Íslendingaþættir Tímans

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Íslendingaþættir Tímans - 23.11.1983, Qupperneq 4

Íslendingaþættir Tímans - 23.11.1983, Qupperneq 4
Jónína S. Filippusdóttir Fædd 21. janúar 1909 Dáin 28. október 1983 Mig langar að minnast móðursystur minnar, Jónínu Filippusdóttur, fáum orðum, um leið og ég þakka löng og náin kynni og margar ánægju- stundir á heimili hennar, Foreldrar hennar voru hjónin Sveinsína Ásdís Sveinsdóttir og Filippus. Vigfússon. Hún fæddist að Stóru-Giljá í Torfalækjarhreppi og í Húna vatnssýslunni sleit hún barnsskónum og lifði unglingsárin. Hún giftist Jóni Ingvari Jónssyni og átti með honum fimm börn: Dóttur sem fæddist andvana, Pál, Jón Helga, Þorbjörn og Sveinsínu Ásdísi. Þau skildu. Þorbjörn fórst á sjó árið 1972. Seinna giftist hún Sigurði Amljótssyni. Hann lést árið 1973. Eftir það bjó hún ein, lengst af að Grettisgötu 52. Það var ekki hennar hlutskipti að verða ein- mana, hún átti áhugamál, og á heimili hennar komu margir, krakkar, unglingar og annað fólk. Hún var glaðvær, hress í tali, hnyttin í svörum og veitul. Heimili hennar var vistlegt því hún var mikið snyrtimenni. Hún var afar frændrækin og gjafmild, fyrir utan allar tækifærisgjafirnar voru jólagjafirnar. Eitt sinn er ég kom til hennar skömmu fyrir jól og sá alla pakkana, sem áttu að fara norður, austur fyrir fjall, til Keflavíkur, Hafnarfjarðar og hingað og þangað um Reykja- vík, og ég spurði: „Hvernig hefurðu efni á þessu?“ „Ellilaunin eru svo há“, svarði hún og hló, svo var það ekki meira. Það er ótrúlegt en hún vissi afmælisdaga og fæðingarár flestra skyldra og tengdra okkur að minnsta kosti í annan og þriðja lið, hvernig svo sem hún fór að því. Mér finnst að frænka mín hafi fengið sinn skammt og vel það af erfiðleikum og sorg, sem svo oft fylgja lífinu, ekki síst hjá þeim sem lifað hafa langan dag. En hún festist hvorki í erfiðleikunum eða sorginni. Hún trúði því að hún væri lukkunnar pamfíll. Ég held ekki, að þeir, sem þannig hugsa, séu heppnari en annað fólk, og ekki veit ég til að hún hafi unnið í happdrætti, en þeir eru öðruvísi. Þeir líta fremur til þess sem vel gengur og gleðjast yfir því. Hún átti góð börn og tengdabörn, sem létu sér annt um hana, fylgdust með henni og sáu um að hana vantaði ekkert. Hún talaði oft um hvað börnin hans Sigurðar væru sér góð Hvorugt var vegna þess að hún ætti það skilið fannst henni. Það var liður í heppninni. Það var liður í heppninni að fá að deyja á þennan hátt, án langrar legu, ósjálfbjarga, fyrir manneskju sem var jafn sjálf- bjarga í eðli sínu. Við söknum góðrar frænku og vinkonu. sem hélt tengslum við frænd- og tengdafólk af miklum dugnaði og ræktaði vináttu, sem við sem yngri erum mættum taka okkur til fyrirmyndar. Blessuð sé minning hennar. Við vottum börnum hennar og fjölskyldum þeirra samúð okkar. Ásdís 4 Föstudaginn 28. október sl. andaðist Jónína Filippusdóttir, Grettisgötu 52, Reykjavík, 74 ára að aldri. Jónína fæddist á Stóru-Giljá í Húnavatnssýslu, dóttir hjónanna Filippusar Vigfússonar frá Vatns- dalshólum og Sveinsínu Ásdísar Sveinsdóttur frá Skagaströnd. Hún dvaldi sín uppvaxtarár í Húnavatnssýslu á heimili foreldra sinna í stórum systkinahópi við þau kjör sem þá voru algengust hjá barnmörgum fjölskyldum. Ung að árum hélt hún að heiman, var við störf á Siglufirði um hríð en hélt síðan til Reykjavíkur og átti þar heimili mikinn hlutá ævi sinnar. Hún giftist Jóni Ingvari Jónssyni kjötiðnaðar- manni árið 1931 og var heimili þeirra í Reykjavík og síðan í Hafnarfirði. Þau Jónína og Jón eignuðust fjögur börn sem upp komust. Þau eru Páll, giftur Oddnýju Krist- insdóttur, Jón giftur Kolbrúnu Sigurlaugsdóttur, Þorbjörn, var giftur Elísabetu Jóhannsdóttur, hann lést af slysförum fyrir nokkrum árum, og Sveinsína Ásdís gift Jóni Andréssyni. Eftir nokkurra ára hjónaband slitu þau Jón og Jónína samvistum en alla tíð var vináttusamband milli heimila þeirra. Jónína giftist aftur Sigurði Ingimar Arnljótssyni. hann var ættaður af sömu slóðum og hún, fæddur að Kistu í Vesturhópi í Húnavatnssýslu. Þau Sigurður og Jónína bjuggu lengst af sínum búskaparárum í Reykjavík, nema nokkur ár sem þau voru við búskap í sveit. Fólk sem alist hefur upp í fögrum sveitum Húnavatnssýslu getur aldrei gleymt töfrum sveitalífsins og þótt þau hjón væru komin nokkuð á efri ár létu þau það ekki aftra sér frá því að flytja í sveit og hefja búskap. Þau fluttu svo aftur til Reykjavíkur og síðustu árin bjuggu þau á Bergstaðastræti þar til Sigurður andaðist, eftir það fluttist Jónína að Grettisgötu 52 og bjó þar til dauðadags. Jónína Sigurbjörg var mannkostakona, hún var vel greind og mjög vel hagmælt, hún hafði mikið yndi af ljóðum og kveðskap og það var ánægjulegt að hlusta á hana fara með vel gert ljóð, það sem var vel sett saman af höfundi varð ljóslifandi og auðskilið í meðferð hennar. Hún gerði margar góðar vísur, einkum síðustu árin, en eins og fleiri góðir hagyrðingar taldi hún fátt nægilega gott til að halda því til haga. Hún starfaði síðustu árin með Kvæðamannafélaginu Iðunni og átti þar margar góðar stundir með því ágæta fólki. Það er trú mín að félögum hennar í Iðunni þyki skarð fyrir skildi er hún er horfin úr þeirra hópi. Við, sem kynntumst Jónínu, munum hana sem sterkan persónuleika, hún hafði ætíð kjark til að láta í Ijósi skoðanir sínar og taldi vænlegra til þroska að taka á vandamálum og finna á þeim lausn. Nú þegar Jónína er horfin vil ég þakka fyrir liðnar samverustundir. Ég votta börnum hennar og öðrum ástvinum innilega samúð. Ari Arnljófs Sigurðsson Það er erfitt að trúa og sætta sig við það að amma sé farin frá okkur. En við getum hugsað um allar stundirnar sem við áttum saman, og með því að hugsa um það hjálpar það manni að komast yfir mikinn söknuð. Og hún mun ávallt vera í huga okkar og hjá okkur. Það væri aldrei hægt að þakka allt sem hún gerði fyrir mína fjölskyldu. Því alltaf var hún reiðubúin að gera allt sem hún gat gert fyrir mann og miklu meira til. Ávallt var hún hress og ung í anda. þrátt fyrir öll sín veikindi. Oft var amma mikið veik en vildi samt gera það sem hún var vön að gera og stóð ávallt upp úr veikindum sínum. En svo fékk hún að fara sína síðustu ferð eins og'hún sjálf vildi. Það var alltaf gaman að koma til ömmu á Grettisgötu, og þegar við fórum síðast á Grettisgötuna, var sonur okkar fljótur að kyssa ömmu og hlaupa að bíladósinni, sem var alltaf á sínum stað eins og allt hennar dót. Það var ekki spilað þá eins og svo oft, fátt þótti henni skemmtilegra en að spila, eins og okkur. Það var svo margt hægt að segja og margs að minnast en samt svo erfitt að skrifa, en ég veit að það myndi hún skilja. Ég er fegin því að við vorum svona miklar vinkonur eins og við vorum, höfðum alltaf símasamband og töluðumst tvisvar við í síma hennar síðasta dag og sonur okkar talaði líka við ömmu. Við ætluðum að hittast eftir klukkan fimm. Það var ákveðið hálftíma áður en hún kvaddi þennan heim. En amma kom ekki til okkar. Hún varð að fara þessa ferð, en hún verður alltaf hjá okkur. Islendingaþaettir

x

Íslendingaþættir Tímans

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.