Íslendingaþættir Tímans - 05.10.1983, Blaðsíða 3

Íslendingaþættir Tímans - 05.10.1983, Blaðsíða 3
lands og þjóðar. íslenska þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við Gunnar Thoroddsen. Frá okkar kynnum á ég sjálfur margs að minnast. Eiginkonu Gunnars Thoroddsens, Völu Ás- geirsdóttur og fjölskyldu sendi ég einlæga samúð- arkveðju. Steingrímur Hermannsson t Fyrir tæpum þremur árum ritaði undirritaður nokkur kveðjuorð til Gunnars Thoroddsen f.v. forsætisráðherra í tilefni 70 ára afmælis hans. Þann dag var afmælisbarnið að vanda hinn hressasti, lék á alls oddi og svaraði að bragði árnaðaróskum, sem til hans var beint í tilefni tímamótanna. Engum viðstöddum kom þá til hugar að skilin milli lífs og dauða væru þá svo skammt undan, sem raun er nú á orðin. f umræddum afmælisorðum rakti ég að nokkru samskipti mín við Gunnar Thoroddsen í okkar breytilegu trúnaðarstörfum, sem okkur höfðu verið falin, og á hvern hátt þau vandamál voru Ieyst, þótt staða okkar hafi oftast verið „sitt hvoru megin borðsins." Þessar minningar iiðinna ára verða ekki raktar að nýju nú. Á þessari stundu er mér efst í huga hin mannlega hlið Gunnars, umburðarlyndi og æðru- leysi hans, samfara prúðmannlegri framkomu í hvívetna. Ég minnist gjarnan efnislega þess tilsvars hans, í eyru mér, á hita- og hávaðafundi, er við vorum ‘saman, sem að var að efni til svona „aldrei hefi ég þokað neinu máli áleiðis með hávaða og stóryrð- um. Hafi mér orðið þetta á í hita stundarinnar á yngri árum, hefur mér sjálfum fundist það helst geta átt sér stað, ef málefnið, sem til umræðu var, var ekki nægilega traustvekjandi, hvort heldur það var til sóknar eða varnar, m.ö.o. ekki nógu góður málstaður.“ Þessi skoðun Gunnars kom berlega í ljós í framkomu hans allri, hvort heldur var um einka- samtöl að ræða, eða að viðstöddu fjölmenni í ræðustól. Persónulega heyrði ég hann aldrei fella þunga dóma á annarra garð, að viðkomandi fjarstöddum. Á ritvelli og í deilum gat hann, með sínu mikla valdi á íslenskri tungu, verið harðorður og að sumum fannst óvæginn. Én þar var jafnræði. Andstæðingurinn hafði jafnan rétt til andsvara. Sem prófessor eða kennari í lögum við Háskól- ann, hlaut hann að afla sér mikillar þekkingar í þeim efnum, enda talinn manna fróðastur um þau efni innanlands og utan og sem einlægur lýðræðis- sinni var hann aldrei í vafa um, að með réttlátum lögum og reglugerðum, sem á þeim voru byggðar, yrði lýðræði og meirihlutavilji þjóðarinnar best tryggður. Mannkostir Gunnars voru þó, að mínu mati, ekki stærstir í fræðigrein hans, heldur mun fremur í hinum mannlegu þáttum lífsins. Lög og reglur eru grundvallarnauðsyn heils þjóðfélags, sem virðingar vill njóta, en lög og reglur ná ekki, þrátt fyrir allt, yfir alla mannlega þætti hins daglega lífs hvers einstaklings. Þetta á ekki síst við daglegt líf hjá frjálsbornum lýðræðisþjóðum. Sem óslitinn þráður gengur glöggur skilningur hans á þessu mikilvæga atriði í gegnum allan málaflutning Gunnars Thoroddsen, hvort heldur var í ræðum hans eða ritum. íslendingaþættir Það var tvímælalaust þetta frjálslyndi hans, sem auðveldaði honum aðgang að fólki úr ólíkum starfsgreinum og skilning hans á ólíkum og misjöfnum kjörum fólks. í hafróti stjórnmálanna er ekki ailtaf „einber dans á rósurn" þótt margir líti svo á, og þykjast geta staðfest þá skoðun sína, með skírskotun til þess, að ávallt sé fyrir hendi gnægð frambjóðenda í trúnaðarstörf þar. Svo einfaidar eru skýringar á frambjóðendafjölda einum saman, alls ófullnægj- andi og í fleiri tilfellum alrangar. Ekki skal þó nú við fráfall Gunnars Thoroddsen þessi þáttur ræddur frekar, en ekki verður þó komist hjá því að minna á, að löngun frambjóðandans eins dugar skammt, ef fylgissveitina skortir. Það er heldur ekki alltaf logn á tindum stjórnmálanna, fremur en öðru hálendi. Sem virkur þátttakandi í stjórnmálum og lengst af í forystusveit, hlaut því að gusta um Gunnar Thoroddsen, svo sem aðra, er forysta er falin, og ekki fór hann heldur varhiuta af þeim næðingi og oft ærið köldum. Á þessum vegamótum minnist ég góðs vinar, sem alltaf var gott að leita til úm málefni utan og ofan við allt dægurmálaþras og skammtíma þrætur. Það munu fleiri en ég sjá stórt og vandfyllt skarð í varnarmúrum mannúðar og réttsýni við fráfali Gunnars Thoroddsen. Fyrir þessi kynni eru nú færðar alúðar þakkir. Ég votta frú Völu og afkomendum þeirra dýpstu samúð og bið þeim styrktar æðri máttar- valda á erfiðri raunastund. Eggert G. Þorsteinsson. t Hverra mannkosta leitum við í fari þeirra manna, sem örlagadísirnar kjósa að leiða í fremstu víglínu stjórnmálanna? Um það höfum við aðeins óljóst hugboð. Samt vitum við að slfkur maður þarf að búa yfir víðtækri þekkingu, án þess þó að vera aðeins fræðimaður eða fangi tillærðra kennisetninga á þröngu sér- sviði. Hann þarf að sameina rökvísi málflytjandans og galdur rithöfundarins, án þess þó að týnast í aukaatriðum eða láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur. Hann þarf að vera gæddur atorku, stjórnsemi og mannþekkingu afhafnamannsins, án þess þó að falla í þá freistni að láta eigin hag sitja í fyrirrúmi. Fyrst og síðast þarf hann trúlega að þekkja sitt fólk, án þess þó að Ioka augunum fyrir göllum þess og veikleikum. Honum er lífsnauðsyn að skilja hugsunarhátt þjóðar sinnar, vonir og drauma. Og hann þarf að kunna þá vandlærðu iist að laða saman ólíka einstaklinga til sameiginlegra átaka, framkalla fórnfýsi þeirra og hrífa þá með út í baráttuna. Og samt er allt þetta til lítils ef þessir ólíku eðliskostir falla ekki saman í einn farveg, heldur brjótast sitt í hverja áttina, glutrast niður og týnast á víð og dreif. Það sem þarf til að stilla saman svo ólíka strengi er listamannseðli. Það er innsæi listamannsins sem eitt getur raðað saman brotabrotum mannlífsins í eina heild; það er þetta sjötta skilningarvit listamannsins sem eitt getur lyft huganum yfir hið hversdagslega og skynjað heildardrættina í sam- hengi sögu og samtíðar. Það var þetta listamannseðli sem gerði Gunnar Thoroddsen að eftirminnilegum stjórnmáia- manni. Hann hafði á langri ævi aflað sér yfirgripsmikill- ar þekkingar og lífsreynslu. Hann var vel heima í sögu þjóðar sinnar, lögum hennar, stjórnarfari, bókmenntum oglistsköpun. Hannvarekkieinasta snjall málflytjandi heldur hafði listatök á íslenzkri tungu. Gunnar bar mikla persónu: Háttvís, höfðing- legur og aðlaðandi í framgöngu þegar hann vildi það við hafa. Á bak við viðhafnarlegt yfirbragð leyndist meiri mctnaður og harðfylgi en lá í augum uppi við fyrstu sýn. Þrek hans og úthald á endasprettinum kom ýmsum á óvart. Án þess hefði hann ekki sjötugur getað gegnt starfi, sem reynir til hins ítrasta á alla krafta yngri manna á blómaskeiði manndómsára. Dómur sögurnnar um stjórnmálaferi! Gunnars Thoroddsens bíður síns tíma. Samtímanum sýnist að hann hafi ekki fyrst og fremst verið höfundur þeirrar sögu sjálfur. En það fór ekki framhjá neinum að hann var hinn óviðjafnanlegi leikstjóri á leiksviði stjórnmálanna: valdi í hlutverk og setti á svið með handbragði meistarans. Hann var prímadonna okkar pólitíska leikhúss, af klassísk- um skóla. Aðrir minnast hans sem stórmeistara hinnar pólitísku refskákar, sem leikfléttusnillings og meistara í endatafli. Pólitískir skákáhugamenn framtíðarinnar eiga lengi eftir að liggja yfir og dást að beztu skákum hans. Þar er af mörgu að taka, því að pólitískur æviferill Gunnars spannar ótrúlega langt og við- burðaríkt æviskeið. Hann hóf feril sinn sem yngsti þingmaður þjóðarinnar og lauk honum sem aldursforseti íslenzkra stjórnmála. Og hann sótti á til hinztu stundar, unni sér ekki hvíldar. Kynni mín af Gunnari Thoroddsen voru stutt. Þau voru samt nógu löng til þess að ég lærði að meta manninn að verðleikum og njóta samvista við hann. Samstarfsvettvangur okkar var fyrst og fremst stjórnarskrárnefnd. í því samstarfi auðnað- ist Gunnari að ljúka við og teggja fram á Alþingi frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Það var honum mikið metnaðarmál - og um leið mikil vonbrigði, að atvikin höguðu því svo að stjórnarskrármálið varð ekki til lykta leitt, áður en hann yfirgaf sviðið. Gunnar Thoroddsen var í essinu sínu þar sem hann sat við borðsenda í gamla stjórnarráðshúsinu á fundum stjórnarskrárnefndar, þar naut hann ríkulega lagaþekkingar sinnar og langrar pólitískr- ar reynslu. Á þessum fundum hreifst ég af frásagnarlist hans og fáguðu skopskyni. Gunnar var ekki einasta langminnugur á lög og dóma heldur líka á það tvíræða og kímiiega við alvöru lífsins. Eins duldist mér ekki yfirveguð mannþekk- ing hans og verkstjórnarhyggindi, þótt hægt miðaði á köflum. Það er undarleg þversögn í lífi stjórnmála- mannsins, að nái hann ekki hylli fjöldans fær hann litlu áorkað; en sé hann ekki einfari í innsta eðli, sem sækir sér andlegan styrk í einveru og íhygli, hefur hann litlu að miðla öðrum. Þessa þversögn yfirvann Gunnar Thoroddsen í pólitísku starfi sínu. Þeir sem þekktu hann fundu brátt að hann var maður dulur að eðlisfari, átti sinn einkaheim, sem flestum öðrum var lokaður. Það var heimur listamannsins, fagurkerans og fræðimannsins. Og þótt allur almenningur hafi lítt kynnzt þessum þætti í fari Gunnars, skynjaði hann einmitt þess vegna eitthvað við hann sem hreif og heillaði og var honum ráðgáta í senn. 3

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.