Lesbók Morgunblaðsins - 25.01.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 25.01.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 25. JANÚAR 2003 Á GRINDVERKIÐ við gamla húsið mitt á Haga- melnum hefur verið skrif- að með svörtum túss- penna: Fjöruborð einmanaleikans. Ég get ekki annað en brosað og spyr sjálfan mig: Er þetta hljómsveitarnafn eða titill á ljóðabók? Hvernig lýsir fjöruborð einmanaleikans sér? Hef ég einhvern tíma verið þar og horft út á hafið? Það er að minnsta kosti líklegt að ein- hvers staðar í nágrenni við fjöruborð sé haf. En þó að við Hagamelinn sé ekki beinlínis að finna flóð og fjöru geri ég ekki ráð fyrir að einmanaleiki sé algerlega óþekkt fyr- irbæri þar, ekki frekar en í öðrum götum. Ástæðan fyrir því að ég er kominn hingað að húsinu sem ég átti heima í með for- eldrum mínum og systkinum þegar ég var unglingur er sú að ég sá íbúðina okkar gömlu auglýsta og ákvað að nota tækifærið og fá að skoða hana, þrátt fyrir að ég hafi auðvitað engan hug á að kaupa hana. Sér- staklega ekki ef það að búa hér um þessar mundir felur í sér þá hættu að manni skoli upp í hið skelfilega fjöruborð einmanaleik- ans! Mig langaði einfaldlega til að koma aft- ur í gamla herbergið mitt, þar sem ég breyttist úr barni í ungling – svo ég noti fremur hátíðlegt orðalag – og þar sem ég tók margar af mínum afdrifaríkustu ákvörð- unum, ýmist við undirleik tónlistar úr ferm- ingarhljómtækjunum eða umvafinn mjúkum slæðum ilmandi pípureyks, oftast þó með hvort tveggja í gangi í einu, það er að segja tónlistina og pípureykinn. „Gjörðu svo vel,“ segir hálfþreytt en vin- gjarnleg konurödd í dyrasímann þegar ég hef útskýrt að ég sé sá sem ætlaði að koma að skoða. „Takk,“ segi ég og ýti upp hurðinni. Það var sem sagt hér, hugsa ég þegar ég horfi upp eftir sameiginlegum tröppunum upp á aðra og þriðju hæð; það var hér sem það gerðist allt saman. Við bjuggum á þriðju hæðinni. Gróflega reiknað hef ég kannski labbað upp þessar tröppur átta til níu þúsund sinnum. Og álíka oft niður, geri ég ráð fyrir. Hinar og þessar minningar bæra á sér í huganum þegar ég geng upp tröppurnar í fyrsta sinn í tuttugu og fjögur ár, en þegar núverandi eigandi íbúðarinnar opnar dyrnar og býður mér að koma inn bókstaflega vakna þessar minn- ingar og spretta fram úr eins og um lifandi manneskju væri að ræða. Ég þykist finna sömu lykt og var. En þegar ég kem inn í holið víkur hún fyrir þungri matarlykt; lykt sem í stað þess að vekja upp í mér hungur gerir mig frábitinn öllum mat. Þar sem var spegill á veggnum milli eld- húsdyranna og dyranna sem opnuðust inn í borðstofuna – spegill sem geymdi alltaf and- lit ungs frænda míns eftir að hann gretti sig í hann nokkrum dögum áður en hann dó – þar er núna vatnslitamynd af húsaröð sem mér finnst ég kannast við hér í bænum. Fólkið sem býr hér núna leggur væntanlega ekki áherslu á að geta skoðað sig í framan áður en það fer út úr dyrunum. „Ætli sé ekki best að ég byrji á að sýna þér hérna hjónaherbergið og klósettið,“ seg- ir konan sem hleypti mér inn. Hún er á að giska um fimmtugt, með laglegt andlitsfall en óskaplega mædd á svip, hún hefur greini- lega ekki fengið þá hvíld sem hún þarf á að halda. Mér þykir allt í einu mjög leiðinlegt að hún skuli vera að búa til eitthvað í eld- húsinu sem lyktar svona illa. Áður en ég elti hana inn eftir ganginum að hjónaherberginu tek ég eftir að gamla herbergið mitt, sem er við hliðina á dyrunum fram á stigagang, beint á móti speglinum sem einu sinni var, er lokað, og einnig dyrnar að stofunni. „Svo er barnaherbergi hérna við hliðina á svefnherberginu,“ segir konan en þegar hún opnar þangað inn sé ég að þar sem einu sinni var skipulögð vistarvera bróður míns, sem lagði alltaf töluvert upp úr því að hafa hreint inni hjá sér, er núna frekar óþrifaleg kompa; þarna eru bunkar af gömlum Morg- unblöðum sem lykta, hellingur af mynd- bandsspólum, plastpokar fullir af kókbrús- um og bjórdósum og alls kyns dót sem enginn virðist nota lengur. „Þetta er nú meira bara svona geymsla,“ segir konan og lokar dyrunum, hún vill aug- ljóslega ekki að ég sé að kynna mér þetta nánar. Svo sýnir hún mér baðherbergið, sem er svo til óbreytt frá því við fjölskyldan átt- um heima hér en þokkalega snyrtilegt, og þegar ég kem inn í svefnherbergið fæ ég á tilfinninguna að þar hafi verið tekið til og búið um alveg sérstaklega fyrir heimsókn mína. Þótt konan líti ekki út fyrir að vera mjög umhugað um hreinlæti hefur henni fundist rétt að hafa svefnherbergið óaðfinn- anlegt hvað það varðaði. Ég ímynda mér að eitthvað hafi gerst þar kvöldið áður sem hún vildi vera viss um að væru engin sjáanleg merki um. En þrátt fyrir að ég noti orðið óaðfinnanlegt í sambandi við svefnherbergið get ég nánast fundið að öllu sem þar er. Jafnt húsgögn sem munir eru svo hryllilega ljótir og ósmekklegir að mér finnst sem snöggvast að fegurðarskynið sé það element hugans sem dýpstu gjárnar myndar á milli okkar mannanna. „Ég get því miður ekki sýnt þér stofuna eins og er,“ segir konan þegar við förum aft- ur inn í forstofuna. Hún horfir á mig og verður döpur á svip. „Þú verður að afsaka það,“ bætir hún við. „Er verið að ...?“ segi ég og á við hvort verið sé að vinna í stofunni, að endurbætur eigi sér stað, eitthvað þvíumlíkt. „Það er bara ekki hægt í augnablikinu,“ ítrekar konan. „Heyrðu, þá er það bara herbergið hér,“ segi ég glaðlega og banka létt á hurðina að gamla herberginu mínu. „Það verður víst að bíða líka,“ segir kon- an. „En eldhúsið er eftir, þú verður bara að afsaka að ég er að elda svolítið. Svo er hérna geymsla á háaloftinu, þú getur fengið að líta á hana.“ „Það er sem sagt ekki hægt að skoða her- bergið?“ spyr ég og finnst ég hafa verið of undrandi í röddinni. Sem ég auðvitað er, fyrir utan að vera vonsvikinn; það var í þeim tilgangi að sjá þetta herbergi sem ég kom hingað. „Það er bara því miður ekki hægt eins og er,“ segir konan, án þess að virðast þykja það sérstaklega miður. „En íbúðin er á sölu, er það ekki?“ Núna reyni ég ekkert að fela að mér þyki svolítið einkennilegt að geta ekki skoðað vöruna alla. „Við værum nú ekki að auglýsa hana ann- ars,“ svarar konan, svona frekar blátt áfram. „En viltu ekki líta á eldhúsið?“ spyr hún síðan, svo áhugalaust og þreytulega að mér verður ósjálfrátt hugsað til þess sem hún er að búa til inni í eldhúsinu, að það hljóti að vera heldur óspennandi matur, ekki aðeins fyrir bragðlaukana og lyktarskynið heldur fyrir augað; ég sé fyrir mér dauða kássu, einhvern veginn dökkbrúna með grænni slikju, og mauksoðnar kartöflur og grænmeti. Um leið og ég afþakka það að fá að rifja upp hvernig umhorfs er í eldhúsinu fram- kalla ég herbergið mitt gamla í huganum eins og það var áður en við fluttum. Loftið svart, veggirnir dökkbrúnir, svartur fer- hyrningur á einum veggnum með öðrum smærri ferhyrningi innan í sem er brúnn eins og veggurinn. Viðarlitaður svefnsófi og skrifborð í sama dökka litnum undir glugg- anum, svört hljómtæki, dökkrauð slitin pulla, gamall og lúinn skrifstofustóll með örmum, staflar af hljómplötum á fleiri en einum stað í herberginu og Keith Emerson á veggnum fyrir ofan svefnsófann, sitjandi í svörtum leðursamfestingi á svörtu mótor- hjóli með aðra höndina á svörtum hjálmi sem liggur á bensíntankinum. Keith Emer- son, þessi mikli galdramaður sem munaði ekkert um að skrifa píanókonserta, að minnsta kosti einn píanókonsert, á milli þess sem hann ferðaðist um á Harley Davidson og lét taka myndir af sér í ensk og þýsk unglingablöð. Það var úr einu slíku blaði sem ég hafði klippt myndina sem hékk á veggnum. „Talaðirðu við þá á fasteignasölunni?“ spyr konan og ég horfi á hana og veit ekki hvort ég á að svara út í hött eða segja henni við hvern ég talaði á fasteignasölunni; það er ekki gott að segja eftir hvers konar svari hún er að fiska. En þá heyrist allt í einu glerhljóð innan úr stofunni, eins og einhver hafi lagt frá sér glas og það hafi rekist í annað glas, eitthvað á þá leið. Konan ræskir sig og horfir í kringum sig á ekki neitt; hún er að bíða eftir að ég fari. Ég get heldur ekki sagt að mig langi til að vera hér öllu lengur, ég þakka henni fyrir og sný mér að dyrunum fram á gang. Þá heyrist hljóð inn- an úr herberginu mínu, það er eins og lamið sé í borð eða skáphurð, og um leið og ég tek í hurðarhúninn er hrópað: „Segðu honum að fara!“ Mér bregður og ég staðnæmist með hönd- ina á húninum. Röddin hinum megin hurð- arinnar er auðheyrilega ung, en þó ein- kennilega dimm, ég sé fyrir mér að það sé slökkt í herberginu. Þegar ég horfi í augu konunnar get ég auk þess ekki betur séð en að þau segi mér að fara; hún gerir eins og henni er sagt. Ég kinka til hennar kolli af- sakandi, sný síðan húninum – þetta er sami húnn og fyrir aldarfjórðungi – og þegar ég opna fram á gang hrópar sama rödd og áð- an: „Ég þarf að komast fram!“ Ég reyni að forðast að mæta augum kon- unnar aftur, ég færi mig yfir þröskuldinn, en áður en ég læt aftur hurðina heyri ég kallað með auknum raddstyrk: „Mamma!“ Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er sem ég yfirgef með því að loka dyrunum, en það er samt léttir að vera einn hér frammi á ganginum. Áður en ég geng niður stigann – væntanlega í allra síðasta sinn – horfi ég upp þröngar og brattar tröppurnar að háa- loftinu sem ég hefði getað fengið að skoða hefði ég viljað. Á leiðinni niður tek ég eftir því að tvær myndir sem hanga á veggnum við dyrnar að neðri íbúðinni í stigaganginum eru sömu myndir og voru þar þegar við áttum heima hérna. Ég ætti að muna það, segi ég við sjálfan mig, eftir að hafa gengið framhjá þeim hátt í tuttugu þúsund sinnum, ef eitt- hvað var að marka útreikninga mína. Hún rifjast upp fyrir mér fjölskyldan sem bjó fyrir neðan okkur. Sonur hjónanna var ágætur vinur minn og allt í einu finnst mér svolítið fáránlegt að hafa ekki heyrt af þessu fólki síðan. Er hugsanlegt að það eigi heima hérna ennþá? Þegar ég hringdi dyrabjöll- unni hjá konunni uppi gat ég ekki séð nein nöfn, hvorki við bjölluna né á útidyrahurð- inni, en fyrst sömu myndir eru ennþá á veggnum er ekki ólíklegt að þau séu hérna enn, að minnsta kosti hjónin sem hljóta þá að vera orðin frekar roskin. En svo þarf það ekkert að vera; sjálfur skildi ég eftir á veggnum í herberginu mínu svarta ferhyrn- inginn með litla brúna ferhyrningnum innan í; hann var reyndar málaður á vegginn. Og plakatið með myndinni af Keith Emerson; ég man ekki heldur eftir að hafa tekið það með mér þegar við fluttum. Morgunblaðið/Golli HERBERGIÐ MITT Höfundur er rithöfundur. E F T I R B R A G A Ó L A F S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.