeim ástæðum hafa þeir lagt kapp á að grafa upp nöfn sem allra flestra látinna ættmanna sinna í gamla landinu; mér var t.d. sagt að þeir hefðu oft skírt Egil Skallagrímsson og konu hans til mormónatrúar, því allir Íslendingar eru komnir útaf honum að sögn.“ „Þú hafðir sérstakan áhuga á að fara til Utah?“ „Já, ég hef oft hugsað um þá Íslendinga, sem gerðust mormónar og fluttust til Utah. Mig langaði til að fá að heyra meira um þá en kostur var hér á Íslandi. Ég fékk forvitni minni svalað að vissu leyti, enda fékk ég tækifæri að kynnast ýmsum afkomendum þess- ara íslenzku útflytjenda. Ég hafði sérstakan áhuga á Þórði Diðriks- syni, sem hefur skrifað bók um trú og lífsspeki mormóna. Það hefur verið erfitt að komast yfir þessa bók hér, hún hefur til skamms tíma verið óskráð á opinberum bókasöfnum. Þórður var sveitamað- ur úr Landeyjum. Hann skrifaði sízt lakar en við skrifum núna og sumt betur. Hann kom aldrei í neinn skóla en hafði þetta í fing- urgómunum.“ „Ætlar þú að skrifa skáldsögu um Þórð Diðriksson?“ „Þó ég skrifi kannski eitthvað lítilsháttar um hann, dugir hann mér ekki í heila skáldsögu. Hann var óbrotinn alþýðumaður og það sem skipti máli í lífi hans var að hann tók þessa trú og fór til fyr- irheitna landsins. Annars hef ég lengi verið að hugsa um að skrifa eitthvað um mormóna, hvað sem verður.“ „Þú sagðist hafa hitt niðja íslenzku útflytjendanna.“ „Já. En þeir hafa yfirleitt gleymt íslenzkri arfleifð og eru útlend- ingar í okkar augum. Þeir hafa litla vitneskju um Ísland. Aftur á móti eru þeir kjarni eins byggðarlags í Utah, Spanish Fork. Flestir eru bændur og daglaunamenn. Einn bónda rúmlega sjötugan, sem talaði íslenzku allvel, hitti ég þarna. Hann kom til Utah fjögurra ára gamall með móður sinni. Um Ísland sagði hann: Ég er þaðan kominn, þar á ég heima og þar vil ég deyja. – Þessi gamli bóndi sagði mér, að hann hefði verið borinn á handlegg vandalauss manns yfir eyðimerkur miðvestur-ríkjanna. Hann missti móður sína ung- ur og átti erfitt uppdráttar í bernsku. Hún var svo fátæk, sagði hann, að hún gat ekki reist mig.“ (Einkennilega tekið til orða. Hann hefur enska orðið „Raise“ í huga.) „Og svo fórstu til Kyrrahafsstrandarinnar?“ „Já. Kaliforníu þekkti ég vel á æskuárum. Yndislegt land. Frá San Francisco lögðum við af stað til Austurlanda og komum fyrst til Japan, vorum tvo daga í Tokíó; þar næst til Manilla á Filipps- eyjum og dvöldumst þar nokkra daga, en héldum síðan til Hong- Kong, þaðan til Kanton og loks til Peking. Frá Kanton til Peking eru 2500–3000 km. Í Kína, sem stundum er kallað Rauða-Kína núna, vorum við allan desembermánuð. Það er fróðlegt land. Þar býr fjórði hver jarðarbúi. Það er gaman að kynnast þeim vanda- málum sem þeir verða að glíma við. Eitt aðalvandamál Austur- landabúa er að hafa í sig og á, þó erfitt sé fyrir okkur hér vesturfrá að skilja slíkt. Kínverjar segjast hafa nógan mat handa sínu fólki með því að láta tveggja manna skammt endast þremur. Kjör manna í Kína eru mun betri en t.d. í Indlandi og Arabalöndum. Í Kína eru allir í fötum og flestir í skóm. Það er meira en hægt er að segja almennt um fólk í Austurlöndum.“ „Þú hefur auðvitað kynnzt kínverskri menningu?“ „Forn-kínversk menning á hvergi sinn líka. Nú er menning þeirra í deiglunni. Áður snerist allt um keisarann. Nú er verið að reyna að jafna mishæðirnar í þjóðinni, „demókratisera þjóðfélag- ið“.“ „Þegar þú varst í Kína fannst þér þá anda köldu til Vest- urlandabúa?“ „Nei. Kínverjar eru yfir slíkt hafnir. Flestir sem ég kynntist höfðu hlotið vestræna menntun. Þeir líta á Evrópumenn sem heild. Sérfræðingar einir vita eitthvað um Evrópu.“ „Þú hefur minnzt á Bókina um veginn í ritum þínum. Fannst þér Rauða-Kína vera það land, sem sú bók er sprottin upp úr?“ „Stundum þegar talað er við Kínverja koma allt í einu setningar upp úr þeim úr þessari bók, þó þeir samsinni henni ekki sem stend- ur. Hún býr í þeim undir niðri. Þessi bók á jafnmikið heima í Rauða-Kína og Keisarakína eða hvaða Kína öðru sem vera skal.“ „Hvert var svo haldið?“ „Til Singapore, Ceylon og Bombay. Í Indlandi var ég opinber gestur og kynntist mönnum bæði af háum og lágum stéttum. Sumt voru hámenntaðir menn. Annars er stéttaskiptingin slík í Indlandi að við getum ekki gert okkur fulla grein fyrir henni. Það er svo- nefnd helgistéttaskipting. „Þeir ósnertanlegu“ lifa í yztu myrkrum mannfélagsins. Stjórnarvöldin vinna gegn þessari skiptingu því þau eru upplýstari en fólkið; en þar er við ramman reip að draga.“ „Þú kynntist Nehrú?“ „Ég kynntist Nehrú lítillega, já ég var boðinn til hans í hádeg- isverð. Hann er aðgengilegur og geðugur maður, léttur í máli og það var eins og hann hefði nógan tíma. Hann hafði gamansögur á hraðbergi. Hann sagði, að sér hefði verið boðið til Íslands, þegar hann var staddur í Skandinavíu í fyrra, en hefði því miður ekki get- að þegið boðið. Hann kunni skil á íslenzkum bókmenntum og sagði, að það væri eitt af undrum veraldar, að þessi litla þjóð hefði skrifað heimsbókmenntir, og bað mig að gefa skýringu á því. Ég stóð auð- vitað á gati. Að máltíð lokinni fór hann með okkur út í garð og gaf húsdýrum sínum, sem hann heldur mikið upp á. Þetta kvikindi heit- ir panda, og var í mínum augum sambland af birni og ketti. Hann spurði, hvort ég vildi koma inn í búrið, en mér leizt ekki á það því mér sýndist þetta vera hið ferlegasta villidýr, með hvassar klær og beittar tennur. En hann setti upp vettlinga og fór að gefa þessu hinn rólegasti.“ „Hvert fórstu svo frá Indlandi?“ „Við fórum til Arabalanda og dvöldumst í Egyptalandi nokkra daga, aðallega í Kairó. Þar skoðaði ég meðal annars Keops- píramídann, stóra grjóthrúgu, sem er í miklum metum hjá dul- trúarmönnum.“ „Og niðurstaðan af ferðalaginu?“ „Ég hef sennilega verið fáfróður og þröngsýnn um þessi lönd, en fékk nú tækifæri til að mennta mig. Það er eins og fara í hressandi bað.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.