Íslendingaþættir Tímans - 16.11.1983, Blaðsíða 4

Íslendingaþættir Tímans - 16.11.1983, Blaðsíða 4
Lárus G. Sigurðsson, bóndi á Tindum, A-Húnavatnssýslu Fæddur 21. apríl 1906 Dáinn 14. október 1983 Föstudaginn 14. októbers.l. lést ásjúkrahúsinu á Blönduósi, Lárus Sigurðsson bóndi á Tindum. Útför hans fór fram frá Blönduóskirkju, laugar- daginn 22. október, að viðstöddu fjölmenni. Nokkur síðustu árin átti Lárus við vanheilsu að stríða, en var þó á fótum fram til þess síðasta, kannski oft þjáður, þó hann léti ekki á því bera. Læknar Landsspítalans hafa undanfarin ár fylgst með heilsu Lárusar og síðastliðið vor, er hann var hjá þeim í rannsókn, töldu þeir allt vera á réttri leið, og vakti það vonir um að hann ætti mörg ár eftir enn meðal fjölskyldu og vina. En í haust veiktist hann snögglega og var rúmliggjandi skamman tíma þar til yfir lauk. Lárus var fæddur í Vöglum í Vatnsdal 21. apríl 1906, sonur Sigurðar Jónssonar og Þorbjargar Jósafatsdóttur. Faðir Sigurðar var Jón Bjarnason, bóndi á Kúfustöðum í Svartárdal, Jónssonar frá Steiná, en hann var Eyfirðingur. Frá Jóni á Steiná er Steinárátt talin, en það er fjölmenn ætt um Húnaþing og Eyjafjörð. Þorbjörg, móðir Lárusar var fædd á Litlu-Ás- geirsá í Víðidal, dóttir Jósafats Guðmundssonar og Önnur Jónsdóttur. Ingunn, móðir Jósafats var systir Guðmundar, föður Guðmundar á Torfalæk, en hans börn voru, Jón á Torfalæk, Páll Kolka læknir og Marta, er búsett var á Skagaströnd. Þorbjörg átti þrjár systur, Ingunni, Soffíu og Jónínu Guðrúnu. Ingunn og Soffía fluttu til Suðurnesja og bjuggu í Keflavík og Sandgerði, og eru margir afkomendur þeirra þar búsettir og einnig í Reykjavík. Jónína Guðrún bjó á Hrafn- abjörgum í Svínadal, en hún var móðir þess er þetta ritar. Sigurður og Þorbjörg áttu fimm börn, fjórar dætur og einn son, þann sem hér er minnst. Ein systranna er látin, Anna er gift var Sigurði Bjarnasyni, bónda í Brekkukoti í Þingi, en hann lést fyrir mörgum árum. Hinar eru: Margrét er vann tengi hjá Andrési Andréssyni, klæðskera í Reykjavík, nú búsett á Blönduósi, Soffía, gift Hafsteini Jónassyni, bónda á Njálsstöðum. Haf- steinn lést fyrir nokkrum árum, Soffía býr nú á Blönduósi og Ingibjörg gift Valgeiri Jónassyni bónda á Skarði í Melasveit. Þau eru nú búsett á Akranesi. Lárus átti einn hálfbróður, Jón Sigurðsson er lengi vann hjá Pósti og síma, en er nú látinn. Lárus ólst upp hjá foreldrum sínum í Vöglum og víðar í Húnaþingi, en á þeim tíma var oft erfitt um jarðnæði, og algengt að tvíbýli væri á jörðum. Lárus fór til náms í Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal 1923 og lauk búfræðiprófi árið 1925. Lárus var frábær námsmaður. Á þessum árum var skólastjóri á Hólum, Páll Zophaníasson, síðar 4 alþingismaður og búnaðarmálastjóri, og var vin- átta með þeim Lárusi og Páli alla tíð síðan. Oft minntist Lárus Páls og mat hann mjög umfrarn aðra menn. Að námi loknu vann Lárus að búi foreldra sinna og í vegavinnu, en þar var hann ýmist flokksstjóri eða verkstjóri. Árið 1928 hóf Lárus búskap á Grund í Svínadal, ásamt foreldrum sínum og síðar á Hamri í Langadal. Er Lárus flutti að Hamri, var þar lítið tún og lélegar byggingar og því ekki álitleg bújörð fyrir hann, sem þá þegar var með allstórt bú. En með ræktun og byggingum breytti Lárus Hamri í allgóða bújörð, þó landlítil sé. Lárus giftist 1937, eftirlifandi konu sinni, Krist- ínu Sigurjónsdóttur, bónda á Tindum, Þorláks- sonar og Guðrúnar Erlendsdóttur frá Beinakeldu, en Guðrún var systir Sigurðar og Jóhannesar á Stóru-Giljá, Eysteins á Beinakeldu og Sólvei^ar á Reykjum. Fýrstu búskaparár sín bjuggu þau Lárus og Kristín á Hamri, en frá 1944 á Tindum og keyptu jörðina skömmu síðar. Þau byggðu upp öll hús og ræktuðu, svo nú er túnið á Tindum eitt af stærstu túnum í Svínavatnshreppi. Þau hjón eignuðust þrjú börn, Sigurjón bónda og oddvita á Tindum, f. 1937, Gunnar f. 1942 en hann lést 1948, þá á sjöunda ári, mikið mannsefni, og Margréti Gunnhildi f. 1951, gifta Sigurði Ingþórssyni frá Uppsölum, búsetta á Blönduósi. Þau eiga þrjú börn og ber eitt þeirra nafn afa síns, Lárus Sigurðsson. Lárus var stórhuga framkvæmdamaður, ein- lægur samvinnumaður, félagslyndur og snjall ræðumaður, fljótur að átta sig á aðalatriðum hvers máls og lagði öllum góðum málum lið. Lárus fékk sína fyrstu þjálfun í félagsmálum í Ungmennafé- lagi Svínavatnshrepps, en þar var hann kosinn til forystu á ungum aldri. Síðan var hann af sveitung- um sínum kosinn til þátttöku eða forystu í flestum þeim opinberum störfum sem vinna þarf fyrir sveitarfélag og sýslu. Lárus var um tugi ára í hreppsnefnd Svínavatns- hrepps og oddviti um skeið. 1 sýslunefnd frá 1962 til 1974. í stjórn Sölufélags Austur-Húnvetninga í 20 ár, fulltrúi á aðalfundum Stéttarfélags bænda,' formaður Búnaðarfélags Svínavatnshrepps. í sóknarnefnd og ef til vill í fleiri nefndum, sem ég kann ekki að nefna. Lárus vann ásamt fleirum að stofnun Veiðifélags bænda í Torfalækjar- og Svínavatnshreppi, um vatnasvæði Laxár á Ásum, sem þegar er farið að bera árangur með aukinni fiskgengd í sumar árnar. En mcð aukinni og áframhaldandi ræktun má gera allar árnar að laxveiðiám, þó enn hafi hægt gengið með Svín- adalsá og Sléttá. Þó félagsmálin tækju oft tíma Lárusar frá bústörfum, þá bjuggu þau hjón alltaf stórbúi á Tindum og átti Sigurjón, sonur þeirra þar hlut að máli, en hann vann búinu alla tíð, nema þau ár er hann var í skóla, en hann er búfræðingur frá Hólum. Eitt sinn sagði Lárus frændi við mig, að það væri eitt sinn mesta happ að Sigurjón væri hneigður til búskapar og héldi áfram búskap á Tindum, er hann sjálfur hætti, enda væri það öllum sönnum bændum gleðiefni ef niðjar þeirra héldu samstarf- inu áfram. Ég og fjölskylda mín vottum Kristínu, börnum hennar og öðrum aðstandendum innilega samúð. Gústav Sigvaldason t»eir sem skrifa minningar- eða afmælis- greinar í íslendinga- þætti, eru vinsamlegast beðnir um að skila vélrituðum handritum islendingaþættii’

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.