Íslendingaþættir Tímans - 28.09.1983, Blaðsíða 3

Íslendingaþættir Tímans - 28.09.1983, Blaðsíða 3
Jónas Tryggvason, Blönduósi Fæddur 9. febrúar 1916 Dáinn 17. ágúsl 1983 Þann 27. ágúst var gerð útför Jónasar Tryggva- sonar frá Blönduóskirkju, en hann andaðist 17. ágúst 1983. Við jarðarförina var mikið fjölmenni, enda var Jónas einstaklega vinmargur og vel metinn í héraði. Hann var einn helsti hvatamaður og driffjöður í tónlistarlífi héraðsins og sjálfur listrænn lagasmiður og ljóðskáld. Þrátt fyrir blindu frá ungum aldri var hann ötull þátttakandi í atvinnulífi og félagsmálum héraðsins. 1 öllu var hann mikill sæmdar- og drengskaparmaður. Við jarðarförina söng Karlakór Bólstaðarhlíð- arhrepps undir stjórn Jóns Tryggvasonar, bróður Jónasar. Sr. Árni Sigurðsson sóknarprestur jarð- söng og minntist Jónasar í ágætri ræðu. Sr. Birgir Snæbjörnsson þakkaði Jónasi drengilegan stuðn- ing í fyrstu prestsskapar árum sr. Birgis í héraðinu. Af fiðlustrengjum var að lokum flutt gullfallegt lag Jónasar, Eg skal vaka. Jónas Tryggvason var fæddur í Finnstungu 9. febrúar 1916, sonur Guðrúnar Jónsdóttur og Tryggva Jónassonar bónda, og var elstur fjögurra systkina. Jónas var barn að aldri þegar stofnaður var karlakór í Bólstaðarhlíðarhreppi, en Tryggvi faðir hans var einn helsti liðsmaður kórsins. Sr. Gunnar Árnason segir svo frá að Tryggvi hafi viljað öllu til kosta að göfga og þroska sjálfan sig og síðan heildina. En móðir Jónasar var tónelsk og kenndi honum í fyrstu að leika á orgel. 1 þessu umhvcrfi ólst Jónas upp, þessi hægláti, gáfaði og gtaði maður. Sr. Gunnar Árnason segir, að það hafi ýmsum þótt með ólíkindum, þegar Jónas tók að sér stjórn karlakórsins, blindur að kalla. En svo vel hafi honum farist það úr hendi að víðkunnugt hafi orðið. Árið 1947 eignaðist Jónas ásamt Jóni bróður sínum Ártún, næstu jörð við Finnstungu og bjó þar til 1959. Þá fluttist hann til Blönduóss, reisti sér þar hús og rak þar blindraiðn og verslun. Árið 1962 giftist hann Þorbjörgu Bergþórsdóttur kennara. Það var þeim báðum mikil gæfa: Um það bera meðal annars vitni undurfögur og viturleg erfiljóð, sem Jónas orti um hana, þegar hún lést langt fyrir aldur fram fyrir tveimur árum. Eitt erindi Ijóðsins var þetta: Milt í rökkurrúmi ríkir albjört vissa: dýra auðlegð átti einnig til að missa. Því mun endast þrekið þreyttum göngumanni, því mun loga og Ijóma Ijós í mínum ranni. Um þetta leyti hafði Jónas átt í miklum veikindum, sem hafa nú dregið hann til dauða. En íslendingaþættir í þessum raunum sýndi hann ef til vill betur en nokkru sinni andlegan styrk sinn. Jafnvel þegar þjáningarnar voru að verða óbærilegar lumaði hann á gamanyrðum og skemmti þeim, sem voru í vanda að finna umræðuefni, eins og stundum vill verða við sjúkrabeð. Árið 1959 kom út Ijóðabók eftir JónasTryggva- son, Harpan mín í hylnum. Ljóðræn gáfa hans leynir sér þar ekki, og ýmis kvæði eru þar sem hvert þjóðskáld hefði verið vel sæmt af. Állt fórst honum vel sem hann fékkst við um dagana, og með lífi sínu og lífsviðhorfi gaf hann öðrum frábært fordæmi. Páll Bergþórsson. Kveðja frá félögum í Lionsklúbbi Blönduóss. „Harpan mín í hylnurn" svo nefndi Jónas Tryggvason Ijóðabók sína, er út kom árið 1959. Við félagar hans í Lionsklúbbi Blönduóss vissum e.t.'v. öðrum fremur, á hve einstæðan hátt hann lék á hörpu ljóðs og tóna og færði þannig félagsstarfinu menningarauka og athafnargleði. I meira en áratug þjálfaði hann og stjórnaði sönghópi sex Lionsmanna, og voru æfingar ætíð á heimili hans. Megin uppistaðan í þessum söng voru ljóð og lög Jónasar sjálfs. Ljóðin skrifuð en lögin leikin af fingrum fram í hans eigin útsetningu, og þannig lærð. Til þess er gott að vita nú, að töluvert af þessum lögum er til í upptöku og glatast því ekki, þó harpa Jónasar sé nú hljóðnuð. Samræður söng- félaganna á heimili hans og konu hans Þorbjargar Bergþórsdóttur, meðan hennar naut við, verða minnisstæðar. Þær mótuðust mjög af ákveðnum en fordómalausum viðhorfum hans, af fjölhæfni hans, mannviti og mannkostum. Alls þessa nutu söngfélagarnir í ríkum mæli, en allir Klúbbfélag- arnir nutu jafnt góðra ráða Jónasar, bæri að höndum vanda er leysa þurfti. Þegar á það er litið að hann var sjónskertur frá æskudögum, og með öllu blindur um langt tímabil ævinnar, vekur undrun hlutgengni hans í sam- félaginu. Mjög var hann kvaddur til félagslegra starfa, en gegndi því kalli minna en óskað var. Um hann var sagt „sér með innri augum sínum, öðrum betur, færa leið.“ Einn var þó sá þáttur, er hann rækti ætíð af alhug, og var sá rakinn frá tónlistinni. Allt frá æskudögum vann Jónas að þeim málum af áhuga og skilningi hins sanna tón- og Ijóðlistamanns. Hann samdi ljóð og lög, var undirleikari, þjálfari og stjórnandi stærri og smærri sönghópa. Hann var einn af stofnendum Tónlistarfélags Austur-Húnavatnssýslu, alltaf í stjórn þess og lengst af formaður. Svo virðist, sem þættir hinna göfugu lista, Ijóðs og tóna hafi „legið hjarta hans næst“, þó fleira væri honum listrænt léð. Við leiðarlok, hljótum við Lionsfélagarnir mjög að sakna þess, að Jónas Tryggvason kveður sér ekki oftar hljóðs í okkar hópi og svo mun vera um alla þá er þekktu hann. Hitt ber svo á að líta, að gott er að hann hefir fengið lausn frá erfiðum sjúkdómi, sem hlaut að hafa þennan eina endi. Við lát ungs vinar kvað Jónas m.a. þetta: „Harma skal ei horfna hörpu þína, vinur söhgs og vors. Muna skal á meðan minning vakir hljóminn þann inn hreina. “ Bjartsýnn söknuður þessa erindis er sönn túlkun á tilfinningum okkar félaganna nú. við þessi þáttaskil. Við eigum þess enn kost að hlýða á „hljóminn þann inn hreina" í lögum og ljóðum Jónasar. Þess er enn kostur, að láta víllaust fordæmi hans létta okkur glímuna við erfiðleikana, og það verður gott að ylja sér við minninguna um góðan dreng, vin, sem ætíð var veitandi af gnægð mannvits síns og mannkosta. Slíkur var Jónas. 3

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.