Íslendingaþættir Tímans - 02.03.1983, Blaðsíða 6

Íslendingaþættir Tímans - 02.03.1983, Blaðsíða 6
Guðný Ella Sigurðardóttir Fædd 4. maí 1931 Dáin 29. janúar 1983 Tíminn, fjarlægðin og dauðinn er hljóðlát þrenning en yfirmáta örugg í þeim verkum, sem hún vinnur. Þar er ekkert til ónýtis gert og engu á glæ kastað. Fyrir þeirra tilverknað rakna og losna smám saman gömul vináttubönd, kynni glaðrar æsku fyrnast og fölna í erfiði og amstri fullorðinsára og ung og æskuglöð skólasystir, sem þú eitt sinn þekktir er allt í einu horfin af sjónarsviði scm kona cnn á miðjum aldri. Eitthvað á þessa leið voru hugleiðingar mínar, þegar ég heyrði í útvarpi óvænt tilkynnt lát bekkjarsystur minnar úr Menntaskólanum í Reykjavík, Guðnýjar Ellu Sigurðardóttur. Nú eru rúm 30 ár liðin síðan stúdentaárgangur okkar útskrifaðist frá hinum gamla og virðulega skóla vorið 1951. Um þær mundir og næstu mánuði kynntist ég henni nokkru meira en öðrum bekkjarsystrum mínum. Það var nú svo, að feiminn og uppburðarlítill sveitapiltur eins og ég, sem kom einn síns liðs í hóp, er að miklum meirihluta var höfuðborgarbörn, sem þekktust ýmislega innbyrðis, áður en þau komu í mennta- skóla, var ekkert sérstaklega uppburðarmikill við skólasysturnar. Einhvernveginn atvikaðist það nú svo, að ég varð fyrr og frekar málkunnugur Guðnýju Ellu eða Stellu, eins og hún var nefnd í hóp bekkjarsystkinanna. Auk hins eðlislæga glað- lyndis hennar, hlýleika og hispursleysis í fram- komu og forystuhæfileika réði þar sjálfsagt miklu um kunnugleika minn við bekkjabróður okkar, Örnólf Thorlacíus. Þau Stella opinberuðu trú- lofun sína nokkru eftir stúdentspróf og gengu í hjónaband hálfu öðru ári eftir prófið. Eg naut þeirrar ánægju að vcra viðstaddur brúðkaup þeirra og næstu ár bar mig nokkrum sinnum að garði hjá þeim. Þar er sérstaklega að minnast sumardga 1959, þegar þau hjón dvöldust við nám í Lundi í Svíþjóð en ég átti fáeinna vikna dvöl í Kaup- mannahöfn. Ekki spillti það þá ánægjunni af fyrstu utanlandsferðinni að bregða sér tvisvar yfir Eyrarsund og njóta gestrisni og félagsskapar þeirra hjónanna. Síðan eru liðnir rúmir tveir áratugir. Dvöl mín allan tímann eftir stúdentspróf í fjarlægum lands- hluta hefur á þann hátt, sem getið var í upphafs- orðum, gert feyskin og forn þau bönd kynna og kunningsskapar, sem tengdu mið við bekkjarsyst- kinin. Sama gilti um þau hjón, Stellu og Örnólf, þótt miklu stöur skyldi en með flest önnur úr hópi bekkjarsystkinanna. Árin líða við samstur og brauðstrit, aðeins stöku sinnum eru rifjuð upp gömul kynni. Svo kemur óvænt andlátsfregn og allt í einu er ljóst, að horfin er ein úr hópnum, sem þú eignaðist sameignlegar minningar með á hinum óviðjafnanlegu og ógleymanlcgu árum, sem í huganum geymast sem bestu ár ævinnar. Þau vitja nú aðeins í andblæ minninganna. Stellu er nú aðeins hægt að kveðja með því að setja nokkur orð á blað. Þeim skal nú senn lokið, enda marki ófullkomleikans brennd. Að endingu skal aðstandendum öllum vottuð innileg samúð og þó allra helst gömlum félaga og vini, eftirlifandi eiginmanni. Þökk sé honum ög henni, sem nú er horfin fyrir sólskinsstundir á vordögum ævinnar, þegar haustkyrrðin færist nú hægt en óaflátanlega nær og nær. Guðmundur Gunnarsson. Magnús Ketilsson Fæddur 15. ágúst 1918 Dáinn 15. febrúar 1983 Það var fagur dagur og veðurblíðan með eindæmum er mér bárust þær fregnir að Magnús væri allur. Hann bjóst skjótt til brottfarar, þó svo að ekki væri maður grunlaus um að heilsa hans væri farin að gefa sig. En það mátti aldrei ræða og var Maggi alltaf jafn hress og glaðvær. Magnús var fæddur og uppalinn í Bolungarvík og átti stóran hóp systkina. Hann lifði tímana tvenna og hans líf var vinna og aftur vinna og ekki fyrir sjálfan sig, heldur aðra. Það var líka fagur og minnisstæður dagur er Magnús kom fyrst heim í Gnúpufell. Það var um vor, fyrir tæpum 9 árum. Ég var ein heima og hafði sleppt út kvígukálfi, sem auðvitað voru regin mistök, því kusa varð óð og hljóp um víðan völl. Þá renndi í hlaðiðMagnús Ketilsson og var eitt fyrsta verk hans heima í Gnúpufelli að handsama kálfinn en svo sannarlega ekki það síðasta. Síðan hefur Maggi verið nær samfellt heima og verið foreldrum mínum ómetanlegur, og er nú mikill harmur að þeim kveðin.* Já þau eru æði mörg atvikin sem rifjast upp og verður mér alltaf minnisstætt er ég var á ísafirði sumarið 1978. Það sumar varð Maggi sextugur og var hann staddur í Bolungarvík. Einn daginn stóð 6 hann inni á gólfi hjá mér og spurði hvort ég vildi ekki koma í kaffi út í Bolungarvík. Kaffi, - jú ég hélt nú það. Er ég fór að huga að,heimferð um kvöldið rétti hann að mér lyklana að bílnum sínum og sagði, haná, þú getur farið á honum þangað sem þér sýnist. Þá vissi hann það að mig langaði að skoða mig um á Vestfjörðum og var þá ekki kaffiboðið aðal ástæðan, heldur hitt að geta lánað bílinn. Svona var Maggi, alltaf mættur á staðinn ef hann hélt að hann gæti gert eitthvað fyrir mann. Og oft bæði fyrr og síðar lánaði hann bílinn sinn, sem var raunverulega það eina sem hann átti. Maggi var ekki auðugur af veraldlegum gæðum og kærði sig hreint ekki um þau en hann var aftur á móti vel auðugur af andlegum verð- mætum og hugsaði fyrst og fremst um aðra til síðustu stundar og hans tilfinningar og þarfir skiptu þar engu máli. Það er ómetanlegt að hafa fengið að kynnast slíkum manni. Maggi var einn úr fjölskyldunni og er nú skarð fyrir skildi. Við systkinin söknum hans sárt, en vitum þó að hann er enn hjá okkur þó að við sjáum hann ekki lengur. Um leið og við kveðjum Magga og þökkum honum allar skemmtilegu stundirnar og allt sem hann gerði fyrir okkur viljum við votta hinni öldnu móður hans og systkinum okkar dýpstu samúð. „Far þú í friði, Friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt. “ (V.Briem.) Svanhildur Daníelsdóttir. islendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.