Morgunblaðið - 09.05.2004, Síða 24

Morgunblaðið - 09.05.2004, Síða 24
24 SUNNUDAGUR 9. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ P erúska tónlist þekkja margir, í það minnsta verður ekki þverfótað fyrir mönnum með pan- flautur og smágítara í miðbæjum flestra stórborga Evrópu hvert sumar. Reyndar er tónlistin sem þar er flutt svo vemmileg að við liggur að maður afskrifi tónlist heillar þjóðar sem sorp, þ.e. ef menn vissu ekki betur því víst er til mikið af góðri perúskri indíánatónlist, meira að segja með panflautum. Önnur tónlistarhefð frá Perú er ekki eins vel þekkt, en það er hefð svartra Perúmanna, afkomenda afr- ískra þræla sem þar voru settir niður eins og um Ameríkur allar. Tónlist þeirra er nokkuð frábrugðin því sem menn hafa helst heyrt frá Perú, takt- urinn þyngri og ákveðnari til að mynda, þó að vissulega sé hún mjög blönduð því sem tíðkast almennt í landinu sem vonlegt er, en tónlist- arhættir eru meðal annars festejo, sem er mjög slagverksskotið, trega- fullt landó og svo golpe tierra. Fædd innan um sjómenn og ketti Það er ekki mikið mál að ná í Sus- ana Baca því þó að hún hafi mikið að gera er hún alltaf til í að spjalla en svo segir hún í það minnsta. Fyrsta tilraun til að ná sambandi suður til Perú gengur reyndar ekki upp enda er hún á leið á söngæfingu en daginn eftir gengur allt upp og hægt að ræða við hana með aðstoð túlks því Susana talar bara spænsku. Susana Baca er fædd í sjávarþorp- inu Chorrillos, úthverfi höfuðborgar- innar Lima, „en þar bjuggu bara sjó- menn og kettir“, eins og hún lýsir því. Það var mikið um tónlist á heim- ilinu, faðir hennar, sem var einkabíl- stjóri auðkýfings, spilaði á gítar og móðir hennar, sem var matráðskona og vann líka við þvotta, kenndi henni að dansa. Heimili fjölskyldunnar var í húsasundi og faðir hennar sá um tónlistina í því sundi, var alltaf ræst- ur út ef átti að syngja og dansa. Hann spilaði serranites, söngva sem sögðu frá lífi og örlögum Golondrinos, fólks sem kom ofan úr Andesfjöllum til að vinna við baðmullaruppskeru, en hann hafði lært þá söngva sem barn. Tónlistin var úti um allt Susana var asmaveik en það kom þó ekki í veg fyrir að hún syngi sem mest hún mætti auk þess sem hún dansaði við hvert tækifæri. Hún seg- ir að sér sé einna minnisstæðust Chorrillos-hátíðin sem haldin var 29. júní ár hvert, en þá báru bæjarbúar styttu af sankti Pétri um götur bæj- arins og fluttu hana síðan á bát út á sjó til að hann blessaði hafið og mið- in. „Daginn eftir dönsuðu svo allir bæjarbúar og sungu á ströndinni,“ segir hún og bætir svo við: „Tónlistin var úti um allt, fólk var alltaf að syngja og dansa.“ Ekki var bara að Susana syngi heldur sungu systkini hennar líka, aðallega þó systir hennar og hafði ekki minni hæfileika að því er Susana segir sjálf. „Hún var bara með svo mikinn sviðsskrekk að hún gat ekki sungið frammi fyrir fjölda manna og því hætti hún snemma að syngja op- inberlega. Ég finn líka fyrir sviðs- skrekk, en ást mín á tónlistinni er svo sterk að ég læt mig hafa það að stíga á sviðið og þegar ég er byrjuð að syngja gleymist allt annað.“ Susana segir að eitt sinn er systir hennar tók þátt í söngkeppni í út- varpi hafi hún farið með henni og segir að þegar hún sá hana standa við hljóðnemann vissi hún að það var einmitt það sem hún vildi gera. Lært til kennara Hæfileikar stúlkunnar leyndu sér ekki og hún fékk sérkennslu í skól- anum sem hún segir að hafi skipt sig mjög miklu máli. Þrátt fyrir það vildi móðir hennar ekki að hún yrði söng- kona. „Það er óttalegt basl að fram- fleyta sér á tónlist í Perú, ekki síst ef um er að ræða þjóðlega tónlist. Mamma þekkti líka til svo margra tónlistarmanna sem höfðu hvorki í sig né á og henni leist ekkert á að eins færi fyrir mér. Hún lagði því fast að mér að læra til að verða kennari svo ég hefði að einhverju að hverfa ef allt færi á versta veg.“ Að sögn Susana varð þessi þrá- beiðni móður hennar til þess að hún fór í kennaranám og reyndi að bæla með sér söngkonudrauminn til að geðjast henni, það kæmi tími fyrir slíkt seinna. Það varði þó ekki lengi, í skólanum fékk hún áhuga á ljóða- söng, stofnaði sönghóp sem las upp perúsk ljóð og söng. Í framhaldi af því fékk hún opinberan styrk til að troða upp með ljóðadagskrá og vann meðal annars til verðlauna á mikilli hátíð í Lima. Í læri hjá Chabuca Granda Ljóðasöngurinn kom henni í sam- band við leikkonuna, söngkonuna og tónskáldið Chabuca Granda sem fræg var um alla Suður-Ameríku. Chabuca Granda var goðsögn í per- úskum listaheimi og var gríðarlega áhrifamikil fyrir það hvernig hún braut upp hefðbundið tónlistarform til að gefa orðunum meira vægi í sönglögum. Á efri árum lagði Granda æ meiri áherslu á að varðveita tón- listarhefð svartra Perúbúa, en fram að því hafði hún verið jaðartónlist, óf- ín tónlist sem naut þó vinsælda með- al þeirra lægst settu í þjóðfélaginu. Að sögn Susana er sú tónlist talsvert frábrugðin þeirri tónlist sem menn þekkja best frá Perú, takturinn þyngri og sterk afrísk áhrif. Granda sá í Susana Baca eins kon- ar arftaka og næstu árin starfaði Susana hjá Granda sem aðstoðar- kona hennar og bjó hjá henni um hríð. Susana segir að það hafi verið sér mikil hvatning og ekki síst að Granda skuli hafa tileinkað henni eina af plötum sínum og sungið til hennar í einu lagi: „Ekki gleyma mér, syngdu mig.“ Fyrir atbeina Granda fór Susana svo í hljóðver í fyrsta sinn en ekkert varð úr plötuútgáfu að sinni þar sem Granda lést óforvarandis úr hjarta- sjúkdómi 1983, rétt orðin sextug. Uppruninn rannsakaður Næstu ár lagðist Susana í rann- sóknir á uppruna sínum, grennslað- ist fyrir um sögu forferða sinna og þáttar þeirra í að skapa og móta Perú eins og hún segir frá, en afrakstur þess starfs er meðal annars Negro- continuo-stofnunin sem hún stofnaði með Ricardo Pereira eiginmanni sín- um. Hún segir að fram að því að hún hitti Pereira hafi hún verið á kafi í tónlistinni en lítið velt því fyrir sér að framfleyta sér með tónlist, syngja inn á plötur eða halda tónleika. „Öðr- um þræði var ég að bíða eftir að ein- hver tæki eftir því sem ég var að gera og hefði frumkvæði að því að taka upp með mér ljóðasönginn. Málið var bara að það var lítill sem enginn áhugi fyrir tónlist svartra Perú- manna á þessum tíma, ég þurfti því að hefjast handa um að búa þann áhuga til.“ Susana Baca hefur farið um alla Perú í leit að tónlist, tínt til lög sem voru við það að gleymast eða jafnvel bara brot úr lögum ef annað var ekki að fá. Sum laganna voru ævagömul og á stundum örfáir sem virtust kunna þau eða kannski bara einn gamall maður eða kona. Dæmi um það er til að mynda lagið Molino Mol- ero, sem haft er eftir gömlum manni sem heyrði gamla konu sem var eitt sinn þræll syngja það. „Vandinn er að fólk vill ekki muna eftir þessum tíma, vill ekki muna þessi lög, því það vilja allir gleyma þrælatímanum.“ Ný tónlist á gömlum merg Af ofangreindu má væntanlega ráða að tónlistin sem Susana Baca flytur byggist á gömlum merg, en hún segist þó vera að syngja nýja tónlist, nýja tegund tónlistar. „Ég nærist á hefðinni, sæki innblástur í fortíðina, en þetta er ný tónlist samin sérstaklega fyrir mig,“ segir hún er hún segist hafa þann hátt á að velja fyrst ljóðið og síðan verði tónlistin til, en öll ljóðin eru eftir perúsk skáld. „Perú er land ljóðskáldanna, blanda af Spánverjum og indíánum býr til skáld,“ segir Susana og hlær við og bætir svo við að fyrir sér séu textarn- ir aðalatriði hvers lag. „Í hverju ljóði leynist svo laglína sem við drögum fram og spinnum síðan út frá henni. Áður samdi ég aðallega með einum í einu en í seinni tíð vinnum við þetta öll saman í hljómsveitinni. Ég á mér líka uppáhalds samstarfsmann, Xav- ier Lazo nágranna minn til margra ára, en hann kom eitt sinn að máli við mig og rétti mér kassettu með lögum sem hann hafði samið með mig í huga. Upp frá því á hann alltaf að minnsta kosti eitt lag á hverri plötu hjá mér,“ segir hún en þau eru nú að vinna saman að verkefni sem hefur yfirskriftina trúin og andinn í Perú. Þó að Susana Baca hafi tekist að vinna sér orð í Perú og náð þeim sessi að vera með helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar frétti umheimurinn lítt af því. Það var ekki fyrr en David Byrne, forðum liðsmaður Talking Heads, heyrði fyrir tilviljun lagið Maria Lando sem Susana söng og heyrði þar perúska tónlistarhefð sem hann ekki þekkti til. Hann fór á stúf- ana og setti saman safnplötu 1995 með afrísk-perúskri tónlist, þar sem lagið Maria Lando var í aðalhlut- verki. Byrne gaf síðan plötuna út hjá útgáfu sinni, Luaka Bop, og í fram- haldi af því gaf hann svo út tvær sóló- skífur Susana Baca, þá fyrri, sem kom út 1997, samnefnda henni. Sú seinni, sem kom út 2000, hét Eco de Sombras, bergmál skugganna. Akkerislagið Á síðasta ári kom út platan Espi- ritu Vivo sem hljóðrituð var í New York eins og tónleikaplata, beint inn á band í hljóðverinu. Susana var ein- mitt í New York að taka upp þegar árásin var gerð á tvíburaturnana 11. september 2001. Getur nærri að árásin hafi haft veruleg áhrif á upp- tökurnar og lá reyndar við að þeim yrði hætt. Sem betur fer héldu þau sínu striki, og platan kom svo út í fyrra eins og getið er. Espiritu Vivo er geysigóð plata og ekki síst fyrir það að á plötunni syng- ur hún lag eftir Björk Guðmunds- dóttur, Akkerislagið, sem hún hefur reyndar sungið á tónleikum um hríð. Hún segir að einn vina sinna, tónlist- armaður, hafi kynnt henni Björk. „Hann sagði að söngur Bjarkar minnti hann svo mikið á mig og svo gaf hann mér alla diskana hennar svo ég gæti hlustað.“ Susana segist hafa heillast af Björk og þá ekki bara fyrir sönginn, heldur einnig fyrir laga- smíðarnar og mest af öllu fyrir text- ana, sem séu einfaldir á yfirborðinu en margslungnir og djúpir þegar grannt sé skoðað. Síðustu ár hefur Susana Baca ver- ið meira og minna á ferðinni, farið um allan heim að syngja. Hún segist hafa mikið gaman af að ferðast, kynnast fólki í ólíkum löndum. Þegar spjallið við hana fór fram var hún rétt nýkomin úr tónleikaferð til Afr- íku, „þar eru rætur mínar“, segir hún. Heimurinn er heillandi „Mér finnst frábært að syngja fyr- ir fólk utan Perú, ekki síður en að syngja fyrir fólk í Perú. Heimurinn er heillandi,“ segir hún og bætir við að henni hafi alltaf verið tekið vel, það var helst að henni fyndust áheyr- endur á Kúbu ekki leggja við hlustir; „fólkið þar vildi bara skvaldra og dansa, það vildi ekki hlusta á textana sem eru þó aðalatriðið – það var eins og það væri með maura á kroppn- um“. Susana Baca syngur á tvennum tónleikum á Listahátíð í Reykjavík, í Broadway á hvítasunnudag, 30. maí, og annan í hvítasunnu, 31. maí. Það verða aðrir tónleikarnir í nýhafinni Evrópuferð sem farin er til að kynna nýjan disk þar sem safnað er á einn stað helstu lögum hennar í gegnum tíðina. Hún segist einmitt ætla að syngja úrval af sínum helstu lögum í Broadway og hlakkar mikið til að leyfa íslenskum áheyrendum að heyra útgáfu hennar af Akkerislag- inu hennar Bjarkar. Í ljóði leynist laglína Meðal helstu gesta á Listahátíð í Reykjavík er perúska söngkonan Susana Baca sem heldur hér tvenna tónleika. Árni Matthíasson ræddi við söngkonuna. arnim@mbl.is ’ Öðrum þræði varég að bíða eftir að einhver tæki eftir því sem ég var að gera og hefði frumkvæði að því að taka upp með mér ljóðasöng- inn. Málið var bara að það var lítill sem enginn áhugi fyrir tónlist svartra Perú- manna á þessum tíma, ég þurfti því að hefjast handa um að búa þann áhuga til. ‘

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.