Íslendingaþættir Tímans - 14.01.1983, Blaðsíða 4

Íslendingaþættir Tímans - 14.01.1983, Blaðsíða 4
Ingólfur Framhald af bls. 2 Um leið og ég færi Ingólfi og fjölskyldu hans bestu árnaðar óskir á áttræðisafmælinu þakka ég honum áratugalangt ánægjulegt og farsælt sam- starf og þeim hjónum vináttu þeirra og hlýhug frá okkar fyrstu kynnum. Megi Eyjafjörður skila þjóðinni sem flestum sonum líkum Ingólfi Davíðssyni að manngildi og hæfileikum. Halldór Pálsson. Það er eins og grasafræðingar verði allra karla elstir og er það vel. Ingólfur Davíðsson sem verður áttræður í dag er þriðji íslenski grasafræð- ingurinn sem nær þeim aldri síðasta áratuginn eða rúmlega það. Hann er samt enn hress í lund og frár á fæti og fer allra sinna ferða hvernig sem viðrar og það oftast fótgangandi. Hann hefur líka alla ævi verið starfssamur og sívinnandi, aldrei fallið verk úr hendi, enda liggur eftir hann ótrúlegur fjöldi tímarits- og blaðagreina, einkum um grasafræði og ræktun og sjúkdóma á garð- og nytjaplöntum, en einnig um búskaparhætti og byggðasögu fyrri tíma, ásamt nokkrum bókum um þessi efni sem hann hefur ýmist skrifað einn eða í félagi við aðra. Auk er hann bæði vel hagmæltur og tónvís og kvæði og sönglög eftir hann hafa birst á prenti og verið flutt. Á þessu má sjá að Ingólfur Davíðsson er mjög fjölhæfur og honum margt til lista lagt, þó hann látið lítið yfir sér og sé manna hógværastur. Ég kynntist Ingólfi fyrst fyrir nærri tuttugu og fimm árum og var þá nýkominn heim frá námi. En ég hafði lesið greinar eftir hann, heyrt frá honum sagt þar sem hann hafði komið og séð hann á ferðum hans um landið, sem hann fór til að rannsaka útbreiðslu sjúkdóma í ræktuðum plöntum og jafnframt útbreiðslu villtra plantna á landinu. Og þær ferðir hans urðu margar og Þeir sem skrifa minningar- eða afmælisgreinar í íslendingaþœtti, eru vinsamlegast beðnir um að skila vélrituðum handritum 4 áreiðanlega stundum þreytandi, en ugglaust oftast skemmtilegar og umfram allt fróðlegar, enda má segja að hann hafi heimsótt og rannsakað ræktuð lönd hvers einasta býlis á landinu og sum margoft. Að loknu námi og magistersprófi í náttúrufræði, með grasafræði sem aðalgrein, við Hafnarháskóla árið 1936, kom Ingólfur heim. Fyrsta árið fékkst hann einkum við náttúrufræðikennslu, og hefur reyndar stundað einhverja kennslu í náttúrufræði- greinum jafnframt öðrum störfum svotil fram á þennan dag. En árið 1937 tók Atvinnudeild Háskólans til starfa og réðst Ingólfur strax að henni sem sérfræðingur í jurtasjúkdómum og grasafræði og starfaði þar samfellt þangað til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Það var vegna þess starfs sem hann ferðaðist um byggðir landsins þverar og endilangar eins og áður segir og aflaði sér smám saman gífurlega mikils fróðleiks á plöntum landsins, villtum og ræktuðum, og gróðurfari 'þess til viðbótar við það haldgóða veganesti á því sviði sem hann hafði með sér úr föðurhúsum, en faðir hans var vel grasafróður og ein sjaldgæfasta jurt landsins er við hann kennd. Þessum mikla fróðleik miðlaði Ingólfur svo óspart að varla hefur nokkur íslenskur vísindamaður skrifað jafn margar, hvað þá fleiri fræðslugreinar fyrir almenning um fræðigrein sína og rannsóknir, ekki síst nú síðari árin, og má til marks um það nefna að í síðasta hefti Garðyrkjuritsins, sem hann ritstýrði reyndar í 25 ár, eru átta fræðslu- greinar eftir hann! Rannsóknastörfum Ingólfs Davíðssonar má skipta í fjóra höfuðþætti og tengjast tveir þeir fyrri starfi hans hjá Búnaðardeild Atvinnudeildar Háskólans, sem síðar varð Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, en það eru rannsóknir á sjúk- dómum á nytjaplöntum, einkum matjurtum og á nytjajurtunum sjálfum ásamt garðaplöntum og ræktun þeirra. Um þessar rannsóknir hefur Ingólfur skrifað flestar sínar ritgerðir og bækur, þar má t.d. nefna Plöntusjúkdóma og varnir gegn þeim sem kom út 1938 og var endurútgefin 1962, Garðagróður sem hann skrifaði ásamt Ingimar Óskarssyni og gefin hefur verið út þrisvar sinnum, fyrst árið 1950 en 3. útgáfa kom 1981, Matjurta- bókina sem hann ritstýrði, Garðablóm í litum og Tré og runna í litum sem hann þýddi og staðfærði og út komu 1962. Fræðslugreinar Ingólfs eru flestar á þessu sviði og hafa einkum birst í Garðyrkjuritinu en einnig í dagblöðum, aðallega Tímanum, og fleiri tímaritum, og þær verða ekki taldar í tugum heldur hundruðum. Þriðji þátturinn í starfi Ingólfs eru rannsóknir hans á útbreiðslu villtra íslenskra plantna en hann hefur aukið mjög við þekkinguna á því sviði, fundið ótal nýja vaxtarstaði áður þekktra tegunda og fleiri nýjar tegundir en nokkur annar núlifandi íslenskur grasafræðingur. Um þessar rannsóknir héfur hann skrifað margar ritgerðir, flestar í Náttúrufræðinginn, og hann var einn þeirra þriggja jöfra íslenskrar grasafræði á síðari árum sem sáu um 3. útgáfu Flóru íslands sem gefin var úr 1948. Fjórði þátturinn, og ekki sá ómerkasti, eru rannsóknir Ingólfs á nýjum tegundum sem slæðast til landsins eftir ýmsum leiðum, oftast með varningi, og venjulega verður fyrst vart við á ræktuðu landi kringum bæi og býli eða í görðum. Ekki ná riærri allar slíkar tegundir rótfestu hér á landi til frambúðar, þó sumar geri það og verði áberandi borgarar í flóru landsins og hefur Ingólfur fylgst mjög náið með því hvernig þessum slæðingum hefur reitt hér af og rakið útbreiðslu- sögu þeirra nákvæmlega. Um þessar rannsóknir hefur hann einnig skrifað fjölda greina, einkum í Náttúrufræðinginn en einnig í önnur tímarit. Á ferðum sínum hefur Ingólfur alítaf safnað miklu af plöntum og er verulegur hluti þeirra nú á Náttúrufræðistofnun Islands, sem hann hefur alltaf borið hlýjan hug til, enda vann hann um fimm ára skeið að skrásetningu plöntusafnsins þar. Einum þætti verður að bæta við ennþá og það er kennsla Ingólfs, sem aðeins var minnst á áður, en hann hefur kennt náttúrufræði, og þá einkum grasafræði, við ýmsa skóla í Reykjavík allt frá því hann kom heim frá námi og nú síðustu árin lyfjafræðinemum við Háskóla íslands. Hann skrifaði kennslubók þá, Gróðurinn, sem hátt í tvo áratugi var aðalkennslubók í gagnfræðaskólum landsins, hún var alls gefin út þrisvar og var síðasta útgáfan í tveimur heftum en sú fyrsta kom út 1950. Ótaldar eru svo allar þær mörgu greinar um byggðasögu sem Ingólfur hefur skrifað, en flestar þeirra hafa birst í Ttmanum. Ingólfur hefur líka tekið mikinn þátt í félagsmálum um ævina. Hann var um 25 ára skeið í stjórn Garðyrkjufélags íslands og ritstjóri Garðyrkjuritsins eins og áður segir, í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur í 20 ár, í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags í 14 ár og um árabil hefur hann verið félagi Vísindafélags íslendinga. Sem þakklætisvott fyrir störf hans í þágu félagsins, ekki síst við 3. útgáfu Flóru íslands og framlag hans til Náttúrufræðingsins, kaus Hið íslenska náttúrufræðifélag hann heiðursfélaga árið 1978. Ingólfur er kvæntur danskri sómakonu, Agnes Marie Ingeborg, fæddri Christensen, frá Álaborg. Þau eiga þrjú uppkomin og mannvænleg börn, Agnar prófessor í vistfræði við Háskóla íslands, Eddu sem búsett er í Danmörku og Helgu hljóðfæraleikara. Ingólfur Davíðsson er sérstakur heiðursmaður til orðs og æðis og hefur heils hugar og af stökum dugnaði og samviskusemi unnið meira að fram- gangi íslenskrar grasafræði og íslenskra ræktunar- mála en flestir aðrir á þessari öld. Fyrir það langar mig til að þakka honum innilega og ég veit að aðrir grasafræðingar og fleiri náttúrufræðingar taka undir það, og óska honum hjartanlega til hamingju á áttræðisafmælinu. Hann lætur enn hvergi deigan síga og vonandi á hann enn eftir að njóta margra góðra starfsára. Eyþór Einarsson Sigurjón Framhald af bls. 12 að um áraskeið söng hann með Karlakórnum Þrym, nú ekki sem söngstjóri, heldur sem óbreyttur liðsmaður. En váfalaust hefur hánn ekki fremur þar en annarsstaðar látið hlut sinn eftir liggja, því að hann var aldrei þeirrar gerðar að ganga hálfur til nokkurs starfs. Við hjónin vottum Sigrúnu og fjölskyldunni allri dýpstu samúð um leið og við þökkum forsjoninm fyrir samfylgd hans, sem nú hefur hvatt. Óskar Sigtiyggsson. islendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.