Lesbók Morgunblaðsins - 17.07.2004, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 17.07.2004, Blaðsíða 10
Morgunblaðið/RAX Hafsteinn Austmann segir eigin sannfæringu skipta öllu í myndlist. „Ég myndi frekar moka skurð en mála myndir sem ég væri ekki sáttur við,“ segir Hafsteinn Austmann. É g var tíu ára þegar ég uppgötv- aði vatnsliti. Áður hafði ég málað með krít, eins og krakkar gera, en þegar ég kynntist vatnslitunum varð ég yfir mig hrifinn af þeim. Þeg- ar ég kom í gagnfræðaskóla var ég svo heppinn að fá Skarphéðin Haraldsson sem kennara, sem hafði lært vatnslitamálun í Englandi. Hann sá að ég hafði mikinn áhuga á þessu og bauð mér að mála heima og koma til hans einu sinni í viku, í vinnustofu sem hann hafði á bak- við kennslustofuna. Þá fór hann yfir það sem ég hafði gert í vikunni og gaf mér ábendingar. Margt af því endaði nú í ruslinu,“ segir Hafsteinn Austmann myndlistarmaður, en sýn- ing á vatnslitamyndum hans á fimmtíu ára ferli stendur yfir í Listasafni ASÍ um þessar mund- ir. Tilefni sýningarinnar, sem ber yfirskriftina Litbrigði vatnsins, er sjötugsafmæli hans sem hann fagnar næstkomandi mánudag. Hafsteinn Austmann er einn af þekktustu vatnslitamálurum Íslands. Á fimmtíu ára ferli hefur hann verið iðinn við að sýna, bæði hér á Íslandi og í útlöndum, unnið til verðlauna og ferðast og skoðað myndlist um allan heim. En einn af sterkustu áhrifavöldunum úr íslenskri listasögu í listsköpun Hafsteins er Ásgrímur Jónsson. „Hann er okkar frumkvöðull hér- lendis í akvarellutækni. Vatnslitamyndirnar sem hann gerði milli 1908 og 1912 eru sér- staklega góðar, litirnir svo tærir og myndinar tæknilega svo vel gerðar að það er ótrúlegt að hann hafi ekki lært vatnslitamálun. Af honum hefur maður töluvert lært.“ Hann nefnir líka ensku málarana J.M.W. Turner og John Constable, frumkvöðla í vatnslitamálun í Evr- ópu í byrjun 19. aldar. „Þeir máluðu utandyra og þó að Frakkar hafi viljað kalla sína menn fyrstu impressjónistana, eru Turner og Constable í raun þeir allra fyrstu. Þeir fyrstu til að mála loftið.“ Vatnslitamálun er vandasöm listgrein, eins og allir þekkja sem hafa reynt, og jafnvel mað- ur sem hefur stundað hana í áratugi eins og Hafsteinn er því sammála. „Þetta er það erf- iðasta sem hægt er að glíma við í myndlist. Maður byrjar á ljósu, það er að segja papp- írnum, og setur bara vatn. Svo lætur maður þorna á milli, og fer svo aftur yfir. Það er þó ekki hægt að fara mjög oft, því þá verður lit- urinn óhreinn. Það þarf mjög lítið til að mynd hrynji algjörlega, og oft getur verið erfitt að greina hvenær mynd er tilbúin. Svavar Guðna- son orðaði það þannig að þegar maður sneri sér frá mynd ætti hún að koma eins og högg í hnakkann. Tilfinningin að myndin hafi tekist gerist afskaplega sjaldan, en hún er ólýsanlega góð. Það er hún sem lætur mann halda áfram að mála.“ Það gæti komið mörgum Reykvíkingum á óvart að skúlptúrinn Ryð, sem stendur fyrir utan hús Landsvirkjunar við Bústaðaveg, er einnig úr smiðju Hafsteins. En Hafsteinn seg- ist ekki líta á sig sem listmálara. „Ég hef frem- ur viljað líta á mig sem eins konar renaissance- mann, í anda Michelangelo og Leonardo og allra hinna sem fengust við mörg ólík form um leið, máluðu, byggðu og fundu upp,“ segir hann. Æfingin skapar meistarann Að loknu námi í gagnfræðaskóla hóf Hafsteinn nám í hinum svonefnda Frístundamálaraskóla, sem síðar átti eftir að verða Myndlistarskólinn í Reykjavík. Kennarar hans þar voru meðal annars Þorvaldur Skúlason og Kjartan Guð- jónsson. Þaðan lá leiðin í Handíða- og mynd- listaskólann, sem seinna varð Myndlista- og handíðaskólinn og síðar Listaháskóli Íslands og árið 1954 hélt Hafsteinn til Parísar í frekara nám. „Ég hafði þá kynnst stúlku úr Leiklist- arskólanum, sem núna er eiginkona mín, Guð- rún Stephensen. Dóttir okkar var nýfædd þeg- ar ég fór, en ég sá að ef ég færi ekki þá færi ég aldrei. Þá voru engin námslán og maður þurfti að vinna fyrir uppihaldi vetrarins allt sumarið. Tengdamóðir mín brá einnig á það ráð að fara með mig til efnaðra manna sem hún þekkti og selja þeim myndir, og þannig varð ég mér úti um smáuppihaldspeninga.“ Síðan Hafsteinn sneri heim til Íslands að lokinni Parísardvölinni hefur hann starfað óslitið í myndlist, eins og sýningin sem nú stendur yfir í Listasafni ASÍ gefur innsýn í. „Mér finnst eins og árið 1980 séu ákveðin tíma- mót, þá fyrst hafi ég í raun farið að gera eitt- hvað af viti í myndlistinni þó að ég hafi þá verið við störf í fjöldamörg ár. Æfingin skapar meistarann, eins og sagt er, og ég hef alltaf haft þá skoðun að vinnan geri mann að því sem maður er.“ Glíma við uppbyggingu og liti Flestar myndir Hafsteins eru óhlutbundnar, og á sýningunni í Listasafni ASÍ eru eingöngu abstrakt vatnslitamyndir. „Ég hef alltaf málað svona,“ segir hann. „Nema kannski þegar ég var í skóla. Ég kom inn í myndlist á þeim tíma þegar kúbistarnir höfðu reist borðið upp, ef svo má segja, og geómetrían var að ryðja sér til rúms. Á tímabili var maður að sjálfsögðu kallaður klessumálari. Ég man eftir því að mynd eftir mig hafi verið líkt við vínarbrauð með glassúr! En nú þykir maður orðinn klassískur og fáir að agnúast lengur út í ab- straktsjónina.“ Verkin sem prýddu sali Listasafns ASÍ á sýningunum á undan eru um mjög margt ólík vatnslitamyndum Hafsteins. Þar sýndu Guð- rún Vera Hjartardóttir, Helga Óskarsdóttir og Ingibjörg Magnadóttir Helgidóm í Ásmund- arsal og Rósa Sigrún Jónsdóttir sýndi undir heitinu Horfðu djúpt í Gryfju. Hafsteinn segir sér finnast svolítið erfitt að setja sig inn í það sem yngsta kynslóð myndlistarmanna er að fást við í dag. „Mér finnst einhvern veginn að ég sé orðinn of gamall til að skilja þau, þó að ég reyni að fylgjast með. En það hvarflar ekki að mér að fara að skamma þessa krakka. Þau eru alveg eins viss í sinni sök og ég var á sínum tíma. Ef þau trúa á það sem þau eru að gera þá er vit í því. Ég og kollegar mínir hefðum til dæmis getað málað landslag á sínum tíma, en það var ekki það sem maður vildi gera, heldur glíma við uppbyggingu og liti, án þess að verða fyrir truflunum af einhverri fyrirmynd.“ Málar fram á síðasta dag Hafsteinn segist ekki viss um hvernig hans eigin myndir komi honum fyrir sjónir nú á dög- um. „Ég veit það ekki. Þegar maður er orðinn alveg viss um að hlutirnir séu farnir að ganga upp er maður kominn á hættulega braut og ætti að snúa sér að öðru. Ef maður er farinn að búa til myndir bara til að selja eða til að þókn- ast öðrum. Maður verður að gera það sem manni finnst vera góður hlutur, hvort sem það selst eða ekki, og fylgja sinni sannfæringu. Ég myndi frekar moka skurð en mála myndir sem ég væri ekki sáttur við.“ Sjötugsafmælið er rétt handan við hornið, eða helgina, því Hafsteinn Austmann er fædd- ur 19. júlí 1934. Að hætta að mála er samt alls ekki á dagskrá hans enda segist hann aldrei hafa séð eftir því að hafa gert myndlistina að ævistarfi sínu. „Það er langt í frá. Listmálarinn Titian varð nú hundrað ára og málaði fram á sinn síðasta dag. Mér finnst myndirnar mínar alltaf að verða persónulegri og ég er sífellt að ná betri tökum á því sem ég vil ná fram í þeim. Meðan svo er heldur maður áfram.“ Akvarellur Austmanns Vatnslitir og Hafsteinn Austmann myndlist- armaður eiga sér langa sameiginlega sögu. Yfirlit verka hans í tilefni sjötugsafmælis hans stendur nú yfir í Listasafni ASÍ, en á sýningunni eru vatnslitamyndir sem spanna fimmtíu ára feril. Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is ’Tilfinningin að myndin hafi tekist gerist afskaplega sjald- an, en hún er ólýsanlega góð. Það er hún sem lætur mann halda áfram að mála.‘ 10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. júlí 2004

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.