Íslendingaþættir Tímans - 14.01.1983, Blaðsíða 14

Íslendingaþættir Tímans - 14.01.1983, Blaðsíða 14
Guðni Jónsson fyrrum bóndi að Jaðri Fæddur 20. apríl 1895. Dáinn 7. nóvembcr 1982. Guðni Jónsson, fyrrum bóndi að Jaðri í Hrunamannahreppi lést hinn 7. nóv. s.l. Hann var fæddur að Auðsholti í Biskupstungum hinn 20. apríl 1895 og varð þvi' 87 ára. Foreldrar Guðna, afa míns, voru hjónin Sigríður Árnadóttir og Jón Árnason, bæði Rangæingar, og var afi 3. elstur af 11 systkinum. Tíu þeirra komust til fullorðinsára, 6 bræður og 4 systur. Árið 1897 fluttist hann með foreldrum sínum að Tungufelli í Hrunamannahreppi og á þeim slóðum átti hann eftir að dvelja mestan hluta ævi sinnar. Pau Sigríður og Jón voru efnalitlir bændur, eins og flestir íslcndingar á þeirra tíð og ómegðin fór vaxandi á þcim árum, sem þau voru að koma sér fyrir í Tungufelli. Og það var öðru nær en sveitaryfirvöld eða aðrir opinberir aðilar hefðu í frammi aðgerðir til að auðvelda þessu fátæka, unga fólki að koma undir sig fótunum. „Við sultum aldrci, en olt hefðum við þegið meira að borða,“ sagði afi um uppvaxtarár sín. Störfin á Tungufellsbúinu voru hefðbundin, heyvinna, skepnuhirðing og hjáseta kvíaánna á Tungufellsdalnum, þar sem enn má lesa ártölin, sem afi og bræður hans léku sér við að klappa í Selklettinn. Afi var strax sem barn einstaklega árrisull og því kom þaö oftast í hans hlut að vakna síðari hluta nætur og fara með ærnar. Hann var ungur að árum, þegar faðir hans fól honum það vandasama verk að sjá um fóðrunina á fénu síðari hluta vetrar, þegar heyin voru óvenju lítil. Það gefur vísbendingu um hversu næma tilfinningu hann hafði fyrir skepnuhirðingu, enda var hann mjög gefinn fyrir búskap og mikill dýravinur. Skólaganga barna og unglinga var almennt ekki löng í byrjun aldarinnar. Nokkrar vikur á vetri í farskóla, þar sem kennd voru undirstöðuatriði bóklegra greina, var öll sú skólaganga, sem afi fékk. Eftir ferminguna var hann settur í viðbótarnám í eina viku hjá sóknarprestinum til þess að hann gæti síðan kennt yngri systkinum sínum. Vorið 1917 gekk afi að eiga eftirlifandi konu sína, Kristínu Jónsdóttur frá Granda í Arnarfirði. Sambúðin varð löng og góð, þau voru alla tíð samhent og samtaka. Fyrsta hjúskaparárið voru þau í vinnumennsku í Haga í Gnúpverjahreppi og þar fæddist elsta barnið, Sigurjón. Næsta ár bjuggu þau í Jötu í Hrunamannahreppi, en fluttust síðan að Hlíð í sömu sveit, þar sem þau bjuggu til vorsins 1926, að þau tóku við jörðinni Jaðri, af Snorra Sigurðssyni sem hafði búið þar allan sinn búskap, en var þá ekkjumaður og kominn á efri ár. Snorri var þó áfram á Jaðri, hafði nokkrar kindur og sá um sig sjálfur lengi vel, en þegar hann sökum ellihrumleika gat það ekki lcngur, tóku þau hann að sér og hjá þeim dvaldi hann þar til hann lést, 94 ára. Þegar þau afi og amma komu að Hlíð, var þar torfbær með hlóðaeldhúsi, en þiljaðri baðstofu. Til að byrja með höfðu þau aðeins hálfa jörðina og deildu baðstofunni með hinum ábúendunum, eldri hjónum. Engin upphitun var í baðstofunni og hún því köld og saggafull. Eftir fyrsta veturinn réðust þau í að kaupa sér eldavél á 300 krónur og þilja af fyrir hana yst í baðstofunni. Þótti ýmsum nóg um slíka eyðslusemi. En þau flokkuðu eldavélarkaupin síðar með allra stærstu umbótun- um í sínum búskap, því bæði gaf hún yl í baðstofuna og geysilega vinnuhagræðingu fyrir húsmóðurina, þar eð baðstofa og eldhús færðust nær hvort öðru og eldhússtörfin urðu mun auðveldari. Sá tími, sem með þessu sparaðist kom að góðum notum, því amma notaði hverja stund, bæði til viðgerða á fatnaði og til sauma á heimilisfólkið og aðra, enda hafði hún lært bæði karlmannafata- og kjólasaum. í Hlíð fæddust fjögur af sjö börnum þeirra, Jón, Davíð Brynjólfur, Guðbergur og Jóhanna. Þau fluttu því að Jaðri með 5 börn og þar fæddust 2 yngstu börnin, tvíburarnir Guðmundur og Guðrún. Þá var kreppa, atvinnuleysi, fjárskortur, sölu- tregða og lágt verðlag á landbúnaðarafurðum. Árið 1931, þegar tvíburarnir voru á fyrsta ári, réðust þau í byggingu íbúðarhúss, enda hriplak gamla torfþekta baðstofan og var alltof lítil. Afi sagði mér að hann hefi farið tií Reykjavíkur um vorið og fengið allt efni í íbúðarhúsið lánað í einu lagi fram á haust hjá timburversluninni Völundi. Hann sagðist ekki muna fyrir víst hvort hann hefði verið beðinn að kvitta fyrir úttektinni, en verslunarstjórinn sagðist alltaf lána sveita- mönnum hiklaust. Nú eru viðskiptahættir breyttir og öðru vísi gengið frá samningum. Að sjálfsögðu hefur ekki verið auðvelt að greiða þessar miklu skuldir á réttum gjalddögum, en skuldinni tókst þeim afa og ömmu að Ijúka, enda var þeim alltaf kappsmál að standa í skilum. Upp úr 1940 fóru bændur í Tungufellssókn og á efstu bæjum í Biskupstungum að vinna að því að selja mjólk til Mjólkurbús Flóamanna á Selfossi. Samningar gengu fremur treglega í fyrstu, en þar kom, að fallist var á að senda mjólkurbílinn efst upp í Tungurnar og hófst mjólkursalan árið 1943. Var það ekki síst fyrir framgöngu afa, en hann hafði jafnan forystu í því máli. Eftir að mjólkursalan hófst varð auðveldara um allar framkvæmdir. Um sama leyti luku tveir bræðranna búfræðinámi og tóku þátt í búskapnum með foreldrum sínum. Á næstu árum urðu stórfelldar ræktunarframkvæmdir, rafvæðing, símasamband og vegabætur. Afi var framsýnn og umbótasinnaður. Hann tók daginn snemma, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, réðst að eigin frumkvæði í framkvæmdir og umbætur, en beið þess ekki, að umhverfið þrýsti á. Slíkum brautryðjendum er það að þakka, að íslenskt þjóðfélag hefur risið úr þeirri örbirgð, sem ríkti hér á bernskuárum afa. Þau hjónin brugðu búi árið 1964 og fluttu þú til Reykjavíkur, en þá var afi orðinn heilsuveill- Guðrún dóttir þeirra tók þau til sín og hjá henni og fjölskyldu hennar hafa þau dvalist síðan. Aldrei hef ég vitað jafn árekstralausa sambúð svo ólíkra aldurshópa. Barnabörnin á heimilinu, fimm að tölu, vildu allt fyrir afa og ömmu gera og síðasta árið var komin í húsið lítil langafastelpa, sem gjarnan skreið upp í fangið á gamla afa. Hann átti vart nógu sterk orð til að lýsa þakklæti sínu til dótturinnar, tengdasonarins og barna þeirra, fyrir þá umhyggju, sem þau veittu honum. Hann var líka einstakt gamalmenni, kvartaði aldrei, reyndi að bjarga sér sjálfur sem best hann gat og stafaði hlýju ogþakklæti til allra, sem réttu honum hjálparhönd. Fyrstu árin eftir að þau afi og amma fluttu til Reykjavíkur, vann afi í Plastverksrniðjunm Múlalundi. Hann gekk að því starfi með sama áhuga og hann hafði áður stundað búskapinn, sífellt að velta fyrir sér með hvaða hætti mætti auðvelda vinnuna, auka afköstin og gera aðrar endurbætur. En þegar heilsuleysi hindraði frekari atvinnuþátttöku, þá sætti þessi fljóthuga atorku- maður sig við hlutskipti sitt af rósemi og stillingu- 14 islendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.