Lesbók Morgunblaðsins - 20.11.2004, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 20.11.2004, Blaðsíða 12
12 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 20. nóvember 2004 MIKILFENGLEG og óvenjuleg er þessi hesta- bók. Það má með sanni segja að mikið vatn hef- ur til sjávar runnið frá því að Ásgeir frá Gottorp og Theodór Arnbjörnsson rituðu sínar frægu bækur, sem eitt sinn voru gersemar hestamanna. Kannski segir mismunurinn betur en margt annað hversu þjóðin hefur efnast vel á liðnum árum. Bók sem kostar hátt í tuttugu þúsundir þykir nú varla tiltökumál. Svona hugs- um við nú af gömlu kynslóðinni! Bók þessi skiptist í sextán kafla. Tólf þeirra eru ritaðir af Hjalta Jóni, en fjórir af meðhöf- undunum. Fyrstu kaflarnir eru sögulegs eðlis. Fyrst er greint frá forfeðrum og forsögu ís- lenska hestsins, síðan víkur sögunni til Íslands. Landneminn heitir sá kafli og segir frá hestum á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Þá kemur að því hvernig hesturinn hefur mótast í aldanna rás og lagað sig að aðstæðum í köldu og harðbýlu landi. Þar næst er fjallað um hegðun hestsins og eðli og síðan um fjölbreytni lita hjá hest- inum. Af spjöldum sögunnar er kafli um þátt hestsins í lífi þjóðarinnar á liðnum öldum, notk- un hans, aðbúð við hann o.fl. Á tímamótum heit- ir svo stuttur kafli um hlutverk hestsins frá því á nítjándu öld og fram að tímum vélvæðingar á síðustu öld. Þessir sex fyrstu kaflar eru allir sögulegs eðl- is. Þar er sagan rakin frá fyrstu drögum til nú- tímans. Þessu kann ég afar vel. Með því móti er lesandinn vel undir það búinn að koma að nú- tímanum með öllum sínum fjölbreytileika. Sjö- undi kaflinn er raunar á mótum hins gamla og nýja, þar sem skrifað er um reiðtygi. Þann kafla á Sigríður Sigurðardóttir byggðasafnsvörður. En nú tekur við lýsing á hinum sérstöku eig- inleikum íslenska hestsins, sem gera hann að þeim dýrgrip sem hann er. Þar er fjallað um gangtegundirnar fimm, geðslag, vilja, þol og fimi og ennfremur er sagt frá snjöllustu reið- og tamningamönnum fyrri tíma. Lífsstíll og menn- ing er kafli um hestamennsku nútímans, t.a.m. tómstundaiðju þéttbýlisbúa og fyrstu samtök hestamanna. Með sanni má tala um ,,lífsstíl“, því að hestamennska breytir lífi hestamannsins og gefur því nýtt inntak og viðmið. Og áfram heldur frásögnin. Næst er að ræða um tamn- ingu, þjálfun, reiðkennslu og segja frá helstu tamningastöðvum. En á seinni árum hafa komið upp glæsilegar tamingastöðvar. Þá kemur að löngum og vönduðum kafla Kára Arnórssonar um ræktunarstarf. Þar er að æði mörgu að huga: ræktunarmarkmiðum, ræktunarmönnum, ráðunautum, ræktunarbúum, kynbótahrossum, ættum hrossa og ótalmörgu fleiru. Að þeim kafla loknum eru tveir kaflar Þorgeirs Guð- laugssonar, sá fyrri um keppni og sýningar. Þar fáum við margt að vita um keppnishross og knapa, dómstiga, verðlaun, landsmót og hér- aðsmót, svo að eitthvað sé nefnt. Seinni kaflinn er um hesta á erlendri grund allt frá fyrstu tíð. Kaflar Þorgeirs eru afar vandaðir og ítarlegir og kannski er meiri nýjung í þeim, einkum þeim seinni, en mörgu öðru í þessari góðu bók. Áhugaverður kafli er um hestinn í myndlist og bókmenntum. Sérstaklega er myndlistinni og myndlistarmönnum gerð góð skil. Bókmennta- umfjöllunin er ágripskenndari en ég hefði kosið. Um göngur og stóðréttir er stuttur kafli. Lest- ina rekur svo kaflinn Fjallafrelsi. Þar er að- allega sagt frá ferðum um óbyggðir Íslands og fáeinum leiðum lýst. Víst er þetta glæsileg bók. Myndirnar eru frábærar og mikið augnayndi. Þær njóta sín líka einstaklega vel í þessu stóra broti. Sumar þeirra taka yfir heila opnu og eru því eiginlega „plaköt“. Alls eru myndirnar rúmlega 700 tals- ins og ljósmyndarar fjölmargir eins og sést á myndaskrá og eftirmála höfundanna. Vitaskuld þekkir maður margar þessara mynda úr bókum og tímaritum, en þarna eru líka myndir, sem ekki hafa áður birst og fengur er að. Í eftirmála sínum greina höfundarnir frá því hvernig þetta stórvirki er tilkomið og hvernig þeir skiptu með sér verkum. Hjalti Jón ritaði allan texta að undanteknum þeim fjórum köfl- um, sem áður getur. Gísli B. hafði með höndum öflun mynda, ritstjórn myndefnis og hönnun bókarinnar. Við fljóta sýn gæti maður haldið að bókin væri fyrst og fremst myndabók, en textinn aukaatriði. Einhver hefur látið það í ljós við mig. En svo er alls ekki. Textinn er í raun mik- ill. Hann leynir á sér í þessu stóra broti. Sam- spil mynda og texta er líka fágætlega gott. Þetta mikla verk hefur hlotið mikið lof og er það maklegt. Bókin er hreint einstök og sann- kölluð gersemi. Sérstaklega er ég hrifinn af hinni sögulegu nálgun, sem mér sýnist gegna þungamiðjuhlutverki. Sagan birtist okkur bæði í vel skrifuðum texta og í hinu mikla mynda- safni. Ofmælt er þó að fjallað sé um nær allt sem viðkemur hestum, eins og segir í minn- isblaði frá útgefendum, enda væri þar til of mik- ils mælst. Fátt er sagt um sjúkdóma og hirð- ingu hesta, svo að eitthvað sé nefnt. Stundum er líka stiklað á stóru eins og í síðasta kaflanum, þar sem segir frá hestaferðum. Og vitaskuld geta menn alltaf verið ósammála um áherslur. Það væri líka skrítið ef hestamönnum tækist það ekki! Allur frágangur bókarinnar virðist mér vera með ágætum. Prófarkir eru vel lesnar og prent- un góð. Í bókarlok eru miklar skrár eins og vera ber: Tilvísanaskrá (eftir köflum), Heim- ildaskrá, Myndaskrá (höfundar mynda) og Nafnaskrá (þrískipt: hestanöfn, mannanöfn og bæjanöfn). Einhverjar aðfinnslur verð ég líklega að reyna að tína til (Þar stóð Jónas Kristjánsson í Eiðfaxa sig betur, enda er hann fagmaður). Helst finn ég það að hversu bókin er stór og þung. Þrjú kíló, segir J.K. og kallar hana „sófa- borðsbók“. Það er sannmæli, því ekki verður hún lesin án erfiðismuna nema við borð. Ég dreg raunar í efa að hestamenn séu mikið gefnir fyrir að setjast inn í stofu við sófaborð og fletta í bókum! En ég læt mér detta í hug að útgef- andinn hafi ætlað þessari bók stað við hlið ann- arra bóka í sama stíl og broti, sem hann hefur gefið út á undanförnum árum. Á ég svo að koma með svolítinn sparðatíning í lokin? Á bls. 361 segir að Skrapatungurétt sé við Þverfellsveg í Skagabyggð. Réttin er á mótum Laxárdals fremri og Norðurárdals. Vindhælishreppur hét þar til skamms tíma. Þverfellsvegur er enginn þarna, en Þverárfjallsvegur tekur við af Norð- urárdal. Hann er nokkuð langt frá réttinni. Þá kannast ég ekki við nöfnin „fjallmenn“ og „fjall- kónga“ (bls. 359) um Norðlendinga. Þá hef ég alltaf heyrt nefnda „gangnamenn“ og „gangna- foringja“. Hitt er sunnlenska. Hestar í öndvegi BÆKUR Hestar Gísli B. Björnsson, Hjalti Jón Sveinsson. Meðhöfundar: Kári Arnórsson, Sigríður Sigurðardóttir, Þorgeir Guðlaugsson 415 bls. Útg. Mál og menning, Sögusetur íslenska hestsins, Reykjavík 2004 Íslenski hesturinn Sigurjón Björnsson Halldór Laxness – ævisaga er eft- ir Halldór Guð- mundsson. Halldór Lax- ness var síðasta þjóðskáld Evr- ópu. Hann var ekki þjóðskáld af því að öll ís- lenska þjóðin elskaði hann eða fynd- ist jafn mikið til um allt sem hann sendi frá sér. Því fór fjarri. Hann var þjóðskáld af því næstum öll þjóðin lét sig varða hvað hann skrif- aði. Verkum hans var oft fagnað og margir reiddust þeim – en engum var sama. Hann speglaði í lífi sínu og bókum þá öld sem hann lifði og lifði sig inn í, öld öfganna. Þannig var hann sjálfur: Oft einstaklega al- úðlegur og háttvís í framkomu en um leið ótrúlega djarfur og hvass- yrtur penni. Þeir voru ólíkir í hon- um, skáldið og maðurinn, því hann var maður andstæðna, Íslendingur og heimsborgari, fagurkeri og bar- áttumaður. Metnaður hans var mik- ill og stundum tillitslaus. En skáld- verk sín samdi hann af innri þörf og ekki til að þóknast neinum. Halldór Guðmundsson hefur tal- að við fjölda manns, leitað í bókum, skjala- og bréfasöfnum, hér á landi og erlendis, að heimildum og vitn- isburði um viðburðaríkt og þver- stæðukennt líf Halldórs Laxness. Myndin sem hann dregur upp af viðfangsefni sínu er fræðandi og skemmtileg en umfram allt ögrandi og óvænt. Útgefandi er JPV útgáfa. Bókin er 840 bls. Nýjar bækur ÖLL höfum við séð ófáar kvikmyndirnar sem fjalla um helför gyðinga í síðari heimsstyrjöld- inni og þykjumst flest þekkja þá sögu út og inn. Sumir hafa jafnvel beitt kaldhæðninni til að firra sig þeim tilfinningum sem sagan sú vekur og sagt að það hafi nú aldeilis verið lán fyrir kvik- myndaiðnaðinn að Hitler hafi hatað gyðinga, um hvað hefðu menn annars gert myndir? En það er nú samt sama hversu oft við þurfum að horfast í augu við þennan hluta mannkynssögunnar og hversu „kúl“ við þykjumst vera, þessi saga snertir okkur djúpt og verður aldrei of oft sögð. Wladyslaw Szpilman, píanóleikari og tónskáld, skráði upplifanir sínar sem gyðingur í Varsjá á stríðsárunum strax 1945 og bókin var gefin út í Póllandi ári síðar undir nafninu Dauði borgar. Sú útgáfa var auðvitað hressilega ritskoðuð, t.d. varð að gera „góða nasistann, sem hjálpaði Szpilman að komast af, að Austurríkismanni því það var ósvinna að halda því fram að Þjóðverji í her Hitlers hefði sýnt mannúð. Rúmum fimmtíu árum síðar kom bókin svo út í Þýskalandi órit- skoðuð og með viðauka sem inniheldur dagbók- arbrot Wilms Hosenfelds, „góða nasistans“ fyrr- nefnda. Síðan þá hefur bókin farið svokallaða „sigurför um heiminn“ og sjálfur Roman Pol- anski gerði eftir henni kvikmynd sem hlaut mik- ið lof. Adrien Brody hlaut meira að segja Ósk- arinn fyrir túlkun sína á Szpilman í þeirri mynd. En segir þessi frásögn okkur eitthvað nýtt um þann hrylling sem gyðingar upplifðu í stríðinu? Kannski ekki. Og þó. Og bæði og. Þegar Szpil- man skrifar bókina er hann enn í losti eftir að hafa horft á eftir for- eldrum sínum og þremur systkinum um borð í lestina til Treblinka þar sem hann veit að þau fara beint í gasklefann. Sjálfum er honum óvænt kippt út úr röðinni á leiðinni í lest- ina. Honum tekst að flýja með hjálp eins lögreglumannsins sem á að passa að fólk fari um borð og lifir síðan í rúm tvö ár í felum. Stundum líða margir mánuðir án þess að hann eigi orðastað við nokkurn mann. Hann fær dagana til að líða með því að fara yfir tónverk í huganum nótu fyrir nótu, hugsa upp sjálfsmorðs- aðferðir og naga myglaðar brauð- skorpur. Sífellt með þá ógn yf- irhangandi að nasistarnir finni hann og drepi. Dauðinn er þó ekki það sem hann óttast mest. Það er óttinn við að hendur hans bæklist sem veldur honum mestum kvölum. Því til hvers á pí- anóleikari að lifa ef hann getur ekki spilað? Hvers virði er líf án listar og fegurðar? Þetta sjónarhorn ásamt einföldum og meitluðum stíl frásagnarinnar gerir hana einstaka. Szpilman lýsir því sem hann upplifir á hófstilltan hátt og gerir hvorki tilraun til að gera sjálfan sig að hetju né aðra að óargadýrum; svona var þetta bara. Sumir eru ómerkilegir eiginhags- munaseggir, aðrir hjálpsamir Samverjar og stríð og hörmungar breyta því ekki. Fólk er engar hetjur, eins og faðir hans bendir honum á, það reynir bara að lifa af eftir bestu getu. Sumum tekst það. Flestum tekst það ekki. Eins og þýska ljóðskáldið Wolf Bierman bendir á í prýðilegum eftirmála voru það einungis tvö hundruð og fjörutíu þúsund pólskir gyðingar af þremur og hálfri milljón, sem lifðu stríðið af. Og því hverjir björguðust virðast hendingin og heppnin einar hafa ráðið. Stríð fara ekki í manngreinarálit. Viðaukinn með dagbókarbrotum Hosenfelds gerir bókina líka ein- staka. Slær mann jafnvel svolítið út af laginu. Hvaða erindi á ör- vænting þýsks höfuðsmanns í her Hitlers inn í frásögn af baráttu gyðinga við að komast hjá útrým- ingu? Er það eitthvað merkilegt að hryllingurinn hafi jafnvel gengið fram af Þjóðverjum sjálfum? Nei, varla. En það er átakanlegt að lesa um sálarangist þýska hermannsins sem neitar að trúa að ofsóknirnar gegn gyðingum séu í samræmi við vilja foringjans og óttast að hefnd Guðs muni koma yfir afkomendur sína í margar kynslóðir. Og sú kaldhæðnislega staðreynd að bandamenn skyldu senda einmitt þennan nasista í fangabúðir að stríðinu loknu og pynta hann til dauða undirstrikar rækilega tilgangs- og inni- haldsleysi styrjalda. Þýðing Þrándar Thoroddsen er heilsteypt og rennur vel, málið einfalt og kjarnmikið, ekki vottur af þýðingarlykt. En er ástæða til að lesa bók sem gerð hafa verið góð skil í kvikmynd? Er ekki betra að horfa bara á myndina? Engan veginn. Gamli frasinn um að bókin sé betri sannar hér enn gildi sitt. Kvikmyndin, þótt góð sé, er túlkun Polanskis á bókinni, ekki upplifun Szpilmans. Pí- anóleikarinn er enn ein sönnun þess að ekkert jafnast á við vel skrifaðan texta til að koma við kvikuna í okkur, fá okkur til að setja okkur í spor annarra og sjá hlutina í nýju ljósi. „Svo þér eruð þá enn á lífi … BÆKUR Sönn frásögn Wladyslaw Szpilman, þýð.: Þrándur Thoroddsen. 220 bls. JPV-útgáfa 2004. Píanóleikarinn Friðrikka Benónýs Wladyslaw Szpilman Niðurfall – og þættir af hinum dularfulla Manga er eftir Hauk Ingvars- son. „Eftir að ég las bókina Breið- holtsstrákur fer í sveit jólin 1989 varð mér ljóst að ég myndi aldrei ná fullum þroska innan marka borg- arinnar. Þegar leið á veturinn færði ég í tal við foreldra mína að ég vildi fara í sveit, helst á óðal móðurættar minnar í Norðdahl. Erindið var auð- sótt og leyst úr því greiðlega. Um páskana hringdi móðir mín norður, skiptist á hnitmiðuðum setningum um sauðburð við manneskjuna á hin- um enda línunnar og að samtalinu loknu tilkynnti hún mér brottfar- ardaginn. Ég átti erfitt með einbeitingu síð- ustu vikurnar í skólanum því ég gat ekki beðið eftir að komast á vit menningarinnar; á söguslóðir Ís- lendingasagna þar sem ég gæti stælt líkama minn og hert taugarnar í baráttu við óblíða íslenska veðráttu en jafnframt brugðið á leik við frjálsborin ungmenni á bænum og bæjunum í kring ...“ Niðurfall – og þættir af hinum dularfulla Manga er fyrsta bók Hauks Ingvarssonar. Hér takast snörp ljóð á við lengri texta um æv- intýri ljóðmælanda og vinar hans í sveit og borg. Útgefandi er Mál og menning. Bókin er 88 bls. Verð: 2.690 kr. Hvar frómur flækist. Ferða- sögur er eftir Einar Kárason. Það er sama hvar frómur flækist; sá sem er vakandi fyrir um- hverfi sínu tekur alltaf eftir ein- hverju sem er þess virði að segja frá. Þessi bók geymir fjóra ferðaþætti Einars: Á vegum úti er um fiskvinnu sumarið 1976 í Færeyjum og putta- ferðalag með Einari Má um Evrópu; Leitin að Livingstone um tóbaks- reisu Einars með föður sínum um Suðurland í verkfalli; Vitringar í Austurlöndum lýsir sögulegri mann- réttindaferð til Jemen, og Sorgar- sinfónía fjallar um áhrifamikla ferð til Auschwitz. Útgefandi er Mál og menning. Bókin er 135 bls. Verð: 4.290 kr.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.