Lesbók Morgunblaðsins - 20.11.2004, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 20.11.2004, Blaðsíða 11
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 20. nóvember 2004 | 11 B ókin er í formi dagbókar, prósa, ljóða og leikrits, þar sem að- alpersónan Ína Karen er ljóð- skáld og er alltaf skrifandi. Þannig verða skriftirnar í bók- inni eins konar kaþarsis fyrir hana, í anda Aristótelesar,“ segir Margrét Lóa Jónsdóttir sem hefur sent frá sér skáldsöguna Laufskálafuglinn. Þetta er fyrsta skáldsaga Margrétar Lóu en hún er eitt af okkar þekktustu ljóðskáldum af yngri kynslóð. „Ína Karen tekur sig samt ekki mjög hátíð- lega í þessum skrifum og hún er ekkert að hugsa of mikið um að hún sé skáld, því það eru aðrir hlutir í lífi hennar sem eru mikilvægari. Hún skrifar hjá sér ýmsar hugleiðingar í dagbókina en sannleikurinn er nú samt sá að þó um dagbók sé að ræða þá er ýmsu haldið eftir fyrir sjálfan sig. Eins og þegar maður kreppir hnefa í laumi, til að harka af sér barnslega hreykinn yfir því að enginn skuli vita hvernig manni líður,“ segir Margrét og vitnar um leið í ljóð eftir sjálfa sig: - ,, Eða þegar maður er að fara kyssa einhvern og er að hugsa eitthvað sem aldrei gæti glitt í milli lína.“ Þá gerir höfundurinn ráð fyrir að að lesið sé á milli línanna. Það er galdur ljóðsins. Svo skrif- ar Ína Karen bréf til vina sinna og þar kemur ýmislegt fleira í ljós sem leitar á huga hennar.“ Sagan sem Margrét Lóa segir af Ínu Karen er af ungri skáldkonu sem er í sambúð og á lítið barn. Hún yfirgefur sambýlismanninn og barn- ið og heldur til Spánar þar sem hún kynnist ýmsu fólki og verður ástfangin að nýju; ým- islegt gerist áður en sagan er öll en þó er þetta kannski fyrst og fremst ferðalag hugans, leit að tilgangi, fullnægju og að lokum staðfestingu þess að lífið sé þess virði að lifa því. „Mér finnst stundum eins og ljóðið og ljóð- skáldin séu í eins konar spennitreyju. Um- hverfið er litað af „skáldsöguæði“sem telur engan rithöfund standast mál nema hann skrifi skáldsögu. Að ljóð og smásögur séu bara upp- hitun áður en stokkið er út í djúpulaugina og tekist á við skáldsöguna. Ég hélt fyrst að þessi saga væri efni í langan og mikinn ljóðabálk. Ég hugsaði með mér að ég hefði ekki fengið svona mikinn innblástur í tíu ár. Þá finnst mér ég aft- ur vera skáld og það er mjög gaman. Ljóðskáld upplifir sig nefnilega ekki sem skáld ef langt líður á milli ljóða. Ef maður hefur ekkert ort í marga mánuði þá finnst manni maður ekki lengur vera skáld. “ - Og ljóðabálkurinn er nú orðinn að skáld- sögu.. „Það skemmtilegasta sem ég geri er að skrifa. Ég er reyndar svo þaulsætin að það þarf að minna mig á að standa upp og hreyfa mig. Það sem mér finnst erfitt við prósaskrif eins og í skáldsögu er að vægi hvers orðs verður ekki eins mikið. Ljóðið er mjög knappt en í skáld- sögu þarf að gefa alls kyns upplýsingar til að fá lesandann með sér í það ferðalag sem skáld- sagan á að vera fyrir hann. Mér finnst oft þeg- ar ég les bókmenntir að höfundar segI allt of mikið. Ég les oft mjög vondar bókmenntir, til dæmis ástarsögur, en ég les líka góðar bók- menntir og svo eru myndasögur í miklu uppá- haldi, sérstaklega Tinnabækurnar,“ segir Mar- grét Lóa og sýnir mér um leið Tinna-úr sem hún er með á sér. „Leikrit hef ég líka mjög gaman af að lesa og Pinter er uppáhalds- leikskáldið mitt. Ég hef semsagt alltaf lesið jöfnum höndum mjög ólík form bókmennta. Vondar bókmenntir eru vondar fyrir það hvað þær gera móðgandi litlar kröfur til manns sem lesanda. Þegar ég skrifa sögu þá geri ég þá kröfu að lesandinn sé á svipuðu róli og ég sjálf; mér þykja það eiginlega ekkert miklar kröfur. Ekki ætla ég að skrifa niður fyrir mig, til ein- hvers sem ég held að standi mér að baki sem lesandi. Það er hroki.“ - Nafn aðalpersónunnar minnir óneitanlega á nafn þekktrar kvenpersónu úr heims- bókmenntunum. Er það tilviljun? „Nei, þetta er sama minnið og er í sögu Tolstojs um Önnu Karenínu en það er ekkert nauðsynlegt að tengja þetta saman. Ég vinn auðvitað með þetta minni útfrá nútímalegum forsendum en Anna Karenína er eitt af mínum uppáhaldsverkum. Nútímaforsendur fyrir þessari frásögn eru allt í kringum mann. Annað hvert hjónaband endar með skilnaði og nær all- ar fjölskyldur eru blandaðar börnum foreldr- anna af fyrri hjónaböndum og núverandi. Mig langaði að vinna með siðferðilegt gildismat og spurningar eins og hvað er rétt og hvað er rangt í því samhengi. Í klassískri harmsögu breytir einhver rangt og hlýtur makleg mála- gjöld.“ - Það er ákveðið tabú að kona yfirgefi barn sitt. Það er mjög viðkvæmt efni. „Mjög viðkvæmt. Og hún er allan tímann að hugsa um þetta. Það má samt ekki skilja þetta svo að ég sé að fjalla um konuna sem einhverja fordæðu. En í sögunni eru persónur sem hún kynnist sem kunna að lífa lífinu. Fylgja hjart- anu í sér. Eins og Högni frændi hennar í Barce- lóna sem er dragdrottning en mjög einlægur og hreinn og beinn. Mig langaði alls ekki að skrifa þroskasögu en mig langaði að skrifa sögu um leit. Ef við berum þessa sögu saman við Önnu Karenínu þá refsar Karenín Önnu með því að leyfa henni ekki að hitta Sergei. Þetta gerir hana á endanum sturlaða. Þetta snýst um að fórna einhverju sem er ekki í mannlegu valdi að fórna. Það getur enginn fórnað barninu sínu og búist við að uppskera hamingju annars staðar. Hvað getur mögulega komið í staðinn fyrir móðurástina ? Við höfum jú hugmyndir um al- gleymi í trúnni og skáldskapnum og jafnvel líka í rómantískri ást. Hugmyndir og væntingar fólks um þess kon- ar algleymi virðast geta fengið það til að velta fyrir sér slíkri fórn. Það hentar mér ekki mjög vel að taka þá afstöðu að allir hlutir séu af- stæðir og við réttar kringumstæður sé hægt að færa slíkar fórnir. Ég get t.d. ekki sagt að kímnigáfa sé afstæð. Í mínum huga eru ákveðnir hlutir aldrei fyndnir. Ég er líka á þeirri skoðun að sumt sé alltaf rangt. Það er ekki hægt að réttlæta alla hluti.“ - Er þetta þá ekki tilgangslaus leit Ínu Kar- enar? „Í raun og veru hugsar hún þetta aldrei til enda. Þegar hún fer þá er hún ekki að fara fyrir fullt og allt heldur segist hún vera að fara í frí. Um leið er hún með á heilanum að blekkja ekki sjálfa sig. Hún verður hrifin af öðrum manni og hún vill ekki neita sér um það.“ - Hún segir á einum stað: „Og þú gælir við þá hugsun að einn daginn munir þú hlaupast á brott með einhverjum. Verða vitstola af ást“. „Já, hún segir líka að hún vilji alltaf vera ást- fangin. Hún þolir ekki að verða hversdagsleik- anum að bráð. Hún hrífst vissulega af öðrum manni - og upplifir ástandið, eða lýsir því rétt- ara sagt sem þráhyggju. En þegar hún fer, þá stendur hún jafnvel í þeirri meiningu að þetta geti orðið til þess að bjarga sambúðinni. Við- brögð mannsins hennar minna hinsvegar svo- lítið á viðbrögð Kareníns. Og þetta gerist oft í kringum okkur. Ég er í rauninni alveg eins að fjalla um hann. Hún gerir ekkert rangt en samt er það á sinn hátt rangt ! Þetta er jú alltaf spurning um val á ákveðnum tímapunktum. Hún fylgir hjartanu en krafa eiginmanns henn- ar er líkast til sú að skynsemin eigi frekar að ráða för. “ - Ertu að tala um að Ína Karen geri sér ekki grein fyrir afleiðingum gjörða sinna? „Já, í rauninni. Og hún gerir sér ekki grein fyrir hvaða áhrif þær hafa á hana sjálfa. Samt er þetta ekki nein predikun um að konur eigi alls ekki að yfirgefa börnin sín, En þarna velti ég auðvitað upp ákveðnum spurningum. Þetta er saga um konu sem fer af stað í leit að lífsfyll- ingu og sú leit leiðir hana úr einum stað í ann- an. Hún öðlast splunkunýja reynslu og kannski líka ákveðna lífsfyllingu á leiðinni.“ -Og gerir hún sér grein fyrir því? „Það verður lesandinn bara að gera upp sig sjálfur.“ - Og kannski komast lesendur að mismun- andi niðurstöðu? „Já það getur vel verið.“ Laufskálafugl. Hvernig fugl er það? „Það er glysgjarn fugl þar sem karlfuglinn leggur sig fram við að byggja laufskála, Hann skreytir hann að innan, leitar til dæmis uppi smásteina,sprek og blóm og síðan koma kven- fuglarnir og velja sér maka eftir því hvernig þeim líst á skálann. Svo fara þau og gera sér hreiður annars staðar.“ Skáldsaga um leitandi konu Morgunblaðið/Golli „Við höfum hugmyndir um algleymi í trúnni og skáldskapnum og jafnvel líka í rómantískri ást.“ eftir Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is Skáldið í skriftinni er bók Torfa Tuliniusar um kaþólsk viðhorf í Egilssögu. Breski barnabókahöfundurinn Georgia Byng segir frá bókum sínum um galdrastelpuna Molly Moon. Dómar um Íslenska hestinn, Fólkið í kjallaranum og fleiri nýútkomnar bækur. Bækur

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.