NT - 17.08.1985, Blaðsíða 10

NT - 17.08.1985, Blaðsíða 10
tíl Margrét Oddný Hjörleifsdóttir frá Hrísdal Fædd 26. septemher 1899 Dáin 9. ágúst 1985 Sumarblærinn, sem nú hefur undanfarið leikið um vanga okkar, hefur gefið okkur meiri sól og hlýju en mörg undanfarin ár. Par af leið- andi_hafa jarðargæði verið okkur óvenju gjöful. Sólríkir dagar minna okkur á þann hverfuileika, sem lífið er háð, að blómin sem brostu óvenju snemma til okkar á þessu góða sumri, fölna þó í tímans rás, þau koma og þau fara. Sá sem okkar tilveru ræður, hefur lífdaga okkar í sinni hendi hverju sinni, kallar okkur hvern og einn til sín, því enginn skal undan þessu kalli komast. Blíðviðriskvöld þann 9. ágúst var okkur tilkynntað aldamótabarnið og öðlingskonan Margrét frá Hrísdal hafi hlýtt þessu kalli. Lát hennar, þó með stuttum fyrirvara væri, kom okkur vinum hennar þó ekki á óvart, hár aldur og langur og farsæll starfsdagur að baki. Er nokkuð sælla en að sá sem hagsæld okkar ræður, kippi þá í það hjól, sem líf okkar hefur snúist um, dagsverki lokið og lífsbók lokað. Margrét Oddný Hjörleifsdóttir var fædd að Hofstöðum Miklaholtshr26. september 1899. Foreldrar hennar voru Kristjana Sigurðardóttir og Hjörleifur Björnsson, búandi hjón á Hofstöðum í Miklaholtshrepp. Margrét nam í föðurgarði og við móðurhné þann lærdóm, sem næm og verkhög börn gátu tileinkað sér í skóla hinnar fornu heimilismenning- ar. Lífið kenndi henni svo margt, hún hlaut hagar hendur í vöggugjöf, góða eftirtekt og einstakt minni. Hlýjan hug bar hún til allra sinna samferða- manna og óbrigðult minni hafði hún til hinnar hinstu stundar. Sakir trygg- lyndis og góðs hjartalags var hún hverjum manni kær, sem hafði kynni af henni. Og þeirri mannhylli hélt hún til hinstu stundar. Margrét var dul að eðlisfari og orðheldin, flíkaði ekki hugsunum sínum við alla. Hugur hennar leitaði ávallt heim í sveitina hennar, þar átti hún æskudaga og æskuvor, allt hennar lífsstarf var bundið þeirri sveit, sem hún unni heilshugar, „Því römm er vor taug sem til rekka dregur föðurtúna til.“ Frá árinu 1981 dvaldi Margrét í dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Þar undi hún sér vel, því frændgarður hennar er óvenjustór og heimsóknir til hennar tíðar. Sá sem þessar línur skrifar bast góðri tryggðarvináttu við Margréti, sem ég vil þakka af heilum hug, „það ungur nemur sem gamall temur.“ Við áttum saman mörg símtöl, sem ekki voru alltaf mæld í skrefum eða mínútum, ævinlega gat hún frætt mig á ýmsu, sem hún og hugur hennar fylgdust betur með en ég. Heima í sveitinni hennar var hugurinn og hugsaði hún jafnan hlýtt til fólksins þar. Gjafir Margrétar til kirkju sinnar bera þess vott hve hlýjan hug hún bar til hennar. Hinn 3. mars 1919 giftist Margrét æskuvini sínum Sigurði Kristjánssyni frá Hjarðarfelli. Hjónaband þeirra sýndi að þar var gagnkvæmt traust og virðing höfð að leiðarljósi. Lífsganga þeirra var ekki alltaf auðveld, en kjarkur, dugnaður og bjartsýni var ávallt ríkjandi í fari þeirra. Enda Sigurður alinn upp við þann arin, sem sorg og gleði réði ríkjum, hertur af harðri lífsbaráttu, en einstakur heim- ilisfaðir, sem sá ætíð bjartari hliðar lífsins. Sigurður dó 19. september 1969. Búskap stunduðu þau á þremur jörðum hér í sveit, en lengst af bjuggu þau í Hrísdal, þar var þeirra ævistarf, sá staður er þeim var kærastur. Þeim Margréti og Sigurði varð 11 barna auðið, þau lifa öll foreldra sína, einstakt manndómsfólk og traustir þjóðfélagsþegnar. >au eru: Hjörleifur, fyrrv. vegaverkstjóri, bú- settur í Ólafsvík. Kristján, bóndi í Hrísdal. Sigfús, skrifstofumaður í Stykkis- hólmi. Kristjana, húsfrú í Hlíðarholti Stað- arsveit. Áslaug, húsfrú í Reykjavík. Valdemar, lögregluþjónn í Reykja- vík. Elín, ljósmóðir í Stykkishólmi. Olga, húsfrú í Hraunbæ í Norðurár- dal. Magdalena, húsfrú á ísafirði. Anna, húsfrú á Brekku í Norðurár- dal. Ásdís, húsfrú í Reykjavík. Þegar ég nú kveð mína kæru vin- konu Margréti frá Hrísdal er margs að minnast og margt að þakka. Trygg- lyndið ber þó hæst, því hún var kona þeirrar gerðar að horfa við mannlíf- inu með ástúðlegu þeli, móðurlegri viðkvæmni, sem gerir engan mannamun. Ég vil sérstaklega þakka henni hlýjuna, góðvildina og það traust sem hún sýndi mér ætíð og það mikla kærleiksríka starf er hún vann sinni sveit. Hún var heilshugar trú- kona sem veitti sálu sinni ljós og varma í lindir trúarinnar, guðs orð og bæn. Um hana mætti segja „hún var sterk í stríði fyrir sterka trú.“ Hún var gæfumanneskja, hún gat horft yfir farinn æviveg með þá birtu fyrir augum, sem jafnan er góðs manns gifta og gleðivaki. Um framgöngu hennar og störf hennar öll má með orðum sálmaskáldsins segja: Hvað er ástar og hróðrar dís, eða góður engill í paradís, hjá gcðri oggöfugri móður. (Matthías Jochumsson) Við hjónin þökkum henni af alhug liðnar samverustundir. Skyldfólki hennar öllu vottum við samúð. Guð blessi minningu Margrétar frá Hrísdal. Páll Pálsson Föstudaginn 9. þ.m. varð bráð- kvödd á dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi merkiskonan Margrét Oddný Hjörleifsdóttir frá Hrísdal í Miklaholtshreppi. Margrét fæddist að Hofsstöðum 26. september 1899 ogvarþvítæplega 86 ára, er hún lést. Foreldrar Margrétar voru Hjörleif- ur Björnsson, bóndi á Hofsstöðum, en ættaður frá Breiðabólstöðum á Álftanesi og kona hans Kristjana Elísabet Sigurðardóttir ættuð úr Reykjavík. Kristjana var systir Sól- veigar konu Sigfúsar Eymundssonar bóksala. Oddný á Breiðabólsstöðum, amma Margrétar var dóttir Hjörleifs Gutt- ormssonar prests á Skinnastað í Öxar- firði og víðar. Margir landsþekktir menn eru frá Hjörleifi komnir, svo sem Kristján Eldjárn forseti o.fl. Bróðir Margrétar var Jóhann vegaverkstjóri, sem var landskunnur maður. Margrét ólst upp hjá foreldrum sínum að Hofsstöðum í hópi fimm systkina. Hún var mjög bráðþroska eins og margt ættfólk hennar. Ekki átti hún kost á skólagöngu í æsku - utan barnaskóla í 2-3 mánuði á vetri eftir 10 ára aldur. Þannig var með æskufólk almennt á þeim tíma og þótti eðlilegt. Stórt heintili var á Hofsstöðum og gestagangur var þar mikill. Hjónin voru höfðingjar heim að sækja. Þá var eingöngu ferðast á tveimur jafnfljótum eða þá á hestum og fólki þótti gott að hvíla lúin bein, þar sem móttökur voru góðar. Kristjana á Hofsstöðum var sérlega myndarleg húsmóöir og lærðu dætur hennar margt af henni, það sem góða húsmóður má prýða. Hinn 3. mars 1919 giftist Margrét Sigurði Kristjánssyni á Hjarðarfelli. Sigurður var ellefu árum eldri en Margrét og orðinn liðlega þrítugur, er þau giftust. Sigurður var glæsi- menni hið mesta og hallaðist ekki á með þeim hjónum. Þau hófu búskap á Hjarðarfelli voru 1919 í sambýli við foreldra þess, er þetta ritar. Hjörleifur á Hofsstöðum missti konu sína um þessar mundir og vantaði hann þá forsjá fyrir heimilið innanbæjar. Hann leitaði eftir því við ungu hjónin að þau flyttu til sín að Hofsstöðum. Og það varð svo vorið 1920. Á Hofsstöðum bjuggu þau í sjö ár. Laugardagur 17. ágúst 1985 10 Veturinn 1926-1927 gifti Hjörleifur sig aftur, Matthildi Jóhannesdóttur frá Sauðum í Helgafellssveit. Húsa- kynni á Hofsstöðum rúmuðu ekki tvær fjölskyldur og stóran barnahóp. Þau Sigurður og Margrét fluttu því að Dal vorið 1927 og voru þar leigu- liðar í fimm ár. Vorið 1932 fluttu þau svo að Hrísd- al og tíu árum síðar keyptu þau jörðina. Þar bjuggu þau í 37 ár eða þar til Sigurður lést í septembermán- uði 1969. Þau voru því saman í hjúskap og búskap í rúmlega 50 ár samtals. Eftir að Sigurður dó dvaldi Margrét hjá börnum sínum en mest þó í Hrísdal. Á Dvalarheimili aldr- aðra í Borgarnesi var hún á þriðja ár í lokin. í Hrísdal voru gerðar miklar um- bætur í tíð þeirra hjóna. Farið var úr litlum torfbæ í stórt steinhús, ræktun varð mikil og útihús voru reist eftir nýrra tíma kröfum. Þeim hjónum.vató ellefu barna auð- ið og lifa þau öll móður sína. Þau eru: Hjörleifur, Vegverkstjóri, nú síðast í Ólafsvík. Hann er kvæntur Kristínu Hansdóttur frá Selhóli á Hellissandi. Kristján, bóndi í Hrísdal. Hann er kvæntur Maríu Eðvarðsdóttur, þýskrar ættar. Sigfús, flugafgreiðslumaður í Stykkis- hólmi. Hann er kvæntur Ragnh. Esther Einarsdóttur úr Reykjavík. Kristjana Elísabet, húsfreyja í Hlíð- arholti, Staðarsveit. Hún er gift Vig- fúsi Þráni Bjarnasyni bónda þar. Áslaug, húsfreyja í Reykjavík. Hún er gift Sveinbirni Bjarnasyni, lögregluvarðstjóra frá Neðra-hóli i Staðarsveit. Valdimar, lögreglumaður í Reykj- avík. Hann er kvæntur Brynhildi Eggertsdóttur, frá Akureyri. Elín Guðrún, ljósmóðir í Stykkis- hólmi. Hún er gift Sigurði Ágústssyni fyrrv. vegaverkstjóra þar. Olga, húsfreyja á Hrauni í Norður- árdal. Hún er gift Leopold Jóhannes- syni fyrrv. veitingamanni í Hreða- vatnsskála. Magdalena Margrét, húsfreyja á ísa- firði. Hún er gift Oddi Péturssyni bæjarverkstjóra þar. Anna, húsfreyja á Brekku í Norður- árdal. Hún er gift Þorsteini Þórðar- syni, bónda þar. Ásdís, húsfreyja á Seltjarnarnesi. Hún er gift Sigmundi Sigurgeirssyni trésmið. Öll eru börnin myndarleg og vel að manni, svo sem foreldrar þeirra voru. Barnabörn Margrétar eru vel stórt hundrað talsins og fjölgar ört. Ekki fór á milli mála að erfitt var á kreppuárunum frá lokum fyrri heims- styrjaldarinnar og til 1940 í byrjun síðar heimsstyrjaldarinnar að fæða og klæða ellefu börn án aðstoðar frá samfélaginu í formi tryggingabóta eða á annan hátt. En þetta gerðu Hrísdalshjónin og mundu fáir leika það eftir nú á dögum. Þess ber þó að geta að Áslaug dóttir þeirra varð eftir á Hofsstöðum þegar þau fluttu að Dal og ólst eftir það upp með afa sínum. Og Valdimar ólst upp að mestu hjá föðurbróður. sínum að Hjarðarfelli. Þessi barátta var mjög ströng. Hjónin urðu að vera nægjusöm og neita sér um margt sem nú er talið sjálfsagt og leggja hart að sér í vinnu. Samheldni þeirra var mikil og má segja að þau væru einhuga í öllu. Því verður ekki rætt um annað svo hins verði ekki getið. En að sjálfsögðu reynir mest á húsm- óðurina á stóru barnaheimili. Hún þarf að vera útsjónarsöm og stjórnsöm. Þeir kostir voru Margréti vel gefnir. Hrísdalshjón létu ekki fátækt, heilsubrest Sigurðar um nokkur ár, né aðra erfiðleika knésetja sig. Þau héldu lífsgleði sinni og reisn að fullu alla tíð og voru oft gjöfulir rausnar- veitendur á heimili sínu. Sigurður var söngvinn gleðimaður og hafði mikinn róm og einstaklega góða frásagnarhæfileika. Hann gerði oft gleðistund úr því að segja frá litlu atviki og ýkti stundum en Margrét og börnin höfðu gaman af. Sigurður var einstaklega hlýr og hugsunarsamur heimilisfaðir og nærg- ætinn við konu sína. Margrét var líka myndar húsmóðir í verkum sínum og umhyggjusöm móðir, sem börn henn- ar virtu mikils og vildu allt gera til geðs. Ástríki var mikið með Sigurði og Margréti. Á heimilinu ríkti hlýja og gleði, sem dró að sér fólk og þótti mörgum gott að koma þangað. Unglingar og börn úr þéttbýli sóttust eftir að fá að dvelja þar a.m.k. sumarlangt. Eftir að börnin þeirra Hrísdals- hjóna komust upp og fóru að heiman leituðu þau oft heim til foreldranna og áttu með þeim gleðistundir. Oft varþví gestkvæmt íHrísdal. Heimilið hafði aðdráttarafl. Margrét hafði sérstakt yndi af að fá gesti. Hún var sjófróð og ræðin, kunni skil á fólki víða á landinu og fylgist vel með öllu sem gerðist. Hún hélt vináttutengslum við fólk meira en algengt er um aldraða allt til síðasta dags. Mér, sem þessar línur rita, er í fersku barnsminni óvenju skemmti- legar heimsóknir Hrísdalsfj ölskyld- unnar að Hjarðarfelli. Þá var alltaf hátíð. Slíkar heimsóknir voru gagn- kvæmar. Samheldni og samstarf ein- kenndu samskipti heimilanna alla tíð, líka eftir að kynslóðaskipti komu til. Nú eru Hrísdalshjónin bæði horfin af sviðinu og skilja eftir merkt og mikið ævistarf og mikið safn góðra minninga. Margréti þakka ég og fjölskylda mín mikla tryggð og vináttu alla tíð og ótaldar ánægjustundir. Margrét er jarðsett í dag við hlið bónda síns í Fáskrúðarbakkakirkju- garði. Við vitum að Sigurður stendur í ströndu hinu megin og veitir henni ástríkar móttökur. Börnum hennar og vandamönnum öllum votta ég samúð við fráfall ástríkrar móður. Gunnar Guðbjartsson Afmælis- og minningargreinar Þeim, sem óska birtingar á afmælis- og eða minningargreinum í blaðinu, er bent á, að þær þurfa að berast a.m.k. tveim dögum fyrir birtingardag. Þær þurfa að vera vélritaðar. Blómaskálinn er fluttur að Nýbýlavegi 14 í ný og glæsileg húsakynni. Höfum allt til blómarœktunar, pottablóm, afskorin blóm, skreytingar, krossa og kransa. Lítiö inn um helgina og alla hina dagana til ad smakka á berjum og fá kaffisopa og eitthvaö gott. Krakkar fá blöðrur og ? Sértilboð NÝTÍND KRÆKIBER Mjög hagstætt verð Opið alla daga kl. 10—22 ^jjfölórnaslíálÍTm Nýbýlavegi 14, á horni Nýbýlavegar og Aud brekku. Sími 40980.

x

NT

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: NT
https://timarit.is/publication/305

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.