Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Blaðsíða 6
6 ∼ Lesbók Halldór Laxness 2002 Morgunblaðið IV. KAFLI Menn fara ekki í leikhús með logaritma Glúfrasteinn. Við stóðum við gluggann og horfðum út. Það var sólbráð í fjöllum og vor í lofti, og áin, sem venjulega er lítil spræna, byltist kolmó- rauð um farveg sinn. Sólin var að taka völdin yfir breðanum á heið- inni. „Vorið kom í dag,“ sagði skáldið og bætti við að hann væri ánægður með litinn á ánni. „Hún er eins og kaffið sem við erum að drekka,“ sagði hann og settist í djúpan stól í einu horninu, og við snerum okkur að umræðuefninu. „Ég hef alla tíð haft leikritagerð í huga,“ sagði hann, „en ekki lagt stund á hana fyrr en síðustu árin. Þetta er tilraun af minni hálfu; ég er að gera tilraunir upp á eigin eindæmi án þess að virða neinar af þeim formúlum sem Frakkar, Rússar eða Bandaríkjamenn gefa út. Ég ætla ekki að troða minni formúlu upp á neinn. Meðal sumra stórþjóða eru einstaklingar og hópar, svokallaðir framúrstefnu- menn, sem einlægt eru að finna upp formúlur í list og vilja síðan fyrir hvern mun boða öðrum mönnum formúluna ef ske kynni að heimurinn lagaðist við það. Fransmenn voru einna verstir með þetta en nú eru Rússar orðnir enn verri, því þeir boða sína flat- neskju og afturúrmennsku, sósíal-realismann (hét áður agitprop), eins og eitthvert himnabréf. Ég upplifði súrrealismann, sem gaf út af sér frægt manifest síns tíma, eins og ég hef rætt um í Skáldatíma, já, ekki ósvipað „komm- únistiska manífestinu“ – gert í því skyni að frelsa heiminn. Ég hef verið forvitinn um þessar stefnur og formúlur vegna þess að ég taldi mér skylt að gagnrýna þær fyrir sjálfs mín hönd, en ekki gleypa þær hráar.“ Og skáldið kreppir hnefana eins og til að leggja áherzlu á sjálf- stæða og persónulega afstöðu til leikritagerðar ekki síður en skáld- sögu. Hann rakti nokkrar af formúlunum, til dæmis formúlu ex- istensíalismans franska og sósíalrealismans í Sovétríkjunum: hann taldi einnig að leikritun Brechts, „episka leikhúsið“, hefði orðið að svona formúlu, meðan Brecht lifði, en margt benti til þess að skóla- stefna hans í leikhúsi mundi fljótlega úreldast, eða að minnsta kosti breytast frá því sem höfundur hennar lagði fyrir meðan hann var og hét; enda markaði Brecht stefnuna einsamall með sterkri leik- stjórn, sem var að minnsta kosti eins persónuleg og sjálfur skáld- skapur hans. Þá minntist Halldór Laxness á enn eina formúluna, le nouveau roman – eða „nýju skáldsöguna“. „Þessi stefna hefur sprottið upp í og umhverfis París, og mér hef- ur þótt hún þess verð að gefa henni gaum, ekki til að játast henni, heldur til að sjá hvernig þeim vegnar í þeirri klíku, Robbe-Grillet, Madame Sarraute, Butor og því fólki. Þetta er svipaður angi út úr skáldsagnagerð eins og t.d. setningafræði út úr málfræði: maður getur átt á hættu að verða ómálga. Þeir sem fyrstir taka við svona formúlum úr París eru bókmenntaskussar smáríkja, sem treysta sér ekki að lifa öðruvísi en afætur á einhverju, helzt París. Núna eru nágrannar okkar á Norðurlöndum fullir af áróðri fyrir „le nou- veau roman“ – „kúltúrpressan“ þar tekur þetta gógðæti í stórum skömmtum – hrátt. Líka í Júgóslavíu. Kötturinn á Sjöstjörnunni er góður köttur fyrir sig. En hjá mér gildir það sama og segir í öf- ugmælavísunni: Séð hef ég köttinn syngja á bók. Og svo er það ekki meira. En maður verður að þekkja þetta allt, annars gæti maður átt á hættu að finna það upp sjálfur og halda að maður hefði fundið púðrið.“ Við hvíldum okkur nú stutta stund frá samtalinu og ég spyr um mynd af fullorðinni, gráhærðri konu í íslenzkum peysufötum, hún stendur á skrifborðinu. Hann segir að það sé móðir sín. Hann talar af virðingu og hlýhug um konuna á myndinni, og segir stoltur: „Ég er að líkjast henni meira og meira með aldrinum.“ Hann bætir því við að hún hafi verið hlédræg kona, bundin sínu heimili, „nánast huldukona“, bætti hann við og brosti. „Hún hafði alltaf sterka heimþrá til Reykjavíkur, þar sem hún var uppalin, og vildi ekki búa í sveit,“ – að sínu leyti eins og Halldór sjálfur: huldumaður meðal heimsborgara; og þó kannski meiri heimsborgari en flestir aðrir úti í þeirri stóru veröld. Á stórri hillu í bókaskápnum er fjölskrúðugt safn af brúðum, postulínsdýrum og alls kyns barnaleikföngum, sem kynlegt er að sjá í vinnustofu rithöfundar. Halldór Laxness segist hafa safnað þessu hjá dætrum sínum. „Nú eru þær fegnar að ég skyldi hafa bjargað þessu,“ segir hann. „Hér er eggjakona úr Danmörku og tréstúlka með ellefu tréstúlkur innan í sér úr Rússlandi. Og hér er blár hestur með stjörnum. Ég kalla þetta þjóðina mína. Stundum koma dætur mínar með fóta- lausa ballerínu eða mann með sex diska á nefinu og segja: „Má ekki bæta við þjóðina þína?““ Frú Auður kom með meira kaffi og við tókum upp þráðinn þar sem fyrr var frá horfið. Ég innti skáldið að því aftur hvort ýmsum mundi ekki þykja hann hafa lært af Brecht í leikritagerð. Hann hristi höfuðið, svaraði: „Það hljóta að vera mjög ófróðir menn. En ef þú átt við, að það séu söngvar í leikritum mínum, þá er sú aðferð ekkert frekar líkt eftir Brecht en öðrum leikritaskáldum. Ég veit ekki betur en það sé meira að segja sungið í Skuggasveini og Nýársnóttinni. Það er sungið í flestum leikritum, nema hjá Ibsen. Sá karl hefur líklega verið laglaus. Sporgengill Ibsens, Bernard Shaw, þó hann væri um skeið tónlistargagnrýnir stórblaða, forðast líka söng í leikritum sín- um: það getur maður nú kallað að vera tryggur lærifeðrum sínum! Þó Brecht hafi prédikað formúlu, veit ég eiginlega ekki hvort hann hefur ætlazt til þess í alvöru að aðrir tækju upp „episku stefnuna“ í leikritum. Ég er ekki viss um það. Hann var of gáfaður maður til þess hann hafi ætlazt til þess í alvöru að öll heimsbyggðin skrifaði leikrit eins og hann. Annars vorum við Brecht góðir vinir og ég kom alltaf að heimsækja hann þegar ég var í Austur-Berlín.“ „Myndir þú samt ekki hafa lært mest af honum?“ „Nei, akkúrat ekki neitt. Ég sé enga líkingu með mínum verkum og Brechts – þó setning frá anarkistaárum hans um að „maðurinn sé ekki nógu vondur fyrir þennan heim“ hafi hrifið mig á sínum tíma. Brecht var engum manni líkur og enginn honum. Mig langar að segja þér stutta sögu sem ég hef alltaf gleymt að koma á fram- færi. Einhver mikill lærdómsmaður, þýzkur, sem hélt hann kynni íslenzku, var að burðast við að þýða Silfurtúnglið á þýzku, og skal ég ekki lýsa þeirri þýðingu nánar. Hann sendi Brecht þetta til upp- færslu í leikhúsi hans, Am Schiffbauerdamm. Hér í Reykjavík hafði þetta leikrit verið túlkað sem einhverskonar ádeilurit á Bandaríkin og stuðningur við málstað Rússa. Þessi skilningur komst samt ekki inn í höfuðið á Brecht, heldur hélt hann að það væri einhver áróður gegn Nóru eftir Ibsen (Et Dukkehjem) og skrifaði aftan á það Anti- norastoff, og sendi það til baka. Brecht hóf skáldferil sinn sem an- arkisti, en þokaðist æ lengra í áttina til marxisma – og er kallaður marxistískur leikritahöfundur samkvæmt síðustu verkum sínum, þó Rússar harðneiti að viðurkenna hann sem slíkan. Þeir halda í sitt 19. aldar leikhús, sem var mótað af Stanislavsky og reynir að lafa í anda Ibsens, nema hvað þeir kunna að útbúa mjög vandaðar klassískar leiksýningar til dæmis á Shakespeare.“ „Er enginn marxismi í þínum leikritum?“ „Ég hef varast rétttrúnaðarstefnur eins og marxisma og freud- isma í mínum leikritum.“ „Þú telur þig ekki marxista?“ „Það hef ég aldrei gert. Ekki einu sinni meðan ég var sam- ferðamaður. Það töldu þeir mig ekki heldur í Moskvu. Á Am- eríkuárum mínum varð ég vinstrisinnaður án þess að verða nokk- urn tíma réttlínumaður; tók þó þátt í stofnun íslenzka sósíalistaflokksins fyrir stríð, vegna þess ég vildi vinna með þess- um einlægu mönnum að vissum þjóðmálum, sem ég bar fyrir brjósti. Síðustu áratugi hef ég hvergi verið í flokki. Við ófáar kosn- ingar hef ég ýmist ekki farið á kjörstað eða skilað auðu. Þó mætti segja að ég hafi vinstri tilhneigingar ef miðað er við lýðræðislegan grundvöll. En það segir ekki mikið þar sem ég sé ekki betur en allir íslenzkir stjórnmálaflokkar séu að meira eða minna leyti reistir á lýðræðishugmynd. Öll lýðræðishyggja er að vissu leyti vinstri stefna; og allir stjórnmálaflokkar hér hafa a.m.k. velferðarríkið á stefnuskrá sinni. Rússneska kerfið byggir hins vegar ekki á lýð- ræðisstefnu í þeim skilningi okkar, að ríkisstjórn og valdhafar eigi að vera kjörnir fulltrúar almennings. Þar situr ríkisstjórn, sem hef- ur ekkert umboð frá almenningi, heldur stjórnar með valdi eftir bókum sem voru skrifaðar af spakvitrum Þjóðverjum og Gyðingum með sítt skegg á öldinni sem leið, sumir þeirra, eins og Hegel frá sautján hundruð og súrkál. Þessir valdhafar stjórna sem sagt í um- boði Bókar. Þeir, sem vilja afnema lýðræði, eru allt önnur mann- gerð en sú sem við höfum hér heima á Íslandi.“ Nú þótti mér rétt að spyrja, hvort ekki mundi vera til að dreifa þjóðfélagsádeilu í leikritum skáldsins. „Ég mundi á íslenzku kalla það ádeilu á heimsósóma. Í leikritum mínum er oft satíra – er það ekki heimsádeila á íslenzku? En til- gangur verkanna, að minnsta kosti ytri tilgangur, er sá að setja saman hugvekjur í skemmtiformi handa fólki. Eins og þú hefur tekið eftir, virðast margir Íslendingar ekki þola hvað ég legg mikla áherzlu á sjálfan sjónleikinn í leikverkum mínum. Ég hef verið að reyna að ala sjálfan mig upp á gamals aldri einmitt í þeirri grein. En sannleikurinn er sá, að Íslendingar vilja bara heyra sögu, en bera yfirleitt lítið skyn á sjónleik, sem von er. Teater hefur lengst- um verið fyrir utan líf þeirra og hugsanagang. Í sagnaskáldskap er skírskotað til lesandans með því að gera söguna sem trúlegasta, annars missir hann áhugann. En lífið á fjölunum er sérstakur heim- ur, sannur eða ósannur eftir atvikum, það fer eftir því hvernig mað- ur skilgreinir satt og ósatt; og hvernig manni tekst með óbeinni málafærslu að rökstyðja mál sitt á leiksviðinu. Leikhússena getur birt mikinn sannleika, þó hún sé óhugsandi í veruleikanum. Hér er allt undir því komið hvernig leikskáldið heldur á málum. Erindi leikrits er í senn að skemmta áhorfandanum og veita honum fróð- lega kvöldstund. Það er ekki ætlazt til að maður komi í leikhúsið með logaritmatöflur upp á vasann til að fá botn í það sem gerist á sviðinu. Maður verður að koma eins og krakki. Það er ekki heldur hægt að koma í leikhús eins og sumir bókmenntagagnrýnendur, svo útlærður og sprenglærður að maður njóti einskis sem fyrir augun ber. Til eru þeir sem koma í leikhús svo dauðdrepnir af dramatúrgiskum lærdómi, að þeir þola ekki sjónleik. Mörgum menntamönnum hættir til að leita í leikritum að einhverju sem alls ekki er þar, og átti alls ekki að vera þar. Fyrir bragðið sjá þeir ekki það sem er þar (ef nokkuð er) – og fara ólukkulegir heim.“ Halldór Laxness hefur einhverntíma sagt að hann hafi lítinn áhuga á bandarískri leikritun. Ég impraði á þessu atriði, og hann svaraði: „Ég horfi á þessi leikrit með vissri athygli, en þau eru byggð á svo gamalli evrópskri erfð, að Evrópumenn sem lifa í nýjum tíma í leikritagerð geta lítið sótt til þeirra. Aftur á móti njóta þessi leikrit mikilla almennra vinsælda, þó kannski meiri í Evrópu en Banda- ríkjunum sjálfum. En mér leiðist eitt af höfuðeinkennum banda- rískrar leikritagerðar – þessi ameríska sálarangist eins og hjá

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.