Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚNÍ 2003 9 þar sem ég sé einhverja vinnugleði. Mér leiðast ofboðslega sjálfhverf verk, og þessi tæknilegu verk sem eru ekki einu sinni tæknilega vel unnin. Mér finnst gaman að koma á sýningu þar sem maður sér gleði og kraft. Að þurfa ekki að segja við sjálfa sig: Jæja, þá er best að reyna að skilja þetta! Það var gaman að koma inn á síðustu sýningu hjá Gabríelu Friðriksdóttur. Maður fann svo vel fyrir því að listamann- inum finnst gaman að vinna. Stund- um eru sýningar svo hundleiðinleg- ar að maður þarf virkilega að taka á því við að skoða þær.“ – Í þínum verkum sameinast mikil skólun, þú ert sérmenntuð í skúlptúr og gleri, og svo endur- spegla þau kraft og gleði. Þú gerir þannig sömu kröfur til verka ann- arra? „Ég vil geta fengið „blast“ frá upplifuninni, hvort sem það er myndlist eða tónlist; að fá högg í bakið sem hendir mér til. Það finnst mér skemmtilegt. Það var einmitt þannig upplifun þegar ég sá verkin hans Matthews Barneys í fyrsta sinn. Þegar ég hef séð myndir af æpandi stúlkum á Bítlatónleikum, þar sem er að líða yfir þær, þá hef ég spurt mig: Hve- nær lendi ég í þessu! Mig langar alltaf til að lenda í einhverju sem lætur mig falla í gólfið af hrifningu. Einu sinni þegar ég sá Nick Cave á tónleikum í New York fékk ég í hnén, stóð varla, og þá sagði ég: Loksins! Eins var þegar ég fór á fyrstu sýningu Barneys, þá sagði ég bara vá! Þar var eitthvað nýtt að gerast og öðruvísi. Ekki að ég skildi hvað hann væri að fara, heldur fann maður slagkraftinn. Þegar ég vinn er ég meira og minna í náttúrunni og náttúran í því sem ég geri. Þegar ég vinn glerið er það eins og hraun. Ég er eins og náttúran að skapa, frekar en ég sé að endurgera eitthvað sem ég hef séð. Geri mín eigin fjöll og steina. En náttúran stendur mér nærri. Ég hef verið mikið á fjöllum, en á sumrin hef ég verið að kokka fyrir ferðamenn í rútuferðum. Sprengi- sandur er uppáhaldsstaðurinn minn. Það er svo mikið rými þar … mér finnst alveg ógeðslega gaman á fjöllum.“ – En vinnurðu beint út frá þeirri tilfinningu? „Nei, en þarna tek ég inn orku, fer heim og held áfram að vinna. Landið er mikil upplifun.“ – Mokarðu ekki sandi í poka og tekur með þér? „Jú, jú. Þarna á palettunum eru Hjörleifshöfði og ýmsir aðrir staðir landsins. Jú, ég safna efni, tek sand, steina og annað sem ég rekst á. Ég lauma þessu í matarkisturnar. Þeg- ar túristarnir fara í göngu rölti ég af stað með pokann. Sandurinn sem ég nota er héðan og þaðan af landinu. Hann hefur svo ólíkan kar- akter. Það er þessi ljósi Vestfjarðasandur, ljós með svörtu, ljós með gulu; þetta er alls konar sandur. Fyrir mér eru þetta litir.“ – Heldurðu að þessi náttúruskynjun hafi eitt- hvað með það að gera að þú ert alin upp í sveit? „Það er náttúrlega fullt af fólki sem ekki ólst upp í sveit en hefur þessa tilfinningu fyrir nátt- úrunni. Pældu í öllum þessum náttúruvernd- arsinnum sem hafa varla komið af mölinni. En ég myndi segja að ég hefði eðlilegri skilning en margir á hringrás lífsins. Það er samt sérkenni- legt að ég fór seint að fara um landið. Ég var til dæmis í átta ár í Ameríku og þótt ég kæmi heim í einn mánuð á sumri fór ég aldrei neitt á fjöll. Ég fór bara til Reykjavíkur og í sveitina. Þegar ég var að gera verkin mín í Ameríku voru allir að tala um hvað þau voru íslensk. Einu sinni þurfti ég að flytja fyrirlestur í New York um það sem ég hafði verið að gera. Þá bað ég vin minn, ljósmyndarann Max Schmidt, að senda mér Íslandsmyndir af einhverjum formum sem tengdust verkunum mínum. Hann sendi mér myndir af formum í ís og fjöllum og ég fór allt í einu að sjá samhengið; hvað þetta var í rauninni líkt. Ég hafði aldrei komið að Jökulsárlóni en fólk var alltaf að segja: Þetta er alveg eins og formin á þessu lóni fyrir austan! Og ég vissi ekki neitt. Seinasta verkið sem ég gerði í New York var bóndabær með burstum, sem urðu að fjalli. Og fyrst ég var farin að gera íslenskan bóndabæ var best að koma sér bara heim. Eftir það fór ég í kokkshlutverkið og fór að kynnast landinu. Það var mikil upplifun og ég fór að tengja margt saman. Í hraðanum í New York er maður bara á flugi, ekki að tengja neitt. Eins og ég sagði eru verkin oft eins og náttúran; að steypa gler er eins og að upplifa hraun renna. Maður undirbýr sandinn og hellir heita glerinu í og svo bara gerist það sem gerist. Úr verður oft einhver karakter sem maður hefur aldrei séð áður. Ég er ekki með neitt vesen þótt hluturinn þróist ekki nákvæmlega eins og ég hafði búist við, svona er hann bara og um að gera að gleðj- ast yfir því. Ég er í samræðum við sköpunar- ferlið. Ég lít líka á verkin mín sem einstaklinga, allir hafa þeir sitt kyn, eru karl- eða kvenkyns. Stundum þekki ég þá ekki fyrst, botna ekkert í þeim, og set þá kannski til hliðar í mörg ár. Þá tek ég allt í einu að kannast við þá og tek þá í sátt. Þess vegna hefur verið svo gaman núna að fara í gegnum geymslurnar og ná í allt gamla dótið. Þá hef ég verið að segja: Þú ert ekki svo slæmur! við einhverja hluti sem ég gerði fyrir löngu. Þú sérð alltaf á líkamsbyggingunni hvort kynið verkin eru. Þetta er að vissu leyti fjöl- skyldan; ég á engin börn en bý til skúlptúra. En talandi um náttúruna, þá finnst mér víð- áttan best, þar fá formin að njóta sín. Ég er al- veg á móti trjám. Ég hata tré! Ég þoli ekki þessa djöfuls gróðursetningaráráttu í Íslend- ingum. Þetta er svo ljótt! Í fyrra fór ég í útreið- artúr í Tungunum og þar var þessi ofsalega fal- legi íslenski mói og það var búið að planta í hann röðum af einhverjum jólatrjám. Slagorð mitt er: Látið fjöllin í friði! Ég er náttúrlega trjá-terroristi. En það má annars ekki nota þetta t-orð lengur, þá verður allt vitlaust.“ Búin að sanka að mér miklu efni – Hvernig vinnurðu að hverju verki fyrir sig, velur því stærð og form? „Það blandast allt saman. Ég byrja alltaf á glerinu. Ég er með glerofn hér en hins vegar ekki með aðstöðu til að gera heita glerið. Ég fer til útlanda til að gera það og er þá í nokkra daga á verkstæði í senn. Þá er maður í mismunandi aðstöðu, með mismunandi fólk í kringum sig og mismunandi hluti í gangi. Ég fer af stað með einhverjar hugmyndir en reyni líka að vera opin fyrir því sem kemur upp á. Það er oft ofsa ak- sjón í að steypa heitt gler í sand. Stundum lætur glerið vel að stjórn og stundum ekki. Svo er þetta nokkra daga að kólna og ég fæ það oft sent til mín nokkrum vikum síðar og þá er ég komin með hluti í hendurnar sem eru langt frá hug- myndunum í skissunum. Fyrir sjö árum var ég í Japan og gerði þar fullt af hlutum sem eru ótrúlega ólíkir öllu öðru sem ég hef gert. Ég er búin að nota nokkra þeirra í verk og er smám saman að nota fleiri; ég hef horft mikið á þá en hef bara ekki haft hugmynd um hvernig ég eigi að nota þá! Stund- um liggja verk hjá mér á lager í mörg ár. Og stundum veit ég strax hvernig ég vil nota þau. Lagerinn minn er fullur af glerhlutum sem seinna fara inn í skúlptúrana. Svo tek ég glerið fram, skoða og fer að skissa og plana; verður þetta stórt verk, milli eða lítið.“ – Er vinnan á ólíkum glerverkstæðum þá hluti af sköpunarferlinu? „Já, ég er búin að sanka að mér svo miklu efni í gegnum tíðina, sem er eins gott því ég er farin að halda að ég komist ekkert meira, sé bara föst í fasteignagjöldunum. Og svo má ekki gleyma því að nú get ég gert gler hér, ofnsteypt kalt gler sem er öðruvísi ferli, þar hef ég miklu meiri stjórn. Þá er glermulningur bræddur í gifsmót- um, eins og minni veggverkin sem ég hef verið að gera upp á síðkastið. Þá veit ég nákvæmlega hver útkoman verður.“ – Þú þreytist ekkert á að vinna í þessi þungu og miklu efni? „Þetta er ekkert þungt. Stóru verkin eru öll úr einangrunarplasti sem ég múra á. Ég þarf frekar að pína mig til að gera minni verk. Það var erfitt í fyrstu en í dag er það áskorun að gera lítil verk; það er jafn mikil áskorun að fá lítið verk til að virka og stórt.“ – Þrátt fyrir að þú segir ekki um stökkbreytingar að ræða ertu alltaf að taka ný skref í verkunum. „Það er alltaf eitthvað sem breyt- ist. Bara eins og venjulegur þroski; ég bý til glerhluti og þeir taka svo yf- ir ferlið. En fyrsta verkið er venju- lega að spyrja þá: Hvað ertu stór? Ertu hérna?“ Hún teiknar strik út í loftið í mittishæð. „Eða ertu hérna?“ Og gerir nú strik í andlitshæð. „Glerið er oft eins og inngangur í verkið, þú getur horft inn í það eða horft ofan í það. Það skiptir svo miklu máli hvernig afstaða líkama áhorfandans verður gagnvart verk- inu. Þegar ákvörðunin um stærðina hefur verið tekin, þá er bara að byggja restina.“ – Er mikilvægt fyrir þig að sýna reglulega? „Ég hef haldið einkasýningar á þriggja ára fresti. Ég þarf alltaf að setja mér markmið. Verð að hafa eitthvað að stefna að. Nú er ég kom- in með svo stóra áætlun að ég verð að vera heilbrigð til áttræðs …“ Hér er mitt starfsumhverfi – Þú vinnur mikið af stórum verk- um, sem þarf að finna staði sem gætu oft verið hjá hinu opinbera. Hvernig finnst þér stofnanir eins og söfnin og listskreytingasjóður standa sig? „Það er ekki verið að gera nógu mikið í listskreytingum, fullt af stöð- um gerir ekkert í þessu. Maður verður þá bara að vera virkur sjálfur og reyna að finna sér verkefni. Það er ekkert auðvelt að vera sjálf að segja fólki hvað ég sé æðislega góð. Það væri gott að hafa einhvern sem segði það fyrir mig. Það er ekkert auðvelt að standa fyrir framan fólk og segja: Ég er æðisleg – kauptu af mér! En ég verð samt að gera það. Ég hef aldrei verið fyrir það að kvarta; ég held það séu miklir mögu- leikar hér á landi. Ein hliðin á þessu eru opinberar samkeppnir. Sumir ganrýna samkeppnir þar sem farið hefur fram forval á listamönnum og vilja opna samkeppni, ég er alveg ósammála því. Það er ætlast til að þú hannir verk og setjir fram kostnað- aráætlun, allan pakkann; það er rosalega mikil vinna. Ég nenni ekki fyrir mitt litla líf að leggja alla þessa vinnu í þetta, launalaust. Ég vil kom- ast inn í lokaðar samkeppnir og fá pening fyrir að leggja fram tillögu. Ég er bara það merkileg með mig. En svona er þetta blessaða lýðræði, allir eiga að fá að vera með. Ég er frekar bjartsýn manneskja en það ger- ist ekkert af sjálfu sér. Það kemur enginn óbeð- inn og gerir eitthvað fyrir þig. Það þarf að sýna sig, kynna sig og verk sín.“ Talið berst að lokum að kynningu á verkum íslenskra listamanna á erlendri grundu. „Ég hef sýnt talsvert í útlöndum en það hefur alltaf verið að minnka og minnka,“ segir Bryn- hildur. „Og mér finnst það í raun ágætt – þetta er svo mikið vesen! Ég er hætt að taka þátt í einhverjum samsýningum nema ég fái allt borg- að. Hér áður fyrr gekk ég á milli fyrirtækja og betlaði peninga til að kosta svona sýningaferðir – en þá var ég líka að byrja og að koma mér á framfæri. Núna þykist ég svo vera komin það langt að ég þurfi ekki á því að halda, en hvaða máli skiptir það líka þótt maður sé með á ein- hverri samsýningu í Norður-Noregi og bæti einni línu í ferilskrána? Það skiptir engu máli! Við verðum ekkert fræg í útlöndum. Það verður nánast enginn frægur í útlöndum – kannski fimm Íslendingar á þrjátíu árum. Það sem mér finnst mikilvægt er að geta sýnt reglulega hér heima, því hér er markaðurinn minn. Hérna er mitt starfsumhverfi, hér kem ég til með að vinna, hér kem ég til með að geta selt – og ég ætla að einbeita mér að því að gera góða hluti hér. Það er frábært ef þú getur haldið góða sýn- ingu á góðum stað erlendis en ef valið stendur um einhverjar þrjár samsýningar í útlenskum miðlungsgalleríum eða eina góða hér, þá er eng- in spurning í mínum huga. Fyrir mér skiptir mestu máli að vinna vel hér heima.“ efi@mbl.is Horft yfir vinnustofu Brynhildar í Staðahverfinu. Í forgrunni eru nokkrir stóru skúlptúranna. Fjall VI og Fjall VII, 2002. Ofnsteypt gler. Glerhlutir í hillum sem bíða þess að rata í verk.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.