Lesbók Morgunblaðsins - 20.11.2004, Blaðsíða 18

Lesbók Morgunblaðsins - 20.11.2004, Blaðsíða 18
18 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 20. nóvember 2004 AUÐUR Jónsdóttir heyrir til kynslóðar ungra kvenna sem er að verða sífellt meira áberandi í íslensku bókmenntalífi. Hún kom fram á sjón- arsviðið með dálitlum hvelli er hún fékk tilnefn- ingu til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir frumraun sína árið 2000. Síðan þá hefur hún sent frá sér aðra skáldsögu, tvær barnabækur og loks skáldsöguna sem hér er fjallað um; Fólkið í kjall- aranum – sem ber þess enda augljós merki að hér er þjálfaður og óvenjulega þroskaður höfundur að verki. Þessi nýja skáldsaga Auðar hefst í verslun þar sem aðalsögupersónan Klara er að kaupa inn fyr- ir veislu með Svenna sambýlismanni sínum. Eftir því sem verkinu vindur fram er undirbúningur veislunnar rakinn og loks veislan sjálf. Þessi þröngi tímarammi minnir óneitanlega töluvert á eitt áhugaverðasta verk Virginiu Woolf, Frú Dalloway, sem hefst þar sem Clarissa Dalloway er að kaupa blóm fyrir veislu sem hún ætlar að halda um kvöldið, og lýsir síðan undirbúningi veislunnar, veislunni sjálfri og lokum hennar. Klara – rétt eins og Clarissa – rekur nánast all- an sinn bakgrunn meðfram þessum veisluhöldum fram að þeim tímapunkti er kristallar aðstæður hennar og andlegt ástand í sögulok. Þrátt fyrir að vera auðvitað töluvert nútímalegri í hugsun en hin áttatíu árum eldri Clarissa, á Klara engu að síður ýmislegt sameiginlegt með henni, svo sem að vera afar háð sambýlismanni sínum en hafa fjarlægst hann með því að draga sig inn í sinn eigin heim. Báðar yfirgefa hið eiginlega sögusvið veislunnar og hverfa inn í heim sem tilheyrir þeim sjálfum frekar en mökum þeirra, en snúa til baka þegar þær hafa áttað sig á ytra samhengi hlutanna og tengslum þess samhengis við þeirra eigin innri veruleika. Auk þess eiga þær Klara og Clarissa báðar einskonar „skugga“, sem þjóna því hlutverki að sýna hvernig líf þeirra sjálfra hefði getað farið. „Skuggarnir“ afhjúpa bók- staflega hætturnar sem fólgnar eru í dekkri hlið- um þeirra eigin lífs – í „kjöllurum“ vitundarinnar – og með þeim hætti ljá þau Fjóla, æskuvinkona Klöru, og Septimus, andlegur tvífari Clarissu, andlegum veruleika og að lokum innra uppgjöri, þessara sterku aðalpersóna beggja verka nauð- synlega dýpt, sem erfitt hefði verið að skila með öðrum hætti. Fjóla gegnir einnig óvæntu lyk- ilhlutverki í lokakafla Fólksins í kjallaranum, líkt og Septimus í lokakafla Frú Dalloway. Hvort sem vísun Auðar í verk Virginiu Woolf er meðvituð eður ei, þjónar hún mikilvægu hlut- verki í verkinu og við túlkun þess. Ekki síst vegna þess að eins og hún birtist lesandanum er hún hvorki altæk né fyrirsjáanleg, heldur fyrst og fremst vel til þess fallin að gefa rannsókn höf- undar á félagslegu og sálfræðilegu hlutskipti kvenpersónunnar sem sagan hverfist um, aukið vægi sem þætti í stærri rannsókn og víðari umræðu en rýmist í einu skáldverki. Því þær Klara og Clarissa standa frammi fyrir tilvist- arvanda sem að einhverju marki má rekja til kynferðis þeirra og ólíkra hlut- verka kynjanna í samfélaginu, sem auð- vitað er hluti af menningarsögu allrar síðustu aldar. Aðrar aðstæður þeirra eru gjörólíkar, enda ríma bæði verkin með trúverðugum hætti við þann stað og tíma sem þau eru skrifuð inn í. Klara er frumburður afar frjáls- lyndra foreldra af ’68 kynslóðinni, sem í uppreisn sinni gegn ríkjandi gildum töldu sig hafa fundið svör er mótað gætu nýja og betri framtíð. Foreldrar hennar upplifa þann tíma er Ísland siglir hraðbyri út úr staðnaðri fortíð sveitasamfélagsins inn í neyslu- samfélag vestræns heims þar sem auðvelt er að heimfæra hugmyndafræði umheimsins upp á ís- lenskan veruleika. En þrátt fyrir einlægt um- burðarlyndi og löngun til að lifa í samræmi við háleitar hugsjónir sínar og bæta þar með heim- inn allan, tekst foreldrunum ekki að hefja sig upp yfir hversdagslegan vanda sinnar eigin smáu ver- aldar. Þar ræður eilíf togstreita ríkjum, ásamt svívirðingum, drykkjuskap og veraldlegum blankheitum – í bland við heitar ástríður, sam- viskubit og einhvers konar andlegt ríkidæmi. Klara á því erfitt með að gera fjölskyldusögu sína og uppeldi upp við sig; minningarnar eru misvís- andi, ljúfsárar og kalla á þversagnarkennd við- brögð. Í fjörlegri frásögn sinni tekst Auði að draga einkenni þessa tvískinnungs upp á yf- irborðið í texta sem er allt í senn; tragískur og fyndinn, umburðarlyndur og dómharður, hlýr og kaldranalegur. Um leið er hann raunsönn lýsing á öfgakenndum áherslum þess tímabils sem ól samtíma okkar af sér. Vandi Klöru gagnvart fortíðinni og uppeldi sínu felst í því að greina á milli þeirra alltumlykj- andi hugsjóna og lífsgilda sem mannskepnunni er fært að tileinka sér og innræta öðrum – ef hún hefur til þess vilja á annað borð – og þeirra sér- tæku mannlegu veikleika sem grafa undan lífi einstaklinga sem ekki geta horfst af heilindum í augu við sjálfa sig. Hún skynjar að það er hægt að þekkja heiminn og svörin við vanda hans, án þess að þekkja sjálfan sig, líkt og í tilfelli foreldra hennar. Lausn hennar í lokin er því rökrétt og yf- irveguð, hún gerir það sem foreldrar hennar gerðu aldrei; tekur fulla ábyrgð á því persónu- lega og sértæka, sem er tákngert í næstu kyn- slóð, systursyninum Nonna sem stendur frammi fyrir sama tilvistarvanda og hún sjálf sem barn. Titill sögunnar, Fólkið í kjallaranum, er auð- vitað táknrænn fyrir þennan efnivið, þar sem húsið stendur bæði fyrir hina stærri þjóðfélags- mynd og lagskiptingu hennar, sem og innri ver- öld einstaklinga sem allir eiga sínar hátimbruðu hugsjónir er tróna ofan á misjafnlega við- unandi veruleika, þótt ýmislegt óþægilegt leynist í myrkum kjallaranum. Á sínu veikasta augnabliki hættir Klara sér þó ofan í kjallarann – bæði bók- staflega og í yfirfærðum skiln- ingi – til að horfast í augu við sannleikann. Þegar hún kemur aftur upp veit hún hvað hún þarf að gera. Aðall þessarar sögu Auðar Jónsdóttur er það samhengi sem henni tekst að skapa uppgjöri aðalsögupersónu sinnar. Ekki einungis í bókmenntafræðilegum skilningi eins og greint var frá að ofan, heldur líka í heimssögulegum skilningi samtímans. Þannig eru innan ramma sögunnar augljós og mjög skiljanleg tengsl á milli „ástandsins í Mið- Austurlöndum“ (eins og einn kaflinn heitir) og innri heims hinnar djúpt þenkjandi Klöru. Hún finnur til ábyrgðar sinnar gagnvart umheim- inum, en er mun raunsærri en foreldrar hennar í því að þekkja takmörk sín. „Henni er lífsins ómögulegt að trúa á eigin götts“, (bls. 263) eins og Svenni segir um Klöru, en sú staðreynd kann að vera hennar helsti styrkur. Því í næsta kafla „Allt er“ hefur hún eins og áður sagði þrátt fyrir allt hugrekki til að fara niður í kjallarann í leit að svörum, í leit að einhverju því sem getur gefið lífi hennar verðugan tilgang og stöðvað flóttann sem hún er á. Uppgötvun hennar: einfaldlega að „allt er“, afhjúpar það besta úr uppeldi foreldranna, viðurkenningu á því mikilvæga sem þau hafa inn- rætt henni. En til viðbótar uppgötvar hún nauð- syn þess að fara aðra leið en þau til að lifa með þessu „öllu sem er“. Hún velur því án þess að for- dæma og dregur að lokum – öfugt við foreldrana – meðvituð mörk á milli sinnar tilveru og tilveru þess fólks sem í yfirfærðri merkingu „hírist í kjöllurum“ lífsins. Þau mörk sem hún dregur eiga vitaskuld samsvörun í hennar eigin sálarlífi, því það er ekki fyrr en hún hefur kynnst dýpstu kimum síns eigin sjálfs sem hún getur „vonandi“ (bls. 290) snúið við þeim bakinu. Fólkið í kjallaranum er skáldverk þar sem höf- undi tekst að láta hið smáa innan ramma sög- unnar, vísa til þess stóra samhengis sem ríkir ut- an við verkið sjálft; hér og nú í þeim tvískinnungi sem við öll upplifum gagnvart þjáningum sam- bræðra í Mið-Austurlöndum á milli þess sem við höfum ofan af fyrir okkur í IKEA og Habitat. Þar sem fólk telur sig geta bjargað öllum heiminum en eyðileggur hugsunarlaust sín eigin börn. Þetta er saga um samtímann í stóru samhengi þar sem tónninn sem höfundur slær hljómar svo kunnuglega að það er næsta óþægilegt – en afar áhrifaríkt. Hátimbraðar hugsjónir fólks í kjöllurum BÆKUR Skáldsaga Eftir Auði Jónsdóttur. Mál og menning, 2004. 290 bls. Fólkið í kjallaranum Fríða Björk Ingvarsdóttir Auður Jónsdóttir Í ÆVINTÝRUM einsog Öskubusku býr söguhetj- an við vondan aðbúnað og ásókn illmenna fram eft- ir sögu en er síðan bjargað af prinsinum og lifir hinu ljúfa lífi konungborinna upp frá því. Í sögu Maliku Oufkir er þessu öfugt farið. Fimm ára göm- ul er hún tekin í fóstur af konungi Marokkó og elst upp í höll hans við allsnægtir og eftirlæti til sextán ára aldurs. Þá yfirgefur hún höllina að eigin frum- kvæði og flyst heim til foreldra sinna. Faðir henn- ar, Múhameð Oufkir, er þó engin kotbóndi heldur innanríkisráðherra Marokkó og forríkur maður sem getur veitt dóttur sinni allt það besta sem efnaleg velmegun býður upp á. Og Malika nýtur frelsis í fyrsta sinn á ævinni. Sú hamingja stendur þó ekki lengi því þegar hún er nítján ára er faðir hennar sakaður um að eiga þátt í valdaránstilraun og tekinn af lífi. Malika, móðir hennar og fimm yngri systkini eru tekin höndum og sett í fangelsi þar sem þau dvelja næstu fimmtán árin. Eftir að þeim tekst með ótrúlegri þrautseigju að flýja eru þau sett í stofufangelsi sem varir í fimm ár í viðbót. Og svo er þeim gefið „frelsi. Að vísu eru símar þeirra hleraðir, njósnað um þau, þau fá hvergi vinnu o.s.frv., en að nafninu til eru þau frjáls. Og eftir að einni systurinni tekst að flýja til Frakk- lands er leiðin til raunverulegs frelsis opin fyrir þau hin. Og prinsinn er á vísum stað einsog vera ber, en þau lifa þó ekki ham- ingjusöm upp frá því, þar sem fangavist- in hefur sett á Maliku óafmáanleg spor og einsog hún segir sjálf þá verður hún „aldrei einsog fólk er flest“. (bls. 273). Það er skáldkona frá Túnis, Michéle Fitoussi, sem skráir sögu Maliku í fyrstu persónu eftir frásögn hennar sjálfrar. Stærsti hluti bókarinnar fjallar um árin í fangelsinu og lýsir vel því andlega og lík- amlega niðurbroti sem fangavistin og niðurlægingin veldur: „Í lokin vorum við orðin einsog villidýr í búri. Við vorum ekki lengur fær um að sýna neinar tilfinningar. Við vorum þreytt og reið, árásargjörn og grimm.“ (bls. 168) Aldrei missa þau þó kjarkinn og reyna eftir fremsta megni að halda í hefðbundnar reglur, mennta sig og viðhalda kímnigáfunni. Og tekst það ótrúlega vel miðað við aðstæður. Forvitnilegastur er þó kaflinn sem lýsir lífinu innan konungshallarinnar þar sem fjörutíu konur búa saman í kvennabúri konungs og siðir og viðmið virðast lítið hafa breyst frá miðöldum. Aftur og aft- ur verður lesandinn að minna sig á að hér er verið að lýsa raunverulegu lífi á seinni hluta nýliðinnar aldar en ekki sögusviði Þúsund og einnar nætur. Og utan hallarveggjanna ekur fólk um á sportbíl- um, klæðist fötum frá Dior og djammar á diskótek- um að vestrænum hætti. Þvílíkar andstæður. Frásagnarhátturinn er einfaldur og blátt áfram, ekkert flúr eða dramatíseringar; kona að segja annarri konu sögu sína yfir tebolla, sögu sem er ógn- vekjandi, spennandi og grátleg í sjálfri sér án þess að grípa þurfi til meðala skáldskaparlistarinnar til að magna áhrifin. Þýðing Guðrúnar Finn- bogadóttur er trú þessum einfalda frásagnarhætti þótt á stöku stað bregði fyrir sérviskulegu málfari sem stingur í stúf: hann „lét fjósn- irnar dingla inni í buxunum“. (bls. 159). Það sem gerir Svipt frelsinu sérstaka bók í því flóði hörm- ungasagna um misrétti gegn kon- um í þriðja heiminum, sem flætt hafa yfir Vest- urlönd á undanförnum árum, er að hér er ekki verið að fjalla um misrétti gegn konum per se. Systrunum og móður þeirra er ekki nauðgað eða þær niðurlægðar kynferðislega og þær hljóta í engu öðruvísi meðferð en bræðurnir. Hér er verið að fjalla um brot gegn manneskjum sem ekkert hafa til saka unnið. Eru einungis peð í valdatafli landsfeðranna, pólitísk fórnarlömb án þess að hafa nokkurn tíma komið nálægt pólitík. Gjalda fyrir syndir feðranna með tuttugu árum af lífi sínu. Og það skelfilegasta er að meðan þau voru bak við lás og slá stóð umheiminum nákvæmlega á sama. Öskubuska afturábak BÆKUR Sönn frásögn Malika Oufkir / Michéle Fitoussi, þýð.: Guðrún Finnbogadóttir, JPV-útgáfa 2004. 281 bls. Svipt frelsinu – fangelsuð í eyðimörkinni í 20 ár Friðrikka Benónýs Baróninn er eftir Þórarin Eldjárn. Árið 1898 kom til Íslands fransk- ur aðalsmaður, barón Charles Gauldrée Boill- eau, stórættaður heimsborgari og hámenntaður listamaður sem vonaðist til að finna sjálfan sig í íslenskri sveit, órafjarri umbrotum heimsmenningarinnar. Fyrr en varði hafði hann keypt sér kostajörðina Hvítárvelli í Borgarfirði og hafið þar búskap, götuheitið Bar- ónsstígur í Reykjavík vitnar um að þar kom hann einnig við. Stórbrotnar hugmyndir hans féllu ekki allar í frjó- an jarðveg og brátt varð ljóst að há- leitir draumar hans og íslenskur veruleiki áttu illa saman – nútíminn var ekki kominn til Íslands. Hver var þessi maður og hvað gekk honum til? Þórarinn Eldjárn hefur sett saman margbrotna heim- ildaskáldsögu um baróninn á Hvít- árvöllum, eins og Íslendingar hafa jafnan kallað þennan dularfulla mann. Útgefandi er Vaka-Helgafell. Bók- in er 310 bls. Verð: 4.690 kr. Nýjar bækur Helgi skoðar heiminn er eftir Njörð P. Njarð- vík. Halldór Pét- ursson mynd- skreytti. Nú hefur sag- an um strákinn Helga, hryssuna Flugu og hund- inn Kát sem fóru að skoða heiminn og lentu í ótrúleg- um ævintýrum verið endurútgefin. Upplifun ungs drengs á undraheimi íslenskrar náttúru er á ógleyman- legan hátt túlkuð í máli og myndum. Þessi saga hefur fullkomlega haldið gildi sínu. Hún er áminning um það að maðurinn og dýrin eiga heiminn saman – og tröllin eiga nóttina! Kannski er það bara þyturinn í vindinum, en honum finnst eins og einn tröllkarlinn segi: Nú er mál fyr- ir lítinn dreng að fara heim. Heim- urinn er stór og þú átt hann ekki all- an, þótt þú haldir það. Við eigum nóttina þegar mennirnir sofa. Sagan um Helga og ævintýraferð hans á erindi við unga íslenska les- endur og gefur þeim eldri um leið kærkomið tækifæri á að rifja upp kynnin við gamla kunningja. Útgefandi er Fjóla – bókaútgáfa. Bókin er 27 blaðsíður. Á vængjum söngsins – Jónas Ingimundarson segir frá er eftir Gylfa Gröndal. Jónas Ingi- mundarson er fæddur á Berg- þórshvoli en ólst upp á Selfossi og í Þorlákshöfn. Bernska hans var á margan hátt erfið; móðir hans átti við veikindi að stríða og foreldrar hans skildu þegar hann var ellefu ára. Það vildi honum til happs að eiga stóra fjölskyldu sem studdi hann með ráðum og dáð og gerði sér grein fyrir þeim miklu hæfi- leikum á sviði tónlistar sem hann var gæddur. Þetta er sagan af lopapeysu- stráknum frá Þorlákshöfn sem eftir langt nám og harða baráttu vann sigur og hlaut viðurkenningu al- þjóðar. En Jónas er ekki aðeins pí- anóleikari af guðs náð, heldur hefur hann einnig verið kórstjóri, kenn- ari, skipuleggjandi tónleika og síð- ast en ekki síst unnið ómetanlegt starf við að kynna tónlistina. Jónas er einlægur hugsjónamað- ur, hefur ósvikna kímnigáfu og ein- stakt lag á ná til fjöldans og láta öðrum líða vel í návist sinni. Margt mun koma á óvart í þess- ari áhrifaríku og skemmtilegu sögu um líf og list eins ástsælasta og merkasta tónlistarmanns þjóð- arinnar. Bókin er rækilega mynd- skreytt og henni fylgja tveir geisla- diskar með leik Jónasar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Útgefandi er JPV útgáfa.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.