Íslendingaþættir Tímans - 06.07.1983, Blaðsíða 8

Íslendingaþættir Tímans - 06.07.1983, Blaðsíða 8
Þorlákur Sveinsson bóndi, Sandhól Fæddur 2. okt. 1899 Dáinn 13. júní 1983 Þá erenn einn hinna mætu manna aldamótakyn- slóðarinnar fallinn í valinn. Þorlákur Sveinsson, bóndi, Sandhól, er ekki lengur meðal okkar. Þeim fækkar nú óðum þessum ósérhlífnu körlum og konum, sem börðust áfram í kyrrþey af ótrúlegri þrautseigju við frumstæð skilyrði á fyrri helmingi þessarar aldar, þeir sem lögðu grundvöllinn að þeirri velmegun og sjálfstæði, sem við búum við í dag, kynslóðin sem hafði það kjörorð að leiðar- ljósi að gefast aldrei upp, vera sér og sínum nóg og vera ekki upp á aðra komin. Þorlákur Sveinsson bóndi á Sandhól var einn þessara manna. Hann var af traustum skaftfellsk- um ættum kominn, eins og eftirlifandi kona hans, Ragnheiður Runólfsdóttir, oft kennd við Hólm í Landbroti. Þorlákur var einn bræðra í stórum systkinahópi. Ég sem þetta skrifa er ekki ættfróður maður og mun því ekki reyna að fara út í þá hluti. Og reyndar er mér hans lífssaga ekki það vel kunn, að ég vilji þar um fjalla. Heldur er það maðurinn sjálfur, sem mér er svo ljúft að minnast. En oft hefi ég þó til þess hugsað, að það hljóti að hafa verið glæsilegt brúðarpar sem gekk upp að altari 17. júlí 1927 til að vera gefið saman: Hann hár og spengilegt glæsimenni, bjartur yfirlitum og sviphreinn, hún öll fíngerðari, dökkhærð og lagleg, og úr augum hennar og svip hefur þá áreiðanlega geislað sú ástúð og hlýja sem ávallt hefur einkennt svip hennar, einnig nú í ellinni. Þegar ég kynntist þeim hjónum voru þau enn á besta aldri, sem kallað er, en þó búin að ganga í gegnum ýmsa reynslu lífsins, sjálfsagt margt ánægjulegt en einnig þungbært. Þá voru börnin fjögur, það elsta á áttunda ári, það yngsta á fyrsta ári, en á eftir tveim börnum höfðu þau orðið að sjá. Það mun hafa verið þeim mikil raun. Ég er í litlum vafa um, að bæði hafa þau sótt styrk í trú á forsjón Guðs. Þau flíkuðu ekki trú sinni en lifðu með henni, sem svo sjálfsögðum hlut, að þar þurfti ekki orðum um að fara, en verk og athafnir töluðu sínu máli. En allt var svo eðlilegt og óþvingað í þessum efnum og átti áreiðanlega sinn þátt í að skapa fagurt mannlíf á Sandhól þrátt fyrir harða lífsbaráttu. Þorlákur var góður húsbóndi og er mér kunnugt um, að kaupafólki því, sem var þar þau sumur sem ég var á Sandhól, þótti mjög gott að vinna með honum. Það var oft unnið mikið og lengi, t.d. þegar verið var að bjarga heyjum. En á hinn bóginn fékk fólk að hvílast vel þegar illa viðraði. Það vann því fúst og óbeðið lengi þegar á þurfti að halda. Já, það var oft unnið mikið og ósérhlífni húsbændanna með eindæmum að ég hygg. En þrátt fyrir harða lífsbaráttu leyfi ég mér að álykta að þau hjón hafi verið hamingjusöm, m.a. vegna þeirrar lífsfyllingar sem það veitir að sjá árangur erfiðisins og börnin vaxa og verða að nýtum og góðum mönnum. Þau hjón voru með afbrigðum samhent, svo samhent að mér er ógerningur að skrifa um annað þeirra án þess að hins sé getið. Það fór jafnvel ekki framhjá barnsauganu sú eðlislæga virðing og tillitssemi, sem þau auðsýndu hvort öðru. Að loknum löngum vinnudegi, þegar börnin voru sofnuð og ró komin í bæinn, tylltu þau sér stundum á eldhúsbekkinn áður en gengið var til náða og ræddu hljððlátlega um verk dagsins eða þess næsta eða eitthvað annað. En það er ekki það sem rætt var, sem ég minnist, heldur þeirrar tilfinningar friðsemdar og öryggis sem streymdu til mín á þessum stuttu kvöld-„fundum“. Það er hægt að sýna umhyggju á ýmsan hátt í amstri dagsins. Ég minnist þess t.d. að það kom ósjaldan fyrir, þegar Þorlákur var að bardúsa eitthvað útivið og ég að aðstoða hann, að skyndilega biður hann mig að skreppa heim í bæ og vita hvort ég geti ekki létt eitthvað undir með henni Heiðu. Umhyggja hans fyrir henni mun ávallt hafa verið ofarlega í huga hans og ef mér skjátlast ekki, allt til hins síðasta. Sumrin mín urðu 4 á Sandhól. Þetta var mitt heimili í þess orðs bestu merkingu, á meðan ég dvaldi þar. Ég var einn af þeim og meðhöndlaður sem slíkur, en ekki sem einhver utanaðkomandi. Það stafaði hlýhug og góðvilja frá þeim hjónum, sem barnssálin hefur meðtekið og ég met mikils nú, þótt ég hafi ekki gert mér Ijósa grein fyrir því þar og þá. Og einhvernvegin var það svo, að ég lagði mig fram við að gera mitt besta, þótt ekki væri verið að reka á eftir manni. Sjálfsagt hefi ég oft á þessum árum gert ýmislegt, svo sem strákum er lagið, sem húsbændum var ekki að skapi, en snuprum var lítið beitt, a.m.k. minnist ég þess ekki. Þó er mér ofarlega í huga eitt atvik. Gestir sátu í eldhúsinu yfir kaffibollum og ræddu við húsbændur. Við krakkarnir vorum eitthvað að ærslast og hlupum út og inn, án þess að loka bæjardyrum. Skyndilega segir Þorlákur all snöggt: „Væni minn viltu ekki taka hurðina af hjörum?“ Mig rak í rogastans því aldrei hafði húsbóndinn beðið mig að gera verk, sem ég ekki réð við. En Þetta treysti ég mér ekki til að gera og stundi því upp. Þá heyrðist innan frá eldavél eitt orð frá Heiðu með undrun og ávítu í áherslu: „Þorlákur". Og meira þurfti ekki til. Þá skildi ég hvað við var átt og skammaðist mín niður í tær, og Þorlákur varð miður sín og gerði grín og gott úr öllu saman. Þegar ég hugsa um þetta litla atvik seinna, þá er það einkum tvennt, sem mér finnst lýsa þeim hjónum betur en mörg orð. í fyrsta la'gi var ég svo óviðbúinn snupru úr þeirri átt, að ég skildi hana ekki, þegar hún var sögð, og svo hitt, hvað þeim þótti leitt að hafa sært mig, þótt svo sannanlega hafi ég til þess unnið. Já, það er margs að minnast frá þessum sumrum mínum á Sandhól, ánægjulegar minningar einkum í starfi með þessu góða og hjartahlýja fólki. Það var ekki bara þreyta, heldur sælutilfinning sem gagntók mann að kvöldi, eftir að hafa komið góðum heyfeng í hlöðu eftir langan og strangan vinnudag. Þannig fann ég til og ætli tilfinning bóndans hafi ekki verið svipuð? Þótt bóndinn ætti að vísu allt sitt undir því, hvernig tiltókst með heyskapinn þá er ég sannfærður um, að afkoman var ekki það eina sem var í huga Þorláks, heldur einnig umhyggjan fyrir skepnunum, því honum þótti greinilega vænt um dýrin, sem slík og sem bónda, kannske of vænt um þau. Ég gæti nefnt þessa mörg dæmi, en það verður ekki gert hérog nú. En það fór ekki fram hjá mér, að í þau fáu skipti, sem ég var vitni að því, að lóga þurfti dýri heima við, að það var honum óljúft verk að vinna. Þegar ég kom fyrst að Sandhól, var þar ekki annað húsa en gamla þinghúsið sem innréttað hafði vcrið til íbúðar og skúrbygging austan við það, sem var þá fjósið. Hóllinn sjálfur var svo til einn melur, nema smá flöt, sem ræktuð hafði verið í hallanum framan við bæjardyrnar. En túnin í Bakkárholtsparti sem nú tilheyrðu Sandhól, voru ekki stór. Það þurfti að hafa fleiri spjót úti til að framfleyta fjölskyldunni. Þannig var Þorlákur símstöðvarstjóri um langt árabil. Það starf var rækt af hendi af mikilli samviskusemi. Það brást aldrei, hvernig sem á stóð, að ekki væri verið við símann á símatíma. Þá fékkst hann einnig við refarækt, en hún lagðist af hjá honum sem fleirum á stríðsárunum. Það var þannig í mörg horn að líta, þótt maður skyldi halda, að starf bóndans hafi verið ærið á meðan allt var slegið með orfi og Ijá. Á ótrúlega skömmum tíma var búið að gera allan hólinn að frjósömu túni og byggja myndar- lega hlöðu og gripahús austan við bæinn. Sandhóll var orðinn að hinu reisulegasta býli. En mörg hafa verið handtökin og ótaldar vinnustundirnar þang- að til að þessum áfanga var náð. Þrældómurinn og ósérhlífnin var mikil, enda margir af þessari kynslóð útslitnir menn um aldur fram, og fór Þorlákur ekki varhluta af því, þótt vinnu við búið sinnti hann svo, til svo lengi sem stætt var. En 8 íslendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.