Íslendingaþættir Tímans - 22.06.1983, Blaðsíða 8

Íslendingaþættir Tímans - 22.06.1983, Blaðsíða 8
Kristín Guðmundsdóttir, frá Tungu Fædd 27. nóvember 1894 Dáin 03. maí 1983 Milli þessara dagsetninga eru meira en 88 ár. Það lengi lifði hún Kristín frá Tungu, en fullu nafni hét hún Kristín Jakobína. Tæp sex ár var hún rúmliggjandi sjúklingur í Landakotsspítala. Hún var flutt þangað lömuð og næstum mállaus í ágúst 1977. Hún lést 3. maí s.l., eftir að hafa fengið lungnabólgu. Kristín var fædd í Þverárdal, fremsta bæ á Laxárdal í Austur-Húnavatnssýslu, hinn 27. nóv. 1894. Voru foreldrar hennar Guðmundur Finn- bogason og Sigríður Jónsdóttir, þá vinnuhjú hjá Brynjólfi Bjarnasyni og konu hans. Brynjólfur var kunnur maður á sinni tíð, gleðigjarn og gestrisinn svo að af bar. Mælt er, að hann hafi setið fyrir höfðingum, er leið áttu um þjóðveginn hjá Bólstaðarhlíð og boðið þeim heim að Þverárdal. Að þessu víkur Porsteinn Erlingsson í Ijóði, svo sem mörgum Ijóðvinum mun kunnugt. í Þverárdal varð ekki löng dvöl Kristínar, því að á öðrum degi lífs síns er hún reidd að Mjóadal, bæ nokkru norðar í dalnum. Þar bjó þá amma hennar, Guðríður að nafni, móðir Guðmundar Finnbogasonar föður hennar. Þar er Kristín í nokkur ár. Til Kirkjuskarðs, nokkru utar en í miðjum dal, er Kristínu kontið í fóstur er hún var 10 ára. Hafði þá verið á allmörgum stöðum, auk Mjóadals sem fyrr er getið. Nú loks var Kristín orðin rótföst, ef svo má að orði komast. Hjónin á Kirkjuskarði, Stefán Guðmundsson og Sigríður Björnsdóttir, sáu nú um uppeldi Kristínar þar til hún varorðin gjafvaxta mær. Ásamt Kristínu ólst upp hjá þeim hjónum Ingimundur Bjarnason, er síðar fór til Sauðárkróks og ól þar allan starfsaldur sinn og látinn er fyrir nokkrum árum. Á Kirkju- skarði leið Kristínu vel, þar var hagur húsbænd- anna allgóður, enda er Kirkjuskarð, eða var meðan þar var búið, fyrirtaksjörð. Mikil gullkista. Kirkjuskarð, sagði maður einn um þá jörð. Árið 1918 hleypir Kristín heimadraganum og bregður sér í Kvennaskólann á Blönduósi, sem allar ungar stúlkur er vildu verða myndarhús- freyjur, dreymdi um að gista. Vetur þennan 1918-19, fer Kristín til ungs bóndasonar í Núpsöxl, næsta bæ við Kirkjuskarð, Helga Magnússonar að nafni. Helgi dó haustið 1981 og skrifaði ég þá langa grein um hann, er birtist í íslendingaþáttum Tímans. Og þar sem Kristín var okkur jafnkunn og Helgi, kom mér vitanlega ekki annað til hugar en að minnast hennar á líkan hátt. Saman bjuggu þau Helgi og Stína í Núpsöxl en það nefndum við hana jafnan í 16 ár. Þar fæddust þeim sjö börn. Þau voru fátæk af veraldarauði en þeim mun ríkari af bjartsýni og dugnaði. Börnin efniieg og tóku snemma til hendinni. Höfðu einnig góðar gáfur, og áttu raunar ekki langt að sækja þær. Þegar horft er til baka undrast ég, að hægt skyldi að framfleyta stórri fjölskyldu á jafn rýru koti og Núpsöxl var. Þar var heldur ekki eytt í óþarfa. En þrátt fyrir fátækt, held ég að þetta hafi ekki verið svo snautt líf. Mikið var lesið, unnið í höndum, skipst á heimsóknum á bæina í dalnum o.fl. Oft kom Stína að Sneis, er við bjuggum þar, en það má kalla næsta bæ við Júpsöxl - aðeins Kirkju- skarð á milli. Jafnan var Stína glöð í bragði. Mér er sem ég heyri enn hið létta skraf hennar og hlátur. Stína sagði jafnan meiningu sína. Hún var hrein- skilin kona. Hagmælt var hún og það vel. Margar vísur hennar kann ég. Börn hennar, sum a.m.k. hafa erft þennan hæfileika og auðga þannig líf sitt og samfcrðamanna sinna. Stína og Helgi voru góðir nágrannar. Þau fluttu nokkurn veginn samtímis okkur af Dalnum. Við 1934, en þau ári síðar. Og í næstu sýslu. Farið var norður fjöll með alla búslóðina og börnin, sem voru orðin sjö að tölu, eins og fyrr segir. Helgi hafði keypt jörðina Tungu í Gönguskörðum, fjallajörð og erfiða til búskapar, en landstóra. Þarna fæddist, þeim áttunda barnið, stúlka, Sigurjóna Valdís að nafni, snemma næsta vetur. Helgi vareinstakur fjármað- ur og nú tók hann heldur betur að fjölga fénu. Hann ræktaði og húsaði jörðina myndarlega með aðstoð barna sinna. En sambúð Helga og Stínu entist ekki fram að grafarbarmi. Þau skildu að skiptum árið 1948, eftir að hafa verið í sambúð sem giftar manneskjur í þrjá áratugi. Leið Kristin- ar Iá þá til Reykjavíkur. Vann hún ýmsa vinnu frarn á elliár. Hún var í sambúð með Halldóri Þorsteinssyni verkamanni á þriðja áratug. Hann er allmiklu yngri en Stína. Er frá Grýtubakka við Eyjafjörð. Dóri er besti drengur, einlægur og trygglyndur. Þau bjuggu lengi í húsi er Dóri reisti uppi við Rauðavatn. Þar var ég gestur oftar en einu sinni. Stína lék á als oddi, jafnvel síðast er ég heimsótti hana. Þá sagðist hún vera orðin hrum, á annarri hliðinni, eins og hún orðaði það. Nokkrum vikum síðar var hún flutt á Landakots- spítala, þar sem hún var rúmliggjandi til dánar- dags. Eins og áður var að vikið, ólst Stína ekki upp hjá foreldrum sínum. Föður sinn missti hún ung. Sigríður, móðir hennar, giftist í annað sinn, líkt og ungar konur gera oft, því að ekkjustandið er oft ömurlegt. Seinni maður hcnnar var Pétur Hannesson, hálfbróðir föður míns. Þau bjuggu á Sauðárkróki og eignuðust fimm börn. Eitt þeirra er nú aðeins á lífi, Sigurbjörg, er býr á Droplaug- arstöðum í Reykjavík. dvalarheimili aldraðra. Eitt af börnum þeirra var Valdimar, formaður verkamannafélagsins á Sauðárkróki. Hann lést fyrir 15 árum. Hagmæltur var hann vel, eins og Ijóð eftir hann í Skagfirzkum ljóðum vitna um. Það má því segja, að Stína í Tungu væri á vissan hátt tengd mér. Mér telst svo til, að Kristín sé síðasta húsfreyjan á Laxárdal frá lokum fyrra stríðs, er kveður jarðlífið. Og engin furða, því að sá tími sem liðinn er frá lokum þess hildarleiks, er ærið langur orðinn. Það sem hélt Stínu uppi í erfiðleikum lífsins var áreiðanlega hin létta lund. Og það verður að segjast hér, að ekki var Helgi jafn léttur á bárunni sem hún heima fyrir, þótt hann væri það af bæ. Ég held, að ég geri engum rangt til, þótt þetta komi nú fram. Bæði voru þau hjón vel greind, en áttu ekki alltaf lund saman. Þess vegna hlaut að fara sem fór að lokum. Þess var getið hér að framan, að Stína hefði verið vel hagmælt. Vil ég hér að lokum tilfæra eina - tvær vísur eftir hana. Þegar Kristín hlýddi á undirritaðan kveða úr verkum föður síns í útvarp, kvað hún: Sveinn í haginn honum bjó, hann var œgislyngur. Auðunn Bragi, reifður ró, rammaslagi syngur. Og þegar hún frétti lát Sigurbjörns Stefánssonar frá Gerðum í Óslandshlíð, kunns hagyrðings, er lést löngu um aldur fram, varð Stínu vísa á munni: Fýsir eflaust fleiri en mig fara á braut án tafar. Hlakka til að hitta þig hinum megin grafar. Og sú er ósk mín að síðustu, að hún hafi nú fundið vini sína og ættingja hinum megin grafar, er fluttir eru á það tilverusvið. Frá mínu heimili berast samúðarkveðjur öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Blessuð sé minnig Stínu frá Tungu. Auðunn Bragi Sveinsson. Þeir sem ad skrifa minningar- eða afmælis- greinar í Islendinga þætti, eru vinsamlegast beðnir um að skila vélrituðum handritum 8 íslendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.