Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Page 12

Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Page 12
12 ∼ Lesbók Halldór Laxness 2002 Morgunblaðið Hún hét Guðrún Jónsdóttir eins og í sögunni og „var í raun og veru kapítalisti, því hún var aldrei vistráðin en talin lausakona“. Í sam- tali okkar segir skáldið ennfremur: „Það er rétt, Guðrún Jónsdóttir var kapítalisti. Hún var ekki verkamaður. Hún lifði til að skemmta sér; hún tók ekki kaup; skemmtun hennar var að taka upp mó: hún var frjáls. Þessi kona veitti öðrum mönnum af auðlegð sinni ævi- langt. Þegar hún var orðin gömul og farlama fór hún auðvitað á hreppinn.“ Skáldið heldur nafni hennar í sögunni eins og nafni á öðrum persónum, sem koma við kroniku Mosfellssveitar – en auð- vitað með þeim fyrirvara sem stendur aftan á titilsíðu: „Skírskot- anir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum.“ Halldór Laxness segir í samtalinu: „Krakki hér í sveitinni, hlustaði ég eftir öllu sem sagt var, og ég á mér ótæmandi endurminningasjóð um fólk sem ég samneytti á bernskuárum mínum. Það var ólíkt fólki sem ég kynnt- ist síðar. Ég kom hingað á fjórða ári úr Reykjavík og þetta fólk var minn félagsskapur, þangað til ég fór að vera á vetrum í Reykjavík 12 ára við ýmiss konar nám. Guðrún Jónsdóttir var oft hjá okkur í Laxnesi, stundum misserum saman. Ég man enn eftir ýmsum orðatiltækjum hennar, og kem þeim að í sögunni. Hún sagði til að mynda þetta: „Ég kann bezt við mig í einhverju benvítis síli.“ Ég hef spurt orðabókamenn og þeir kannast ekki við þetta orðatiltæki. Það hefur ekki komizt á prent, svo ég viti, og ég hef engan heyrt nota það annan. En mér dettur ekki í hug að Guðrún Jónsdóttir hafi fundið það upp. Ég held að síli sé draslvinna eða vinnubjástur.“ Guðrún Jónsdóttir kom til Þórðar Jónssonar og Kristínar Vig- fúsdóttur að Æsustöðum 1926 og hafði þá verið í Laxnesi. Hún átti kindur og hryssu, þegar hún var í fyrra skipti á Æsustöðum. Hún heyjaði þá Gunnubarð, sem svo var kallað, en nú er innan túns. Hún sló sjálf og batt. Hún hafði sérstakt skap og gott að vera í ná- vist hennar. Hún var fædd í Hamrahlíð 26. desember 1854 og lézt á Æsustöðum 24. marz 1936. Hún var greftruð á Mosfelli. Hamrahlíð er ekki lengur í byggð, en er nú undir Blikastöðum. Andlit Guð- rúnar og höfuðlag allt var af mynd að dæma stórskorið eins og landið.  Í upphafi ellefta kapítula sögunnar segir svo: „29unda júní sama vor og Mosfellskirkja var rifin mátti lesa eftirfarandi grein undir fyrirsögninni „Saga af dýru brauði“ í vikublaðinu Öldinni, og má gánga þar að henni ef einhver nennir að fara á bókasöfn og lesa gamlar blaðagreinar.“ Saga þessi fjallar um villu Gunnu stóru á Mosfellsheiði, þegar hún vitjaði pottbrauðs. Ungur piltur úr sveit- inni tekur hana tali og spyr um villuna, rétt eins og blaðamaður eigi samtal við sérkennilega konu – en þó verðum við að hafa á þann fyrirvara, að hvorki frásögnin í Öldinni né lýsing Gunnu stóru í samtalinu eiga rætur í raunveruleikanum, og ekki heldur samtalið sjálft. Villur Guðrúnar í Innansveitarkroniku eru uppspuni. En svipaða sögu heyrði skáldið sunnan af Suðurnesjum. Þar var stúlka að villast hátt upp í viku í hrauninu á Reykjanesskaga. Hún hafði verið að vitja pottbrauðs í hveraholu. Gunnar Eyjólfsson leikari sagði skáldinu þessa sögu. Stúlkan sem villtist var að hann minnir amma leikarans eða ömmusystir. Þetta dæmi sýnir vel að skáld leita víða fanga. „Flest verður fróðum að kvæði,“ segir máltækið. Allt verður að söguefni, þótt ekki sé það sagnfræði í venjulegum skilningi. „Ég var að hlusta á útvarpið um daginn,“ segir skáldið. „Þar kom fram maður, sem spurður var frétta úr byggðarlagi sínu. Hann byrjaði frásögnina svona: „Vorið hefur verið gott fyrir sauðfé.“ Þessi maður kom mér í gott skap.“ Í Innansveitarkroniku miðast allt líf og öll tilvera við sauðfé. Þegar feðgarnir á Hrísbrú taka menn tali á hlaðinu og spyrja frétta, beinist talið alltaf að sauðfé, „því alt líf í landinu var einsog þann dag í dag miðað við sauðfé. Til dæmis þegar talað var um veð- ur þá var það eitt sjónarmið ráðandi hversu það mætti henta sauðfé. Gott veður var það veður sem var gott fyrir sauðfé. Gott ár var það þegar óx gras handa sauðfé. Fallegt landslag á Íslandi þyk- ir þar sem góð er beit handa sauðfé. Afkoma og sjónarmið manna í lífinu voru ákvörðuð af þessari skepnu. Hrísbrúíngar höfðu fréttir af sauðfé hvaðanæva af landinu og sögðu sögur af afkomu sauðfjár í Mosfellssveit. Þeir mundu nákvæmlega hvernig viðrað hafði fyrir sauðfé ár framaf ári þrjátíu ár aftur í tímann. Þessir menn fóru aldrei í utanyfir sig, en ullartreyur þeirra og peysur héldu vatni og vindi einsog reifið á íslenskri sauðkind.“ „Nú er sveitasagnfræðin komin í blöðin,“ segir Halldór Laxness enn í samtali okkar. „Bændur romsa upp einhverjum lifandi feikn- um um harðærið í sveitunum með tilheyrandi útmálun á því hvern- ig veðrið var í fyrra og hitteðfyrra. Þetta eru oft einu greinarnar sem ég les í blöðunum. Steini á Valdastöðum var eftirlætisblaða- maður minn. Ég las einlægt fréttirnar hans í Morgunblaðinu tvisv- ar, stundum í þriðja sinn upphátt fyrir heimilisfólkið. Þrátt fyrir mörg mótdræg tíðindi í sveitum var hann eini fréttaritarinn í blöð- unum sem sló ævinlega huggunarríka nótu. Þegar hann var búinn að lýsa þessum feiknarlegum óþurrkum sem gengið höfðu allt sum- arið bætti hann alltaf við að það væri von manna að nú færi að breytast til batnaðar upp úr höfuðdeginum.“ Eitt var það fyrirbrigði í sveitum landsins áður fyrr og minnzt er á í Innansveitarkroniku, sem hvergi annars staðar í löndum á sér hliðstæðu. Það var sá siður að leggjast í kör. Kona Ólafs á Hrísbrú, 5björg, lagðist í kör: „Dag nokkurn um það bil sem börn hennar voru vel komin á legg lagðist hún í kör og reis ekki upp síðan; en kör hefur verið ein mikilsverðust þjóðfélagsstofnun á Íslandi frá því land bygðist. Það var sagt að konan væri búin að liggja átján ár í körinni …“ Skáldið segir að einkennilegt sé hve margir Íslendingar lögðust í kör. „Þetta hugtak er ekki til í erlendum málum og orðið er illþýð- anlegt; samt er ekki hægt að komast hjá því í bók eins og Inn- ansveitarkroniku. Þeir sem lögðust í kör voru oft giktveikir eða kalkaðir í hrygg og mjöðmum og áttu erfitt með að bera sig um húsin, sem voru köld og saggasöm; sumir voru hjartveikir eða höfðu fengið áföll og leið bezt milli rekkjóðanna og höfðu sig ekki upp framar. Kannski var þetta að einhverju leyti lífsflótti eða mót- mæli. Kör var nokkurs konar þjóðfélagsstofnun sem var tekin gild.“ Hann segir að merkilega frásögn sé að finna um kör í ævi- minningum Sigurðar Briems póstmeistara um karl í Húnavatns- sýslu, sem tekur sig allt í einu upp heiman frá sér og ríður með nokkra hesta vestur á land til dóttur sinnar – til að leggjast í kör. Þegar karlinn kemur vestur, háttar hann og liggur nokkur ár, en þá kemur upp ósamkomulag á heimilinu milli hans og dótturinnar og fer í hart, svo að karl unir ekki lengur fyrir vestan, rís upp úr körinni, fær sér hesta og ríður í vonzku aftur heim í Húnavatns- sýslu – og er hættur við að liggja í kör. Og nú er komið að lokum frásögu af Innansveitarkroniku Hall- dórs Laxness. Til að ná saman endum er ráðlegast að halda áfram, þar sem fyrr var frá horfið. Skáldið hafði minnzt á, að skáldsagan væri ritstýrð sagnfræði. Í framhaldi hugleiðinga hans um það efni má bæta við þessum orðum hans: „Ég hef mikið hugsað gam- anlaust um rætur skáldsögunnar. Hvernig á að segja frá, svo að það hafi tilætluð áhrif á þann, sem maður er að segja söguna? Hvernig á að fá hann til að taka eftir og hlusta og hugsa þó sjálfan um leið? Skáldsaga hefur því aðeins tekizt, að hún eignist lesendur. En þeir þurfa reyndar ekki að vera mjög margir. Íslenzkur sagnaskáldskapur forn hefur hjálpað mér í leit að við- hlítandi formi. Í Innansveitarkroniku hef ég sérstaklega lagað mig eftir því, hvernig þessir ósviknu sveitasagnfræðingar sem ekki voru sagnaskáld skrifuðu og skrifa enn. Þetta eru bændur sem sjá veröldina fyrir sér eins og útvíkkaða sveit sína í tíma og rúmi. Tök- um mann eins og Jón Indíafara frá 17. öld. Hann kemur úr af- skekktri sveit vestanlands og þó hann lendi í því að sigla til Ind- lands, er hann ævinlega að skoða heiminn frá bæjardyrum sínum heima í sveitinni sinni. Hugleiðingar hans og lýsingar eru ekta ís- lenzk sveitasagnfræði, þó hann sé að lýsa Indlandi. Sama má segja um Eirík frá Brúnum; hvort heldur hann lýsir hóruhúsunum í Kaupmannahöfn eða kóngafólkinu þar, ellegar sæluríkinu í Utah, þá er hann ævinlega kyrr á hlaðinu heima hjá sér á Brúnum. Gísli Konráðsson er einnig dæmigerður sveitasagnfræðingur. Hann er oft hálf leiðinlegur og daufur, fullur af þurrum fróðleik, en þegar minnst varir, og í skyndingu, þegar maður hélt að karlinn væri sofnaður, dregur hann upp mynd af stórsögulegum, dramatískum atburðum með einföldum, en skörpum dráttum, og umvafða birtu leiftursins, svo áþreifanlega að lesandinn vaknar með andfælum. En það er eins og hann taki ekki eftir því sjálfur. Stundum aftur á móti, þegar hann kemur að stórviðburðum, setur hann allt í einu tóndeyfi á strengi sína í staðinn fyrir að maður hefði búizt við að nú hækkaði hann röddina og færi að æpa. Nei, ekki aldeilis. Þá laumar hann út úr sér svo bitrum athugasemdum að þar tekur steininn úr, til að mynda þegar hann lýsir aðför norðlenzkra bænda að Grími amtmanni á Möðruvöllum. Þetta voru svangir menn og áreiðanlega kaffiþyrstir, margir komnir langt að. Grímur amtmaður átti forláta hund. Gísli læðir því þá út úr sér í frásögn sinni, að mjög hafi amt- maður þurft að vanda hundi þessum kaffi. Og náttúrlega Brynjólfur frá Minna-Núpi! Sagan af Þuríði for- manni og Kambránsmönnum er eindregin íslenzk sveitasagnfræði. En allir þessir sveitakarlar hafa bakstoð í fornsögunum, þó höf- undar fornsagnanna séu önnur tegund höfunda: miðaldalærdóms- menn, akademískir menn. Ég gæti talið upp heilan fans af nútímamönnum sem skrifa sveitasagnfræði, sumt ágætlega, til dæmis innvirðulegar minn- ingabækur Eyjólfs Guðmundssonar á Hvoli í Mýrdal og minningar Ingunnar á Kornsá, elskulegt rit. Annálaritarar skrifuðu ekki svona. Þeir skrifuðu tómar upptaln- ingar á stórviðburðum: fæddist lamb með tvö höfuð, eldur í Heklu, menn í loftinu, og því um líkt; ópersónulegt dót. Menn eins og Jón Espólín hafa ekki vakið sérstaka athygli mína. Hann er dálítið metnaðargjarn rithöfundur og tilgerðarlegur í orðfæri og stíl, reynir að skrifa fornsagnastíl eins og óekta sveitamaður.“  Sagan af því þegar Mosfellskirkja var rifin hefur þótt hnýsileg í Mosfellssveit. Lengi vel var ekki útlit fyrir að kirkja mundi aftur rísa á Mosfelli. En þegar Stefán Þorláksson deyr kemur í ljós að hann hefur gefið fé til að ný kirkja yrði reist á Mosfelli. „Þá var sagan fullkomnuð,“ segir skáldið. „Þeir voru byrjaðir að marka fyr- ir kirkjunni og grafa grunninn, þegar ég fór til Róms 1963 að sitja ráðstefnu sem FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) efndi til í undirbúningi herferðar gegn hungri í heim- inum. Að ráðstefnunni lokinni settist ég upp hjá frú Dinesen og gerði þar grindina að þessari sögu. Ég átti auðvelt með að timbra upp þessa grind, því atburðaröðin er fullkomin í sjálfri sér og þar var litlu við að bæta, enda urðu kirkjusmiðirnir ári á eftir mér að reisa kirkjuna til fulls.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.