Íslendingaþættir Tímans - 21.12.1983, Blaðsíða 8

Íslendingaþættir Tímans - 21.12.1983, Blaðsíða 8
Sigríður Elín Jónsdóttir frá Reykjarfirði 90 ára Sigríður er fædd að Seli í Bolungarvík á Ströndum 10. nóv. 1893. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Elíasson Ebenesersonar hreppstj. Rauðamýri Jónssonar Dynjanda, Jökulfjörðum. Ættaður úr Dölum. (Seinni kona Elíasar, móðir Jóns var Sólveig Bjarnadóttir bróðurdóttir Ás- geirs Ásgeirssonar útgerðarmanns á ísafirði - Arnardalsætt), og kona hans Jakobína Þorleifs- dóttir Einarssonar hreppstj. Bolungarvík Barna- Snorrasonar Einarssonar Höfn. Móðir Jakobínu var Guðrún Bjarnadóttir af Rauðseyjarætt Breiðafirði. Jón og Jakobína áttu sex börn er upp komust. Þau bjuggu mestan sinn búskap að Seli í Bolung- arvík á Ströndum. Þótt jörðin væri ekki stór búnaðist þeim vel. Hornbjarg er í nágrenninu, þangað sóttu Bol- víkingar til eggja- og fuglatekju á vorin og áttu festi saman. Jón var fyglingur góður, gætinn og athugull. Seig hann í Hornbjarg fjölda ára og hlekktist aldrei á. Jón hafði mikið yndi af smíðum. Dvaldi hann löngum í smíðahúsi sínu. Smíðaði hann ýmis konar búshluti - föturj byttur, bala, skálar, aska o.þ.l. Handbrað smiðsins leynir sér ekki á smíðisgripunum. Allan smíðavið sinn vann hann úr rekaviði. Jón var hægur í fasi en fastur fyrir, sívinnandi, góður sjómaður. Gestir sem bar að garði minntust þess hve fróður hann hafði verið og skemmtilegur í viðræðum. Jakobína var rausnar- og myndarkona sem lét að sér kveða og sagði sína skoðun umbúðalaust. Heima í Bolungarvík var tvíbýli. Bjó þar um tíma bróðir hennar á öðru býlinu og systir á hinu. Sigríður ólst upp hjá foreldrum sínum í hópi systkina og frænda, þar sem stutt var milli bæjanna í víkinni. Tók hún þátt í bústörfum strax og aldur leyfði jafnt karlastörfum sem kvenna eins og þá var títt að greina störfin t.d. var hún allgóður sláttumaður. Fór hún með föður sínum og frændum á Hornbjarg og var á festi með þeim, fyrst 10 til 11 ára gömul og svo alla tíð meðan hún davldist í föðurhúsum. Farið var með eggjaskrín- urnar á bjargið snemma morguns og heim með þær fullar að kvöldi ef vel tókst til. Þrátt fyrir erfiðið voru þetta ævintýradagar. Það gafst færi á samskiptum við margt fólk víðsvegar af landinu, skip leituðu oft inn á Hornvíkina í von um ný egg. Af brún Hornbjargs er víðsýni mikið til allra átta, hvít segl við hún, iðandi fuglaþvargið, fjöll í blámóðu fjarlægðarinnar, sólsetrið dýrlegt við ysta haf. Töfrar Strandanna láta engan ósnortinn - svipmót og tign víðáttunnar í mikilleik sínum setur mark sitt á íbúa þessara staða ævilangt. Skólaganga Sigríðar var ekki löng en þó ekki styttri en þá gerðist. Sótti hún skóla að Stað í Grunnavík. Þar mun hafa verið haldinn skóli fyrir börn úr Grunnavíkurhreppi. Seinna var hún svo um tíma við saumanám í Hnífsdal. Árið 1915 réðst hún ráðskona til Péturs Frið- rikssonar frá Dröngum í Árneshreppi, en hann var þá að hefja búskap í Hraundal við Djúp. Þau 8 gengu í hjónaband 1917. Hraundalur er daljörð og erfið fyrir einyrkja. Fjárskaðar og veikindi þrengdu hag ungu hjónanna. Til Skjaldabjamarvíkur á Ströndum flytja þau 1922. Fóru þau með börn og bú norður yfir Drangajökul. Ekki er vitað um aðra búferlaflutn- inga þessa leið. Um þessa ferð hefur verið skrifað og var reyndar á allra vörum þar um slóðir lengi síðan. Gerði á þau ofsaveður með frosthörku og fannkomu -krossmessugarðurinn 13.-14. maí er þau voru stödd við rætur jökulsins með tvö smá börn. Þótti það þrekvirki að ná til byggða með fólk óskemmt eftir 10-12 stunda hrakninga í slíku veðri. Þrem vikum seinna þegar búið var að safna saman búpeningi og búshlutum sem skildir höfðu verið eftir hér og hvar á leiðinni var haldið norður sömu leið. Gekk þá allt að óskum. í Skjaldabjarnarvík bjuggu þau í 13 ár og komu upp góðu búi. Sigríður mun hafa kunnað vel við sig þar. Skjaldabjarnarvík er með afskekktustu jörðum þessa lands bæði í landfræðilegu tilliti og einnig af því hún er á sýslumörkum. Fáförult var því oftast enda voru Strandirnar ekki fýsilegar ferðamönnum í þá daga þó vel væri á móti þeim tekið, sem þangað lögðu leið sína. Forsjá heimilisins hvíldi oft á herðum húsfreyj- unnar tímum saman er bóndinn var að heiman til aðdrátta. Á þessum tíma var hvert býli setið á þessum slóðum, vélar að koma í róðrarbáta og létta róðurinn í bókstaflegum skilningi, ýmis tæki ruddu sér til rúms sem auðvelduðu bústörfin þótt vinnufólki fækkaði og útvarpið færði þessa út- skaga nær rás heimsviðburðanna. Þrátt fyrir þetta og góða afkomu hugsa þau sér til hreyfings. Mun þar hafa mestu um ráðið að erfitt reyndist að sjá börnunum fyrir kennslu er þau uxu úr grasi, en það var þeim báðum mikið áhugaefni að mennta börn sín sem best. Þó tekinn væri heimiliskennari um tíma og nyrstu bæirnir í hreppnum sameinuð- ust um farkennslu var það ýmsum vandkvæðum bundið og ónóg þegar frá leið. Til Reykjarfjarðar í sömu sveit flytja þau 1935. Þá var að hefjast mikið uppgangstímabil í Árneshreppi. Ný og fullkomin síldarverksmiðja tók til starfa í Djúpuvík þetta sumar. í Djúpuvík var um þessar mundir um tvö hundruð manns að sumrinu til. Það leiddi af sjálfu sér að skipti íbúa Djúpuvíkur við bæina í kring urðu margvísleg ekki síst Reykjarfjörð ser nvar stærsta jörðin þar um slóðir.d Markaður fyrir búsafurðir var nógur á sumrin. Mjólk var flutt daglega til Djúpuvíkur. Kom það að mestu í hlut húsfreyjunnar að sinna þessu sem var nokkurt vandaverk við þær aðstæður og tæki sem þá voru. Gestir komu í ýmsum erindagjörðum sem úr þurfti að leysa. Mun það hafa verið Sigríði að skapi að sinna gestum og veita góðgjörðir. Marga vini eignaðist hún á þennan hátt sem héldu tryggð við hana þótt þeir hyrfu brott, úr Djúpuvík. Viðbrigðin voru vissulega mikil að koma úr einni afskekktustu byggð á íslandi í hringiðu síldarum- svifanna. Eftir 18 ára búskap í Reykjarfirði brugðu þau búi og fluttu til Hellissands á Snæfellssnesi, en þar var þá einn sona þeirra kaupfélagsstjórí. Sigríður vann við fiskverkun um nokkur ár en Pétur við Kaupfélagið. Þegar vinnuþrekið fór að bila fluttu þau til Reykjavíkur og keyptu sér íbúð í Efsta- sundi 100. Þar var heimili þeirra meðan heilsa þeirra entist. Heilsuleysi stríddi á Pétur síðust ár hans. Hjúkraði Sigríður honum af nærfærni, ástúð og einstæðri natni. Á sjúkrahúsi var hann um tveggja mánaða skeið fyrir andlát sitt en hann lést 1979, níutíu og tveggja ára gamall. Þau eignuðustu sex börn sem upp komust- eina dóttur og fimm syni. Einn sonur þeirra er nú látinn. Sigríður dvelur núna á Elliheimilinu Grund. Þetta er í stórum dráttum æviferill Sigríðar Elínar Jónsdóttur móður minnar. Að lokum nokkur orð fyrir sjálfan mig. Minnisstætt er mér þegar móðir mín tók inn á heimilið einstæðing, gamlan mann og hjúkraði. Þessi maður var Jakob Söebeck, ættaður úr hreppnum. Heilsa hans bilaði og varð hann óvinnufær, átti raunar hvergi höfði að halla. Þá fór hann inn í Reykjarfjörð og bað móður mína að lofa sér að vera. Var hjá henni í átta ár eða þar til foreldrar mínir fluttu alfarnir úr sveitinni - mestan tímann rúmliggjandi. Mér er í minni hversu mikils hann mat móður mína og var henni auðsveipur. Síðasta kveðja hans til hennar var að Framhald á bls. 7 IslendingaþaSttir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.