Íslendingaþættir Tímans - 14.09.1983, Blaðsíða 8

Íslendingaþættir Tímans - 14.09.1983, Blaðsíða 8
Valgeir G. Vilhjálmsson kennari sextugur ¦ Þann 13. september s.l. varð Valgeir G. Vilhjálmsson kennari, Djúpavogi sextugur. Ég get ekki látið hjá líða að senda þessum ágæta vini mínum og starfsfélaga um fjölda ára bestu afmælis- kveðjur. Valgeir hefur ákveðið að láta af störfum sem kennari við Grunnskóla Djúpavogs á þessu hausti eftir 37 ára starf í þessu byggðarlagi og flytjast til Kópavogs í nágrenni við flest sitt skyldfólk og tengdafólk. Já, það eru orðin 37 ár sem Valgeir hefur gegnt störfum í þessu byggðar- lagi, alltaf með sömu trúmennskunni hvort hann var settur yfir mikið eða lítið. Mörg eru þau félagslegu störfin sem hann hefur unnið í þágu þessa byggðarlags, oft án þess að nokkur fjárhags- leg umbun kæmi í staðinn. Ég var ungur maður þegar Valgeir kom hér fyrst sem 23 ára gamall kennari og ég man vel eftir honum á þeim árum. Hann kom mér þannig fyrir sjónir að maðurinn væri þéttur á velli og þéttur í lund. í öllu bar hann með sér fas íþróttamannsins, enda lét hann sig ekki muna um að ganga á höndunum eftir endilöngum skólaganginum þegar ég kom til starfa við skólann 9 árum síðar. Ég kynntist Valgeiri ekki mikið á þessum fyrstu árum hans á Djúpavogi. Leið mín lá brátt að heiman og ég get ekki sagt að ég kæmi hér heim í ein sjö ár, nema tijl að vinna eitthvað yfir hásumarið. Ég man þó að við tefldum eina skák í tjaldi fyrir sunnan Hamarsfjörð sumarið 1949 eða 50, en ég var þá var í vegavinnu og Valgeir gestkomandi hjá okkur tjaldbúum. Ég tel víst að Valgeir hafi unnið skákina. Hann var oftast öðrum snjallari þegar um einhverja tölfræði var aðræða. Svovarþaðað við Valgeir byrjuðum að vinna saman hér í skólanum haustið 1955. Hann sem þaulreyndur kennari og félagsmálamaður en ég sem hálfgerður nýgræðingur. Það er skemmst frá því að segja að samvinnan við Valgeir var hin ágætasta alla tíð, enda ekki hægt að fá betri mann að vinna með. Svo mikið er víst að ekki hefur hann hlíft sjálfum sér. Var hann alltaf reiðubúinn að taka sjálfur upp stærsta og þyngsta baggann og leggja á eigin herðar. Vil ég á þessum tímamótum í ævi hans þakka honum áratuga ágætt samstarf, margvísleg- an vináttuvott og mörg góð ráð er hann veitti ungum, fávísum kennara. þeir eru orðnir æði margir sem Valgeir hefur rétt hjálparhönd við ýmis tækifæri, og hræddur er ég um að byggðarlag- inu bregði við að missa hann. Slíkan sess hefur hann skipað í litlu samfélagi. Ég ætla þó ekki að rökræða meira um það, árin líða og rás tímans verður ekki aftur snúið. Ævisögu Valgeirs ætla ég ekki að rekja í smáatriðum, enda er mér hún ekki svo nákunnug til þess tíma er hann flytur til Djúpavogs. Veit ég þó að hann er fæddur á Nesi í Norðfirði, sonur hjónanna Vilhjálms Stefánsson- ar útvegsbónda og konu hans Kristínar Árnadótt- ur. Börnin voru mörg og snemma varð Valgeir að fara að heiman og vinna fyrir sér. Dvaldist hann í sveit á Stóra-Sandfelli í Skriðdal og einnig í 8 Helgustaðahreppi þar sem hann byrjaði barna- kennslu 18 ára gamall áður en hann fór í Kennaraskólann. Mun hann hafa lent hjá góðu fólki og minnist oft þessara staða beggja með hlýhug.'Átti hann oft leið þar um síðar. sérstak- lega í Stóra-Sandfelli. enda er staðurinn í alfara- leið. Á Valgeir hlóðust snemma mörg trúnaðar- störf og varð vinum hans og kunningjum oft að umræðuefni hve mörg þau væru. Komust menn ekki alltaf aðsömu niðurstöðu. Má nefna áð hann var um skeið bæði oddviti og hreppstjóri í Búlandshreppi. Auk þess í ýmsum nefndum.og stjórnum margra félaga. Sýslunefndarmaður og cndurskoðandi Kaupfélags Berufjarðar árum saman, formaður slysavarnafélagsins og svo mætti lengi telja. Tæpast hlífði hann heilsu sinni sem skyldi þegar um það var að ræða að gera fólki í sínu byggðarlagi greiða. Jafnvel matartímarnir fóru í að vinna þörf verk í þágu nágrannans. Hann hefur ekki að öllu leyti gengið heill til skógar síðustu árin, en það er fjarri Valgeiri að kvarta. Gengið hefur hann hress og kátur um víkur. fjöll og eyjar, þegar færi hefur gefist. enda ávallt lifað eftir forskriftinni eigi skal haltur ganga á meðan báðir fætur eru jafn langir. Hann hefur tekið ástfóstri við náttúru þess byggðarlags sem hann ungur maður tók sér bólfestu í. Valgeir hefur glöggt auga fyrir sérkenn- um fjalla, kletta og kamba þar sem fólk í fortíð og nútíð hefur séð dularfullar verur og furðuljós. Það er gaman að setjast inn í bíl hjá Valgeiri á góðum degi og aka með honum um sveitir. Hann kann öðrum betur skil á örnefnum og íbúum byggðarlaga Austurlands og jafnvel þótt víðar sé farið. Sitt aðalstarf, kennsluna, hefur Valgeir rækt af sérlegri samviskusemi og má ekki vamm sitt vita í því efni. Hann er frábærlega natinn og glöggur íslenskukennari og ég held að flestum foreldrum beri saman um að áhugasamari og betri lestrar- kennara sé vart hægt að fá. Valgeir giftist árið 1974 Önnu Magnúsdóttur úr Hafnarfirði. Hafa þau búið á Djúpavogi síðan en ákváðu að flytjast suður í Kópavog á þessu hausti enda átt við nokkra vanheilsu að stríða. Veit ég að ég mæli fyrir munn allra sveitunga Valgeirs um fjölda ára er ég óska honum allra heilla á þessum tímamótum ævi hans og þakka þeim hjónum báðum og óska þeim velfarnaðar á nýjum slóðum. Ingimar Sveinsson íslendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.