Íslendingaþættir Tímans - 29.12.1983, Blaðsíða 5

Íslendingaþættir Tímans - 29.12.1983, Blaðsíða 5
t Mér var að berast andlátsfregn tengdamóður minnar, Guðrúnar Elísabetar Anrórsdóttur. Þar er fallin frá kona, sem ég hef metið og virt meira en flesta aðra, vegna mannkosta allra, heiðar- leika, hreinlyndis og viljastyrks. Hún er síðust barna séra Arnórs Þorlákssonar á Hesti og Guðrúnar Elísabetar Jónsdóttur, sem frá falla, flest þeirra hefir fellt sami sjúkdómurinn, veilt hjarta. Hún var á sjúkrahúsi aðeins örfáa daga, og var hún í því lík skyldfólki sinu, kvartaði ekki fyrr en ekki var lengur þolað. Guðrún Elísabet fæddist á Hesti í Borgarfirði 22. desember 1905 og var yngst tíu barna þeirra hjóna séra Arnórs Þorlákssonar og Guðrúnar Elísabetar Jónsdóttur. Móðir hennar dó af barns- förum og eftir stóð faðirinn með stóran barnahóp. Kornabarnið önnuðust í fyrstu eldri systur hennar, Ingibjörg og Marta, en brátt rak að því að móðurbróðir hennar, séra Stefán Jónsson á Staðarhraur.i og kona hans, Jóhanna Katrín Magnúsdóttir, tóku hana í fóstur og önnuðust hana og ólu hana upp. Þau höfðu áður tekið í fóstur bróður hennar, Lárus. Þessi börn voru presthjónunum á Staðarhrauni kærari öllu öðru, því kynntist ég er ég bjó undir sama þaki og frú Jóhanna, ástríki hennar til fósturbarnanna var dæmafátt. Heimilið á Staðarhrauni var annálað myndar- heimili, höfðingjasetur. Þar var rekinn stórbú- skapur á þeirra tíma vísu, risna og höfðingsskapur mikill. Þangað sóttu margir og víða að, jafnt grönnunum. Heyrt hef ég, að frú Jóhanna hafi verið með í ráðum um flest, sem gert .var á Mýrunum á þessum árum og hafi þau ráð þótt góð og holl. Börnin tvö voru alin upp til mannvirðinga og ekki beinlínis ætlast til að þau gengju til púlsverka með vinnufólki. En þegar á barnsaldri komu eðliskostir tengdamóður minnar í Ijós. í hennar augum var öll vinna, sem leysa þurfti af hendi, kvenleg, hún vildi vera þar sem þörfin var mest hverju sinni, og það var ekki alltaf inni í stofu við hannyrðir. Þannig gekk hún til verka á taðvelli á vori með piltunum, hvað sem fósturmóðirin sagði, í þessu lét hún engan segja sér fyrir verkum. Aðkallandi verkin voru hennar, og þannig var hún alla tíð, fór sínu fram án þess að hafa um það mörg orð, vann það sem vinna þurfti, hvort sem öðrum þóttu þau verkefni hreinleg eða ekki, allt varð hreinlegt í hennar höndum. Hún gekk í Kvenna- skólann í Reykjavík og lauk þar námi og fór síðar til Englands sér til skemmtunar og menntunar. Á þessum árum þótti hún kvenna vænst og fönguleg- ust, lágvaxin með Ijóst þykkt hár. Hestamennska og útreiðar voru hennar yndi ásamt fimleikum, sem hún stundaði með glímufélaginu Ármanni. Guðrún Elísabet giftist séra Páli Þorleifssyni, sóknarpresti á Skinnastað í Þingvallakirkju, á Þjóðhátíðinni 26. júní 1930. Séra Páll sat Skinna- stað í 40 ár og hafa sagt mér sóknarbörn hans nyrðra, að prestkonan unga hafi þegar í stað átt virðingu allra vegna mannkosta sinna og fljótlega elsku þeirra, sem alltaf hélst, því tryggð hennar við Norður-Þingeyinga átti sér ekki takmörk. Skinnastaður var vissulega í þjóðbraut. Um árabil var þar viðkomustaður langferðabifreiða á leið- inni milli Austurlands og Norðurlands, þar hittust landpóstar og héraðspóstar, þar var landsímastöð. Þangað komu einnig langferðamenn, innlendir og erlendir, á leið til náttúruundra nágrennisins, Dettifoss, Ásbyrgis, Forvaða eða Hljóðakletta. Öllum var búinn greiði, allir velkomnir, engu var líkara en allt væri fyrirhafnarlaust á þessum rausnarstað. Margir eiga minningar þaðan um góðar viðtökur. Á vetrum var þar menntasetur, vistin þar stytti gjarnan dýra skólagöngu efnalítilla ungmenna. Séra Páll lét af störfum prófasts og sóknarprests 1966 og fluttu þau hjón þá frá Skinnastað og til Reykjavíkur. Það mun hafa verið þeim erfitt að yfirgefa staðinn þó ekki heyrði ég þau kvarta. Ekki var þó starfsdagurinn allur. Séra Páll tók að sér forfallaþjónustu í Norðfjarðarprestakalli vetrarlangt og fluttu þau hjón þangað. Hann þjónaði einnig Nesprestakalli í Reykjavík í eitt ár í fjarveru sóknarprestsins þar. Sagan endurtók sig á báðum stöðum, þau áttu alla virðingu og elsku sóknarbarna óskoraða. Séra Páll féll frá skyndilega í ágúst 1974. Guðrún Elísabet lifði mann sinn í 9 ár. Ekki var elli á henni að sjá. Hún fór allra sinna ferða og lifði ánægjulegu og viðburðaríku lífi. Hún hélt sambandi við æskuvini sína, sóknarbörnin fyrir norðan og sóknarfólkið í Nesprestakalli. í Nes- kirkju átti hún sinn stað og sína vini, þar var hún bæði laugardaga og sunnudaga. Hún sótti tónleika og fór á listasýningar víða um borgina án þess að hafa um það nokkur samráð við börn sín. Hún sinnti vinum sínum erlendis með bréfum, sending- um og heimsóknum, hún brá sér til landsins helga, þegar henni gafst færi á því, allt upp á eigin spýtur. Á vetrum sat hún við vefstól eða lestur. Þau hjónin áttu fimm börn, Hönnu, útibússtjóra hjá Búnaðarbanka íslands, Stefán, forstöðumann Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Þorleif, deildar- stjóra í dóms-og kirkjumálaráðuneytinu, Arnór Lárus, framkvæmdastjóra ALP-bílaleigunnar, Sigurð, ljóðskáld og leiklistarfræðing. Tengdamóðir mín, Guðrún Elísabet, var heil- steypt kona. Hún var viljasterk en þó hógvær og hljóðlát í framkomu. í æsku hafði hún krafist sjálfstæðis til verka og athafna og hún ól börn sín upp til þess sama. í uppeldinu gerði hún engan greinarmun kynja, þar var hún á undan samtíð sinni, dóttirin vandist útiverkum og synirnir inniverkum, verkaskipting fór ekki eftir kynjum. Dómhörku átti hún ekki tií. Þó var hún ákveðin í skoðunum. Henni lá gott orð til annarra manna. Þagmælska hennar verður mér kannski minnis- stæðust. Það fór ekki lengra, sem henni var trúað fyrir. Um allt slíkt var hún þögul sem gröfin. Svo var og um hagi annarra, um þá talaði hún ekki. Það er gott ungu fólki, og ekki bara því heldur öllu fólki, að eiga slíka vini, sem hlusta grannt og skilja vel og leggja sig svo fram um að leysa allan vanda en tala ekki um hann. Þannig var Guðrún Elísabet Arnórsdóttir, blessuð sé hennar góða minning okkur ástvinum hennar og þcim mörgu sem henni kynntust. Ég hafði þekkt Guðrúnu Elísabetu í eitt ár er hún andaðist. Það er ekki langur tími, en hann var mér mikils virði. Eftir að ég flutti frá Svíþjóð bjuggum við í sama húsi á Tómasarhaganum. Mér fannst hún svo góð kona að ég tók strax upp þann sið að kalla hana ömmu rnína. Ég fann að hún var traust og hlý og að henni þótti vænt um fjölskyldu mína. Við elskuðum hana Öll. Henni var mikið í mun að ég lærði rétta íslensku og lærði ég mikið af henni. Hún reyndist mér góð amma. Nú hefur Guð tekið hana frá okkur. Við fáum ekki að njóta nærveru hennar lengur. Ég skil ekki af hverju. Ég mun skilja það seinna. Ég bið Guð að hugsa vel um bestu vinkonu mína hana ömmu. Magnús Guðmundsson Fæddur 13. ágúst 1905 Dáinn 2. desembcr 1983 Ég minnist þín þegar ég var lítill og oft óstýrlátur trítill barst þú mig á örmum þér. t gönguferðum leiddi mig höndin þín og þú vaktir yfir mér, kúraitdi i kjöltu þér liðu kvöldin í ævintýra löndum Aldrei ég gleymi því, þú varst afi minn, ég þér tryggur vinur. Pað er ég enn, þólt í eilífðina þú sérl genginn Hilmar Þór Reykjahlíð 12 Islendingaþættir 5

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.